Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

Guðmundur Andri Thorsson um gömlu tvíhyggjuna

Guðmundur Andri ThorssonGuðmundur Andri Thorsson, rithöfundur, skrifaði skemmtilega grein í Fréttablaðið í gær um Evrópumál, sem og annað. Fyrirsöfnin er: Tvíhyggjan gamla. Guðmundur Andri byrjar með þessum orðum:

"Það er hundur rétt hjá mér í götunni sem hrekkur alltaf í kút þegar hann sér mig og hugsar: Hvaða maður er þetta? Voff voff voff! Hann er mjög grunsamlegur! Voff! Ég þarf að hræða hann í burtu! Arff! Arrrf! Eigandinn kemur alltaf hlaupandi og hundskammar greyið og reynir að útskýra fyrir honum að ég sé bara nágranninn. Forgefins. Næst þegar hann sér mig hugsar hann: Hvaða maður er þetta? Voff! Hann er mjög grunsamlegur! Voff-voff! Stundum finnst manni eins og andstaðan við aðild Íslands að ESB sé af svipuðum toga, einhvers konar vanahugsun.

Horngrýtis taktíkin

Raunar beinist andstaða mest gegn því að ljúka aðildarviðræðum að ESB, sem andstæðingarnir kalla raunar alltaf „aðlögunarferli" og láta eins og Ísland hafi ekki einu sinni verið í EFTA og hvað þá EES áður en til þessara viðræðna kom. Og vilja með engu móti að vitnist hvað kann að bjóðast Íslendingum innan sambandsins.

Keppikeflið virðist fyrst og fremst að koma í veg fyrir að hagstæður samningur verði lagður fyrir þjóðina, því að þá kann svo að fara sem aldrei aldrei aldrei má gerast: að þjóðin samþykki aðild."

Öll greinin


Össur Skarphéðinsson: Rök andstæðinga aðildar eru sjaldan málefnaleg

Össur SkarphéðinssonÖssur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra er í laugardagsviðtali á Eyjunni og ræðir þar meðal annars ESB-málið.  Hann segir aðspurður um það hvort Íslendingar sé staddir í miðri aðlögun að ESB: "

"Nei, við erum ekki að breyta neinum lögum, reglum eða setja á stofn nýjar stofnanir vegna umsóknarinnar. Það er engin aðlögun í gangi vegna ESB. Fram að þjóðaratkvæði búum við okkur undir ferlið með því að leggja fram áætlanir um þær breytingar sem þarf að ráðast í ef þjóðin segir já við aðild, einsog um hvaða lögum þyrfti þá að breyta, hvort og hvernig þyrfti að breyta einhverjum stofnunum, eða undirbúa ný kerfi til dæmis í tolla- og skattamálum. Einsog aðrar umsóknarþjóðir eigum við rétt á því að Evrópusambandið standi straum af verulegum hluta þess kostnaðar. Ef þjóðin segir já verður þessum breytingum hrundið í framkvæmd á tímanum sem líður frá þjóðaratkvæði fram að staðfestingu aðildarinnar, eða á þeim tíma sem um kann að semjast í samningunum. Mottóið er semsagt, að það verður ekkert gert fram að þjóðaratkvæðagreiðslu sem virðir ekki þá grundvallarreglu að það er íslenska þjóðin sem á lokaorðið um aðild. Ég túlka álit utanríkismálanefndar þannig að ég hafi heimild til að gera allt sem þarf til að klára samninga og koma með þá heim í atkvæðagreiðslu, svo fremi það feli ekki í sér lagabreytingar án sérstaks samþykkis þingsins, eða nýjar stofnanir. Þetta er í gadda slegið milli okkar og Evrópusambandsins, og margrætt á Alþingi.

Ertu ósáttur við þennan málflutning af hálfu andstæðinga aðildar sem þú segir að haldi því ranglega fram að í gangi sé aðlögun?

Ég er sjaldan ósáttur en stundum undrandi á því að rök andstæðinga aðildar eru sjaldan málefnaleg. Þau snúast aldrei um hvað er gott eða vont fyrir Ísland, heldur um tæknilega hluti einsog hvort aðlögun sé í gangi, eða hvort það sé verið að múta fólki. Mér finnst stundum tvískinnungur í máli manna.

Í hverju birtist þetta sem þú kallar tvískinnung?

Til dæmis því að formaður Heimssýnar og aðrir andstæðingar ESB sífra mikið um það sem þeir kalla aðlögun á sama tíma og þeir greiða atkvæði viku eftir viku og mánuð eftir mánuð með fjölda laga og tilskipana, sem fela í sér blóðhráa aðlögun að Evrópusambandinu gegnum þátttöku okkar í Evrópska efnahagssvæðinu. Þá segja þessir heiðursmenn ekki múkk og samþykkja möglunarlaust allt sem ESB kemur með, jafnvel þó þeir eða Alþingi geti ekki breytt einum einasta stafkrók. Í mínum huga er þetta aðlögun einsog hún gerist verst, og fjarri því að vera lýðræðisleg. Ég veit ekki einu sinni hvort hún stenst lengur stjórnarskrána. Ein af ástæðunum til að ganga í ESB er að geta haft áhrif á lögin sem við þurfum í dag að taka hrá frá Brussel án þess að geta nokkru breytt.

Telurðu líklegt að þjóðin muni samþykkja ESB við þessar aðstæður?

Ég er nokkuð sannfærður um það. Icesave umræðan var hörð og pendúll þjóðarinnar sló þá inn í aukna þjóðerniskennd og fælni gegn útlöndum. Pendúllinn slær alltaf til baka. Icesave er að fjarlægjast, og nú eru menn að slakna. Þeir eru aftur orðnir opnari gagnvart umheiminum. Rótið á evrusvæðinu leiddi líka til aukinnar vantrúar á ESB, ekki bara hér heldur í öllum löndum Evrópu. Nú er hins vegar búið að styrkja evruna vel, og ég held að óróleikinn sem tengist henni sé senn að baki. Það birtist til dæmis í vaxandi hagvexti á evrusvæðinu. Það er svo nokkuð sterk vísbending um hvað kraumar undir niðri að ítrekaðar kannanir sýna að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga vill halda samningunum áfram. Þegar við náum góðum samningi um fisk, og fólk sér að við töpum ekki stöðu sem fiskveiðiþjóð munu Íslendingar fara að skoða málin af kostgæfni. Við erum Evrópuþjóð sem á heima í sambandinu, við höfum sterka pólitíska hagsmuni af því að gerast aðilar, til dæmis varðandi öryggi Íslands í framtíðinni, og þegar evran er komin á lygnari sjó munu menn skilja enn betur hversu mikið það myndi styrkja efnahag okkar í framtíðinni að taka hana upp. Hjá smáþjóðunum sem hafa gengið í Evrópusambandið hefur aðildin alls staðar leitt til aukins stöðugleika, miklu meiri fjárfestinga, lægri viðskiptakostnaðar og lægri vaxta. Í okkar tilviki myndi evran létta okkur leiðina frá verðtryggingunni og hjálpa okkur til að kasta gjaldeyrishöftunum sem ella gætu orðið viðvarandi í einhverri mynd. Öndvert Icesave, þar sem menn áttu bara val um mismunandi tegund af pústrum, þá er Evrópuleiðin valkostur um kjarabætur og um viðnám gegn atvinnuleysi. Þessvegna held ég að samningurinn verði samþykktur."

Allt viðtalið

 


Jón Kaldal í Fréttatímanum um Haftakrónuna

Jón KaldalLeiðari Fréttatímans, sem kom út í dag, fjallaði að mestu um gjaldmiðismál. Höfundur hans Jón Kaldal ræddi Icesave lítillega og sagði að sennilega myndi það mál leysast farsællega. Það væru góðu fréttirnar. En síðan sneri hann sér að þeim slæmu og segir:

"Boðberi þeirra var efnahags- og viðskiptaráðherra sem tilkynnti að enn þyrfti að herða á gjaldeyrishöftunum...Umræðan um þau samvöxnu fyrirbrigði, gjaldeyrishöftin og gjaldmiðil landsins, hefur hins vegar verið í algjöru aukahlutverki. Þó er það málið sem öllu skiptir fyrir efnahag landsins. Hvernig skyldi standa á þessu? Af hverju hefur umræðan snúist hring eftir hring um mál sem í raun er algjört aukaatriði? Líklegasta skýringin er þrekleysi þjóðarinnar og hinna talandi stétta. Icesave var hægt að mála í einföldum litum. Svart eða hvítt. Já eða nei. Gjaldmiðillinn er aftur á móti flóknara fyrirbrigði sem erfiðara er að tala um, sérstaklega ef þeir sem hafa tekið að sér að veita mismunandi pólitískum sjónarmiðum forystu, hafa ekki einu sinni mótað sér afgerandi skoðun á því hvert skal stefna í þessum efnum. Aðeins einn stjórnmálaflokkur hefur skýra stefnu um hver skal vera framtíðar gjaldmiðill Íslands. Samfylkingin vill ganga í ESB og taka upp evru eins fljótt og auðið er." Jón Segir Samfylkingu hinsvegar skorta plan B í þessum efnum en segir það vera ..."vissulega mun skárra en að vera ekki einu sinni með plan A eins og hinir flokkarnir. Í því samhengi er ekki trúverðugt þegar sagt er að við eigum að halda krónunni, bara vanda okkur meira en við höfum gert hingað til við hagstjórnina svo að nauðsynlegum stöðugleika sé náð. Liðnir áratugir hafa tekið af allan vafa um að króna og stöðugleiki geta ekki haldist í hendur."

Að lokum segir Jón Kaldal: "Haftakrónan hefur...verið stórkostlegur farartálmi í meira en ár. Það er löngu tímabært að umræðan um hana verði tekin af alvöru og dýpt. Of stór hluti stjórnmálaflokkanna hefur skotið sér undan því að ræða hvernig leysa eigi þetta langstærsta vandamál íslensks efnahagslífs."


Áhugavert útvarpsefni!

Eirikur BDr. Eiríkur Bergmann (mynd) ræddi ný-útkomna bók sína, Sjálfstæð þjóð-trylltur skríll og landráðalýður á Rás 2 á fimmtudaginn.

Hlusta má á það hér: http://dagskra.ruv.is/ras2/4540576/2011/05/19/4/

Á miðvikudagsmorguninn ræddi Dr. Jón Ormur Halldórsson einnig á Rás 1 hugtakið "Lýðskrum" í samnefndum pistli. Mjög áhugaverður pistill, sem hlusta má á hér: http://dagskra.ruv.is/ras1/4552296/2011/05/18/0/


Rýnifundum fækkar - styttist í eiginlegar samningaviðræður við ESB

island-esb-dv.jpgÁ vef Utanríkisráðuneytisins er sagt frá því að rýnifundi um efnahags og peningamál lauk þann 17. þessa mánaðar.

Í tilkynningu segir:" Á fundinum, sem var sá síðari af tveimur, báru sérfræðingar Íslands og ESB saman löggjöf í þessum samningskafla en hann stendur utan EES-samningsins. Fyrir íslenska hópnum fór Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sem er formaður samningahópsins.

Ríki sem ganga í ESB verða að taka mið af sameiginlegri efnahagsstefnu sambandsins sem miðar að því að tryggja sem best efnahagslegan stöðugleika m.a. með því að framfylgja ábyrgri stefnu í fjármálum hins opinbera. Þess er vænst að aðildarríkin verði hluti af evrusvæðinu, en til þess að aðildarríki sé heimilt að taka upp evru verður að uppfylla ákveðin efnahagsleg og fjárhagsleg skilyrði, svokölluð Maastricht-skilyrði, sem lúta að verðbólgu, langtímavöxtum, og fjármálum hins opinbera. Undirbúningsferlið að upptöku evru í gegnum þátttöku í gjaldmiðilssamstarfi Evrópu (ERM II) er eitt mikilvægasta viðfangsefni samninga vegna 17. kafla. Fyrir liggur að þátttaka í gjaldmiðilssamstarfi Evrópu (ERM II) í að minnsta kosti tvö ár er eitt að skilyrðum fyrir upptöku evru.

Á rýnifundinum var vakin athygli á að ræða þyrfti nánar umgjörð peninga- og gjaldeyrismála og hugsanlegan stuðning við afnám gjaldeyrishafta í samræmi við meirihlutaálit utanríkismálanefndar Alþingis. Einnig var vakin athygli á stefnu stjórnvalda um lækkun skulda hins opinbera."

Hér má svo lesa greinargerð um fundinn.

Rýnifundunum fer nú fækkandi og það þýðir aðeins eitt: Hinar eiginlegu viðræður um aðild Íslands að ESB geta þá hafist af fullum þunga.

Niðurstaða þeirr verður aðildarsamningur sem lagður verður fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Hið besta mál. 


Hvað getur maður sagt?

upphropunarmerki.jpgVitleysan sem er í gangi í sambandi við ESB-umræðuna hér á landi er nánast takmarkalaus. Þetta sést kannski best í greinum sem birtast á og í hinum ýmsu miðlum.

Dæmi: "En ESB vill stjórna öllum þáttum samfélags aðildarríkja sinna." (Evrópuvaktin, maí 2011)

Og vill ekki ESB líka stjórna gangi himintunglanna, litnum á himninum, veðri og vindum?

Vita aðstandendur Evrópuvaktarinnar ekki betur eða er þeim alveg sama hvaða staðlausu stafir standa á vef þeirra?

Annað dæmi:

"Ég dvaldist stóran hluta sumars 2009 á Landspítalanum við Hringbraut og kynntist þar pólskri gangastúlku sem ég var stundum að æfa í íslensku. Einhverju sinni þegar hún kom inn til mín var ég að horfa á fyrstu ESB-umræðurnar í sjónvarpinu. Hún spurði, hvað ég væri að horfa á. Þegar ég sagði henni það var hún fljót að fussa og sveia og sagðist ekkert vilja með ESB hafa því að það kallaði á tóm vandræði og vandamál og því skyldum við Íslendingar ekki fara þangað inn." (MBL, aðsend grein, 13.maí, 2011)

Af hverju getur þessi pólska stúlka unnið á Íslandi? Jú, vegna aðildar Íslands að EES og ekki minnst Póllands að ESB!

Sama pólska stúlka getur síðan án vandkvæða sótt um atvinnu í öllum 27 löndum ESB án vandkvæða, kjósi hún að gera svo!

Úr sömu grein: "Það hefur líka sýnt sig við rannsókn að aldraðir og öryrkjar verða ekkert of haldnir þar inni heldur." (Í ESB, innskot, ES-blogg).

Og ESB er vont við ALLA sem búa í öllum 27 aðildarríkjunum og gerir ALLT til þess að gera líf þeirra að eintómum leiðindum! Grin

Samkvæmt einhverri rannsókn, sem einhver gerði EINHVERNTÍMANN og var birt einhversstaðar!

Það er einmitt út af hlutum sem þessum, sem það þarf að ræða ESB-málið!


Sören Holmberg, Svíþjóð og ESB - fyrirlestur á föstudaginn

Sören HolmbergÁ vef Já-Ísland segir: "Alþjóðamálastofnun og Rannsóknasetur um smáríki standa fyrir fundaröð í vetur undir yfirskriftinni Evrópa: Samræður við fræðimenn. Stofnunin hefur fengið til liðs við sig fjölmarga fræðimenn af ýmsum fræðasviðum sem kynna rann sóknir sínar um Ísland og Evrópu á vikulegum fundum í hádeginu á föstu­dögum.

„Swedish attitudes to the EU and the Euro“ er heitið á fyrirlestri sem Sören Holmberg, prófessor í stjórnmálafræði við háskólann í Gautaborg, heldur í fundaröðinni föstudaginn 20. maí kl. 12.00."

Sören Holmberg er einn fremsti fræðimaður Svíþjóðar á sviði stjórnmálarannsókna. Í splunkunýrri könnun sem hann er í forsvari fyrir, kemur í ljós að stuðningur Svía við aðild að ESB hefur aldrei verið meiri. Um 53% Svía styðja aðild landsins að ESB, en fyrir fimm árum var sama tala 40%. Stuðningurinn hefur því aukist um tæp 3% á ári undanfarin fimm ár.

Skýringar á þessu eru m.a. taldar vera að Svíþjóð hefur komið vel út úr fjármálakreppunni. 

Svíar vilja hinsvegar halda sænsku krónunni og er stuðningur þar við upptöku Evrunnar í sögulegu lágmarki.

Hér má lesa gögn um þessa nýju könnun SOM í Gautaborg.


Girnilegt sumarsalat Bændablaðsins!

Viljum vekja athygli á girnilegu salati sem hægt er að matreiða úr nýjasta Bændablaðinu. Í því eru bæði innlend og erlend hráefni:

"Sumarsalat fyrir 4

klettasalat
paprika í ýmsum litum
½ agúrka
2 ferskir tómatar eða sólþurrkaðir
1 eggaldin
1 kúrbítur
2 kjúklingabringur
10 döðlur
½ pakki pekanhnetur
½ krukka fetaostur
20 saltstangir

Aðferð:
Skerið eggaldin og kúrbít í sneiðar og
léttsteikið. Skerið kjúklingabringurnar
í bita og steikið á pönnu, gott er að
setja örlítið salt og pipar á þær. Skerið
tómata, papriku og agúrku í sneiðar og
dreifið því yfir klettasalatið á fallegan,
stóran disk. Setjið steikta grænmetið
yfir og kjúklinginn. Skerið döðlurnar
í tvennt og pekanhneturnar í bita.
Bætið þeim ásamt fetaostinum yfir
salatið. Stingið síðan saltstöngum inn
í salatið hér og þar til að gera það enn
girnilegra og fallegra."

Hægt að skola þessu niður með íslensku vatni, íslenskum eða erlendum bjór, innfluttu rauðvíni/hvítvíni, mjólk, gosi eða öðrum drykkjum að eigin vali! Verði ykkur að góðu!


Gjaldmiðilsmálin rædd á rýnifundi

Á www.visir.is stendur: "Semja þarf sérstaklega um vikmörk gengis íslensku krónunnar við evru meðan á upptöku evrunnar stæði í aðildarviðræðunum við ESB sem nú standa fyrir dyrum. Þá stæði Íslandi til boða stuðningur við krónuna frá Seðlabanka Evrópu en kanna þarf nánar hve mikill sá stuðningur gæti orðið.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í greinargerð sem birt var í gær í kjölfar rýnifundar í Brussel um efnahags- og peningamálakafla samningaviðræðnanna. Einnig þarf að semja um hugsanlegan stuðning ESB við afnám gjaldeyrishaftanna hér á landi."

Öll fréttin


Grein í Bændablaðinu - ESB hafsjór af tækifærum fyrir íslenska bændur?

bændablaðiðÍ nýjasta Bændablaðinu er áhugaverð grein eftir hagfræðing Bændasamtakanna, Ernu Bjarnadóttur, en í henni er fjallað um dreifbýlisaðstoð landbúnaðarstefnu ESB. Tónninn í greininni er óvenju jákvæður, enda finnur Bændablaðið (les: Bændasamtökin) ESB flest til foráttu. En kíkjum á greinina.

Í henni er m.a. sagt frá því að Finnska ríkið í samvinnu við ESB eyðir umtalsverðum fjármunum í nýliðun í landbúnaði, þ.e. reynir að fá ungt fólk til að starfa við landbúnað. Fram kemur að hámarks stuðningur getur numið um 40.000 Evrum, eða um 6.5 milljónum íslenskra króna.

Þá ræðir Erna ýmis önnur mál er t.d. varða umhverfismál og velferð búfjár og dýra og þar kemur fram að sérstakar greiðslur eru í boði til bænda sem eru með kýr og svín, til þess að stuðla að bættri velferð dýranna.

Þá nefnir Erna verkefni sem snúa að verndun votlendis, nýræktunar á skógi, verndun menningararfs, úrvinnslu málma, endurvinnslu plasts, framleiðslu á lífeldsneyti, nýtingu bíómassa, notkunar á endurnýjanlegum orkugjöfum, útbreiðslu internets og upplýsingatækni í sveitum, sem og stuðningi við fólk sem vill taka upp nýja starfsemi.

Þetta er allt að finna í grein Ernu, en þetta eru væntanlega allt hlutir sem myndu "rústa íslenskum landbúnaði" eins og vanalega er viðkvæðið úr Bændahöllinni, þegar rætt er um ESB.

Í lok greinarinnar segir Erna: "Hér er aðeins tæpt á örfáum atriðum úr skýrslunni en aftast í henni er að finna töflur sem gefa yfirlit um verkefni og fjármögnun þeirra."

Er ESB kannski hafsjór af tækifærum fyrir íslenskan landbúnað? Þá vaknar spurningin hvort forysta bænda loki augunum?

Lesa meira hér (Það vantar á krækjuna í Bændablaðinu!)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband