Leita í fréttum mbl.is

Beint flug til Brussel: Móðgun við sjálfstæði íslensku þjóðarinnar?

Þota frá IcelandairMorgunblaðið greinir frá því  að "þjóðarflugfélagið" Icelandair (gamla Flugleiðir) hefji í dag beit flug til Brüssel í Belgíu. En þar eru eins og margir vita höfuðstöðvar ESB, Evrópusambandsins. Í frétt MBL segir:

"Brussel er mikil viðskipta- og stjórnsýslumiðstöð og þangað á erindi gríðarlegur fjöldi gesta í ýmsum erindagjörðum.

Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, segir að Icelandair hafi oft kannað möguleika á flugi til og frá Brussel vegna mikilvægis borgarinnar í evrópskum stjórnmálum og viðskiptum og nú hafi skrefið verið stigið. Fyrst og fremst sé verið að höfða til almennra ferðamanna og þeir munu bera flugleiðina uppi. Margir sem sinni viðskiptum og stjórnsýslu eiga oft leið til borgarinnar og munu fagna því að geta flogið beint. Áætlanir félagsins geri svo ráð fyrir að lengja tímabilið á næsta ári. Birkir segir að sala í flugið til og frá Brussel hafi farið vel af stað og þegar hafi verið ákveðið að framlengja flugið út september í haust vegna meiri eftirspurnar en menn áttu von á. Belgískir ferðamenn nýti sér þetta flug til Íslandsferða, en einnig sé áhugi Íslendinga töluvert meiri en búist var við."

Þetta hlýtur að fara fyrir brjóstið á áköfustu Nei-sinnum landsins. Þeir hljóta, í samræmi við fyrri málflutning," að líta á þetta sem "móðgun" við fullveldi og sjálfstæði íslensku þjóðarinnar!

Svo hlýtur að koma leiðari í Mogganum um hvort þetta flug sé nú ekki hreinn óþarfi, að Brussel sé kannski ekki svo mikilvæg borg, hvort þetta sé bara ekki sóun á fjármagni o.s.frv. Þetta hlýtur bara að vera dregið í efa, þar á bæ!

Aukin samskipti við umheiminn og aukið samstarf? Nei,þurfum við Íslendingar þess? Samkvæmt NEI-sinnum virðist ekki vera mikil þörf á því, við eigum að slá okkur á brjóst og berjast! Að þeirra mati getum við og EIGUM að standa ein, vera EYJA í samfélagi þjóðanna!

 


Rök fyrir ESB-aðild - 2

ESBHvaða áhrif hefði aðild á íslenskan landbúnað? Aðild að ESB yrði enn frekari hvatning fyrir íslenskan landbúnað að gera betur. Með aðild að ESB fengi íslenskur landbúnaður fullan og tollfrjálsan aðgang að meira en 500 milljóna manna markaði. Full aðild að ESB gæti m.a. orðið mikil hvatning fyrir íslenskan landbúnað að leggja enn frekari áherslu á ,,grænan landbúnað,” en þar liggur að margra mati framtíð greinarinar. ESB-aðild myndi auka samkeppni og kröfur innan íslensks landbúnaðar, sem og að opna fyrir aukna samvinnu milli Íslands og annarra ESB-landa á þessu sviði. Í skýrslu frá árinu 2000 er sagt að hagur t.d. sauðfjár, nautgripa og mjólkurbænda myndi verða svipaður og nú. Líklegt er talið að auka þyrfti hinsvegar við stuðning gagnvart eggja, svína og kjúklingabændum. Svíar og Finnar fengu sérstaka undanþágu vegna landbúnaðar norðan 62. breiddargráðu, þar sem um er að ræða s.k. ,,heimskautalandbúnað.” Hægt er að spyrja: Myndu íslenskir neytednur hætta að kaupa íslenskar lanbúnaðarafurðir við inngöngu í ESB? Svarið er að öllum líkindum nei. Þá er einnig ljóst að erlendar vöru yrðu sennilega 10-15% dýrari en innlendar, vegna flutningskostnaðar. Við aðild myndi íslenskur landbúnaður í fyrsta sinn njóta ótakmarkaðs aðgangs að markaði ESB.

Hvaða áhrif hefði aðild á efnahag almennings í landinu? Matvælaverð myndi að líkindum lækka um allt að 18-25%, m.a. vegna ódýrari innflutnings, færri viðskiptahindrana og minni gengismismunar. Vextir myndu að öllum líkindum lækka til samræmis við það sem gengur og gerist í ESB. Sem þýðir vexti á bilinu1-3%. Þetta er það atriði sem fólk finnur helst á peningabuddunni!

Hindrar aðild að ESB viðskipti við aðrar þjóðir? Nei, þrátt fyrir sameiginlega stefnu í utanríkisverslun býr ESB að þéttriðnasta neti viðskiptasamninga sem þekkist. Markaðsaðgangur ESB-ríkja er því ekki lakari en en aðgangur Íslands í gegnum EFTA, sem á að vísu í viðræðum vum fríverslunarsamning við Kína. Mjög líklegt er að aðild að ESB muni auka enn frekar möguleika íslenskra fyrirtækja á fjarlæga markaði. Þar að auki byggja alþjóðaviðskipti í dag á miklu meira en bara fríverslun með vörur. Þar má til dæmis nefna gagnkvæma viðurkenningu á starfsréttindum, einkaleyfalöggjöf, heilbrigðisreglugerðum, bann við vinnu barna og fleira.


Pólland og áhrif ESB-aðildar

Stjórnmálafræðingurinn Gunnar HólmsteinnGunnar Hólmsteinn Ársælsson Ársælsson, skrifar grein í Fréttablaðið í dag um áhrif ESB-aðildar á landið, en Pólverjar gengu í ESB árið 2004. Gunnar skrifar m.a.:

"Hagvöxtur (vöxtur þjóðarframleiðslu frá ári til árs), jókst verulega í Póllandi eftir aðild, sökum aukinnar eftirspurnar og fjárfestinga. Árið 2007 var 6,6% hagvöxtur í Póllandi, en að meðaltali var rúmlega fimm prósenta hagvöxtur á árunum 2003-2008. Á sama tímabili jókst framleiðni einnig umtalsvert, eða um 10% á sérstökum kvarða sem mælir slíkt.

Framlög ESB úr ýmsum sjóðum sambandsins eru mikilvægur þáttur í þróun efnahagsmála í Póllandi og á tímabilinu 2004-2008 fengu Pólverjar 14 milljarða evra frá ýmsum sjóðum/áætlunum ESB, umfram það sem þeir greiddu til sambandsins. Á tímabilinu 2007-2013 munu Pólverjar fá um 70 milljarða evra, sem m.a. á að nota til uppbyggingar á sviði samgöngu og umhverfismála, sem og almennrar atvinnuuppbyggingar.

Erlendar fjárfestingar hafa aukist verulega eftir aðild. Árið 2007 námu þær tæpum 17 milljörðum evra. Verslun og viðskipti hafa einnig aukist, eða um tæp 20% að magni til á ári frá aðild.

Pólland er mikil landbúnaðarþjóð, en mikil andstaða kom frá bændum gegn aðild, rétt eins og hér á landi. Pólskir bændur voru meðal tekjulægstu stétta í öllum fyrrverandi kommúnistaríkjum Evrópu fyrir aðild.

Frá aðild hefur hins vegar mikið breyst, til hins betra. Framleiðni í pólskum landbúnaði var árið 2007 um 47% hærri en árið 2000 og útflutningur á pólskum landbúnaðarvörum jókst um 250% á árunum 2003-2007. Innflutningur jókst á sama tímabili um 125%. Í frétt frá Warzaw Business Journal frá 10. maí s.l. kemur fram að tekjur pólskra bænda hafi frá árinu 2000 aukist um 107%!"

Öll greinin

 


Helstu rök fyrir ESB-aðild -1

esbis.jpgUmsókn Íslands að ESB-verður væntanlega tekin fyrir á leiðtogafundi sem haldinn verður þann 17. júní í Brüssel, sem er bara venjulegur vinnudagur um alla Evrópu, nema hér á Íslandi. Þá höldum við Íslendingar þjóðhátíð og fögnum sjálfstæði okkar.

Því er ekki úr vegi að fara yfir helstu rök fyrir aðild Íslands að ESB. Fleiri færslur birtast næstu daga.

RÖK FYRIR AÐILD ÍSLANDS AÐ ESB

Hvað fengi Ísland marga þingmenn á Evrópuþinginu? Ísland fengi 5-6 þingmenn af 736 þingmönnum. Á bakvið hvern þingmann Íslands yrðu 53.000 Íslendingar. Til samanburðar hafa Svíar 19 þingmenn, en þjóðin telur 9 milljónir. Á bakvið hvern sænskan þingmann eru því um 478.000 Svíar, eða næstum tíu sinnum fleiri en Ísland myndi fá. Með inngöngu myndi Ísland styrkja ,,norræna hópinn” innan ESB, þ.e a.s. Svíþjóð, Finnland og Danmörku.

Glata Íslendingar forræði yfir fiskimiðum landsins við inngöngu í ESB? Nei, en ákvörðun um kvóta og fiskveiðiheimildir yrði tekin í Brussel, samkvæmt rannsóknum og ráðleggingum íslenskra sérfræðinga. Íslendingar eru sú þjóð sem hefur mesta hefð og reynslu af veiðum við landið. Hefðarrétturinn er mjög sterkt hugtak og mun stjórna því að Ísland hefði óskorað forræði yfir fiskimiðunum. Einnig hefur þeirri hugmynd verið varpað fram að gera mætti landhelgi Íslands að sérstöku stjórnunarsvæði, sem Íslendingar myndu stjórna.Við Ísland eru aðeins 15% af fiskistofnunum flökkustofnar  og við semjum nú þegar um nýtingu þeirra við t.d. ESB og Noreg. Um 85% af fiskistofnunum okkar eru staðbundnir. Því myndi ESB með Íslendinga innanborðs alltaf úthluta öllum fiskveiðikvóta til þeirra sem eiga veiðireynslu úr þeim staðbundnu stofnum  og það eru aðeins við, Íslendingar. Þetta er sú meginregla í auðlindastefnu Evrópusambandsins byggir á. Henni verður ekki breytt því það myndi ganga gegn þjóðarhagsmunum margra aðildarþjóða. ESB snýst um samvinnu 27 landa og hefur aldrei gengið á þjóðarhagsmuni aðildarþjóða sinna.

Glata Íslendingar fullveldinu við inngöngu í ESB? Nei, engin þjóð hefur glatað fullveldi sínu við inngöngu í ESB. Hinsvegar ákveða þjóðir sem ganga inn í ESB að deila eða nota ákveðinn hluta fullveldisins í samvinnu innan ESB. Ísland yrði því áfram frjálst og fullvalda ríki.

Stóreykst atvinnuleysi á Íslandi við inngöngu? Engin haldbær rök hafa verið færð fyrir því að atvinnuleysi komi til með að stóraukast hér á landi við inngöngu í ESB. Spyrja mætti: Af hverju ætti atvinnuleysi að stóraukast? Myndu til dæmis Bretar hætta að kaupa fisk af okkur við inngöngu? Myndu aðrar þjóðir gera slíkt hið sama og hætta að kaup íslenskar vörur?  Það verður að teljast afar ólíklegt. Reynsla margra þjóða af inngöngu í ESB er hinsvegar sú að verslun og viðskipti hefur aukist. Fullyrðingar af þessu tagi dæma sig því sjálfar.

Er hægt að segja sig úr ESB? Já, ESB neyðir ekki þjóðir til þess að vera með. Ef land vill segja sig úr ESB er einfaldlega send tilkynning um slíkt til yfirstjórnar þess. Grænland sagði sig úr undanfara ESB (EEC) árið 1985 vegna deilna um fiskveiðimál. Sérstök ákvæði í Lissabon-sáttmálanum tryggja ríkjum þennan rétt.

Hvernig aukast áhrif Íslands við inngöngu í ESB? Við núverandi fyrirkomulag verður Ísland að taka við fjölda laga og reglugerða frá ESB, án þess að hafa áhrif á tilurð þeirra. Þetta gerist í gegnum EES-samninginn. Gengi Ísland í ESB yrði landið eðlilegur hluti af öllu ákvarðanatökuferli innan ESB og sæti við samningaborðin. Ísland yrði með þessu fullgildur aðili að Evrópusambandi sem vinnur í breyttri heimsmynd og við gjörbreyttar aðstæður.

ESB-málið er eitt mikilvægasta viðfangsefni þjóðmálanna á komandi misserum. Hvar viljum við vera í samfélagi þjóðanna?

ESB-sinnar þurfa því að bretta upp ermar og láta vel í sér heyra. T.d. þarf að vinna gegn aðilum sem fara með staðleysur og ástunda sannleiksbjögun.

Eitt dæmi um slíkt var að finna í dagblöðum helgarinnar og sem sennilega var kostað af almannafé. Svar við opnu bréfi Evrópusamtakanna sem er að finna á vefsíðum okkar hefur ekki borist. Gamalt máltæki segir: ,,Þögn er sama og samþykki." 

Nei-sinnar munu tjalda öllu til, til að viðhalda stöðnun og óbreyttu ástandi. Það er nefnilega í þeirra þágu að vilja ekki breytingar, vilja ekki aukið samstarf við lýðræðisþjóðir Evrópu, sem hafa mannréttindi, lýræði og jafnrétti að leiðarljósi. Nei-sinnar vilja nefnilega að Ísland verði áfram eyja, í öllum skilning þess orðs, eitt og yfirgefið.

Á meðan aðrar þjóðir auka með sér samstarf á nær öllum sviðum, m.a. annars vegna sameiginlegra framtíðar-áskorana, t.d. varðandi loftslagsmál, framtíðar nýtingu auðlinda og svo mætti lengi telja.

 


Verkalýðsmál - atvinnuleysi - Evrópa/USA/Ísland

Verkamenn, USA, 1939Mönnum er tíðrætt um mótmæli og óánægju með þróun efnahagsmála í Evrópu af völdum fjármálakrísunnar. Og atvinnuleysi. Í Evrópu er meðaltal atvinnuleysis um 9%, rétt eins og hér á landi um þessar mundir. Það er miður, mjög miður.

Sama er uppi á teningnum í Bandaríkjunum, ,,landi tækifæranna,“ eins og þeir sjálfir kalla það.

En hversvegna er þá ekki allt logandi í verkföllum og mótmælum þar? Eru Bandaríkjamenn eitthvað öðruvísi en íbúar Evrópu að þessu leyti?

Skýringin liggur í sögu verkalýðsréttinda, en í Evrópu hafa verkalýðsfélög alltaf verið mun sterkari en í Bandaríkjunum, þar sem (af ýmsum ástæðum) hefur verið meiri andstaða við myndun verkalýðsfélaga.

Í Frönsku byltingunni 1789, var spilltum einvaldi steypt og upp frá þeim tímapunkti hófst þróun í átt til aukinna mannréttinda og síðar aukinna réttinda verkalýðs, í kjölfar iðnbyltingar.

Réttindi verkafólks í Evrópu eiga sér því langa sögu. Þennan rétt notar verkafólk og hinar ýmsu stéttir til að berjast fyrir kjörum sínum, hvort sem það er í Aþenu, Reykjavík, eða einhversstaðar annarsstaðar.

Í Bandaríkjunum er annað uppi á teningnum, þar er annað ,,módel“ notað, sem er sagt einkennast af sveigjanleika. Þessi ,,sveigjanleiki“ var til umræðu í Silfri Egils um síðustu helgi, þar sem rætt var við bandarísku blaðakonuna Barböru Ehrenreich.

Það er alltaf áhugavert áhugavert að komast að því af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru!

Að lokum:

Avinnuleysi ESB,meðaltal: 9.7% (apríl 2010)

USA, meðaltal: 9.9% (apríl)

Ísland (heild): 9% (apríl)


"Silence is golden" ??

KindurEnn hefur ekkert heyrst frá ungbændum vegna opna bréfsins sem stjórn Evrópusamtakanna birti ritaði til þeirra í kjölfar "hernaðarbröltsins" á þeim um helgina. En þá voru ungbændur að hræða landslýð með einhverjum Evrópuher, sem ekki er til!

Það er nær óskiljanlegt af hverju ungbændur tala ekki um eitthvað annað sem snertir stöðu þeirra, t.d. fjárhagsstöðuna. Á vef Bændasamtakanna eru margvíslegar upplýsingar og þar er m.a. að finna "Fjármálaráðgjöf". Kíkjum aðeins hvað stendur þar:

"Undanfarin misseri hafa rekstrarskilyrði bænda verið að breytast mjög til verri vegar. Aðgangur og kjör á lánsfé hafa versnað til muna. Miklar hækkanir á aðföngum hafa átt sér stað á erlendum mörkuðum á undanförnum mánuðum. Sérstaklega á þetta við um áburð og kjarnfóður. Til að bæta gráu ofan á svart hefur gengi krónunnar fallið mikið með tilheyrandi hækkun innfluttra aðfanga sem síðan leiðir til almennra verðhækkana. Bændasamtök Íslands framkvæmdu skoðanakönnun um þörf bænda fyrir sérstaka fjármálaráðgjöf nú í vor vegna verulegra rekstrarerfiðleika. Niðurstöður hennar bentu til þess að umtalsverð þörf væri fyrir slíka þjónustu."

Samtökin komu á s.k. rekstrarráðgjöf og um hana segir: 

"Rekstrarráðgjöf búnaðarsambandanna hefur að markmiði að greina núvarandi búrekstur og leita leiða til að auka arðsemi til lengri og skemmri tíma. Henni hefur aldrei verið ætlað að mæta þörfum bænda sem eru í alvarlegum rekstarerfiðleikum. Nú er hins vegar þörf á slíkri ráðgjöf. Bændasamtökin hafa því gengið til samninga við Skrifstofuþjónustu Vesturlands ehf. um það verkefni að veita bændum sem eiga í verulegum fjárhagsvanda aðstoð við að lágmarka neikvæðar afleiðingar.

 

Þessi nýja þjónusta er hugsuð fyrir þá sem eru nærri því að komast í þrot með sín fjármál. Hvað er skilgreint sem verulegur fjárhagsvandi í þessu samhengi? Ef eftirfarandi fullyrðingar eiga við um þinn búrekstur átt þú í verulegum fjárhagsvanda:

 

  -Skuldir búsins eru komnar í innheimtuferli hjá lánadrottnum

 

  -Borist hafa ítrekaðar áminningar um vanskil

 

  -Birgjar eru hættir að veita fyrirgreiðslu

 

       -Tekjur búsins duga ekki fyrir útgjöldum

Markmið þjónustunnar er að draga úr þeim skaða sem verulegur fjárhagsvandi veldur og leggja mat á þær leiðir sem búinu eru færar í núverandi stöðu."

(Leturbreytingar: ES-blogg)

Því miður er það svo að töluverður hluti bænda á við töluverða rekstrarerfileika að glíma. En um nútíma landbúnað gildi það sama og um annan rekstur; hann krefst stöðuleika, og hagstæðra skilyrða til að blómstra.

Fátt er t.d. sem segir að bændur séu að græða á falli krónunnar, þar sem íslenskur landbúnaður er í eðli sínu ekki útflutningsmarkaður, heldur framleiðslugrein sem framleiðir fyrir innandlandsmarkað. En, oftar en ekki, með hjálp innfluttra aðfanga. Og þar stendur hnífurinn í kúnni! 

Í vor bárust fréttir af bændum sem áttu varla fyrir áburði. Þætti okkur ekki skrýtið ef heilbrigðiskerfið ætti ekki fyrir lyfjum, skólakerfið ekki fyrir bókum eða pappír?

Evrópusamtökin vilja að íslenskur landbúnaður blómstri og að íslenskir bændur séu ánægðir. Við vitum líka að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga vilja íslenskar landbúnaðaarfurðir.

Í ljósi alls þessa eru auglýsingar ungbænda eins og skrattinn úr sauðaleggnum!

Frétt um vanda bænda.

(Tilvitnanir: http://www.bondi.is/Pages/942)


Ísrael á allra vörum - árás á hjálparskip - uppfærsla 1

Gömul kona - GazaÁrás Ísraelsmanna á skipaflutningalest frá Evrópu með hjálpargögn til Gaza hefur vakið hörð viðbrögð víða um heim. Níu óbreyttir borgarar létust í árásinni.

ESB, sem er sá aðili í heiminum sem veittir mestu fjármagni til mannúðarstarfa, hefur líka brugðist hart við og krefst rannsóknar á atburðinum. Þá hafa handtökur á ríkisborgurum ESB-landa einnig vakið reiði sambandsins

Málið var rætt á Alþingi eftir hádegi í dag, en Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra hefur fordæmt árásina. Meirihluti utanríkismálanefndar sendi frá sér álit um málið, en frétt um hana má lesa á Eyjunni.

ESB varði í fyrra um 32 milljónum Evra í aðstoð við íbúa Gaza, sem búa við hörmulegar aðstæður.

Fyrir áhugasama er hér að finna umfjöllun Amnesty Internation um Ísrael og Palestínu úr ársskýrslu samtakanna fyrir árið 2010.

ESB mun beita sér fyrir að Ísraelsmenn rjúfi herkvínna um Gaza.


FRBL-leiðari: Yfirgripsmikið þekkingarleysi

FréttablaðiðLeiðari Fréttablaðsins í dag fjallar um hinar margumtöluðu auglýsingar Samtaka ungra bænda, sem birtust í FBRL og MBL um síðustu helgi. Ólafur Stephensen ritstjóri skrifar undir fyrirsögninni: Yfirgripsmikið þekkingarleysi:

"Samtök ungra bænda birtu dálítið sláandi auglýsingar í blöðunum á föstudaginn. Mynd af brynvörðum fallbyssubíl með eftirfarandi fyrirsögn: "Við viljum ekki senda afkomendur okkar í Evrópusambandsherinn." Lesendur, sem gengu kannski út frá því að höfundar auglýsingarinnar vissu um hvað þeir væru að tala, hefðu getað ætlað að í fyrsta lagi væri til eitthvað sem héti Evrópusambandsherinn, og í öðru lagi að gangi Ísland í ESB, verði ungt fólk skyldað í hann.

En auglýsendurnir vita augljóslega ekki um hvað þeir eru að tala. Evrópusambandið hefur engan sameiginlegan her. Sambandið hefur á sínum snærum hraðsveitir, samansettar úr herjum aðildarríkja sem vilja leggja þeim lið. Sveitunum er ætlað að stilla til friðar á ófriðarsvæðum, og hafa sinnt friðargæzlu í nokkrum löndum. Sumir stjórnmálamenn í ESB hafa áhuga á að auka þetta samstarf. En ESB-her er ákaflega fjarlægt stefnumið og raunar ólíklegt að aðildarríkin nái nokkurn tímann um það samstöðu."

Og síðan ræðir Ólafur ummæli formanns ungbænda, Helga H. Haukssonar

"Í viðtali við RÚV sagði Helgi Haukur: "Við þurfum væntanlega við aðild að Evrópusambandinu að undirgangast þessa svokölluðu common security and defense policy væntanlega eins og aðrar stefnur Evrópusambandsins. Það náttúrulega gerir það að verkum að við verðum ekki lengur herlaus þjóð eins og við höfum verið."

Þessi ummæli opinbera svo yfirgripsmikið þekkingarleysi að erfitt er að vita hvar á að byrja að leiðrétta bullið. Ísland myndi vissulega undirgangast utanríkis- og öryggismálastefnu ESB við aðild - og ætti ekki í neinum vandræðum með það. Ísland á nú þegar umtalsvert samstarf við ESB á grundvelli stefnunnar, án þess að örlað hafi á hugmyndum um íslenzkan her. ESB-aðild hefur ekkert slíkt í för með sér, eins og hefur alla tíð legið skýrt fyrir, ekki frekar en vera Íslands í hernaðarbandalaginu NATO í sex áratugi. Verði Ísland aðildarríki ESB, ræður það því eftir sem áður sjálft hvort það hefur her.

Við þetta má svo bæta því, sem ungum bændum er hugsanlega ekki kunnugt, að aðeins sjö af 27 ríkjum ESB hafa herskyldu - það er sömuleiðis aðildarríkjunum í sjálfsvald sett."

Allur leiðarinn

 


Byggðastefna ESB: Formaður ungra Evrópusinna

Sema Erla SerdarSema Erla Serdar, formaður Ungra Evrópusinna, skrifar grein á umræðu-vef Fréttablaðsins um byggðastefnu ESB. Í grein sinni segir hún m.a.:

"Eitt af meginmarkmiðum Evrópusambandsins er að stuðla að efnahagslegum og félagslegum jöfnuði milli ólíkra svæða og landshluta í Evrópu. Byggðaþróunarstefnu Evrópusambandsins er ætlað að verka sem nokkurs konar mótvægi gegn því að þeir kraftar sem hið aukna viðskiptafrelsi og hin aukna samkeppni innri markaðarins komi sumum svæðum og aðilum innan sambandsins vel og öðrum síður. Þannig er stefnunni ætlað að stuðla að jafnari dreifingu velmegunar innan sambandsins, en það er, að draga úr muninum á efnahagslegu þróunarstigi milli landsvæða og aðildarríkja sambandsins. Þannig höfum við Íslendingar nú þegar viðskiptafrelsið með EES-samningnum og innri markaðinn, en ekkert til þess að koma á stöðugleika og jafnvægi."

Öll greinin


Ungir bændur þögnin ein

Hvorki hefur heyrst hósti né stuna frá Samtökum ungra bænda vegna opins bréfs frá stjórn Evrópusamtakanna, sem birt er á vefsíðum okkar.

Hinsvegar liggur nú fyrir að textinn í auglýsingunni er fenginn að láni hjá Nei-samtökum Íslands, Heimssýn, í færslu frá 15.maí s.l. Textinn er því ekki verk ungra bænda.

Kannski ekkert skrýtið hvaðan rangfærslurnar og staðreyndaskekkjurnar koma!  En óskiljanlegt er hversvegna ungbændur gera þetta nú. Liggur þeim ekkert annað á hjarta? Er þetta brýnasta hagsmunamál ungra bænda? Ekki staða þeirra sem stéttar, nýliðun í greininni o.sfrv. Magnað!


Gauti Kristmannsson skrifar um óróa og evruna

Gauti KristmannssonGauti Kristmannsson, dósent við H.Í., skrifaði áhugaverða grein í Fréttablaðið um helgina. í henni segir Gauti m.a.:

"Fróðlegt hefur verið að fylgjast með umræðu um Evrópusambandið hér á landi eftir hrunið. Eins og alltaf í þjóðernislegri umræðu hafa rökhugsun og skynsemi orðið að láta undan gífuryrðum og ósannindum. Helsta aðferð andstæðinga hefur verið að benda á hræðileg dæmi um ófarir Evrópubúa í hruninu, eins og ekkert hafi gerst hér á landi. Tekur þó steininn úr þegar leiðari Morgunblaðsins talar um evruna í öndunarvél vegna þess að hún hefur lækkað um að giska 20% miðað við Bandaríkjadal. Vitaskuld hefur ritstjóri Morgunblaðsins ágæta reynslu af hrynjandi gjaldmiðli hafandi haldið um stjórnartauma Seðlabanka Íslands, en undir hans stjórn féll krónan yfir 100% gagnvart evru.

Allur samanburður við Evrópu hefur verið á þessum nótum. Fyrir hrun var mikið talað um atvinnuleysi í Evrópu eins og það væri evrunni að kenna, og að hátt atvinnustig á Íslandi væri krónunni að þakka en ekki innspýtingu erlends lánsfjár. En atvinnuleysi hafði verið viðvarandi í Evrópu um áratugi, alveg frá olíukreppu og ekki síst eftir fall Berlínarmúrsins. Síðan hrundi krónan og það varð "evrópskt" atvinnuleysi hér þrátt fyrir hana. Reyndar töpuðust hlutfallslega miklu fleiri störf hér en það kemur ekki fram í atvinnuleysistölum vegna þess að fjöldi útlendinga flutti af landi brott. Og nú halda menn því fram að krónan sé að "bjarga" Íslendingum þegar hún hefur í raun aðeins lækkað laun okkar flestra umtalsvert og þeir sem hagnast eru fyrirtæki í útflutningi, sægreifar og álfyrirtæki."

Öll grein Gauta

 


Opið bréf til Samtaka ungra bænda

Opið bréf frá Evrópusamtökunum til formanns Samtaka ungra bænda:

Helgi Haukur HaukssonSamtök ungra bænda birtu auglýsingar í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu föstudaginn 28.maí þar sem varað við "Evrópuher,“ en sá her er ekki til. Um er að ræða grófa bjögun á staðreyndum.

Auglýsingarnar voru stórar og því dýrar og í þeim eru hlutir sem alls ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum, til dæmis að íslenskir ríkisborgarar geti átt það á hættu að vera kvaddir til herskyldu. Evrópusamtökin fordæma "auglýsingamennsku“ af þessu tagi.

Bændasamtök Íslands hafa lýst því yfir að þau muni ekki ræða ESB-málið.

Samtök ungra bænda fylgja þeirri stefnumörkun.

Íslenskir bændur búa við mikla ríkisstyrki, en alls fá íslenskir bændur um 10 milljarða á ári beint frá skattgreiðendum. Sjálf Bændasamtökin fengu á fjárlögum 2010 rúmlega 500 milljónir til rekstrarins.

Í ljós þess að bændur vilja ekki ræða ESB-málið og njóta jafnmikils ríkisstuðnings og raun ber vitni (einn sá hæsti í heimi!) hlýtur að vakna sú spurning hvernig að fjármögnun þessara auglýsinga var staðið. Því spyrjum við formann Samtaka ungra bænda, Helga H. Hauksson:

1-Hvaðan kemur það fé, sem þessar auglýsingar voru greiddar með?

2-Hafa Samtök ungra bænda fengið fé frá Bændasamtökum Íslands til að fjármagna auglýsingar sem þessar?

3-Hyggjast samtökin standa fyrir fleiri auglýsingum af þessum toga?

Virðingafyllst,

Stjórn Evrópusamtakanna.

Baráttukveðjur til Osló!

Hera BjörkVið sendum Heru Björk og félögum baráttukveðjur til Osló. Það væri óneitanlega ljúft að vinna, við höfum verið svoooo nálægt því!

SÝNUM ÞEIM HVAR DAVÍÐ KEYPTI ÖLIÐ! ÁFRAM ÍSLAND!


Svanborg Sigmarsdóttir: Að detta niður í bullið

Svanborg-Sigmarsdottir"Auglýsingagjörningur" ungra bænda hefur vakið athygli og spurningar. Svanborg Sigmarsdóttir, stingur niður penna á Sterkara Ísland og skrifar um þetta mál.Hún segir m.a:

"Ungir bændur, dyggilega studdir af formanni Heimssýnar, ákváðu í dag að reyna sitt besta til að koma umræðu um Evrópusambandið niður í dýpsta forarpytt. Þegar ekki er hægt að halda uppi umræðu sem byggir á rökum er illt í efni. Þegar fallið er í gryfju bulls og hræðsluáróðurs í stað raka veltir maður því fyrir sér hvort eigi yfir höfuð að taka þátt í slíkri dellu. En lygarnar gera það að verkum að einhverju verður að svara.

Ungir bændur vilja ekki í ESB, því þeir óttast að Evrópusambandið taki upp herskyldu sem skyldi Íslendinga í Evrópuherinn. Þessa hugmynd fá þeir með því að afbaka hugmyndir um þróun sameiginlegu varnarstefnu bandalagsins, en þar má finna hugmyndina um sameiginlegt „hraðlið“ eða Rapid Response Force.

Það fyrsta í bullinu er auðvitað að það sé einhver hugmynd uppi um herskyldu allra Evrópuþjóða. Allar Evrópuþjóðir, utan Íslands, hafa her, en hver þjóð er sjálfvalda um það hvort hún hafi herskyldu og það er jafn líklegt og að Ísland verði stórútflytjandi á bönunum og að þær samþykki allar að taka upp herskyldu, hvað þá sameiginlega herskyldu. Flestir hermenn esb-ríkjanna eru atvinnuhermenn, en hafa ekki verið skyldaðir til þátttöku."

Allur pistill Svanborgar


Myndagallerí ungbænda!

Skriðdreki Í ljósi umræðunnar um "her-auglýsingu" Samtaka ungra bænda er fróðlegt að skoða myndagallerí heimasíðu ungra bænda.

Þar sést hvað þetta "uppátæki" er gjörsamlega út úr kortinu!

Hér er krækjan:Smellið á hana og kíkið á myndagalleríið til samanburðar.

Og enn stendur eftir spurningin: Eru auglýsingarnar borgaðar af almannafé í gegnum styrki frá Bændasamtökunum? Fróðlegt væri að fá svar frá ungbændum!

Þetta gefur ef til vill tilefni til þess að fjárveitingarvaldið, sem styrkir íslenska bændur um 10 milljarða á á ári og lætur Bændasamtökunum í té um 500 milljonir á ári, skoði betur hvernig þessum peningum sé varið?

Er það virkilega svo að bændur, sem margoft hafa lýst því yfir að þeir vilji ekki ræða ESB-málið, noti svo opinbert fé í vitleysu eins og þessa? 

En þetta er á hreinu: Ungir bændur hafa keyrt illilega útaf, líkt og skriðdrekinn á myndinni sem fylgir þessari færslu. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband