Leita í fréttum mbl.is

Króatar hálfnaðir í aðildarviðræðum

Frá ZagrebKróatar eru hálfnaðir í aðildarviðræðum við ESB. Búið er að loka 18 af 35 köflum í viðræðunum. Nýlokið er kaflanum um frjálst vöruflæði, en fyrir dyrum standa m.a. mikilvægir kaflar á sviði dómsmála og öryggismála. Það er fréttaveitan EurActive, sem greinir frá.

Króatar stefna að því að verða fyrsta ríkið inn í ESB, síðan Rúmenía og Búlgaría gengu í ESB árið 2007.

Frétt EurActive er hér


Mikið tjón vegna öskunnar!

FlugleiðavélFramkvæmdastjórn ESB hefur hvatt yfirvöld aðildarríkjanna til þess að grípa til aðgerða í því skyni að bæta flugfélögum skaðann vegna öskunnar frá Íslandi.

Talið er að tjónið vegna öskuhamfaranna nemi um 3 millörðum dollara, eða næstum 400 milljörðum íslenskra króna. BBC greindi frá en einnig má lesa frétt Wall Street Journal um málið:

http://online.wsj.com/article/BT-CO-20100427-715135.html?mod=WSJ_World_MIDDLEHeadlinesEurope

ESB: http://europa.eu/rapid/pressReleasesAction.do?reference=MEMO/10/152 


Er Ísland samfélag bænda og fiskimanna?

Styrmir GunnarssonÞað er óneitanlega athyglisvert að fylgjast með skrifum helsta hugmyndafræðings Nei-sinna á Íslandi, Styrmis Gunnarssonar, fyrrum Moggaritstjóra, í Mogganum á sunnudögum. Þar birtir hann sínar hugmyndir um lífið og tilveruna.

Í sínu nýjasta bréfi sínu fjalla Styrmir um skýrsluna (hvað annað?) og segir hana vera ákveðna hreinsun. Orðrétt segir: ,,Sú hugafarsbreyting, sem þessari hreinsun fylgir, mun leiða í ljós að besta leiðin fyrir þetta litla  samfélag fiskimanna og bænda á norðurslóðum, er að hafa allt opið, engin leyndarmál, allt gagnsætt hvað almannahag varðar.“  Gott og vel, alveg hægt að vera sammála Styrmi hér varðandi ,,hið opna semfélag."

Síðar fer hann að ræða sitt uppáhald, beint lýðræði og segir: ,,Seinni hluta marsmánaðar var frá því skýrt í Bretlandi, að Gordon Brown hygðist leggja til að innan skamms tíma, nokkurra, missera, hefði hver einasti þegn Bretaríkis aðgang að sinni eigin heimasíðu. Þar gæti hinn sami þegn átt öll þau samskipti, sem hann þyrfti á að halda við yfirvöld.“ Með þessu segir Styrmir að panta mætti skólavist, tíma hjá lækni, vegabréf o.s.frv.

Um er að ræða draumsýn um (næstum) hið fullkomna upplýsingasamfélag, þar sem allir eru ,,online“.

En það eru þessi skörpu skil í hugmyndaheimi Styrmis, sem vekja athygli ritara. Hinsvegar hið ,,gamla“ samfélag bænda og sjómanna og hið ,,nýja“ samfélag breiðbandstenginga, milliliðalausra samskipta og mikillar lýðræðislegrar virkni borgaranna. Hvernig fær Styrmir þessa mynd til að ganga upp?

Í fyrsta lagi eru ekki næstum því allir sem vilja eða hafa áhuga á því að nýta sér tölvutækni og ekki heldur hafa allir áhuga á að vera virkir þátttakendur í hinu lýðræðislega ferli. Sumum stendur hreinlega bara á sama! Sumir vilja kannski fara til læknisins og panta tíma, eða á skattstofuna að borga skattinn!

Þessi þversagnakennda sýn Styrmis er kannski nokkuð lýsandi fyrir afstöðu Nei-sinna,  að róma hin gömlu gildi samfélags sem einu sinni var ríkjandi samfélagsform, en er það ekki lengur, en á sama tíma að búa í hátæknisamfélagi sem vill vera slíkt samfélag og ber sig að öllu jöfnu saman við önnur slík samfélög.

Og svona rétt í lokin: Á Íslandi starfa um 5000 sjómenn og ríflega 3000 bændur, af um 166.000 vinnufærum einstaklingum.


Grikkland fær aðstoð ESB og IMF/AGS

Fáni GrikklandsGrikkland hefur beðið ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um fjárhagsaðstoð vegna skuldavanda landsins. Komið hefur í ljós að fjárlagahalli landsins er meiri en talið var.

Forsætisráðherrann, jafnaðarmaðurinn George Papandreou, segir þetta vera þann vanda sem fyrri ríkisstjórn hægrimanna skildi eftir sig. Talið er að um miðjan maí fái landið lán sem samsvarar 45 milljörðum Evra.

Ekki er talið að vandi Grikklands muni hafa áhrif á önnur lönd að mati Jean Claude Trichet, bankastjóra Evrópska seðlabankans.

EurActive skrifar um þetta hér


Grænt ljós í Bundestag

Þýska þingið - BundestagFram hefur komið í fjölmiðlum í dag að þýska þingið Bundestag, hefur samþykkt að ESB hefji aðildarviðræður við Ísland, eins fljótt og hægt er. Þetta eru góðar fréttir. Í MBL segir m.a.:

,,Þýska þingið, Bundestag, lagði í dag blessun sína yfir að Evrópusambandið hefji eins fljótt og kostur er viðræður við Ísland um inngöngu í sambandið. Þingið hvatti Íslendinga jafnframt til að ná þverpólitískri samstöðu um að uppfylla skilyrði inngöngu í sambandið.

Í umræðum á þinginu benti sósíaldemókratinn Michael Roth á að jákvætt væri að fá stærstu fiskveiðiþjóð Evrópu inn í sambandið. Michael Link hjá Frjálslynda lýðræðisflokknum sagði að Íslendingar gætu komið sambandinu að gagni við varnarmál í norðvestanverðri álfunni."

Í Fréttablaðinu segir:

,,Fulltrúar allra flokka sögðust fagna aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þýskaland er eina aðildarland Evrópusambandsins sem notfærir sér heimild í Lissabonsáttmála sambandsins um að þjóðþingið þurfi að veita samþykki sitt áður en ráðherra landsins greiðir atkvæði um aðildarviðræður í ráðherraráðinu."


Krækjur!

ÝSAÁ vefsíðu Evrópusamtakanna, www.evropa.is er að finna athyglisverða samantekt um ritdeilu Helga Áss Grétarssonar og Úlfars Haukssonar um sjávarútvegsmál um daginn. Þar eru allar greinarnar og krækjur á þær.

Sjá: http://www.evropa.is/2010/04/23/rimma-helga-og-ulfars-um-sjavarutveg/

 


Jón Steindór: Sterkara Ísland - þjóð meðal þjóða (MBL:23.apríl 2010)

Jón Steindór Valdimarsson: "Þróun alþjóðamála hefur leitt til þess að vogaraflið sem við höfðum vegna legu Íslands er horfið. Nú erum við vegin og metin af eigin verðleikum."

Jón Steindór ValdimarssonFRÁ því Ísland varð sjálfstætt ríki hefur því í öllum aðalatriðum vegnað vel og komist í hóp þeirra ríkja heimsins þar sem lífskjör eru einna best. Þetta hefur að hluta tekist vegna eigin rammleiks og þrautseigju en ekki síður vegna ytri aðstæðna, ekki síst á alþjóðavettvangi, sem sköpuðu þjóðinni afar hagstæð skilyrði.

Vogarafl

Lega landsins varð að gríðarlegu vogarafli í samskiptum okkar til austurs og vesturs. Síðari heimsstyrjöldin leiddi í ljós hernaðarlegt mikilvægi landsins í styrjöldinni sjálfri og síðan í eftirleik styrjaldarinnar, kalda stríðinu, allt til brotthvarfs Bandaríkjahers frá Keflavíkurflugvelli.

Þetta vogarafl nýttum við okkur óspart í uppbyggingunni eftir stríð, t.d. í tengslum við Marshall-aðstoðina, síðan í tengslum við alls kyns viðskipti, bæði til austurs og vesturs, loftferðasamninga og ekki síst beittum við því í tengslum við útfærslu landhelginnar. Þetta varð allt undirstaða fyrir aukna velsæld og síðar framþróun og umbreytingu í atvinnulífinu.

Nýr kraftur

Umbreyting atvinnulífsins seig hægt af stað með aðild Íslands að EFTA 1970 og fríverslunarsamningunum við ESB 1972. Þeir samningar opnuðu samkeppni í iðnaði og þó hún væri erfið í fyrstu varð hún forsenda þess að hér hefur smám saman orðið til þróttmikill iðnaður. Aðild Íslands að EES-samningnum 1994 opnaði fyrir samkeppni á öðrum sviðum atvinnulífsins, nema landbúnaði og sjávarútvegi, auk þess að veita Íslandi aðgang að margvíslegu samstarfi á fjölmörgum sviðum, t.d. vísinda og mennta. Aðildin að EES hleypti enn nýjum krafti í atvinnulífið og þjóðlífið allt.

Þróun alþjóðamála hefur leitt til þess að vogaraflið sem við höfðum vegna legu Íslands er horfið. Nú erum við vegin og metin af eigin verðleikum. Við verðum að spila sem best úr þeim spilum sem við höfum á hendi, þau eru vissulega allgóð og þar leynast inn á milli hin þokkalegustu trompspil.

Efnahagshremmingar þær sem hafa gengið yfir heimsbyggðina og ekki síst skekið Ísland sýna svart á hvítu hve háðar þjóðirnar eru hver annarri. Margs konar önnur verkefni krefjast samvinnu og nægir þar að nefna umhverfismál og nýtingu auðlinda. Þá er býsna nærtækt að benda á eldgosið í Eyjafjallajökli og víðtækar afleiðingar þess á fjölmargar þjóðir.

Hreyfiaflið

Ísland er Evrópuland. Það er því nærtækast að leitað sé eftir samvinnu við Evrópuþjóðir. Ísland hefur gert það með góðum árangri á liðnum áratugum. Við eigum að halda áfram á sömu braut og ganga í Evrópusambandið. Þar getum við beitt okkur á þeim sviðum sem varða okkur mestu og jafnframt miðlað til annarra þar sem við stöndum vel að vígi. Samtímis njótum við styrks af samvinnunni og skjóls af sameiginlegu afli tæplega 30 Evrópuríkja.

Evrópusambandið er hreyfiafl Evrópu og við erum undir áhrifasvæði þess og örlög okkar fara óhjákvæmilega saman. Ísland á að taka fullan þátt í að móta eigin framtíð.

Ég vil sterkara Ísland, Ísland sem er þjóð meðal þjóða – þess vegna er ég Evrópusinni.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Gleðilegt sumar!

SóleyjarEvrópusamtökin óska landsmönnum gleðilegs sumars. Hrunvetur nr. 2 búinn!

Þökkum fjörugar umræður á blogginu í vetur.


Baltnesku löndin á leið út úr kreppunni

RigaTalið er að það versta sé yfirstaðið fyrir nágranna okkar í Eystrasaltinu; Lettland, Litháen og Eistland, hvað varðar kreppuna, og að þau séu hægt og bítandi að vinna sig út úr henni.

Þetta kemur fram í viðskiptahluta sænska dagblaðsins Dagens Nyheter. Þó er ástandið enn erfitt og atvinnuleysi í kjölfar kreppunnar enn mikið.

Í löndunum hefur verið gripið til harkalegrs niðurskurðar,en strax á næsta ári er útlitið mun skárra og því má segja að löndin séu á réttri leið í gegnum þann brotsjó sem dundi yfir.

Í Lettlandi hefur t.d. útflutningur aukist, þá helst af skógarafurðum og stáli. Þá eru jákvæðar fréttir frá talsmönnum ferðaiðnaðarins.

Af löndunum þremur er búist við að hagvöxtur verði jákvæður í Eistlandi í ár. Löndin þrjú gengu í ESB árið 2004, í svokallaðri ,,austur-stækkun."


Ísland nafli Evrópu?

Gos-NASAÞað er ekki oft sem Ísland virðist vera nafli Evrópu, en það er svo sannarlega núna. Og ástæðan er að sjálfsögðu Eyjafjallajökull, sem gárungarnir sem hafa ensku sem sitt tungumál, eru farnir að kalla KEVIN, sökum erfiðleika við framburð!

T.a.m. var fréttatími bresku SKY-stöðvarinnar kl. 22 að breskum tíma, nær allur tekinn undir gosið, örvæntingarfulla Breta sem komast ekki heim o.s.frv.

Kostnaður, tap og annað sem tengist þessu er nú þegar orðinn það sem á slæmu máli er "skyhigh", nálgast kannski það sem við köllum, stjarnfræðilegur!

Það væri kannski óskandi að pólitísk áhrif Íslands í Evrópu væru eitthvað í líkingu við þetta, nú er virkilega hlustað á allt sem kemur frá Íslandi!

En það tjón og óþægindi sem fólk er að verða fyrir, er ekki skemmtilegt.

(Mynd-NASA)


Að kasta steinum úr glerhúsi (MBL)

MBLEins og Morgunblaðsins er von og vísa nú um þessar mundir heldur blaðið áfram að andæfa ESB-aðildarumsókninni, nú í leiðara sunnudagsmoggans. Morgunblaðið heldur áfram að agnúast yfir kostnaði við aðildarumsókninni, sem er þó miklu minni heldur en þær afskriftir sem fram fóru þegar núverandi eigendur blaðsins, Óskar Magnússon og vinir hans, keyptu það. Þá voru um þrír milljarðar afskrifaðir. Kaupverð MBL hefur EKKI verið gefið upp (sjá hér).

Áætlað er að kostnaður við ESB-ferlið verði um 800-1000 milljónir króna, eða um 1/3 þess fjár sem afskrifað var hjá Mogganum. Allt verðu gert til þess að halda kostnaði í lágmarki, m.a. á hluti viðræðnanna að fara fram hér heima. Stór hluti ferlisins verður miklu léttara í vöfum vegna aðildar Íslands að ESB. ESB mun taka þátt í kostnaðinum os svo framvegis.

Sennilegast er allt þetta nöldur um kostnað frá MBL og mörgum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins vegna þess að viðkomandi hafa ekkert annað að segja.

Að stóru leyti snýst ESB um verslun og viðskipti. Hlutir sem ættu að vera flestum, ef ekki öllum Sjálfstæðismönnum hjartfólgnir. Þessvegna er svolítið erfitt að skilja þessa andstöðu þeirra. Eru þeir á móti aukningu á verslun og viðskiptum og betri aðstæðum fyrir íslensk fyrirtæki? Eða eru aðstæðurnar sem þeir hafa skapað þessum fyrirtækjum svona rosalega góðar?

Í langflestum ríkjum sem gerast aðilar að ESB hafa verslun og viðskipti aukist, m.a. vegna aukins markaðsaðgangs og þess háttar. Pólland (sem gekk inn 2004) er gott dæmi um slíkt. Frá aðild helfur landið fengið 70 milljarða EVRA frá ESB, til að byggja innviði pólsks samfélags, á fjölmörgum sviðum. M.a. hafa aðstæður pólskra bænda hafa einnig stórbatnað, en fyrir aðild var Pólland eitt fátækasta ríki Evrópu. Þetta kom fram í máli tveggja pólskra fræðimanna sem staddir eru hér á landi í boði H.Í.

70 milljarðar EVRA eru um 11.900 milljarðar íslenskra króna!

Í leiðaranum er svo verið að tala um að almenningur ,,borgi brúsann!“ Að nota þau orð verður að skoðast í því samhengi að þar er annar ritstjóra, Davíð nokkur Oddsson, fyrrum Seðlabankastjóri, en talið er að fleiri hundruð milljarðar hafi tapast í bankanum í stjórnartíð hans. Bara s.k. ,,ástarbréf“ Seðlabankans og Landsbankans eru talin hafa kostað ríkið (les: almenning) um 80 milljarða. Til samanburðar kostar rekstur íslenska menntakerfisins um 50 milljarða á ári!

Er þetta ekki pínulítið eins og að kasta steinum í glerhúsi?

 


Össur: ESB-aðild lykill að endurreisn, en ekki töfralausn

Össur Skarphéðinsson,,Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hvetur til þess að umsóknarferlið um aðild að Evrópusambandinu verði sem faglegast, hvort sem mönnum kann að þykja kostur eða galli við að ganga í sambandið. Hann telur umsókn um aðild að ESB grundvallarþátt í endurreisn Ísland, en segir jafnframt að ESB sé engin töfralausn." 

Þannig byrjar frétt Eyjnnar um ráðstefnu um Evrópumál, sem haldin var í Kópavogi í dag og Eyjan greinir frá. Ennfremur sagði Össur: ,,Umsókn um aðild er þannig grundvallarþáttur í endurreisn Íslands. Við þurfum traustari umgjörð utan um okkar atvinnu- og efnahagslíf. Við þurfum langtímastöðugleika fyrir fjölskyldur og fyrirtæki og við þurfum að rjúfa vítahring verðbólgu, vaxta og verðtryggingar sem allt sligar. Við þurfum að losa okkur við kollsteypuhagkerfið.”  

Frétt Eyjunnar  og Utanríkisráðuneytis


Berlingske Tidende: ESB-aðild leið út úr krísunni

Berlingske_TidendeHið virta danska dagblað, Berlingske Tidende skrifar um Ísland i leiðara fyrr í vikunni. Óhætt er að segja að höfundur fari fögrum orðum um okkur, að við séum dugleg og sterkbyggð. En hann segir einnig að við verðum að gera upp það hrun sem dundi yfir okkur. Og í lok leiðarans segir að Ísland hafi nú fengið að greiða það dýru verði að standa fyrir utan ESB, eða eins og segir á dönskunni:

,,Midt i krisen har Island betalt prisen for at stå alene – udenfor EU og kun med opbakning fra et vagt forpligtet Norden. EU-kommissionen har i en ny rapport anbefalet, at der åbnes optagelsesforhandlinger med Island. Ø-staten opfylder alle kriterierne for medlemskab. De nye islandske regering har selv sat EU-kursen, og man kan kun håbe, at den også finder opbakning hos en traditionelt EU-skeptisk og atlantisk orienteret befolkning."

Allur leiðarinn


ESB-fréttir ekki í forgangi hjá Morgunblaðinu...!!

Evrópa-myndÁ netsíðu Morgunblaðsins, www.mbl.is er að finna ESB-síðu, sem sett var upp í ritstjórnartíð Ólafs Þ. Stephensen. sem kunnugt er tóku Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen við af honum.

Það hefur hinsvegar vakið athygli þessa síðuritara að síðan sú virðist ekki vera í forgangi hjá ritstjórum blaðsins. Síðast var sett inn frétt þarna 19.3, eða næstum því fyrir mánuði síðan!

En mikið hefur gerst í henni Evrópu síðan þá! Og til þess að ritstjórarnir gleymi ekki alveg hvernig Evrópa lítur út, birtist hér mynd af henni með þessari frétt!


Skuggalegar verðhækkanir!

VisitalaHagstofa Íslands hefur birt skuggalegar tölur um hækkun matvæla. Í frétt á RÚVsegir að matvæli hér á landi hafi hækkað um 36% undanfarin tvö ár. Þá segir í frétt MBL í dag að verð á innfluttum matvælum hafi hækkað um tæp 63%! Jú, talan er rétt, 63%. Þetta er byggt á tölum frá Hagstofu Íslands.

Að sjálfsögðu er það hrun íslensku krónunnar, sem er orsök þessara hækkana, þetta er kostnaður okkar Íslendinga að lifa ekki við efnahagslegan stöðugleika og hafa minnsta sjálfstæða gjaldmiðil í heimi. Og þetta er ekkert nýtt. Svona hefur þetta verið og segja má að við séum orðin vön þessu. En þetta þarf ekki að vera svona.

Sérfræðingar sem fjallað hafa um gjaldmiðilsmál og þá sérstaklega upptöku EVRU, hafa bent á að við aðild að ESB og síðar upptöku Evru sem gjaldmiðils, geti matvælaverð lækkað um allt að 20-25%

(Myndin sýnir þessar hækkanir)

Heimildir:

http://www.ruv.is/frett/matarverd-hefur-haekkad-um-36

MBL

Hagtölur Apríl 2010


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband