Leita í fréttum mbl.is

Króna eða Evra? Sigríður Ingibjörg í FRBL

Sigga-IngibjorgSigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingar, skrifaði góða grein í FRBL þann 22.8; Króna eða Evra? Greinin birtist hér í heild sinni:

Hrunið 2008 var tvenns konar: hrun fjármálakerfisins og hrun krónunnar. Kreppan í kjölfarið var því af tvennum toga: fjármálakreppa og gjaldmiðilskreppa. Algjöru hruni krónunnar var forðað með gjaldeyrishöftum og lánum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Þrátt fyrir bein áhrif krónunnar á lífskjör og skuldavanda heimila og fyrirtækja er í landinu hópur áhrifamikils fólks sem telur krónuna bjargvætt þjóðarinnar og lífsakkeri okkar um ókomin ár. Þeir sem nú lofsama krónuna kjósa að gleyma hlut hennar í ofþenslu áranna fyrir hrun. Flest bendir raunar til þess að krónan ýki sveiflur í efnahagslífinu fremur en að draga úr þeim.


Nýr gjaldmiðill?
Evran hefur frá stofnun verið helsti valkosturinn við krónuna, en til að geta tekið hana upp þarf fyrst að ganga í Evrópusambandið. Fyrir hrun gerðu flestir sér grein fyrir vandamálum krónunnar, en hún var eitt vinsælasta umræðuefni áranna 2007 til 2009. Fyrir efasemdarmenn um ESB skipti því miklu að koma með valkost við evruna. Vinstri græn héldu mjög fram norsku krónunni og einstaka menn í Sjálfstæðisflokknum sáu ljósið í svissneska frankanum. Einhliða upptaka bandaríkjadollars, kanadadollars eða evru hefur átt sér sína fylgismenn. Sjálfstæðisflokkurinn vildi fyrir kosningarnar 2009 æstur taka upp evru á grundvelli EES-samningsins og í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Öll þessi umræða ber vott um litla tiltrú á krónunni og á stundum örvæntingafullar tilraunir til að sleppa undan því að ræða um aðild að ESB sem mögulega lausn vandans.

Ágætt dæmi um umræðuna fyrir hrun er að Framsóknarflokkurinn setti upp sérstaka gjaldmiðilsnefnd sem skilaði áliti í september 2008. Skýrsla nefndarinnar er málefnaleg og órafjarri þeirri þjóðrembu sem heltekið hefur Framsóknarflokkinn upp á síðkastið. Vandi krónunnar er orðaður með skýrum hætti: „Hagsaga Íslands, frá því tengslin við dönsku krónuna voru slitin og tekin var upp sjálfstæð íslensk króna, hefur einkennst af samspili gengisfellinga og verðbólgu“ (bls. 12). Krónan er lítill og óstöðugur gjaldmiðill og ekki bætir slæleg hagstjórn vandann. Nefndin var gagnrýnin á hagstjórn áranna fyrir hrun og undantekur þar ekki hlut Framsóknarflokksins. En hvers vegna tókst svona illa til? „Væntanlega vegur þyngst „íslenska hefðin“, þ.e. að ganga fram af krafti á öllum vígstöðum á hverju sem gengur og treysta á aðlögun í formi gengisbreytinga þegar í óefni er komið“ (bls. 20). Vandinn verður vart orðaður betur en þetta.


Tveir valkostir
Gjaldmiðilsnefnd Framsóknarflokksins komst að þeirri niðurstöðu að tveir valkostir væru fyrir Íslendinga: upptaka evru eða áframhaldandi króna. Þrátt fyrir að margt hafi breyst eru þetta enn valkostirnir. Um þetta eru flestir sammála. Gjaldmiðilsnefndin hefur þó ýmsa fyrirvara við krónuna, enda ljóst að „íslenska hefðin“ er leið óstöðugleika. Ef helsti kosturinn við krónuna er „sveigjanleiki“ (þ.e. gengisfellingar), þá verður verðtrygging sparifjár og lána skiljanleg viðbrögð. Vilji fólk viðhalda krónunni blasir við að vextir verði hér hærri en í nágrannalöndunum og líklega höft af einhverju tagi til frambúðar.

Því er stundum haldið fram að ekki skipti máli hvort við höfum krónu eða evru. Evran krefjist agaðrar hagstjórnar og séu menn færir um hana þá sé eins hægt að hafa hér krónu. „Enn er vert að ítreka að hvorug leiðin er í raun fær öðruvísi en að komið verði á meiri festu í almennri efnahagsstjórn”, sögðu framsóknarmenn 2008 (bls. 28). Þetta er rétt að vissu marki en smæð krónunnar skapar mikinn vanda í opnu hagkerfi. Trúverðugleiki stjórnvalda er einnig alvarlegt vandamál. Í ljósi sögunnar er rétt að spyrja: hversu líklegt er að festa náist í efnahagsstjórnun á meðan stjórnmálamenn telja helsta kost krónunnar að falla hressilega með reglulegu millibili?


Einn valkostur?
Evran er í nokkrum ólgusjó og hafa andstæðingar ESB haldið því fram að það sanni fásinnu þess að halda áfram aðildarviðræðum. Reynsla okkar af krónunni er ekki svo glæsileg að skynsamlegt sé að útiloka upptöku evru og halda krónunni sem eina valkosti Íslendinga til frambúðar. Samningaviðræðurnar taka tíma og upptaka evrunnar er skilyrðum háð. Margt getur því breyst áður en endanleg ákvörðun er tekin, líkt og margt hefur breyst frá því að samningaviðræður hófust. Hagsmunir þjóðarinnar eru augljóslega þeir að halda báðum kostum opnum enn um sinn. Samningaviðræður skaða engan og skuldbinda engan, en þær gætu skapað möguleika til betri hagstjórnar og lífskjara til framtíðar.


Árni Páll og staða aðildarumsóknar

Fréttatilkynning:

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar og varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis, heldur stutt erindi og svarar spurningum um stöðu ESB aðildarumsóknarinnar í íslenskum stjórnmálum í dag.

Fundurinn, sem er opinn öllum félagsmönnum Já Ísland, verður haldinn í Skipholti 50a og hefst klukkan 12.00. Boðið verður upp á súpu.

Áhugamenn um Evrópumál hvattir til að mæta!


Steingrímur vill forðast upphrópanir - telur makríl bæta samningsstöðu Íslands

Ofurráðherrann, Steingrímur J. Sigfússon (er með fjóra ráðherratitla!), tjáir sig um Evrópumálin í Fréttablaðinu þann 22.8 og segir þar meðal annars að nýjustu upplýsingar um makrílinn og hegðun hans við Íslandsmið, geti mögulega styrkt samningsstöðu Íslands, gagvnart ESB. Á þá að hlaupa til og hætta við, eins og sumir í VG vilja?

Þá segist hann ekki vilja ræða ESB-málið með upphrópunum, eins og mönnum (einnig úr hans eigin flokki, VG) er svo tamt að gera. Þetta er gott hjá honum, það verður að ræða málið af skynsemi.

Það er engin ástæða til þess að menn fari á límingunum vegna ESB-málsins, nær væri að æsa sig yfir t.d. gjaldeyrishöftum og öðrum ófagnaði í íslensku efnahagslífi, sem kostar almenning og fyrirtæki hrikalegar fúlgur!


Finnland ekki á leið úr Evrunni - ekki möguleiki segir forsætisráðherrann

Forsætisráðherra Finnlands, segi það ekki möguleika ("not an option") fyrir Finnland (og ESB) að hverfa frá Evrunni. Hann hvetur til varfærni.

Þetta er í mikilli mótsögn við yfirlýsingar utanríkisráðherra landsins, sem fyrir skömmu sagði að Finnar væru með áætlun í smíðum sem miðaði við að Finnland færi úr Evrunni og sundrun Evrunnar.

Finnar er því ekki á leið út úr Evrunni, sem hefur gagnast þeim vel.


Evrópuskóli unga fólksins að Laugarvatni

Á JáÍsland.is segir: "

Hefurðu áhuga á Evrópumálum en langar að vita meira?- Ertu Evrópusinni?- Langar þig til að hafa áhrif á starfið, kynnast fólki og láta til þín taka?

Ef svo er, þá gæti Evrópuskóli Ungra Evrópusinna verið eitthvað fyrir þig! Stefnan er tekin á Laugarvatn helgina 15. og 16. september næstkomandi. Haldið verður úr bænum árla laugardags og komið heim síðdegis á sunnudegi. Rúta mun flytja mannskapinn á Farfuglaheimilið að Laugarvatni þar sem skólinn mun fara fram.

Á dagskrá er meðal annars: 

- Erindi frá færum fyrirlesurum á sviði Evrópumála- Málefnavinna- Ræðuþjálfun-Umræða um stöðu aðildarviðræðna- Almenn fræðsla um Evrópumál- Baðferð í Laugarvatn Fontana… að ógleymdri Evrópugleði á laugardagskvöldinu með þéttri skemmtidagskrá!

Skólagjald er aðeins 1.500 kr. Innifalið í því er gisting að Laugarvatni, rútuferðir báðar leiðir, fyrirlestrar í hæsta gæðaflokki, kvöldskemmtun og allar máltíðir á meðan námskeiðinu stendur!

Skólinn er opinn öllum áhugasömum Evrópusinnum á aldrinum 18-35 ára sem langar að vita meira um Evrópumál. Við vekjum athygli á því að um takmarkað framboð skólasæta er að ræða. Þó hvetjum við þau sem eru ókunnug starfinu sérstaklega til að taka þátt. Við tökum fram að Ungir Evrópusinnar eru þverpólitísk hreyfing sem tengist ekki neinum stjórnmálaflokkum.

Skráning fer fram í netfangið ungirevropusinnar@ungirevropusinnar.is. Skráningarfrestur stendur til 5. september nk.

Í umsókn þarf að koma fram

  • Nafn
  • Kennitala
  • Símanúmer
  • Loks eru umsækjendur beðnir um að greina frá í örstuttu máli hvers vegna þau hafa áhuga á að sækja námskeiðið!

Ekki hika við að senda okkur fyrirspurnir á Facebook síðuna okkar ef þið hafið einhverjar spurningar, eða í netfangið ungirevropusinnar@ungirevropusinnar.is. Þá má líka hringja á skrifstofu Já Ísland í síma 517-8874.

ÞAÐ HEFUR ALDREI VERIÐ MIKILVÆGARA AÐ TAKA ÞÁTT Í EVRÓPUUMRÆÐUNNI EN NÚNA – OG VIÐ LOFUM GÓÐU STUÐI! Nánari dagskrá verður kynnt síðar!

Með kveðju,

Stjórn Ungra Evrópusinna"


Evru-brotthvarf yrði dýrt: RÚV.is

Á RÚV stendur:

"Úrsögn Grikklands Grikklands úr evrusamstarfinu er möguleg, en verður dýrkeypt ef til þess kemur. Þetta segir Þjóðverjinn Jörg Asmussen, sem situr í stjórn Evrópska seðlabankans, í viðtali við blaðið Frankfurter Rundschau.

Aðspurður um hugsanlega úrsögn Grikkja úr evrsamstarfinu segist hann vona að þeir verði þar áfram, en ákvörðun þess efnis sé í höndum Grikkja sjálfra. Úrsögn Grikkja verði hinsvegar dýrkeypt, leiða til minni hagvaxtar og aukins atvinnuleysis í Grikklandi, Þýskalandi og í Evrópu allri."


Eymd og volæði....!

Á Fésbókinni er að finna þessa frábæru færslu. Sjón er sögu ríkari!

Bölsýnismennirnir hafa hátt!

Bölsýnismenn í hópi Nei-sinna keppast við garga "Úlfur úlfur" og heimta að það að aðildarviðræðum Íslands og ESB verði hætt.

Sömu talsmenn vaða um völlinn með staðlausa stafi eins og t.d. að engar varanlegar sérlausnir séu í boði. 

Slíkt kemur þó aldrei í ljós nema menn setjist að SAMNINGABORÐINU, og ræði slíkt, samkvæmt kröfum umsóknarríkis,. Slíkt eiga Íslendingar eftir að gera, en bölsýnismennirnir vilja ekki gefa kost á því og vilja ekki gefa íslensku þjóðinni möguleika á því að ræða sín á milli aðildarsamning þegar hann liggur fyrir. Til þess að kjósa um hann.

Þá baula menn einnig um "rosalegan" kostnað í sambandi við umsóknarferlið, sem er nánast ekki neitt sé hann borinn saman við þann kostnað sem t.d. hlýst af því að hafa gjaldeyrishöft við lýði!

Enginn veit hvað þau hafa kostað, en menn eru sammála um að það sé mikið. Það væri kannski ekki úr vegi að reyna að slá á þá tölu? 

Við viljum hinsvegar vekja athygli þessara sömu manna á því að t.d. Finnar fengu mjög viðamikla sérlausn á landbúnaðarmálum sínum og ekkert útlit er fyrir að henni verði breytt, eða hún verði tekin af þeim!

Þetta hefur reynst Finnum vel, eins og meðfylgjandi grein sýnir. T.d. hefur útflutningur Finna á svínakjöti sexfaldast frá 1995!

Fátt er sem mælir því í mót að Ísland fái álíka lausn - en á það vilja bölsýnismennirnir ekki láta reyna.

Þeirra hugmyndaheimur snýst um bölsýni!


Guðmundur Gunnarsson með pistil á www.JáÍsland

Guðmundur Gunnarsson

Guðmundur Gunnarsson, fyrrum formaður Rafiðnaðarsambandsins, skrifaði fyrir skömmu góðan pistil um efnahags og gjaldmiðilsmál á vef Já Ísland. Pistillinn hefst svona:

"Þegar erlendir menn eru að skoða Ísland í dag og „hið íslenska efnahagsundur“ virðast þeir ekki gera sér grein fyrir ákveðnum séríslenskum einkennum. Þar ber vitanlega hæst liðónýtur gjaldmiðill, sem er varinn með gjaldeyrishöftum og útflutningsfyrirtækjum bjargað með því að færa rekstrarvandann yfir á launamenn í gegnum reglubundnar gengisfellingar krónunnar og þá um lækkun launa.

Þetta veldur því að verðbólga hér er helmingi hærri en þekkist í nágrannalöndum okkar og vextir eru þar afleiðandi tvöfalt hærri hér en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. 80% þjóðarinnar býr við það ástand að vera gert að þola skert laun í gegnum endurteknar gengisfellingar krónunnar. Launamönnum eru með því gert að greiða aukaskatt vegna Hrunsins og fjármagna uppgönguna, á meðan litli hluti þjóðarinnar kemur sér undan því að vera þátttakandi í þeirri skattlagningu.

Við höfum í dag endurheimt um helming af falli kaupmáttarins frá toppi bóluhagkerfisins árið 2007. En það segir ekki allt um lífskjaraskerðinguna, kjörin versnuðu meira vegna skemmri vinnutíma, meira atvinnuleysis og aukinnar skuldabyrði heimilanna. Lífskjaraskerðingin kom til vegna gengisfalls krónunnar, sem íslenska valdastéttin dásamar og vill alls ekki vera án. Lífskjörin á árunum 2001 til 2007 voru að umtalsverðu leyti byggð á froðu og of háu skráðu gengi krónunnar."


Ungir Evrópusinnar senda VG hvatningu

Ungir evrópusinnarÁ vefsíðu Ungra Evrópusinna er að finna þessa ályktun samtakanna:

"Stjórn Ungra Evrópusinna hvetur þingmenn vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs (VG) til að stuðla að áframhaldi aðildarviðræðna Íslands og Evrópusambandsins. Ummæli einstakra ráðherra og þingmanna fyrr í vikunni hafa gefið til kynna gífurlega vanþekkingu þingflokksins á framgangi yfirstandandi aðildarviðræðna.

Yfirlýsingar ráðherra VG á borð við að umsóknarferlið „rífi allt samfélagið á hol“ eru úr lausu lofti gripnar. Ráðherrar VG eiga í ljósi stöðu sinnar að vera meðvitaðir um að aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið eru í eðlilegum farvegi og hafa almennt gengið vel. Þá er enn fremur mikilvægt að benda á að einstakir ráðherrar VG hafa leynt og ljóst tafið framgang aðildarviðræðna í störfum sínum, þvert á þjóðarhagsmuni.

Ungir Evrópusinnar hafna innihaldslausum yfirlýsingum þingmanna VG sem og annarra flokka um meinta efnahagslega yfirburði Íslands gagnvart öðrum Evrópuríkjum. Þó efnahagur Íslands sé í stöðugum bata, ógnar íslenska krónan hagsmunum allra íslenskra heimila með þeim hætti að vandkvæði flestra evruríkja blikna í samanburði. Vinstri Græn hafa ekki talað fyrir öðrum valkostum Íslendinga í gjaldeyrismálum umfram íslensku krónuna í ríkisstjórnartíð sinni. Þá hefur þingflokkurinn ekki lagt fram neinar áætlanir um afnám gjaldeyrishafta.

Ráðherrar og þingmenn VG, sem og þingmenn annarra flokka í hópum Evrópuandstæðinga, verða að horfast í augu við að samningaviðræður Íslands og Evrópusambandsins hófust með eðlilegum og lýðræðislegum hætti. Ungir Evrópusinnar leggja áherslu á að Ísland mun aldrei verða aðildarríki Evrópusambandsins nema að undangenginni samþykkt landsmanna í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðaratkvæðisgreiðsla um áframhald yfirstandandi samningaviðræðna er því með öllu ótímabær enda liggja helstu forsendur aðildarsamnings Íslands hvergi fyrir, til að mynda í gjaldeyris-, landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum. Nær væri að Evrópuandstæðingar á Alþingi leggðu sig fram við að veita Íslendingum tækifæri til að taka afstöðu til fullmótaðs aðildarsamnings við Evrópusambandið hið fyrsta."


Spurning Ögmundar stórgölluð

Innanríkisráðherra Íslands, Ögmundur Jónasson, orðaði spurninguna sem hann vill að þjóðin verði spurð í sambandi við ESB-málið í sjónvarpsviðtali þann 17.8. Hún hljómaði svona:

,,Vilt þú að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu á grundvelli þeirra upplýsinga sem þegar hafa legið fyrir."

Mikið hefur verið rætt og skrafað um orðalag spurninga í þjóðartkvæðagreiðslum, en þessi spurning (og aðferðafræði hennar) er stórgölluð.

Hún gengur nefnilega út frá því að landsmenn hafi ekki tæmandi upplýsingar og fullnægjandi um það atriði sem þeir ættu þá í þessu tilfelli að vera að kjósa um.

Ákvarðanataka í jafn risastóru máli og þessu, án tæmandi upplýsinga, er ekki góð ákvarðanataka!

Fullkláraður aðildarsamningur, með tilheyrandi lýðræðislegri umræðu um kosti hans og galla er grundvallarforsenda þess að almenningur geti tekið skynsamlega ákvörðun í málinu.

Þeir sem nú hrópa úlfur, úlfur, "brennandi hús" og hvaðeina virða ekki þessa grundvallarforsendu viðlits!


Bolli Héðinsson um Grikkland og hækkun lána í FRBL

Bolli HéðinssonBolli Héðinsson, hagfræðingur, skrifaði athyglisverða grein í FRBL um ESB-málið, þann 18.8 og hefst greinin svona:

"Sem svar við efnahagsþrengingum og til að stuðla að þróun hagkerfa sinna hefur fjöldi Evrópulanda leitað eftir aðild að Evrópusambandinu (ESB) sem leið út úr erfiðleikum sínum. Finnar, sem brugðu á það ráð eftir efnahagshrunið 1990, eru þar nærtækt dæmi. Því hlaut það að vera ein þeirra leiða sem kom til álita fyrir Íslendinga eftir efnahagshrunið 2008. Ekkert annað þarf að búa þar að baki, engin landráð eða svik, heldur aðeins það að kanna hvort leið sem aðrar þjóðir hafa farið gæti reynst heppileg fyrir Íslendinga. Ástæður aðildarviðræðna við ESB eru ekki flóknari en þessar.

Þó erfiðleikar séu hjá fjölda ríkja í Evrópu, hvort sem þau nota evru eða sterlingspund, þá er líka allt í stakasta lagi hjá fjölda annarra ríkja sem einfaldlega hafa kunnað fótum sínum forráð. Nægir hér að nefna Holland, Lúxemborg, Finnland, Austurríki auk Þýskalands. Þar verður almenningur ekki var við neina „evrukreppu“, lífið gengur sinn vanagang. Vandkvæði þeirra þjóða sem ratað hafa í vandræði upp á síðkastið er ekki vegna gjaldmiðilsins sem þær nota heldur eingöngu vegna þess að þær hafa ekki haft hagfræði hinnar hagsýnu húsmóður að leiðarljósi og hafa lifað á lánum um efni fram. Það kann ekki góðri lukku að stýra hvorki í rekstri heimila né þjóðfélaga."

Síðan segir Bolli:

"Í síðustu kosningum í Grikklandi hvarflaði ekki að Grikkjum að þeir væru betur komnir án evrunnar enda höfnuðu þeir þeirri leið að skipta yfir í annan gjaldmiðil. Þeir hafa áttað sig á að ef þeir hafna evrunni þá gerir það stjórnvöldum eingöngu hægar um vik að skerða kjör almennings, fela lífskjaraskerðinguna með gengisfellingu og fresta því að takast á við hinn raunverulega vanda sem fólginn er í vanhæfum ríkisstjórnum. Ekki eitt einasta heimili og ekki eitt einasta fyrirtæki hefur farið í þrot á Grikklandi, Írlandi, Spáni eða öðrum Evrópulöndum vegna þess að lán til þeirra hafa hækkað. Á Íslandi er hækkun lána helsta ástæða þess að heimili og fyrirtæki hafa farið í þrot og það má eingöngu rekja til íslensku krónunnar. Heimili og fyrirtæki í áðurnefndum löndum eiga í erfiðleikum vegna þess að tekjur þeirra hafa rýrnað en þeir erfiðleikar eiga einnig við hér á landi svo hækkun lána gerir Íslendingum enn erfiðara fyrir en öðrum Evrópuþjóðum."

 


Greinaröð Árna Páls í FRBL

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingar hefur undanfarna daga verið að birta greinar í greinaröð um Evrópumál. Hér eru krækjur á greinarnar:

1) Þar sem Evrópa endar? Um Ísland í Evrópu

2) Frjáls við ysta haf? Um Ísland í Evrópu

3) Er duna jarðarstríð. Um Ísland í Evrópu      Og okkur skilst að það sé von á fleiri greinum - hið besta mál!

Sigríður Ingibjörg um "sönginn" og fleira í FRBL

Sigga-IngibjorgSigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingar, ritaði grein í FRBL um ESB-málið og upphlaup VG-liða, þann 16.ágúst. Greinin birtist hér í heildsinni:

"Sumarið 2009 samþykkti Alþingi að sækja um aðild að ESB. Allar götur síðan hafa verið háværar raddir um að draga umsóknina til baka eða fresta henni um óákveðinn tíma. Nú er söngurinn byrjaður að nýju og að þessu sinni eru forsöngvarar þingmenn og ráðherrar vinstri grænna.

Þingmenn úr öllum flokkum greiddu atkvæði með umsókninni, en þingmenn Vinstri græns gerðu það þrátt fyrir andstöðu við aðild að ESB. Ástæðan fyrir þessu er einföld: Samningaviðræður eru eitt, aðild er annað. Vinstri grænum stóð auðvitað til boða að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Slík draumaríkisstjórn Ragnars Arnalds og Jóns Bjarnasonar hefði ekki sótt um aðild að ESB. Ef marka má djúpa speki þeirra félaga og ýmissa annarra minni spámanna í forystu flokksins, væri staða Vinstri græns augljóslega mun betri nú. Steingrímur J. og Lilja Mósesdóttir væru sjálfsagt perluvinir, Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason hrókar alls fagnaðar í þingflokknum og Jón Bjarnason enn þá ráðherra. Eða hvað?

Draumaríkisstjórnin varð ekki að veruleika sumarið 2009, en gæti augljóslega orðið það sumarið 2013. Jafnvel fyrr. Miðað við málflutning margra þingmanna, og jafnvel ráðherra, vinstri grænna allar götur síðan 2009 voru það mistök að mynda ekki slíka stjórn. Samningaviðræður við ESB eru nefnilega ekki samningaviðræður við ESB heldur samsæri um „aðlögun" Íslands að ESB. Þessi málflutningur er furðulegur. Þó engin væri umsóknin um ESB væri aðlögun Íslands að ESB með sama hætti og nú er, enda hófst hún með aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Vilji menn stöðva aðlögun Íslands að ESB þá er auðvitað heiðarlegast að hætta í EES. Eru vinstri græn tilbúin í slíka umræðu?
Það hefur margt breyst síðan 2009. Eitt hefur þó ekki breyst: Þau vandamál sem aðild að ESB getur hjálpað okkur að leysa eru enn til staðar og hverfa ekki þótt samningaviðræðum verði slitið. Þetta er kjarni málsins."


Guðmundur Steingrímsson í DV: Er gott að vita ekki?

Guðmundur SteingrímssonGuðmundur Steingrímsson, alþingismaður, skrifaði fína grein í DV þann 15.8 um ESB-málið og birtist hún hér í heild sinni:

ER GOTT AÐ VITA EKKI?

Það liggur fyrir að skoðanir á hugsanlegri aðild Íslendinga að Evrópusambandinu eru skiptar. (Þessi setning er það sem enskir kalla „understatement“.) Sjálfur hef ég átt í rökræðum um ESB í ótal eldhúsum, heitum pottum, vinnustöðum, sumarhúsum, skólastofum, leigubílum og guð má vita hvar síðan 1986 eða svo, með hléum. Oft hafa þessar rökræður verið tilfinningaþrungnar og markaðar alls kyns ásökunum á báða bóga um vanþekkingu, bjánaskap og svik við hinar fögrustu hugsjónir.

Nú hafa Íslendingar sótt um aðild, enda var meirihluti fyrir því á þingi. Samninganefndin er vel skipuð og viðræðurnar sjálfar hafa gengið vel. Því er þó ítrekað haldið fram að viðræðurnar séu í raun aðlögun að sambandinu. Mér hefur ætíð fundist það skrýtinn málflutningur. Ef Íslendingar segðu nei við samningi, hvað myndi þá standa eftir sem breyting á íslensku samfélagi vegna viðræðnanna? Ef ekki er hægt að nefna neitt markvert sem svar við þessari spurningu, er varla hægt að tala um að viðræðurnar feli í sér aðlögun.

Staðreyndirnar koma í ljós

Viðræðurnar hafa haft eitt gott í för með sér: Staðreyndir hafa komið upp á yfirborðið. Það vantar ekki yfir lýsingarnar um það hvað ESBaðild muni fela í sér. Eftir því sem viðræðunum vindur fram kemur betur í ljós hvaða yfirlýsingar eru réttar og hverjar rangar. Á tímabili var því til dæmis haldið fram að Íslendingar þyrftu að ganga í evrópskan her ef þjóðin gengi í sambandið. Nú er komið í ljós að það er auðvitað ekki rétt. Eins hefur stundum borið á yfirlýsingum um að ESB ásælist á einhvern hátt orkuauðlindir Íslendinga. En eftir að kaflinn um orkumál var opnaður hafa þær raddir að mestu þagnað. Fullyrt er að íslenskur landbúnaður muni bera skarðan hlut frá borði, en kaflinn um landbúnað bíður enn umfjöllunar. Sem og kaflinn um sjávarútveg. Hvað reynist rétt og hvað rangt í þeim efnum á allt eftir að koma í ljós. Stærsta breytan sem mun ráða afstöðu flestra til Evrópusambandsaðildar á eftir að líta dagsins ljós: Samningurinn sjálfur.

Spurningar hverfa ekki

Framtíðarsýn þeirra sem vilja hætta viðræðunum er forvitnileg. Fyrir þjóð sem er áhrifalaus þiggjandi yfirgripsmikilla lagasetninga af hálfu ESB í gegnum samninginn um EES hlýtur það alltaf að verða áleitin spurning hvort ekki eigi að stíga skrefið til fulls, ganga í sambandið og fá sæti við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar. Sú spurning mun ekki hverfa. Í hvert einasta skipti sem krónan fellur með tilheyrandi áhrifum á verðbólgu, þannig að skuldir fólks stórhækka vegna verðtryggingar, munu spurningar um gjaldmiðilssamstarf við Evrópuþjóðirnar vakna aftur. Vaxandi ólund vegna gjaldeyrishafta mun hafa sömu áhrif sem og kostnaður almennings vegna hárra vaxta.

Ég telst til þeirra Íslendinga sem vilja komast til botns í þessu máli, langþreyttur á óupplýstum rökræðum í eldhúsum og heitum pottum. Evrópusamstarf hefur hingað til reynst þjóðinni farsælt. Ég tel að ESB-aðild geti mögulega verið rökrétt næsta skref. Aðild gæti bætt lífskjör og gert Íslendinga að mikilvægum þátttakendum í samvinnu sjálfstæðra ríkja í Evrópu. Ég leyfi mér að spyrja: Ef sá hluti þjóðarinnar fær að ráða ferðinni sem sér enga ástæðu til að kanna þennan möguleika til hlítar – til að komast að því hvað er rétt og hvað er rangt – og vill frekar halda áfram deilum á kaffistofum um þetta mál án niðurstöðu um ókomna framtíð, hvert verður þá hlutskipti okkar hinna? Eigum við bara að vera kampakát með það? Alsæl í dýrtíðinni og óvissunni? Er gott að vita ekki neitt?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband