Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2010

Grikkland: Lánastuðningi heitið

greek-flagAðilar Evrusvæðisins ákváðu í gær á símafundi að bjóða Grikklandi um 30 milljarða Evra, rúmlega 5000 milljarða íslenskra króna á komandi misseum, óski gríska stjórnin eftir því

Það er Financial Times sem greinir frá þessu. Að mati Jean Claude-Juncker er þetta merki um að mál séu að skýrast í sambandi við Grikkland.

Forsætisráðherra landsins sagði að þetta myndi veita Grikkjum aðgang að lánamörkuðum á hagstæðum kjörum, til þess að endurfjármagna skuldir sínar.

Frétt FT


Ingibjörg Sólrún vill draga umsókn í land - rétt greining?

Ingibjörg SólrúnIngibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrum leiðtogi Samfylkingarinnar, er þeirrar skoðunar að fresta beri aðildarviðræðum og umsókninni að ESB, en að halda áfram án þess að vita í raun hvert væri stefnt. Þetta er hennar persónulega skoðun og finnst henni að enginn sé að berjast fyrir aðild.

En er ekki stefnan skýr? Ísland hefur sótt um eftir lýðræðislegum leikreglum, það er stefnt á að aðildarviðræður geti hafist innan nokkurra vikna. Að þeim loknum liggur fyrir aðildarsamningur. Hann verður lagður í dóm þjóðarinnar og það mun ráða úrslitum um málið. Er þetta óskýrt?

Þeir tveir flokkar sem starfa saman í ríkisstjórn Íslands eru sammála um að vera ósammála í afstöðunni til ESB. Þar með fylgja þeir í raun grunnreglu lýðræðisins. Er hægt að hafa þetta mikið skýrar?

Það er sagt að vika sé langur tími í pólitík, hvað þá tvö (til þrjú) ár, sem er kannski sá tími sem tekur fyrir Ísland og ESB að koma fram með aðildarsamning!

Samkvæmt þessari hugmynd Ingibjargar Sólrúnar hefðu t.d. Svíar átt að hætta við umsókn, en þar voru neikvæðir fleiri en jákvæðir, alveg fram til þess dags að Svíar kusu. Þá sagði sænska þjóðin já. Andstaða var líka mikil í Finnlandi.

Undirbúningur þessa máls er í styrkum höndum Stefáns Hauks Jóhannessonar, sem fer fyrir íslensku samninganefndinni. Stjórnsýslan virðist ganga hnökralaust í málinu.

Kynna á ESB-málið á ráðstefnu í Kópavogi í næstu viku (t.d. sjávarútvegsmál og byggðamál) og þá munu Samtök Iðnaðarins einnig halda ráðstefnu, þar sem Stefán er meðal gesta. 

Blaðagreinar birtast um ESB-málið og blogg eru virk, reglulegir fræðslufundir eru hjá samtökunum Sterkara Íslandi í húsnæði þeirra í Skipholti í Reykjavík.

Því vaknar sú spurning hvort þetta sé allsendis rétt greining hjá Ingibjörgu?

En að sjálfsögðu fagna NEI-sinnar orðum sem þessum, en hver veit hvert þeir vilja stefna? Nei, þeir segja það nefnilega aldrei.


ESB og Landhelgisgæslan í samvinnu

TF SIFMorgunblaðið og Viðskiptablaðið greindu frá því í vikunni að Evrópusambandið muni frá og með 20. apríl njóta starfskrafta Landhelgisgæslunnar við eftirlit á Miðjarðarhafi og við Senegal. Morgunblaðið skrifar:

"ÆGIR, varðskip Landhelgisgæslunnar og flugvélin TF-SIF verða í verkefnum fyrir Evrópusambandið í sumar og fram á haust við strendur Senegals og í Miðjarðarhafinu. Þau munu gæta ytri landamæra Schengen en Ísland er aðili að landamæraeftirlitinu Frontex í gegnum Schengen-samstarfið. Ægir leggur af stað í kringum 20. apríl til Senegal, en fer síðan um mitt sumar í Miðjarðarhafið og verður við eftirlit við Spán og síðan við Grikkland.

Allur kostnaður er greiddur af ESB, en Georg Lárusson, forstjóri LHG, segir að með þessu þurfi ekki að segja upp heilli skipsáhöfn og fleira starfsfólki. Einnig sé hægt að endurráða flugmenn sem sagt hafi verið upp og þjálfa nýja. Allt í allt haldast um 40 stöðugildi."

Samkvæmt frétt Morgunblaðsins, undir fyrirsögninni SKIP OG FLUGVÉL FRÁ GÆSLUNNI TIL AFRÍKU, er ekki talið að verkefnin feli í sér hættu, en líklegt þykir að um björgunarverkefni verði að ræða. Margir reyna að komast til Evrópu yfir Miðjarðarhafið.

Við þetta má bæta að hin nýja vél Gæslunnar er með fullkomnari leitarvélum sem völ er á og mjög vel tækjum búin.

Hér sannast enn og aftur gildi Evrópusamstarfs og í raun má segja að allir vinni á þessu: Eftirliti og gæslu er viðhaldið á þeim hafssvæðum sem um ræðir, starfsmenn Gæslunnar halda vinnunni og eru endurráðnir og fá dýrmæta reynslu, íslenska ríkið sleppur við að borga þeim atvinnuleysisbætur og Ísland "er með."

Gott mál!

Fyrir áhugasama: Uppl. um TF-SIF


Svona lagað gerist ekki í Evrópusambandinu...

Eldgos í HeimaeyEins og kunnugt er, hefur Halldór Gunnarsson, skopteiknari fært sig yfir á Fréttablaðið, frá Mogga. Moggi auglýsti eftir nýjum teiknara. Á Silfri Egils er skemmtileg mynd, sem tengist þessu...og Evrópusambandinu. Smellið á þessa krækju.

Svo er það bara spurningin, ef við göngum í ESB, mun ESB taka af okkur eldfjöllin?

(Mynd: Sigurgeir Jónasson)


Brita Skallerud: Norskir bændur einmana, gangi Ísland í ESB

Brita SkallerudOg meira af landbúnaði. Í Bændablaðinu frá 25.mars er viðtal við Britu Skallerud, sem er annar varaformanna norsku bændasamtakanna, en þau styðja íslensku bændasamtökin dyggilega í andstöðu sinni gegn ESB. Norskur landbúnaður er eins og sá íslenski, mjög ríkisstyrktur. Fyrirsögn viðtalsins er TEKJUR BÆNDA VERÐA AÐ AUKAST og þar segir Brita að bændur vilji ekki auknar tekjur til þess að verða ríkir, heldur þurfi bændur hærri tekjur til að geta framleitt matvæli.  Brita segir einnig að með hærri tekjum hverfi nær öll vandamál sem greinin á við að glíma, en taka bera fram að hún er að tala um norskan landbúnað. 

En svo spyr blaðamaðurinn, Freyr Rögnvaldsson, hvernig eigi að auka tekjur bænda? Svar Britu er loðið, en af því má helst skilja að auknar tekjur bænda eigi að koma frá ríkinu, og að það kosti peninga að framleiða mat. Svo tekur hún fram að í Noregi eyði neytendur hærra hlutfalli tekna sinna í frítíma og ferðalög, en mat.

Sem er kannski engin tilviljun, enda Noregur eitt dýrasta land í heimi! T.d. er verslun Norðmanna á landamærum Noregs og Svíþjóðar mjög blómleg, en Norðmenn flykkjast yfir til Svía, til þess að versla ódýrar matvörur, þar með talið mikið af landbúnaðarvörum! Svo eru Norðmenn líka þekktir fyrir sparsemi!

Brita Skellerud hvetur íslenska bændur til að vera á móti ESB og segir norsku bændasamtökin vera tilbúin til þess að styðja þá baráttu ,,með ráðum og dáð.“ Hún segir að norskum bændum myndi þykja það leitt ef Ísland gengi í ESB, þá yrðu þeir dálítið einir í norrænu samstarfi. En snýst málið um það að norskum bændum leiðist ekki? Því í viðtalinu viðurkennir eða segir Skellerud að aðild Ísland myndi ekki breyta miklu fyrir norskan landbúnað! HALLÓ!

Það læðist því að manni sú hugmynd hvort íslenskir bændur séu í raun (að minnsta kosti að hluta til) að segja NEI fyrir norska bændur, svo að líf þeirra verði örlítið skemmtilegra og forða þeim frá félagslegri einangrun í norrænu samstarfi. Vá!

Ps.  Við vinnslu þessarar færslu komst bloggari að því að ekki er lengur hægt að taka beinar tilvitnanir úr PDF-útgáfu Bændablaðsins. Vistun þess er nú þannig að sé það reynt, koma einungis óskiljanleg tákn, þegar reynt er að setja textann inn í ritvinnsluforrit. Er þetta merki um aukna lýðræðisást samtakanna og viðleitni þeirra til að efla umræðu um ESB?

Viðtalið í Bændablaðinu


Sauðfjárbændur vilja draga ESB-umsókn til baka

HryggurÁrsfundi lamakjötsframleiðenda lauk í dag, sem hefur staðið frá því í gær. Þar hafa ýmis hagsmunamál bænda rædd, skuldavandi, nýliðun í bændastéttinni (meðalaldur 50 plús), samkeppni við aðrar búgreinar o.s.frv. Þá ræddu þeir einnig það mál sem Bændasamtökin neita í raun að ræða, ESB-málið. En bændur ræða ekki ESB-málið, af því þeir vilji vera með, heldur af því þeir vilja að Ísland gangi alls ekki í sambandið. Bændur eru nefnilega logandi hræddir um að íslenskur landbúnaður leggist af, við aðild, sem hefur hvergi gerst!

Landssamtök Sauðfjárbænda vilja að umsóknin verði dregin til baka. Ókei, það kemur ekkert á óvart, þetta verður söngur bænda á komandi misserum...


Húmorískur Sigurgeir, formaður sauðfjárbænda!

Sindri SigurgeirssonSkemmtiinnslag fréttatíma RÚV-Sjónvarps í kvöld átti formaður sauðfjárbænda, Sindri Sigurgeirsson. Verður þetta að teljast gott dæmi um leiftrandi húmor formannsins, en hann fullyrðir að ESB stundi skipulegan heilaþvott hér á landi og sakaði hann ESB um að draga upp glansmynd af sjálfu sér í ferðum sem bændum hafi verið boðið í.

Þetta á Sindri að hafa heyrt frá mönnum sem hann þekki og svo framvegis (honum var s.s. ekki boðið, eða??). Þá verður einnig að segjast eins og er að nálgun fréttamanns RÚV var einstaklega ógagnrýnin, Sindri þurfti ekki að svara neinum óþægilegum eða óvæntum spurningum Gísla Einarssonar.

Þetta er gott dæmi um hinn fáránlega raunveruleika sem við blasir í Evrópuumræðunni, þar sem bull sem þetta ræður ríkjum. Að sjálfsögðu er ESB ekki að reyna að heilaþvo einn eða neinn, það eru orð Sindra. En auðvitað dregur ESB fram og reynir að sýna það jákvæða við sambandið! En datt bændunum ekki í hug að spyrja um hið neikvæða. Eða gengu þeir bara hljóðir um sali?

Allir vita, líka við Evrópusinnar að ESB er ekki fullkomið, frekar en önnur mannanna verk! En það skaðar ekkert að spyrja!

Myndi Sigurgeir t.d. byrja kynningu á Bændasamtökum Íslands á því að segja: ,,Við erum ríkisrekin samtök, sem þiggjum um 10 milljarða á ári frá íslenskum skattgreiðendum." Myndi hann ekki frekar reyna að draga upp á mynd að íslenskur landbúnaður væri umhverfisvænn og þekktur fyrir gæðaframleiðslu og að íslendingar elskuðu lambakjöt, rjóma, smjör og skyr!

Svo dregur hann að sjálfsögðu fram hina "sviðnu-jörð"-senu, þar sem hann segir að um 35-40% verðfall, verði á afurðum bænda við inngöngu í ESB. Hins vegar er ekkert sem segir að svo verði.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að lesa ræðu Sigurgeirs frá því í morgun, þar sem "sýn" hans á Evrópumálin kemur frem geta gert það hér. Í henni segir hann m.a.:

"Á þessum aldarfjórðungi sem liðinn er frá stofnun samtakanna hefur margt breyst. Samdráttur hefur orðið í framleiðslu um 27% og birgðastaða er nú 40% lægri en hún var á sama tíma 1985. Á þessum tíma hefur mikil neyslubreyting á sér stað í þjóðfélaginu og neysla á lambakjöti farið úr 41 kg á íbúa í 23 kg. Á sama tíma hefur heildarkjötneysla aukist úr 66 í 85 kg á mann. Niðurstaðan er því sú að lambakjöt hefur látið í minni pokann fyrir hvíta kjötinu, þar sem neysla á svínakjöti hefur aukist um 230% og neysla á alifuglakjöti um 300%. Við hljótum að vera sammála um að við þetta verður ekki unað. Þessa þróun verður að stoppa með öllum tiltækum ráðum. Þó vel hafi tekist til í útflutningi er okkar heimamarkaður gríðarlega mikilvægur og þurfum við því að gera allt sem í okkar valdi stendur til að stöðva undanhald kindakjöts á íslenskum kjötmarkaði."

(..."með öllum tiltækum ráðum." Hvað þýðir það?)

Bloggari bendir á að allar þessar breytingar gerðust án nokkurrar aðkomu ESB! ESB er s.s. ekki skúrkurinn hér, heldur er þetta þróun sem er óumflýjanleg. Til dæmis borðar fólk nú meira af pasta (sem ekki var til hér á landi fyrir nokkrum áratugum) og grænmeti.

Fréttamyndband RÚV hér 

 


Leið Eistlands inn í Evrópusambandið: Frá aðildarumsókn til aðildar

Hádegisfundur á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands

Marten KokkLeið Eistlands inn í Evrópusambandið: Frá aðildarumsókn til aðildar.
Marten Kokk, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneyti Eistlands.
Þriðjudaginn 13. apríl frá kl. 12:00 til 13:00 í Árnagarði, stofu 201.


Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands boðar til fundar með Marten Kokk, ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneyti Eistlands,  þriðjudaginn 13. apríl frá kl. 12 til 13 í Árnagarði, stofu 201. Kokk mun fjalla um aðildarferli Eistlands að Evrópusambandinu og sex ára reynslu þeirra af aðild.

Kokk er lögfræðingur að mennt með sérhæfingu í mannréttindum og áfallastjórnun. Hann hefur víðtæka reynslu í utanríkismálum hafandi starfað innan eistnesku utanríkisþjónustunnar frá árinu 1994.

Fundurinn fer fram á ensku og er öllum opinn. Sjá http://www.hi.is/ams  

Nánari upplýsingar veitir Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofnunar, í síma 525 5262 eða 693 9064. Einnig má hafa samband við stofnunina á netfangið ams@hi.is


Beðið eftir Godot, afsakið, GJALDÞROTI!

AkropolisNei-samtök Íslands í Evrópumálum, skrifa mikið um Grikkland á vefsíðu sinni. Nú síðast er þar að finna þýðingu á grein úr Financial Times, þar sem gjaldþroti Grikklands er spáð, ekki á þessu ári, heldur því næsta. Það er líkt og þessi samtök bíði í raun eftir því að Grikkland fari í þrot! Grikkland er nefnilega Evru-land og Nei-samtökum Íslands virðist mislíka allt sem kemur frá ESB, heitir Evra, eða tengist Evrópu á einhvern hátt. Halda mætti að Nei-samtök Íslands séu á móti Evrópu í heild sinni!

En þau segja ekkert hvað þau vilja (í staðinn), eru sífellt að tauta um kosti þess að geta gert tvíhliða viðskiptasamninga, en við hverja vantar alveg! Það er sérlega áhugavert að fá að vita það, sérstaklega í ljósi þeirrar sögulegu staðreyndar að yfirgnæfandi meirihluta útflutnings Íslendinga fer til Evrópu! Vilja Nei-sinnar leggja af útflutning til Evrópu?

Nei-sinnar vilja hafa krónuna til þess að geta gengisfellt hana eftir þörfum, að sögn þeirra sjálfra til þess að "auka samkeppnishæfni” íslenskra fyrirtækja. En hvað skyldu gengisfellingar hafa kostað íslensk fyrirtæki, starfsmenn þeirra og eigendur í gegnum tíðina?

Svo nöldra Nei-sinnar yfir kostnaði við aðildarumsókn!

Í pistli sem nefndur er á undan þessari færslu bendir Georg Brynjarsson, hagfræðingur á að lækkun vaxta á Íslandi, að ámóta vaxtastigi og er í Evrópu, muni geta numið allt að 80 milljörðum króna! Nei-sinnar vilja halda þessu kerfi, það helst ef haldið verður í krónu og kerfinu haldið óbreyttu. Verðtrygging, verðbólga,háir vextir, haftakróna.

Þetta lýsir ef til vill best framtíðarsýn (og heimzzýn) íslenzkra Nei-sinna!


Vaxtamunur - Ísland/Evrusvæðið: Georg Brynjarsson

Georg BrynjarssonÞað er alltaf áhugavert að sjá "nýja penna" í Evrópuumræðunni, það eykur fjölbreytni hennar, fleiri sjónarhorn og skoðanir koma fram. Georg Brynjarsson, meistaranemi í hagfræði í Danmörku, skrifar áhugaverða grein um vaxtamun milli Íslands og annarra land í pistli á Eyjubloggi sínu.

Í pistli sínum segir Georg m.a.: 

"Flestar rannsóknir benda til þess að vaxtaálagið myndi minnka við upptöku evru á Íslandi. Vegur þar þyngst að gengisáhættan gagnvart evrusvæðinu þurrkast út auk þess sem verðbólguáhætta til lengri tíma minnkar. Til skemmri tíma mætti þó búast við lítilsháttar hækkun á gjaldþrotaáhættu og almennri markaðsáhættu. Þá stæði eflaust alltaf eftir eitthvað seljanleika- og fjarlægðarálag.

Ýmsir hafa reynt að leggja mat á hlutfallsskiptingu núverandi vaxtaálags í því augnamiði að reyna að meta áhrif upptöku evru á vexti hérlendis. Sé gengið út frá fyrrnefndri niðurstöðu um meðaltals vaxtaálag milli Íslands og evrusvæðisins uppá 2,25% má lesa úr rannsóknum að vextir lækki um 0,2% til 2,25% þegar gott jafnvægi ríkir í þjóðarbúskapnum."

Allur pistill Georgs

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband