Leita í fréttum mbl.is

Hvorki geta né vilji? Gunnar Hólmsteinn skrifar í DV

Gunnar Hólmsteinn ÁrsælssonGunnar Hólmsteinn Ársælsson, stjórnarmaður í Evrópusamtökunum, skrifaði grein í DV þann 14.6 um Evrópumálin. Greinin birtist hér með leyfi höfundar.

Hvorki geta né vilji?

Það hlýtur að teljast merkilegt að á sama tíma og forseti lýðveldsins síðastliðinn 17 ár, segir okkur í setningarræðu Alþingis að Evrópusambandið virðist hvorki hafa getu né vilja til þess að semja við Ísland á næstu árum, þá e...r einmitt þetta sama Evrópusamband nýbúið að semja um aðild við Króatíu. Land sem er 13 sinnum fjölmennara en Ísland. Þessir samningar fóru fram á sama tíma og Evrópa og ESB gengu í gegnum mjög erfiða tíma og gera enn, ásamt fjölda annarra ríkja heimsins. Þetta að sjálfsögðu í kjölfar þeirra kreppu sem skall á heimsbyggðinni árið 2008.

ESB gat samið við Króatíu!

Samningarnir við Króatíu voru þó ekki án hindrana, m.a. vegna deilna um landssvæði við grannríkið Slóveníu. En það tókst að semja og ná niðurstöðu um það mál. Saga samningaviðræðna ESB við aðildarríki er nefnilega þannig að ekki er skrifað undir samning nema að búið sé að ganga frá öllum vandamálum og hindrunum, t.d. í formi sérlausna, sem væntanlegt aðildarríki sættir sig eða ESB gengur að. Það eru nefnilega tveir aðilar við samningaborðið.
 
Það er greinilegt að ESB hafði bæði getu og vilja til þess að klára samingana við Króatíu, sem verður 28. aðildarríki ESB. Eftir yfirlýsingar forsetans hefur Brussel staðfest að ESB hefur sama vilja og áður til þess að semja við Ísland. Yfirlýsing forsetans er því í meira lagi sérkennileg.

Útlitið á ESB?


Annað sem gjarnan er sagt um þessar mundir og kemur aðallega úr munni nýs forsætisráðherra er að ,,enginn viti hvernig Evrópusambandið muni líta út.“ Þetta eru önnur sérkennileg rök fyrir að hætta viðræðum við sambandið. Á móti mætti spyrja hvort menn hafi vitað hvernig ESB myndi líta út þegar átta lönd fyrrum A-Evrópu höfðu sótt um aðild (í kjölfarið hruns kommúnismans) ásamt Möltu og Kýpur? Öll þessi lönd, 10 að tölu gengu í sambandið árið 2004 og svo bættust Rúmenía og Búlgaría við árið 2007. Er ekki eðlilegt að álykta að menn hafi gjörsamlega verið eins og risastór spurningamerki í sambandi við ,,útlitið“ á ESB eftir þessa fjölgun aðildarríkja? Þetta er mjög léttvæg röksemdarfærsla sem notuð er til þess að gera ESB tortryggilegt.

Hvernig mun Ísland líta út?

Ef til vill er mun eðlilegra að spyrja í framhaldi af yfirlýsingum forsætisráðherra: Hvernig mun Ísland líta út á næstu árum? Verða áfram gjaldeyrishöft sem hneppa efnhagslífið eins einskonar vistarband? Verður áfram verðtrygging, verðbólga, óstöðugleiki? Mun álverum fjölga? Verður virkjað meira? Verða umhverfismálin skúffumál? Alls ekki er ólíklegt að allt þetta verði sú framtíð sem blasir við Íslendingum á næstu misserum.

Nýr utanríkisráðherra sagði skömmu eftir að ný stjórn tók við að nú væri tími til kominn að líta í raun til allra átta nema suðurs. Þetta skilst þannig að nú væri Evrópa út úr myndinni. Þangað sem 70-80% af útflutningi okkar fara og þar sem okkar traustustu markaðir eru. Þetta eru ,,áhugaverð“ skilaboð til samstarfsríkja okkar í Evrópu.
 

Andrés Pétursson um maltnesku fyrirmyndina og Evrópu

Andrés PéturssonAndrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, skrifaði greín um Evrópumálin í FRBL þann 23.maí og birtist hún hér með leyfi höfundar:

Maltneska fyrirmyndin og Evrópa

Ísland hefur nú gert fríverslunarsamning við Kína og er það af hinu góða. Hins vegar breytir það litlu varðandi þá staðreynd að Evrópumarkaðurinn er og verður langmikilvægasti markaður fyrir íslenskar vörur og þjónustu næstu árin og áratugina.

Það er því mikilvægt að skynsamt fólk í öllum stjórnmálaflokkum láti ekki tímabundna erfiðleika í nokkrum Evrópulöndum blinda sér sýn varðandi stefnumörkum í alþjóðamálum. Það versta sem við gætum gert er að loka Evrópudyrunum og taka upp einhvers konar sjálfsþurftarbúskap í alþjóðasamstarfi.

Einstaka álitsgjafar hafa líka haldið því fram að með hinum nýja fríverslunarsamningi við Kína og auknum áhrifum annnarra Asíulanda í heimsviðskiptum þá eigum við Íslendingar að snúa okkur í ríkari mæli austur á bóginn í leit að bandamönnum. Ekki er ég á móti því að eiga í viðskiptum við sem flest lönd en gleymum því aldrei að Kína er gamalt heimsveldi og ætlar sér stóra hluti á komandi áratugum.

Það er því mikilvægt að stíga varlega til jarðar í samskiptum við risann í austri og gott að eiga góða og öfluga bandamenn í Evrópu. Langtímahugsun Maltverjar hafa tekið mjög skynsamlega á þessu máli. Þeir gengu í Evrópusambandið árið 2004 en hafa á sama tíma stóreflt samskipti sín við Kína.

Á þessum tæpu tíu árum hafa Kínverjar sexfaldað beina fjárfestingu í landinu og kínverskar viðskiptasendinefndir koma reglulega til landsins. Í máli Joe Borge, fyrrum utanríkisráðherra Möltu, sem kom hingað til lands fyrir rúmum tveimur árum, kom fram að Kínverjar hafa sexfaldað beina fjárfestingu (FDI) í landinu og að ferðir kínverskra viðskiptasendinefnda til Möltu hafa margfaldast.

Ástæðuna telur Borg meðal annars vera að Maltverjar hafa leitt nefnd Evrópuþingsins sem sér um samskiptin við Kína.

Því sjái Kínverjar sér hag í því að rækta tengsl sín við Möltu. Í nýlegri grein í The Malta Independent, sem er eitt helsta dagblað Möltu, kemur fram að þrátt fyrir efnahagsörðugleikana í heiminum á undanförnum misserum hafa Kínverjar og Maltverjar aukið viðskipti sín á milli um 25% undanfarin þrjú ár.

Í því sambandi er vert að geta þess að yfirvöld á Möltu hafa haldið vel á sínum málum varðandi evruna og því hafa eyjarskeggjar ekki lent í sömu hremmingum og nágrannar þeirra í Grikklandi og á Kýpur. Á þessu sést að með skynsamlegri efnahagsstefnu og langtímahugsun í alþjóðamálum er hægt að sameina kosti þess að ganga í Evrópusambandið og á sama tíma rækta samband sitt við hin nýju efnahagsstórveldi í Asíu.


Gleðilegan Evrópudag!

ESB

Óskum Evrópusinnum, sem og öðrum, gleðilegs Evrópudags. Dagurinn er einnig kallaður "Schuman-dagurinn" en þennan dag árið 1949, birti Robert Schuman, utanríkisráðherra Frakklands sína frægu "Schuman-yfirlýsingu."


Össur: Klárum samningana

Össur SkarphéðinssonÖssur Skarðhéðinsson, utanríkisráðherra, skrifaði grein FRBL þann 26.4 um ESB-málið og segir þar meðal annars:

"Mestu skiptir að okkur hefur tekist að skapa góðan skilning á sérstöðu Íslands, ekki síst varðandi sjávarútveg, landbúnað og aðra mikilvæga þætti. Það kom t.d. fram á nýlegum fundi mínum með Stefan Fule, stækkunarstjóra sambandsins, sem lýsti fullum skilningi á mikilvægri kröfu Íslendinga um bann við innflutningi á lifandi dýrum. Framkvæmdastjóri orkumála, Oettinger, lýsti sömuleiðis yfir í tilkynningu eftir okkar fund að Íslendingar myndu halda bæði eignarhaldi og fullu forræði yfir orkulindum sínum. Fyrir liggur að reglur ESB tryggja að Íslendingar halda rétti sínum sem þeir hafa gagnvart fiskistofnum í hafi."


Pírati um ESB-málið - góður punktur

Frambjóðandi Pírata í Reykjavík-norður, Þórður Sveinsson, skrifaði grein í Fréttablaðið þann 11.apríl og segir meðal annars:

"Fólk spyr mig gjarnan hver afstaða pírata sé gagnvart ESB. Það er skoðun mín, og margra annarra pírata, að stjórnmálaflokkar eigi ekki að vera með eiginlega afstöðu með eða á móti ESB. Sumir kunna að halda að þannig séum við að forðast þetta gríðarlega mikilvæga mál, en svo er ekki. Á meðal grunngilda pírata er gagnsæi og beint lýðræði.

Gagnsæi snertir málið á þann hátt að allt viðræðuferlið á að vera opið og á almenningur rétt á því að vera vel upplýstur um allt sem því við kemur svo hann geti tekið vel upplýsta ákvörðun. Við viljum veita upplýsingar hvort sem þær eru jákvæðar eða neikvæðar í garð sambandsins. Ef ég veiti þér eftirfarandi upplýsingar: „það er rigning úti og maður verður blautur í henni“ eða „það er sól úti og það er mjög heitt“ þá er ég ekki að segja þér hvort þú eigir að vera inni eða úti heldur er ég einfaldlega að veita þér upplýsingar til þess að þú getir tekið þína eigin upplýstu ákvörðun."


Össur í DV: Klárum með stæl!

Össur SkarðhéðinssonÍ nýrri grein eftir Össur Skarphéðinsson í DV segir:

"Viðræðurnar um aðild Íslands að Evrópusambandinu varða grundvallarmál fyrir framtíð Íslands. Það skaðar hagsmuni okkar allra ef þeim verður slitið. Þjóðin á sjálf að fá lokaorðið um aðildarsamning. Það er hins vegar hlutverk okkar stjórnmálamanna að tryggja að endanlegur samningur verði sem bestur fyrir Ísland. Góðu fréttirnar eru þær að viðræðurnar ganga vel og það er farið að sjá til lands.

Skoðanakannanir og þjóðaratkvæði

Þeir sem vilja hlaupa úr viðræðum í miðjum klíðum segja jafnan að skoðanakannanir sýni að Íslendingar vilji ekki ganga í ESB ef kosið væri í dag. Gott og vel. En hvað með þá staðreynd að sömu skoðanakannanir hafa líka sýnt ítrekað að mikill meirihluti landsmanna vill ljúka samningaviðræðunum? Eigum við ekki líka að taka mark á þeirri niðurstöðu? Sú skoðanakönnun sem mestu máli skiptir er vitaskuld þjóðaratkvæðagreiðslan."


Árni Páll í forystusætinu

Árni Páll ÁrnasonÁrni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, var í viðtali í "Forystusætinu" á RÚV þann 4.apríl og ræddi þar stjórnmálin og komandi kosningar. Horfið hér.

Benedikt Jóhannesson rýnir í stöðu Sjálfstæðisflokksins

Benedikt JóhannessonBenedikt Jóhannesson, formaður Sjálfstæðra Evrópumanna, skrifar mjög áhugaverða pistla á vefsvæðið www.heimur.is og þar er nú nýr pistill, þar sem Benedikt rýnir í stöðuna hjá Sjálfstæðisflokknum. Hann kemur m.a. inn á Evrópumálin og segir m.a.:

"Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í febrúar síðastliðnum samþykkti flokkurinn að öll lög skyldu vera í samræmi við kristin gildi. Ég var ekki í salnum þegar þetta var samþykkt og kann ekki að segja frá því hver aðdragandi þess var. Þetta var seinna dregið til baka, en skaðinn var skeður.

Tveir af reyndustu mönnum í flokknum báru fram tillöguna um afskipti sendiherra Evrópusambandsins af innanríkismálum og lokun Evrópustofu. Ég held að þeir hafi báðir fengið frelsisverðlaun Heimdallar. Þessi hluti samþykktarinnar um utanríkismál var örugglega enn skaðlegri en það að vilja hætta aðildarviðræðunum. Almenningur sér flokk sem óttast umræður og vill ritskoðun. Það sést á þeim fjölda sem flykkt hefur sér um Framsóknarflokkinn, vissulega einnig að tilstuðlan Morgunblaðsins, en ólíklegt er að Evrópusinnar séu margir í þeim hópi."
Og um eina af ástæðum fylgishruns Sjálfstæðisflokksins segir Benedikt:
"Kjósendur telja að hið raunverulega vald liggi ekki hjá flokksforystunni. Morgunblaðið er haldið þráhyggju um Evrópusambandið og skrifar um það hvern leiðarann á fætur öðrum, þegar af nógu er að taka í afleitri stjórnarstefnu undanfarinna ára. Þegar blaðið ákvað að breyta um ritstjórnarstefnu missti það um fjórðung lesenda. Engin ástæða er til þess að ætla að hún höfði frekar til kjósenda en lesenda."

Ný Fésbókarsíða Evrópusamtakanna

Evropusamtokin-feisNý Fésbókarsíða Evrópusamtakanna var opnuð þann 2.apríl á slóðinni: http://www.facebook.com/Evropusamtokin

Tilgangur síðunnar er að vera opinn og lýðræðislegur umræðuvettvangur fyrir Evrópumál. Allir sem vilja ræða Evrópumálin hjartanlega velkomnir!


Össur og gáttirnar þrjár

Össur SkarphéðinssonEnn ein greinin eftir Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, birtist í DV fyrir skömmu. Í henni fjallar Össur um "gáttir" sem standa Íslandi til boða í samskiptum við erlend ríki. Hann skrifar:

"Evrópuleiðin
Evrópuleiðin fól í sér umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Hún miðar að því að gera Ísland að hluta af stærri og sterkari efnahagsheild, sem tryggir efnahagslegan stöðugleika, og heldur opnum þeim möguleika að taka upp evru í staðinn fyrir krónu – ef þjóðin svo kýs. Það væri því glapræði að fresta viðræðum um aðild, og skera þannig endanlega á möguleikann til að taka upp evru í stað krónunnar. Það myndi skaða hagsmuni Íslands.

Upptaka evru felur í sér lækkun á vöxtum, verðbólgu – og verðlagi – og er auðveldasta leiðin til að kasta verðtryggingunni. Aðild að ESB mun samkvæmt reynslu annarra smáþjóða sem hafa gengið í sambandið stórauka erlendar fjárfestingar á Íslandi, minnka viðskiptakostnað um tugi milljarða árlega að sögn Seðlabankans og einfalda viðskipti. Hún mun því leiða til aukins útflutnings, meiri hagvaxtar, og fleiri starfa. Evrópuleiðin er langbesti kosturinn til að bæta lífskjör á Íslandi og tryggja stöðugleika fyrir fjölskyldur og fyrirtæki.

Stórsókn fyrir sjávarútveg
Utanríkisstefnan þarf að taka mið af sjávarútvegi, sem burðar­ási í atvinnulífinu. Innan hans hefur verið tortryggni gagnvart Evrópuleiðinni. Sú tortryggni er á misskilningi byggð. Aðild opnar á stórsókn fyrir sjávarútveg í Evrópu. Hún mun í fyrsta lagi tryggja þær auðlindir, sem sjávarútvegur býr að í dag. Hún mun í öðru lagi afnema alla tolla á 500 milljóna manna markaði Evrópu. Í því felast einstök, ný tækifæri fyrir fjölmörg lítil fyrirtæki í fullvinnslu hringinn í kringum landið, sem í dag eru lokuð frá Evrópu með tollamúr.

Ástæðan fyrir að þau eru flest örsmá er örlítill heimamarkaður. Yrði þeim boðið upp á tollalausan 500 milljóna manna heimamarkað ættu þau gríðarlega sóknarmöguleika. Enginn vafi er á að sum þeirra myndu vaxa upp í stór alþjóðleg fyrirtæki og skapa með útflutningi mikil, ný verðmæti fyrir íslenska samfélagið.

Með aðild myndi einnig útgerð og annarri vinnslu opnast opnast leið til að sækja fram í Evrópu í krafti einstakrar samkeppnis­hæfni. Í nýju samstarfi við evrópsk fyrirtæki í vinnslu og veiðum gæti íslenskur sjávarútvegur því líka náð miklum slagkrafti utan Evrópu þar sem sjávarútvegur er vanþróaður.

Sama gildir um landbúnað. Millistétt Evrópu er viljug til að greiða hátt verð fyrir heilnæma hágæðavöru einsog obbi íslensks landbúnaðar framleiðir. Evrópuleiðin felur því í sér sóknarmöguleika fyrir báðar þessar gömlu greinar, fyrir nú utan að hún leiddi til vaxtalækkana sem myndu létta 6–9 milljörðum af sjávarútvegi í vaxtagreiðslur árlega, og líklega rífum milljarði af bændum."


Aprílgabb!

Færsla okkar í gær um Eurovisjón var að sjálfsögðu í tilefni dagsins, 1. apríl. En kannski var hún ekki úr takti við þá strauma sem umlykja íslenskt samfélag um þessar mundir.

Færslan fékk mjög góðar viðtökur og þökkum við lesturinn! Þökkum V o J sérstaklega!


Vilja láta loka fyrir Euróvisjón - telja keppnina hættulega ungu fólki - djók 1. apríl!!

malmoFjöldi smáframboða og smáflokka mun slá öll met í komandi kosningum. Samkvæmt heimildum sem Evrópusamtökin telja áreiðanlegar hefur nýr flokkur verið stofnaður sem ber heitið Ættjörðin- flokkur sannra Íslendinga.

Samkvæmt heimildarmanni Evrópusamtakanna fer nú  fram málefnavinna og hafa Evrópusamtökin komist yfir vinnuskjal frá flokknum. Þar kemur m.a. fram að loka beri fyrir útsendingar RÚV á Söngavakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva(Euróvisjón), sem fram fer í Malmö, Svíþjóð, nú í lok maí.

Samkvæmt skjalinu sem Evrópusamtökin hafa komist yfir segir í áliti menningarnefndar flokksins að útsendingar á keppninni séu ...,,hættulegar þjóðarsál Íslendinga og keppnin sé tákn um siðferðilega hnignun Evrópu." Íslendingar eigi að ...,,njóta hámenningar en ekki lágkúru frá Evrópu.“ Þá er keppnin talin ýta undir óheilbrigt peningabrask og óæskilega starfsemi veðbanka, samkvæmt málefnaskjalinu sem Evrópusamtökin hafa undir höndum.

Standa beri vörð um siðferðilega yfirburði Íslendinga og sé það ekki gert sé ...,,hætta á að Íslendingar sökkvi í pytt lágmenningar og yfirborðsmennsku, sem sé eitt helsta aðalsmerki keppninnar að mati nefndarinnar.“ Þá segir í álitinu að keppnin sé sérstaklega hættuleg ungu kynslóðinni og ómótuðum einstaklingum.

Í álitinu kemur fram að fulltrúar á vegum menningarnefndarinnar munu reyna að hitta útvarpsstjóra á næstu vikum, til þess að reyna að fá hann til að taka keppnina af dagskrá RÚV og ...,,sýna þjóðlegt og uppbyggilegt efni í staðinn, með áherslum á gömul og góð gildi, sjálfstæðisbaráttuna og þjóðlega sveitarómantík.“

Takist það ekki hefur nefndin velt fyrir sér þeim möguleika að leigja búnað frá Evrópu, til þess að trufla útsendingarnar.


Gleðilega páska!

PáskaeggEvrópusamtökin óska landsmönnum gleðilegra páska!

Fyrislestrar á næstunni + grein eftir Þorkel Sigurlaugsson

Háskóli ÍslandsAlþjóðamálastofnun HÍ, stendur fyrir tveimur áhugaverðum fyrirlestrum dagana 3. og 5. apríl, í samvinnu við sendiráð Frakklands á Íslandi og Evrópustofu. Sjá nánar á vefsíðunni: www.ams.hi.is

Bendum einnig á góða grein eftir Þorkel Sigurlaugsson, þar sem hann segir m.a.:

"Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í febrúar sl. var samþykkt tillaga þess efnis að hætta beri viðræðum við Evrópusambandið og ekki taka aftur upp viðræður fyrr en að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu. Á landsfundi þar á undan hafði verið samþykkt að gera hlé á viðræðunum og að þær færu ekki aftur af stað fyrr en að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu. Mikill munur er á því að hætta viðræðum og gera hlé á þeim.

Það er undarleg stefna að slíta viðræðum við Evrópusambandið og ætla svo að kjósa einhvern tíma á fyrri hluta næsta kjörtímabils um það hvort óska eigi aftur eftir viðræðum. Það veikir mjög samningsstöðuna að óska eftir að hefja hugsanlega viðræður að nýju að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu."


Mikið af greinum.....nóg að lesa!

Sema Erla SerdarSema Erla Serdar, verkefnastjóri hjá Já-Ísland, skrifar góða hugleiðingu á DV-bloggið um Evrópumálin og segir þar meðal annars: "Umræðan um Evrópusambandið og mögulega aðild Íslands að ESB getur oft á tíðum verið ansi áhugaverð og skemmtileg. Að sama skapi getur hún stundum verið á villigötum, fullyrðingum er haldið fram sem heilögum sannleika, fullyrðingum sem eiga ekki við nein rök að styðjast.

Umræðan um sérlausnir og undanþágur í samningaviðræðum við Evrópusambandið er dæmi um það síðarnefnda. Það eru ansi margir sem halda því fram að það sé ekkert um að semja, að engar sérlausnir séu í boði, og því vitum við alveg „hvað við erum að kalla yfir okkur." Lesið bara lögin, segja aðrir.Allir, sem hins vegar gefa sér tíma til þess að kynna sér málið, munu vera fljótir að komast að annarri niðurstöðu.

Það virðist vera nokkuð almennt að í aðildarsamningum sé samið um tímabundnar undanþágur, eða aðlögunarfresti, til dæmis frest til þess að innleiða tiltekna löggjöf ESB eða til þess að afnema reglur sem eru ekki í samræmi við stofnsáttmála eða löggjöf ESB. Sem dæmi má nefna að í samningaviðræðunum fyrir stækkun ESB árið 2004, þegar tíu ríki Mið- og Austur-Evrópu gengu í sambandið, var samið um tímabundin aðlögunartímabil í fjöldamörgum tilvikum. Oftast var þar um að ræða 3-7 ára aðlögunartímabil, en einnig voru dæmi um allt upp í 10-13 ára aðlögunartímabil.

Það er nauðsynlegt að skilja að af hálfu ESB er lögð áhersla á að engar varanlegar undanþágur séu veittar í aðildarsamningum enda er markmiðið að sem mest lagalegt samræmi ríki innan ESB, annars væri erfitt fyrir sambandið að ganga upp í þeirri mynd sem það starfar, en ESB byggir á sameiginlegri löggjöf aðildarríkjanna.

Hins vegar er líka nauðsynlegt að skilja að ef upp koma vandamál vegna ákveðinnar sérstöðu eða sérstakra aðstæðna í umsóknarríki er reynt að leysa málið með því að semja um tilteknar afmarkaðar sérlausnir, frekar en varanlegar undanþágur, en sem dæmi um varanlega undanþágu má nefna að Svíar eru undanþegnir almennu banni í regluverki ESB við viðskiptum með munntóbak (sæ. snus). Undanþágan kemur fram í viðauka við aðildarsamninginn þar sem vísað er í viðkomandi tilskipun (viðauki XV). Erfitt myndi reynast að finna dæmi um að ríki hafi óskað eftir ákveðinni sérlausn er varðar sérstakar aðstæður eða mikla þjóðarhagsmuni, og ekki fengið."

Í Fréttablaðinu í dag, 26.mars, er einnig að finna þrjár greinar, sem allar koma inn á Evrópumálin, en það eru Össur Skarphéðinsson, Bolli Héðinsson og Sighvatur Björgvinsson sem skrifa. Hinn síðastnefndi segir m.a.:

"Í síðustu tuttugu ár hafa þjarkarar þjarkað um ESB. Skipst á fullyrðingum, sem stöðugt verða groddalegri. Viðhaft stóryrðin – „þjóðníðingar og landráðamenn" – og kjaftbrúk. Orðið svo heitt í hamsi að megna ekki að koma frá sér á blogginu heilli setningu á óbrjálaðri íslensku. Sem sé: Náð toppnum.

Svo stóð til að láta veruleikann mæta á staðinn. Það ákvað Alþingi. Láta veruleikann skera úr um, hvort ESB-aðild myndi neyða æsku landsins inn í evrópskan her (sem raunar er ekki til) og annað álíka. En það nær auðvitað engri átt. Þá gæti þjóðin tapað þjarkinu sínu. Misst af því að geta haldið áfram að þjarka í a.m.k. önnur tuttugu ár til viðbótar. Góðir menn sjá að það má ekki gerast. Það má ekki hafa þjarkið af þjóðinni!
Mikið er það nú ánægjulegt að flokkar hafa tekið ákvörðun um að leyfa þjóðinni að halda áfram að þjarka um ESB. Koma í veg fyrir að veruleikinn sé kvaddur á vettvang. Mikið held ég að mörgum sé létt. Loksins þjóð með trygga framtíð. Meira að segja bannað að miðla upplýsingum um ESB. Loka skal Evrópustofu. Skella barasta í lás. Reka fólkið heim. Þjóðinni verður fært þjarkið sitt aftur. Hvílík unun! Hvílíkt öryggi! Hvílík framtíðarsýn! Forystuflokkurinn, sem kennir sig við þjóðarsjálfstæðið, hefur talað."


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband