Leita í fréttum mbl.is

Höftin fá falleinkunn hjá Árna Páli

Árni Páll ÁrnasonÁrni Páll Árnason, fyrrum viðskiptaráðherra, skrifaði hvassa grein um gjaldeyrishöftin í Fréttablaðið í dag, þar sem þau fá hreinlega falleinkunn. Árni segir meðal annars:

"Gjaldeyrishöft eru hörmuleg. Það vitum við af áratuga reynslu og það sjáum við nú sífellt skýrar með hverjum degi sem líður í viðjum hafta. Sá ágæti hagfræðingur Dr. Benjamín J. Eiríksson kallaði höft „stíflugarða á floti“ og það var réttnefni. Fé finnur sér farveg. Höft breyta þeim farvegi, gera hagkvæma hluti óhagkvæma og öfugt. Krónan fellur, þrátt fyrir að höft séu hert og tekið á undanskotum. Í höftum verða til spéspeglar viðskiptalífsins – þeir sem hafa hag af höftum og spila á það skakka gangverk sem höftin skapa. Menn sem hafa arð af viðskiptum sem bara eru arðbær vegna haftanna – viðskiptum á borð við þau skuldabréfaviðskipti sem gerð voru ólögmæt með síðustu lagabreytingum."

Von er á fleiri greinum frá Árna á næstu dögum.


Stefán Haukur ræðir ESB-málið hjá Evrópustofu

Stefán JóhannessonÍ tilkynningu frá Evrópustofu segir: "Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands, ræðir stöðu mála og næstu skref í aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins á opnum fundi í Evrópustofu, miðvikudaginn 11. apríl kl. 17-18.

Nýverið lauk fjórðu ríkjaráðstefnu Íslands og Evrópusambandsins þar sem fjórir samningskaflar voru opnaðir og tveimur lokað aftur til bráðabirgða. Þar með hafa 15 af 33 samningsköflum í aðildarviðræðunum verið opnaðir og tíu lokað aftur til bráðabirgða. Eftir standa 18 kaflar en talið er að sumir þeirra gætu reynst þungir í vöfum, til að mynda kaflarnir um sjávarútveg og landbúnað.

Að loknu erindi Stefáns Hauks mun hann svara spurningum fundargesta."


Ítarleg fréttaskýring um aðildarviðræðurnar við ESB

Fréttablaðið birti þann 10.apríl ítarlega fréttaskýringu um aðildarviðræðurnar við ESB, sem hefst á þessum orðum:

"Á ríkjaráðstefnu Íslands og Evrópusambandsins (ESB) síðastliðinn föstudag (30.mars, innskot, ES-bloggið) voru fjórir samningskaflar í aðildarviðræðunum opnaðir og tveimur þeirra lokað umsvifalaust. Þannig hafa fimmtán kaflar verið opnaðir og tíu þegar verið lokað. Hvert er hins vegar ferlið á bak við opnun og lokun kaflanna og hvað ræður því hvenær og í hvaða röð þeir eru opnaðir?

Samningskaflarnir svokölluðu eru 35 talsins en aðallega er þó talað um þá 33 sem lúta að afmörkuðum málaflokki í löggjöf ESB. Um þriðjungur kaflanna heyrir að öllu leyti undir EES-samninginn, um þriðjungur er að nokkru leyti innan EES, en síðasti þriðjungurinn er alfarið utan EES.

Staða málaflokkanna með tilliti til EES skiptir hins vegar ekki höfuðmáli hvað varðar „opnun“ kaflanna, það er hvenær samningsviðræður hefjast fyrir alvöru í þeim. Til dæmis eru viðræður ekki enn hafnar í sumum kaflanna sem lúta að EES-samningnum á meðan sumum málaflokkum sem standa algerlega utan EES, til dæmis um utanríkis-, öryggis- og varnarmál, var lokað samdægurs, þar eð staða Íslands skaraðist ekki við lög ESB."


ESB-reglur auka neytendavernd netverja

Í Fréttablaðinu í morgun birtist þetta: "Nýjar reglur Evrópusambandsins (ESB) um gæði internetþjónustu, sem til stendur að setja í haust, munu koma í veg fyrir að íslensk fjarskiptafyrirtæki geti auglýst að neytendur fái tengihraða allt að ákveðnu hámarki nema fyrirtækin uppfylli ströng skilyrði um að þjónustan standist þau loforð.

Fjarskiptafyrirtækin auglýsa í dag mismunandi netáskriftir sem flestar eiga það sameiginlegt að hraðinn er sagður ná „allt að“ einhverju ákveðnu hámarki. Það er hins vegar engin trygging fyrir því að hámarkið náist.

Samkvæmt núverandi regluverki er löglegt að auglýsa þjónustuna með þessum hætti, segir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS). Hann segir það líklega breytast með nýjum reglum ESB, sem verði sjálfkrafa teknar upp hér á landi.

„Í lok þessa árs eða byrjun þess næsta verða settar nýjar reglur sem skýra í hverju gæði internetþjónustu felast, þar með talið varðandi hraðann. Víða í Evrópu er fyrirtækjunum ekki heimilt að auglýsa „allt að“ nema þau geti uppfyllt strangar kröfur,“ segir Hrafnkell.

Hrafnkell segir að til standi að auka heimildir eftirlitsstofnana á borð við Póst- og fjarskiptastofnun til að skýra hvernig gæði fjarskiptaþjónustu eigi að vera. Stofnunin sé að auka eftirlit sitt, en eftir sé að skilgreina nákvæmlega gæði þjónustunnar."

ESB-er neytendavænt.


Friðrik Már í Klinkinu um gjaldmiðla - krónur og evrur

Stöð 2Á www.jaisland.is segir: "Friðrik Már Friðriksson prófessor við hagfræðideild Háskólans í Reykjavík var gestur Þorbjarnar Þórðarsonar í Klinkinu þann 5. apríl s.l.

Spjall þeirra er fróðlegt og skoðanir Friðrikis Más athyglisverðar. Rætt er um gjaldmiðilsvanda Íslands, mögulegar lausnir, ekki síst evruna og krónuna.

Þáttinn Klinkið á Stöð 2 má sjá í heild sinni á vefnum visir.is."


Norðmenn flykkjast til Svíþjóðar (ESB) til að versla ódýran mat

LambakjötJæja, þá eru landsmenn búnir að renna niður páskasteikinni, vonum svo sannarlega að hún hafi orðið öllum að góðu!

Á RÚV er hinsvegar sagt frá því að Norðmenn flykkist yfir til Svíþjóðar (ESB-land) til að versla ódýrt í matinn. Þetta er reyndar engin nýlunda, enda Noregur eitt dýrasta land í heimi. En frá því að Svíþjóð gekk í ESB, hefur þetta aukist til mikilla muna.

"Spáð er að Norðmanna (á að vera Norðmenn, innsk. ES-blogg) slái öll met í verslunarferðum til Svíþjóðar um páskana. Fjórði hver ibúi á höfuðborgarsvæðinu við Osló hyggst nota hátíðina til að kaupa ódýran mat innan landamæra Evrópusambandsins.

Reiknað er með metfjölda Norðmanna við matarinnkaup í Svíþjóð nú um páskahelgina. Spár gera ráð fyrir að fjórði hver íbúi á höfuðborgarsvæðinu við Ósló noti hátíðina til innkaupa í landamæraverslunum. Munur á verði matvöru í Noregi og Svíþjóð hefur aukist stöðugt frá því Svíar gengu í Evrópusambandið. Nú telja Norðmenn sig fá mat á hálfvirði handan landamæranna."

Minnum í þessu sambandi á þetta, en hér kemur fram gríðarlegur munur á verði milli Íslands og Evruríkjanna.


ESB-málið: Fiskveiðar þurfa ekki að vera hindrun

FréttablaðiðÞann 4.apríl birti Fréttablaðið frétt sem snýr að samningaviðræðum Íslands og ESB, sjávarútvegsmálum:

"Ég er bjartsýnn á að viðræður um fiskveiðimál geti skilað hagstæðri niðurstöðu fyrir bæði Ísland og Evrópusambandið,“ segir Evrópuþingmaðurinn Christian Dan Preda í samtali við Fréttablaðið.

Dan Preda, sem er í forsvari hjá Evrópuþinginu í málefnum sem varða aðildarumsókn Íslands, er staddur hér á landi vegna fundar sameiginlegrar þingmannanefndar Íslands og ESB.

Hann segist byggja bjartsýni sína á því að allt sé til staðar til þess að uppbyggilegar viðræður geti átt sér stað.

„ESB hefur á að skipa góðu samningaliði og íslensku samningamennirnir eru sömuleiðis mjög færir á sínu sviði. Svo eru báðir aðilar með mikla reynslu og þekkingu á sviði fiskveiða og þannig erum við með kjöraðstæður til að ná samkomulagi milli aðilanna.“

Útkoman úr sjávarútvegskaflanum er mikilvæg.


Gleðilega páska!

paskaungiEvrópusamtökin óska landsmönnum gleðilegra páska!

Ps. Muna að bursta vel!


Grein Benedikts Jóhannessonar um gjaldmiðilsmál í Fréttatímanum

Hér má lesa grein Benedikts Jóhannessonar um gjaldmiðilsmál, sem birtist í Fréttatímanum fyrir páska. 

BenediktMargir velta því fyrir sér þessa dagana hvaða gjaldmiðill henti Íslendingum. Afdrifaríkt verður að kasta krónunni á glæ. Því er afar mikilvægt að hugsa vel sitt ráð. Þjóðin hefur áður gert grundvallarbreytingar í gjaldeyrismálum, breytingar sem höfðu varanleg áhrif á daglegt líf Íslendinga um langt árabil.

Ísland var með alþjóðlega mynt

Í upphafi 20. aldar voru Íslendingar í myntbandalagi með öðrum Norðurlandaþjóðum. Sama gengi og svipað verðlag gilti á svæðinu. Meirihluti utanríkisviðskipta var við Norðurlöndin. Því fundu landsmenn ekki mikið fyrir því þótt þessi sameiginlega króna breytti um gengi gagnvart öðrum myntum. Í fyrri heimsstyrjöldinni riðlaðist bandalagið. Þó hefur gengi norsku, dönsku og sænsku krónanna fylgst þokkalega að þau tæplega 100 ár sem liðin eru frá því að leiðir greindust. Ein af gömlu bandalagsþjóðunum fór þó aðra leið. Íslenski hundraðkallinn frá 1918 er ekki dansks fimmeyrings virði í dag.

Ný mynt, verðtryggð króna

Eftir sextíu ára basl með sjálfstæða krónu var verðbólga hér orðin slík að krónanrýrnaði um nær helming á hverju ári. Enginn vildi spara. Íslendingar fundu þá upp nýja einingu, verðtryggða krónu. Verðtrygging er vissulega til annars staðar, en hvergi er hún jafnútbreidd og á Íslandi. Ástæðan er sú að krónan sjálf er ónýt. Enginn vill lána öðrum til áratuga í venjulegum krónum. Með verðtryggðri krónu er tryggt að Íslendingar skulda alltaf jafnmikið að raunvirði, þótt  launin rýrni við hverja gengisfellingu.

Peningastefna með hæstu vöxtum

Í upphafi 21. aldar var Seðlabanka Íslands falið að halda verðbólgunni í skefjum með vaxtastefnu. Peningastefna bankans var í samræmi við viðurkenndar hagfræðikenningar. Vextir voru hækkaðir til þess að sporna við verðbólgu. Útlendingar freistuðust af hávaxta krónubréfum. Gengi krónunnar styrktist og innflutningur jókst. Útflutningsfyrirtæki fengu minna en áður fyrir sína vöru. Vaxtahækkanir höfðu þó lítil áhrif á neyslu, því að flestir voru með lán í verðtryggðum krónum eða erlendri mynt sem fóru eftir öðrum lögmálum. Eftir sjö ár hrundi efnahagskerfið, krónan var sett í höft. Hundruð milljarða króna í eigu útlendinga voru læst inni. Til varð tvöfalt gengi: Aflandsgengi og afleitt gengi.

Áhætta við evru

Af þessu má sjá að Íslendingar taka talsverða áhættu með því að ganga í myntbandalag:

  1. Verðbólgan verður ekki lengur sú mesta Vesturlöndum.
  2. Vextir verða ekki lengur miklu hærri hér en í nágrannalöndum.
  3. Vægi verðtryggingar verður lítið og menn eiga auðvelt með að reikna út hvað þeir skulda.
  4. Ekki verður lengur hægt að lækka laun almennings í einu vetfangi með gengisfellingu.
  5. Þjóðin verður af sínu helsta tómstundagamni, gjaldeyrisbraski.

Vonandi verður þessi listi til þess að menn hugsa sig mjög vel um, áður en þeir taka upplýsta ákvörðun um að kasta sinni ástsælu krónu. Þar með fórna þeir hagstjórn sem færði Íslendingum svo margt á undangenginni öld sem aðrar þjóðir fóru á mis við.



Benedikt Jóhannesson: Krónan dýpkaði kreppuna

Á vefsíðu Spegilsins á RÚV var skrifað þann 3.apríl: "Félagið Sjálfstæðir Evrópumenn héldu í gær opinn fund í Háskóla Íslands um kosti Íslendinga í gjaldmiðlamálum.Frummælendur á fundinum voru þeir Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, og Ragnar Árnason, einnig prófessor í hagfræði við þann skóla. Gylfi á sæti í peningastjórn Seðlabankans sem meðal annars ákvarðar stýrivexti bankans með jöfnu millibili. Ræður þeirra prófessora í gær voru ítarlegar og í kjölfarið fylgdu spurningar."

Í þættinum var svo rætt við Benedikt Jóhannesson, tryggingastærðfræðing um gjaldmiðlsmálin, en hann telur að krónan hafi dýpkað kreppuna til muna.


Gríðarlegar verðhækkanir - samanburður: Ísland - Evrusvæðið

Já-ÍslandÁ vef samtakanna Já-Ísland birtist þessi tilkynning: "Hagsmunir íslenskra heimila í umræðunni um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu munu vega þungt þegar kemur að því að taka ákvörðun um hvort ganga skuli í ESB eða ekki.

Augljóst er að gjaldmiðlamál skipta þar miklu máli. Til að kjósendur geti tekið upplýsta ákvörðun um hvort aðild gagnist heimilunum í landinu er mikilvægt að skoða samanburð við þær þjóðir sem hafa evru og kjör sem bjóðast í þeim ríkjum.

Hagstofa Íslands tók saman gögn fyrir Já Ísland sem sýna hækkun og lækkun á verði á vörum og þjónustu frá árinu 2008 til dagsins í dag. Um er að ræða samræmda vísitölu neysluverðs sem Eurostat, Hagstofa Evrópusambandsins, tekur saman reglulega. Á þeim tölum má sjá gífurlega mikinn mun á þróun verðlags hér á landi og í Evruríkjunum.

Já Ísland, leggur mikla áherslu á horft sé til staðreynda þegar fjallað er um mögulega aðild Íslands að ESB. Þessi samantekt er tilraun til að hafa jákvæð áhrif á þá umræðu, til gagns og fróðleiks.

Tímabilið 2008 – 2012

Dæmi:

- Heildar hækkun á vöru og þjónustu á Íslandi er 34,9% en 5,8% á Evrusvæðinu.

- Matarkarfan hækkaði á Íslandi um 32% en 5,2% á Evrusvæðinu.

- Áfengi og tóbak hækkaði á Íslandi um 55,9% en 14,9% á Evrusvæðinu.

- Föt og skór hafa hækkað á Íslandi um 31,4% en lækkaði um 7,9% á Evrusvæðinu."

Einnig frétt á Visir.is og RÚV.is


DV: Enginn skikkaður til að stofna her (ESB-málið)

Stefán JóhannessonStaða Íslands sem herlaust land hefur verið staðfest og viðurkennd í samningaviðræðum við ESB. Allur hræðsluáróður sem dunið hefur yfir landann frá andstæðingum ESB um þetta, er því staðlausir stafir!

DV birti fyrir skömmu viðtal við aðalsamningamann Íslands, Stefán Hauk Jóhannesson um þetta mál og þar segir þetta: "Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands við Evrópusambandið, segir í samtali við DV að með þessari yfirlýsingu hafi það fengist staðfest að Ísland verði áfram herlaust land og að það hafi ekki áhrif á utanríkisstefnu Íslands. „Það var í sjálfu sér aldrei neinn ágreiningur um það. Það er enginn skikkaður til að setja upp her eða taka þátt í hernaði þó við göngum í ESB.“


ESB-aðild breytir ekki stöðu ÁTVR - tillit tekið til óska Íslands

Á DV.is segir: "Gangi Ísland í Evrópusambandið hyggst ríkið viðhalda núverandi fyrirkomulagi á verslun með áfengi og tóbak sem grundvallast á einkaleyfi ÁTVR á áfengis- og tóbakssölu. Um þessi mál er fjallað í áttunda samningskafla Íslands og Evrópusambandsins um samkeppnismál. Í samningsmarkmiðum Íslands kemur fram að ríkið stefni að því að halda einokuninni áfram, en fordæmi eru fyrir því að þjóðir í aðildarviðræðum við ESB hafi fengið sérlausnir í þessum málaflokki. Þannig gengu Svíar í Evrópusambandið, en sænska ríkið hélt áfram einokun á áfengissölu.

Fram kom í máli Stefans Fule, stækkunarstjóra Evrópusambandsins, sem ræddi við blaðamenn í Brussel í síðustu viku, að engar deilur væru um þetta atriði í aðildarviðræðunum og því öruggt að þó að Ísland gengi í ESB yrði núverandi fyrirkomulag á áfengis- og tóbakssölu óbreytt."

Hér er því komið enn eitt dæmið um það að ESB tekur tillit til óska Íslands, sem byggjast á fordæmum um sérlausnir annarra ríkja, sem samið hafa um aðild.


Andrés Pétursson um viðbrögð vegna opnunar Evrópustofu

Andrés PéturssonAndrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, birti grein í Fréttablaðinu í dag, þar sem hann fjallar um viðbrögð Björns Bjarnasonar, fyrrum ráðherra (og annarra andstæðinga ESB), við opnun Evrópustofunnar. Andrés segir meðal annars:

"Það er í raun kostulegt en um leið sorglegt að sjá geðshræringu andstæðinga aðildar Íslands að Evrópusambandinu við opnun svokallaðrar Evrópustofu. Það er eins og fjandinn sjálfur hafi opnað skrifstofu á Íslandi miðað við viðbrögð sumra Nei-sinna. Það kom mér hins vegar á óvart að Björn Bjarnason skyldi bætast í þennan hóp þegar hann virtist fara alveg úr sambandi þegar fréttaskýringaþátturinn „Landinn“ fjallaði á yfirvegaðan hátt um möguleika Íslendinga á landsbyggðarstyrkjum frá Evrópusambandinu ef landið gengi í ESB.

Björn Bjarnason hefur lengi verið í fararbroddi þeirra sem styðja vestræna samvinnu. Hann er meðal annars núverandi formaður Varðbergs, samtaka um vestræna samvinnu og alþjóðamál. Ég geng út frá því að Björn hafi nokkrum sinnum farið í kynnisferðir á vegum NATO til Washington, Brussel og London, sérstaklega þegar hann var starfandi blaðamaður á Morgunblaðinu. Mér dettur ekki í hug eina einustu mínútu að jafn vel gefinn maður og Björn hafi tekið fréttatilkynningar frá Atlantshafsbandalaginu og birt þær gagnrýnislaust í blaðinu."


Gjaldmiðlagrautur?

Í dag var fjallað um gjaldmiðilsmál á fundi hjá Sjálfstæðum Evrópumönnum. Þar fjallaði Ragnar Árnason um það sem hann kallar "fjölmyntakerfi" sem í raun gengur út á að fólk megi nota hvaða gjaldmiðil sem er, hvenær sem er og hvar sem er. Allt frá rússneskum rúblum, S-Afrískum röndum - til Zimbabwe-dollars! S.s. einskonar gjaldmiðlagraut.

Fyrimyndin að þessu kerfi er sótt til Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli (verður landið þá ein stór fríhöfn?).

Í erindi sínu sagði Ragnar það alls ekki vera rétt að Ísland væri með minnsta sjálfstæða gjaldmiðil í heimi, að minnsta kosti NÍU aðra þjóðir væru minni og með sjálfstæðan gjaldmiðil og "og að minnsta kosti 20 þjóðir með minni landsframleiðslu en Ísland geri slíkt hið sama," eins og segir í frétt Eyjunnar.

Þetta virðist því vera allt í sóma!Smile


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband