Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2010

Endurskoðunarsinninn Ásmundur sér rautt!

Ásmundur Einar DaðasonNei-sinni númer eitt á Íslandi er fæddur 1982 og er því tæplega þrítugur. Ásmundur Einar Daðason heitir hann og er s.k. "endurskoðunarsinni", þ.e. hann vill endurskoða umsóknina að ESB.

Þetta staðfestir hann í grein í Fréttablaðinu í dag. Þetta er sorgleg afstaða ungs manns, sem sjálfur (samkvæmt kynningu á vef Alþingis, þar sem hann vinnur) rekur "innflutnings- og sölufyrirtæki með vörur fyrir landbúnað." 

Það vekur því spurningar hvernig "bissnessinn" gangi? Hvort ÁED líki t.d. viðskiptaumhverfið, hvernig gangi hjá honum að sjá framtíðina í rekstrinum með íslensku krónunni, hvernig áætlanamálin í rekstrinum gangi í hávaxtaumhverfi og óðaverðbólgu (þó hún fari nú lækkandi)?

Þetta eru nefnilega atriði sem Ásmundur þyrfti ekki að hafa áhyggjur af við aðild að ESB, það er að segja háir vextir og verðbólga. Og margt annað fleira, t.d. tollar og afnám þeirra fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir.

En þetta vill hann ekki. Ásmundur er nefnilega fastur á bási hjá samtökum bænda, bæði þeirra eldri og yngri, sem alls ekki vilja ræða ESB og hafa í raun sagt sig frá ferlinu.

Það er hinn lýðræðislegi hugsunarháttur Bændasamtakanna!

Ásmundur er landsbyggðarmaður, en í aðild að ESB felast einmitt mörg tækifæri til þróunar byggðamála og landbúnaðar. Til dæmis hvað varðar að gera íslenskan landbúnað enn vistvænni eða "grænni", en Ásmundur tilheyrir jú Vinstri-GRÆNUM, sem segir sig vera umhverfisflokk.

Hvernig vill Ásmundur t.d. haga samvinnu Íslands og annarra (Evrópu)þjóða varðandi umhverfismál í framtíðinni?

Hvernig á sá vettvangur að líta út að hans mati, hvernig ætla íslenskir umhverfissinnar að láta til sín taka í framtíðinni? Fyrir land og þjóð!

Nei, grænt er ekki liturinn sem Ásmundur sér, heldur er það rautt, þegar minnst er á ESB. Er það einhver roði í austri sem Ásmundur sér, eða?

Að lokum: Bendum hér með Ásmundi á greinar um byggðamál á vef Evrópusamtakanna! 

Sem og þessa grein eftir Jón Sigurðsson, fyrrum formann Framsóknarflokksins.

 

 


Svavar Gestsson um ESB-málið

Svavar GestssonSvavar Gestsson, sendiherra, ritaði í gær grein um ESB-málið og þar segir hann m.a.:

" Hafin er mikil hreyfing gegn umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Mjög áberandi í þeirri hreyfingu er Sjálfstæðisflokkurinn. Í greinargerð með tillögu til þings-ályktunar um að taka umsóknina til baka er tjaldað til röksemdum gegn umsókn fremur en aðild. Kvartað er um slælegan undirbúning stjórnvalda, kostnað við aðildarumsóknina og ágreining ríkisstjórnarflokkanna um málið! Ég hélt satt að segja að það væri kostur í augum andstæðinga ESB. Í greinargerðinni eru nefnd 20 atriði sem nær öll eru tæknilegs eðlis eða út í hött eins og það síðastnefnda."

Hér er öll grein Svavars.


Listin að bjaga sannleikann

NeiNei-sinnar eru víða á netinu, m.a. Nei-samtök Íslands. Á bloggi þeirra er nýleg færsla í ,,ESB vill rupla og og ræna og taka af okkur allar auðlindirnar"- stílnum um olíuvinnslu. Í færslunni er fullyrt að nú vilji ESB taka yfir alla olíuvinnslu í Evrópu, í kjölfar hamfaranna hjá BP í Mexíkó-flóa.

Færslan er byggð á frétt á EuObserver, en hinsvegar fær innihaldið hressilega bjögun hjá Nei-sinnum.

Allt til þess að ESB líti út eins og vondur hrægammur, sem sölsar undir sig allt sem sambandslöndin eiga verðmætt.

En að sjálfsögðu er það ekki þannig.

Svona er færsla Nei-sinna:

"Gunther Öttinger, ráðherra orkumála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, hefur kallað eftir því að sambandinu verði falið að hafa yfirstjórn með allri olíuvinnslu í ríkjum þess í kjölfar olíuslyssins á Mexíkóflóa. Evrópusambandið sæi þar með m.a. um að gefa út leyfi til olíuvinnslu í stað ríkjanna og eftirlit með allri slíkri starfsemi innan sambandsins.

Í umræðum á þingi Evrópusambandsins í gær 8. júlí lýsti Öttinger því yfir að ríki sambandsins ættu að íhugað það alvarlega að gefa eftir völd yfir olíuvinnslu til þess. Hann sagði að eftirlit af hálfu ríkjanna yrði vissulega áfram til staðar en að hann teldi það góða hugmynd að innleiða almenna staðla og yfirstjórn af hálfu Evrópusambandsins."

Svona er hinsvegar frumtextinn:

"EUOBSERVER / BRUSSELS - EU energy commissioner Gunther Oettinger has indicated that member states should stop giving out fresh permits for deep-water oil drilling in the light of the BP oil catastrophe.

"I am considering discussing this with member states, so that when new permits are issued, especially in extreme cases, they will consider deferring this," he told MEPs at a debate in Strasbourg on Wednesday (8 July).

The commissioner underlined that decisions on oil permits are made exclusively by national capitals. But he said member states should consider giving away some powers in future.

"National supervision will certainly remain in place but it would be a good idea to have overarching European standards and a European supervisory authority," he said.

Mr Oettinger has launched talks with oil firms and member state authorities with a view to future proposals on supervision, emergency planning, clean-up operations, environmental liability and compulsory oil spill insurance.

On the pro-industry side, he noted that BP and Shell are major European employers."

Málið snýst hinsvegar um hugmyndir Öttingers um samræður við olíufélögin um útgáfu vinnsluleyfa. Það snýst um að auka og samhæfa eftirlit með þessari vinnslu, sem alls ekki er hættulaus, eins og dæmin sanna.

Að vísu segir hann að mögulega verði aðildarríkin að gefa hluta ákvörðunarvalds einhvern tímann í framtíðinni, en að sjálfsögðu er ekkert ákveðið með það. Takið eftir: Hluta (enska: some)

Við þetta hlaupa Nei-sinnar upp til handa og fóta og garga úlfur, úlfur! 

Málið snýst líka um að ræða almennt eftirlit (supervision) neyðaraðgerðir, umhverfislega ábyrgð og tryggingar ef til olíuleka kemur. Göttinger telur það góða hugmynd að hafa samhæft eftirlit með þessum málum og það er alls ekki galin hugmynd. Dæmi um samhæft eftirlit er t.d. á sviði flugmála og flugumferðarstjórn. En þetta eru aðeins hugmyndir hans!

Nei-sinnar eru duglegir við að bjaga sannleikann, taka bara það út sem hæfir þeirra einfalda málflutningi. Þegar kafað (eða borað!) er dýpra kemur hinsvegar allt annað og meira í ljós.

Þetta er ekki til sóma! Og þetta er ódýrt!

 


Röddunum fjölgar!

Finnur ÁrnasonÞað ánægjulega við Evrópuumræðuna undanfarnar vikur er sú staðreynd að mun fleiri og nýir álitsgjafar hafa tjáð sig um þessi mál. Í gær bentum við við á góða grein Hannesar Péturssonar skálds í Fréttablaðinu á laugardaginn. Í dag kveður Finnur Árnason, forstjóri Haga, sér hljóðs á  Pressunni. Þar segir hann meðal annars:

,,Íslenska þjóðin er í meginatriðum sammála í afstöðu sinni til aðildar að Evrópusambandinu. Í nýlegri könnun kom fram að 71% þjóðarinnar er fylgjandi aðild, svo fremi að við höldum yfirráðum yfir auðlindum okkar. Þetta er ákveðin afstaða og á sama hátt skýr skilaboð til stjórnvalda og samninganefndar okkar.

Það er augljóst að þjóðin vill aðildarviðræður, en er ekki tilbúin að gefa eftir yfirráðarétt að auðlindum, þar með talin fiskimiðin og orkuna. Þetta er skynsamleg afstaða.

Ég er í hópi 71% þjóðarinnar, sem vill kanna hvað er í boði fyrir okkur sem þjóð í viðræðum við fulltrúa Evrópusambandsins. Á sama hátt vil ég standa vörð um auðlindir okkar og að það sé tryggt að þær tilheyri þjóðinni til framtíðar. Samkvæmt framangreindri könnun er vilji til að fá niðurstöðu, þar sem kemur skýrt fram hvað okkur stendur til boða. Ef við höldum yfirráðum yfir auðlindum okkar og samningurinn er hagstæður að öðru leyti er þjóðin fylgjandi inngöngu. Ef við höldum ekki yfirráðum á auðlindum okkar og samningurinn er óhagstæður er þjóðin andvíg aðild. Eitt má þó lesa út úr niðurstöðu könnunarinnar og það er að þjóðin vill láta þessar viðræður fara fram og sjá hver niðurstaðan er."

Hægt er að lesa greinina í heild sinni á þessari slóð:



Tryggvi Haraldsson: Haltur leiðir blindan

Tryggvi HaraldssonStjórnmálafræðingurinn Tryggvi Haraldsson skrifaði ágæta grein í Fréttablaðið þann 8. júlí um Evrópumál og þar segir hann m.a.:

"Enn einu sinni stendur fólk, sem vill upplýsta umræðu um Evrópumál og skýrar upplýsingar í aðildarsamningi frammi fyrir því að þurfa að svara fyrir lýðskrum nokkurra einstaklinga sem ekki virðast geta fellt sig við lýðræðislega ákvörðun Alþingis. Til að byrja með er auðvelt að benda þeim Unni, Ásmundi, Gunnari Braga og Birgittu á það að ef eitthvað myndi skaða orðspor landsins í því uppbyggingarferli sem það er þó lagt upp í, væri það að vera fyrsta landið til að draga umsókn sína að ESB til baka áður en aðildarviðræður hæfust. Fordæmi eru fyrir því að aðildarumsóknir hafi verið frystar en aldrei dregnar til baka, áður en þjóðin fær að taka afstöðu til aðildarsamningsins þótt umræða um slíkt hafi t.d. verið til staðar á Möltu. Þjóðir á borð við Noreg og Sviss hafa báðar hafnað aðildarsamningi og hef ég ekki vitneskju um að þær hafi nokkurn tíma skert velvilja annarra þjóða í sinn garð.

Það sér allt gagnrýnið fólk að hugmyndir um að draga umsóknina til baka eru langt frá því að vera til sóma nú þegar fólk vinnur að því hörðum höndum að skapa umhverfi og breiðari sátt fyrir upplýsta Evrópuumræðu um allt land þegar aðildarferlið hefst. Að því ferli mun koma fjöldi fólks, bæði með hjálp íslenskra stjórnvalda og framkvæmdastjórnar ESB. Það er hin eiginlega upplýsingagjöf sem fólk um land allt hefur verið að kalla eftir í mörg ár og þröngir hagsmunahópar innan t.d. stjórnmálaflokka (og þingmenn þeirra) vilja koma í veg fyrir. Ég hvet andstæðinga aðildar til að kynna sér þann stuðning sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins veitir umsóknarlöndum áður en hlaupið er upp til handa og fóta með upphrópunum sem eru landi og þjóð til skammar. Slík orðræða getur verið töff og virkað sterkt á einhverja en er langt frá því að vera sú umræða sem við þurfum að ganga í gegnum núna."

Öll grein Tryggva

 


Grímur með nýjan pistil

Grímur AtlasonAnnar góður bloggari er Grímur Atlason. Hann er á svipiðum slóðum og Guðmundur Gunnarsson, í nyjasta pistli sínu, þar sem hann segir m.a.:

"Ég hef verið að hlusta á LÍÚ og aðra afturhaldsseggi sem enn fara með allt of mikil völd á Íslandi. Tæplega 200 kvótaeigendur berjast með kjafti og klóm gegn því að Íslendingar fái að kjósa um það hvort þjóðinni yrði betur borgið innan eða utan Evrópusambandsins. Þessi hagsmunagæslukór hefur keypt sér Morgunblaðið og notar hvert tækifæri til þess að dæla út skrumskældum áróðri sínum.

Síðustu daga hef eg einnig verið að lesa í Þórbergi, Bréf til Láru er fullt af visku sem virðist eiga einkar vel við í dag. Þar segir Þórbergur m.a. frá vini sínum sem var “stokkfreðinn Morgunblaðs-maður.” En Þórbergur segir fleira:

Í heimi þessum berjast tvö andstæð megin öfl, afturhald og framsókn [ekkert tengt Sigmundi eða Hriflunni]. Afturhaldið, heimskan, deyfðin og aðgerðarleysið er í ætt við efnið og ellina. Það er stamt fyrir og skilningslaust. Hugsun þess mjakast áfram eftir spori vanans. Það streitist við að halda rás atburðanna í sama horfinu og þeir runnu í á dögum afa og ömmu. Það á enga hugsjón aðra en þá að hindra rás þróunarinnar og hrúga að sér veraldlegum gæðum. Það þekkir enga heildartilfinningu, ekkert heildarsiðferði, ekkert óeigingjarnt samstarf. Út á við fylkir það sér að vísu í heild til þess að vernda rétt sinn, en að eins meðan það hefir “praktískt” gagn af því. Innra er það saman sett af sundurlausum öflum, sem hatast og heyja látlaust kapphlaup um völd, metorð og auðæfi. Gildi hlutanna miðar það við “praktískt” gagn. Allt, sem ekki kemur að “praktískum” notum, er einskinsvert. Þetta er lífsspeki andleysisins. Það vakir yfir helgi eignarréttarins eins og villidýr yfir bráð sinni. Heimurinn er “ég” og “mitt”. Lóðin mín, húsið mitt, ó, togararnir mínir. (Bls. 12 í Stórbókinni sem kom út árið 1986)

Já, þeir berjast fyrir “sínu” fyrir “sig” og virðast því miður komast nokkuð langt með það ef marka má stöðu ýmissa mála – m.a. Evrópumálanna."

Allur Grímur

 


Guðmundur Gunnarsson: Mótsögnin blasir við...

Guðmundur GunnarssonGuðmundur Gunnarsson, Eyjubloggari, lætur ekki deigan síga í nýjasta pistli sínum og ræðir þar m.a. þá staðreynd að helstu útgerðarfélög landsins eru farin að gera upp í Evrum. Guðmundur segir m.a.:

"Mótsögnin blasir við í því að útgerðarmenn sem fjármagna þessa herferð gegn aðildarviðræðum að ESB, nota ekki krónuna til þess að gera upp sín viðskipti og þeir nota Evru, en vilja nota krónuna til þess að geta blóðsúthellingalaust haldið launum í landinu niðri. Ísland verði láglaunasvæði sem velmenntað vinnuafl flýr.

Ný könnun á vegum samtaka dönsku verkalýðsfélaganna sýnir að tugi þúsunda af hámenntuðu starfsfólki muni skorta á danska vinnumarkaðinn fram til ársins 2019 og þangað leita íslenskir menntamenn. Í niðurstöðum kemur fram að hámenntað starfsfólk skili mun meiru inn í hagkerfið en lítt menntað. Þetta helgast m.a. af því að hámenntað fólk býr við meira starfsöryggi, skilar meiri framleiðni, tekur færri veikindadaga og fer seinna á ellilífeyri en þeir lítt menntuðu.

Ef nota á krónuna verða vextir að vera hærri en í samkeppnislöndunum og verðtrygging er óhjákvæmileg. Skattar þurfa að vera hærri til að byggja upp gjaldeyrisvarasjóð og velferðarkerfið verður máttvana vegna fjárskorts. Verðtryggða krónan var innleidd sakir þess efnahagslífið gekk ekki með óverðtryggðri krónu. Það munum við vel sem vorum að reyna að koma þaki yfir okkur á árunum 1980 – 1990. En fyrir því voru líka siðferðileg rök, talið var réttlátt að þeir sem áttu aðgang að lánum greiddu þau til baka í sama verðgildi.

Málflutningur þeirra sem eru gegn því að íslendingar fái að taka málefnalega afstöðu til aðildar að ESB og þess að skipta um gjaldmiðil einkennist af einangrunarhyggju og þjóðarrembing. Ísland eigi að fá sérlausnir umfram aðra, þessu er haldið fram þrátt fyrir að erlend lönd vilja helst ekki eiga samskipti lengur við íslendinga. Þeir standa ekki við samninga og það sé nánast ómögulegt að fá niðurstöður í viðræður við samninganefndir sem koma frá Íslandi.

Nú liggur það fyrir að 71% þjóðarinnar vill fara þessa leið ef það liggi fyrir að við náum hagstæðri niðurstöðu í fiskveiðistjórnun. Báðir stjórnaflokkarnir vilja fá niðurstöður í aðildarviðræður, þó svo það liggi fyrir að VG sé á móti inngöngu. Sama má segja um stóran hóp innan Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.

En Heimsýnarhópurinn reynir allt sem unnt er að gera lítið úr afstöðu þeirra sem vilja láta reyna á umsóknarferlið. Viðbrögð á vettvangi stjórnmálanna benda til að lítill lærdómur hafi verið dreginn af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir að hruni krónunnar og bankanna.

Mótsögnin hjá Heimssýnar afstaða þeirra til nauðsynlegra efnhagsráðstafana til framtíðar, þetta blasir í umræðum um dóm Hæstaréttar. Þar ætla menn að bæði að halda og sleppa og stefna með því inn á sömu braut og leiddi til Hrunsins."

Pistillinn í heild sinni


Aldrei aftur Srebrenica! 15 ár frá fjöldamorðunum í Bosníu

Lík í SrebrenicaÞann 8. júlí voru 15 ár frá fjöldamorðunum í Srebrenica í Bosníu, en þá myrtu Bosníu-Serbar, undir stjórn herforingjans Ratko Mladic, um 8000 múslimska drengi og menn, í mestu fjöldamorðum frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Þessa atburðar er nú minnst í Bosníu og víðar.

Á árunum 1991-1995 liðaðist gamla Júgóslavía í sundur í ógurlegum þjóðernisátökum, þar sem vægðarlaus þjóðernishyggja og þjóðernisfyrirlitning voru í aðalhlutverki.

Átökin skildu eftir sig sjö ný riki í Evrópu: Slóveníu, Króatíu, Bosníu, Svartfjallaland, Serbíu, Makedóníu og Kosovó.

Síðan átökunum lauk hafa ríkin reynt að "normalísera" (afsakið slettuna) ástandið heima fyrir og m.a. gengið í Evrópusambandið, en Slóvenía var fyrst til að gera það árið 2004. Króatía á í aðildarviðræðum og Serbía hefur sótt um aðild. Makedónía er með málið á dagskrá.

Þetta breytir því þó ekki að hin hryllilegu fjöldamorð í Srebrenica eru enn opið sár í bosnísku samfélagi og Ratko Mladic - ja, enginn veit hvort hann er lífs eða liðinn. ESB hefur gert þá kröfu á hendur Serbíu að hann verði handtekinn og færður til stríðsglæpadómstólsins í Haag.

Hér er frétt frá BBC um málið

Srebrenica á Wikipedia


Össur: Munu ekki geta gert kröfu um aflakvóta í staðbundnum fiskistofnum

Össur Skarphéðinsson"Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefur undanfarna daga heimsótt Króatíu og Ungverjaland til þess að ræða stöðu Íslands varðandi komandi samningaviðræður Íslands við Evrópusambandið. Hann segir aðrar þjóðir ekki munu geta gert kröfu um aflakvóta í staðbundnum fiskistofnum og vill að Ísland og Króatía verði samferða í aðildarviðræðum þegar Ungverjar taka við forystu sambandsins á næsta ári."

Þannig byrjar frétt Eyjunnar í dag um ferð Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra til Ungverjalands og Króatíu fyrir skömmu. Í fréttinni segir Össur um fund sinn með utanríkisráðherra Ungverjalands, Janos Martonyi:

"„Ég fór rækilega yfir með honum þá þætti sem skipta okkur mestu, ekki síst sjávarútvegs- og landbúnaðarmál,“ segir Össur við blaðið. „Ég lagði áherslu á þann skilning Íslendinga að reglur Evrópusambandsins tryggi í reynd að aðrar þjóðir geti ekki gert kröfu um aflakvóta í staðbundnum fiskistofnum í íslenskri fiskveiðilögsögu. Það skiptir miklu máli að Ungverjar, sem munu fara með forystuna þegar viðræðurnar hefjast, hafi góðan skilning á þessu úrslitamáli.“

Öll fréttin


Stóru orðin ekki spöruð!

Það er óhætt að segja að umræðunni um ESB eru stóru orðin ekki spöruð. Gott dæmi um slíkt birtist sem athugasemd við frétt Eyjunnar í dag varðandi Össu Skarphéðinsson. Látum efni fréttarinnar eiga sig hér, en ein nafnlaus athugasemdin segir kannski allt sem segja þarf:

"Össur fífill skilur það ekki að þjóðin ætlar ekki að vera í ESB.
Hann reynir að láta fólk erlendis trúa því að á Íslandi hafi fólk áhuga á því að eyða tíma, orku og peningum í eitthvað sem hefur ekekrt með hrunið og uppgjör þess að gera eins og að bjarga til dæmis heimilum og vernda auðlindir þjóðarinnar og fara að nota þær í uppbyggingu betra lífs fyrir Íslendinga t.d. í að rækta matvæli svo ekki þurfi að koma með það með skipum hér frá öllum heimshornum fyrir milljarða á mánuði.

Hann lætur eins og hann sé ekki einn af landráðamönnunum sem eru alltaf að svíkja þjóðina.

Hann reynir að fá fólk hérlendis sem erlendis að stríðsglæpa-, hryðjuverka-, og barnamorðingjaríkin í ESB, usa, rusllandi, kínafífl og víðar séu vinir okkar í heimsþorpinu og við eigum að ganga í lið með þeim og vera hluti af glæpa- og spillingarkerfinu þeirra.

En það viljum við ekki og það erum við alltaf að segja ykkur fíflunum, þér össuri og kristjáni guy burgess landráðamanni og föðurlandssvikara (föðurland hans er reyndar norður england stundum kallað skotland).

Hvenær eigum við að byrja byltinguna ?
Ég mæti alla vegana fyrir utan AGS skrifstofuna í dag kl 12:00 á bak við Stjórnarráðið."

(Feitletrun: ES-bloggið)

Önnur tilvitnun eftir sama aðila (partur):

"Það föðurlandssvikara pakk á Íslandi sem reynir að blekkja fólk, ljúga að því eða reka áróður fyrir því að Íslenska þjóðin gangi í eitthvert bandalag með þessum viðbjóði eru landráðamenn og samverkamenn þeirra.
Farið verður með það sem slíkt þegar upp verður staðið."

Ekki nema vona að umræðan sé eins og hún er! Og að fólk sem berst  fyrir m.a. lægri vöxtum, verðbólgu, bættu viðskiptaumhverfi og nothæfum gjaldmiðli, sé kallað landráðafólk!

Þetta er í hæsta máta ósmekklegt, en að sama skapi mjög algengt. Því miður!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband