Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Ungir Jafnaðarmenn með Evrópuáherslur á málefnaþingi

Um helgina munu Ungir Jafnaðarmenn, ungliðahreyfing Samfylkingarinnar, halda opið málefnaþing á Grand Hótel. Á þessu þingi er mjög vönduð og góð dagskrá um Evrópusambandið, þannig að þetta er upplagt tækifæri fyrir ungt fólk til að mæta, kynna sér málin betur og taka þátt í umræðum. Auk þess er mjög áhugaverð málstofa um innflytjendur. Dagskráin er svohljóðandi;

Ég er jafnaðarmaður
Frá klukkan 12.00 til 17.00 á Grand Hótel Reykjavík

12.00 Opnunarræður

  • Anna Pála Sverrisdóttir, formaður Ungra jafnaðarmanna
  • Þórunn Sveinbjarnadóttir, umhverfisráðherra
  • Myndbandið „Ég er jafnaðarmaður" frumsýnt.
Málstofur
13.00 Evrópusambandið – Hvað er málið?
  • Málstofustjóri: Dagbjört Hákonardóttir
  • Aðalsteinn Leifsson – „Evrópuhugsjónin"
  • Jón Þór Sturluson – „Hvað um evruna?"
  • 14:30 Kaffi
  • Ágúst Ólafur Ágústsson – „Lýðræðishalli í EES samstarfi og innan ESB"
  • Lára Sigurþórsdóttir – „Veruleiki íslenskra hagsmunaaðila gagnvart ESB gerðum"
13.00 Innflytjendur á Íslandi – Hvernig getum við gert betur?
  • Málstofustjóri: Þorsteinn Kristinsson
  • Amal Tamimi – „Leiðir til úrbóta"
  • Hrannar Björn Arnarsson – „Jafnaðarstefnan og málefni innflytjenda"
  • 14:30 Kaffi
  • Oddný Sturludóttir – „Heimurinn er hér: Menntun og fjölmenning"
  • Þátttakendur í verkefninu „Framtíð í nýju landi" taka þátt í umræðum.
16.00 "Jafnaðarstefnan"

Pallborð með kjörnum fulltrúum Samfylkingarinnar. Árni Páll Árnason, Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðríður Arnardóttir, Helgi Hjörvar.

17.00 Þingi lokið
18.00 Matur og teiti

Meirihluti landsmanna hlynntur aðild að ESB

Fréttablaðið birtir nýja skoðanakönnun í dag um fylgi þjóðarinnar við aðild að ESB. Þar kemur fram að rúm 55% þjóðarinnar segjast nú vilja að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu og hefur stuðningur við umsókn aukist um 19% frá því í janúar 2007 þegar 36% voru hlynnt því að Ísland sækti um aðild. Ekki hefur áður mælst svo mikill stuðningur við að sækja um aðild í skoðanakönnunum Fréttablaðsins áður.

Þessi stuðningur er í fullu samræmi við Capacent-Gallup kannanir undanfarinna ára sem Samtök iðnaðarins hafa staðið fyrir undanfarin ár og hafa sýnt mikinn stuðning þjóðarinnar við aðild að ESB. Næsta könnun Capacent Gallup er væntanleg í tengslum við Iðnþing 2008 sem verður haldið 6. mars næstkomandi. Það verður áhugavert að sjá niðurstöður þeirrar könnunar.

Hægt er að lesa um skoðanankönnunnina í Fréttablaðinu á þessari slóð; http://www.visir.is/article/20080226/FRETTIR01/102260163


mbl.is Stuðningur við ESB rúm 55%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krónan mjög áhættusöm fyrir Íslendinga

Þetta segir alþjóðlegi fjárfestingarbankinn Dresdner Kleinwort skv frétt ruv.is. Þar segir meðal annars;

vænlegasti kosturinn, að mati skýrsluhöfunda, er að ganga í Evrópusambandið og myntbandalagið. Þeir telja helmingslíkur að þessi leið verði fyrir valinu. Þetta sé besti kosturinn þrátt fyrir langvarandi ágreining við ESB um fiskveiðikvóta. Þótt íslensk stjórnvöld fylgist nái með þróun peningamála hafi þau ekki sett fram langtímaáætlun. Skýrsluhöfundar telja Ísland betur í stakk búið til að uppfylla skilyrði ESB-aðildar en virðist í fyrstu. Haldi stjórnmálamenn vel á málum gæti Ísland fengið inngöngu í ESB að 4 til 5 árum liðnum. Með því að hefja strax aðildarviðræður gæti það dregið stórlega úr hættunni á fjármálakreppu vegna þess lausafjárskorts sem nú er.

Gjaldeyrismálin enn í brennidepli

Þorsteinn Pálsson ritstjóri Fréttablaðsins skrifaði góðan leiðara í Fréttablaðið í gær um Evrópumál undir yfirskriftinni ,,Nýr tímaás". Þar vekur hann athygli á ummælum Bjarna Benediktssonar formanns utanríkismálanefndar Alþingis um þessi mál. Þetta eru áhugaverðar pælingar hjá ritstjóranum enda er þarna fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins að munda stílvopnið.

Þorsteinn segir í leiðaranum sem hægt er að nálgast hér;

Í pólitík er það viðurkennd hernaðarlist að skjóta óþægilega umræðu út af borðinu. Það er líka þekkt aðferð að horfa niður á tærnar en ekki fram á við þegar henta þykir. Í því ljósi er vert umtals og eftirtektar þegar forystumenn í stjórnmálum leggja stór mál í umræðufarveg í þeim tilgangi að takast á við flókin úrlausnarefni og með það að markmiði að leiða umfjöllun um þau til lykta innan afmarkaðs tíma. Formaður utanríkisnefndar Alþingis, Bjarni Benediktsson, kom Evrópuumræðunni í slíkan farveg um liðna helgi bæði í Ríkisútvarpinu og í fréttaviðtali hér í þessu blaði. Frumkvæði hans markar sannarlega þáttaskil. Því hefur á hinn bóginn ekki verið gefinn sá gaumur í opinberri umræðu sem efni standa til.


Það er greinilegt að aðrir Sjálfstæðismenn eru orðnir nokkuð þreyttir á biðstöðu flokksins í gjaldeyrisumræðunni. Birgir Tjörvi Pétursson lögfræðingur og framkvæmdastjóri Rannsóknarmiðstöðvar um samfélags og efnhagsmál (RSE) skrifar í 24 Stundir í dag og segir meðal annars:

Í kjölfar (Viðskipta) þingsins hafa menn svo keppst við að lýsa því yfir að hugmyndin um einhliða upptöku annars gjaldmiðils sé komin „út af borðinu.“ Og fullyrt að eingöngu séu tvær leiðir færar: aðild að ESB, eða óbreytt ástand (sem er reyndar stöðugt að breytast). Fullyrðingarnar hafa lítt eða ekkert verið rökstuddar. Einföldun umræðunnar þjónar náttúrlega pólitískum tilgangi tveggja hópa: Þeim sem vilja aðild að ESB og vilja ekki að aðrar hugmyndir þvælist fyrir. Og þeim sem vilja ekki aðild að ESB, líta á umræðu um gjaldmiðla sem „trjóuhest“ og kæra sig því ekki um hana. Er það til einhvers gagns fyrir almenning í landinu að í opinberri umræðu sé ekki farið vandlega yfir stöðu þjóðargjaldmiðla í breyttri heimsmynd og alla þá fjölmörgu kosti sem uppi kunna að vera? Erfitt er að sjá að þetta sé annað en tilraun til að loka fyrir tímabæra rökræðu sem var á fleygiferð.


Nánar á http://www.mbl.is/bladidnet/2008-02/2008-02-20.pdf

Árni Páll slær tóninn í ESB-aðildarumræðunni

Bæði Visir.is og Eyjan fjalla um ræðu Árna Páls Árnasonar sem hann hélt á ráðstefnu um Evrópumál í Ósló í gær. Það er greinilegt að ræðan hans Árna Páls hittir algjörlega í mark á þessum tímapunkti í evrópuumræðunni og við mælum með því að lesa hana þar sem hún er stórgóð, en hana má finna á heimsíðu hans arnipall.is.

Uppstilling Árna á því hversu mikil efnahagslegur ávinningur væri á aðild Ísland að Evrópusambandinu á móti þess sem við fengum við upptöku EES samningsins er sláandi;

Höfuðástæða aðildar Íslands að EES á sínum tíma var tollfríðindi fyrir fisk sem metin voru að verðmæti um tveggja milljarða íslenskra króna. Sem hlutfall af heildarútflutningstekjum var þessi upphæð 1.6% en 0,5% af vergri landsframleiðslu. Ef við skoðum hvað þessar hlutfallstölur þýða miðað við þjóðhagsreikning 2006, fáum við tölu milli 4 og 5 milljarða króna. Það er með öðrum orðum núvirt verðmæti þeirra hagsmuna sem mestu skipti fyrir okkur við aðild okkar að EES. Kostnaður heimila og fyrirtækja af íslensku krónunni er hins vegar í dag metinn á milli 50 og 100 milljarða króna á ári. Ekkert sýnir betur hversu gríðarlegir hagsmunir eru af því að fyrir íslensk fyrirtæki og heimili að fá stöðugan og viðskiptahæfan gjaldmiðil. Allir helstu stjórnmálaleiðtogar á Íslandi eru sammála um að evra verði ekki tekin upp sem lögeyrir á Íslandi án aðildar að Evrópusambandinu. Þess vegna mun spurningin um aðild verða áfram fyrirferðarmikil í umræðu á Íslandi.


Visir segir einnig frá því í kvöld að Sigurjón Árnason landsbankastjóri vilji að Íslendingar taki upp evru í náinni framtíð. Það er því ljóst að á þeim tímum sem krónan fellur um tugi prósenta og evran fer að ná upp í 100kr, að gjaldeyrisumræðan og evrópuumræðan munu vera mjög hávær allt þetta ár.

Skýrsla utanríkisráðherra um Evrópumál

Skýrsla utanríkisráðherra um Evrópumál var rædd í þinginu í gær, og það er ljóst að þessi nýjung í störfum þingsins er mjög mikilvæg fyrir Evrópu-umræðuna á Íslandi en ekki bara á Alþingi Íslendinga. Eins og kemur fram í skýrslunni og sagt er frá í frétt mbl;

Í skýrslunni segir að skörun sé milli EES-samningsins og 22 af 35 köflum sem ESB skiptir aðildarviðræðum sínum við ný ríki upp í. Ingibjörg segir það sýna hversu nálægt kjarna ESB Ísland sé komið í gegnum EES-aðildina. „Í okkar tilviki þá liggur fyrir að 22 af þessum 35 köflum eru í lagi. Við erum því búin að taka upp mjög mikið af regluverki ESB, þó ég geti ekki slegið prósentutölu á það. En hlutfallið er hærra en ef 22 yrði deilt í 35 því við erum líka búin að taka upp hluta innan hinna kaflanna. Það er vegna þessa sem framkvæmdastjórar innan ESB, eins og Ollie Rehn sem er með stækkunarmálin, hafa sagt að það tæki mjög skamman tíma að leiða aðildarviðræður við Ísland til lykta. Menn hafa nefnt hálft ár.“


Skýrsluna í heild sinni má finna á http://www.althingi.is/altext/135/s/0590.html.
mbl.is Vill að Alþingi láti sig Evrópumál varða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband