Og meira af Sjálfstæðisflokknum, nú formanninum Bjarna Benediktssyni (BB).
Hann ritaði ásamt Illuga Gunnarssyni grein í Fréttablaðið þann 13.desember 2008. Báðir þingmenn á þeim tíma.
Kíkjum aðeins á hana:
Byrjunin:
"Á andartaki færðumst við Íslendingar úr því að vera í fremstu röð þjóða hvað lífsgæði áhrærir yfir í að leita alþjóðlegrar ásjár til þess að koma landinu úr efnahagslegri herkví og gera gjaldmiðilinn gjaldgengan."
Hér kemur svo afar athyglisverður hluti (leturbreyting, ES-blogg):
"Vandi smárrar myntar
Vegna þeirra efnahagserfiðleika sem fram undan eru er mjög kallað eftir því að stjórnmálaflokkar móti sér sýn og stefnu sem stýrt geti för næstu misseri og ár. Í ljósi aðstæðna er eðlilegt að sú umræða hverfist einkum um peningamálastefnuna, valkosti í gjaldmiðilsmálum og ríkisfjármálin. Peningamálastefnan er ein af grunnstoðum efnahagsstefnu hvers ríkis og traustur gjaldmiðill gegnir lykilhlutverki við mótun og framkvæmd slíkrar stefnu.
Íslenska krónan er smá og viðkvæm fyrir ytri áhrifavöldum. Á undanförnum árum hafa miklar sveiflur í gjaldmiðlinum valdið fyrirtækjum og heimilum verulegum vanda. Veik staða krónunnar um þessar mundir er okkur reyndar mikilvæg og verður það áfram á næstunni til þess að reisa hagkerfið við, því lágt gengi styrkir útflutninginn og veitir innlendri framleiðslu vernd. Þar með verndum við störfin og aukum framleiðsluna. Ýmis rök hníga því að því að krónan geti hentað okkur ágætlega til skamms tíma.
En sé horft til lengri tíma er hætt við að krónan verði okkur fjötur um fót. Sá sveigjanleiki sem krónan veitir okkur til að kljást við afleiðingar mistaka í hagstjórn eða til að bregðast við ytri áföllum á sér því miður þá skuggahlið að vera sveifluvaldandi og geta ýtt undir óstöðugleika í hagkerfinu. Óstöðugur gjaldmiðill dregur úr trausti á hagkerfinu og þar með möguleikum okkar á að nýta til fulls þau tækifæri sem felast í innri markaði Evrópu, laða til okkar fjárfestingar og hámarka samkeppnishæfni atvinnulífsins. Vöxtur nýrra atvinnugreina og fyrirtækja sem starfa að stórum hluta erlendis en eiga höfuðstöðvar hér á landi takmarkast mjög af stærð myntarinnar og því óöryggi sem af henni hlýst. Ekki verður horft fram hjá þeim veikleikum sem felast í smæð myntkerfisins. Meira að segja Bretar velta því nú fyrir sér hvort myntsvæði þeirra sé of lítið til að tryggja samkeppnishæfni þjóðarinnar. Það kemur því ekki á óvart að forystumenn íslensks atvinnulífs leggi um þessar mundir vaxandi áherslu á að mótuð verði stefna í gjaldmiðilsmálum á nýjum forsendum. Leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar hafa á sama tíma sannfæringu fyrir því að án nýs gjaldmiðils muni ekki takast að verja stöðugleika og þar með kaupmátt almennings.
Með upptöku nýs gjaldmiðils verða ekki öll hagstjórnarvandamál okkar leyst, langur vegur er þar í frá. Það er sanni nær að í slíkri ákvörðun felist að setja stöðugleikann í forgang og sætta sig við að geta ekki mætt sveiflum í hagkerfinu með aðlögun gengisins. Rangt væri að gera lítið úr þeirri fórn. Þeir sem um þessar mundir mæla fyrir Evrópusambandsaðild nefna einkum ávinning af upptöku evrunnar og kosti samstarfsins innan Myntbandalagsins máli sínu til stuðnings. Það má til sanns vegar færa að evran er að sumu leyti heppilegur valkostur fyrir okkur Íslendinga sem framtíðargjaldmiðill, en aðrir kostir í þeim málum hljóta jafnframt að koma til skoðunar. Evrópusambandsaðild er hins vegar miklu stærra og flóknara mál en svo að hægt sé að láta það ráðast af gjaldmiðlinum einum. Með í kaupunum fylgja ýmsir aðrir þættir, sumir jákvæðir en aðrir neikvæðir og þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn talið vega svo þungt, að hagsmunum þjóðarinnar væri betur borgið utan ESB en innan. Þessi afstaða hefur átt samhljóm meðal þjóðarinnar enda ESB aðild aldrei verið kosningamál hér á landi.
Þrátt fyrir efnahagslega erfiðleika á Íslandi er ljóst að ekkert hefur breyst varðandi þau grundvallaratriði sem um er að semja í aðildarviðræðum við ESB. Allt sem sagt hefur verið um ókosti sjávarútvegsstefnu ESB, áhrif á utanríkis- og öryggismál okkar og frekara framsal á fullveldi okkar á jafnt við nú og fyrir hrun bankakerfisins eða fall gjaldmiðilsins. En færa má fyrir því rök að kostir myntsamstarfs við ESB hafi vegna aðstæðna öðlast nýtt og aukið vægi. Með vísan til þess og þeirra straumhvarfa sem orðið hafa í efnahagslegu tilliti er því skynsamlegt að fara að nýju yfir það hagsmunamat sem ráðið hefur afstöðu Sjálfstæðisflokksins til þessa, með sérstaka áherslu á framtíðarstefnu í peninga- og gjaldmiðilsmálum.
Þjóðaratkvæðagreiðsla
Verði það niðurstaða endurmats Sjálfstæðisflokksins að hagsmunum þjóðarinnar sé enn betur borgið utan ESB væri það engu síður mjög í samræmi við ríka lýðræðishefð í Sjálfstæðisflokknum að láta málið ganga til þjóðarinnar í kjölfar viðræðna, þar sem ýtrustu hagsmuna hefur verið gætt. Varðstaða um auðlindir þjóðarinnar skiptir þar höfuðmáli.
Ljóst er að hér er um að ræða mál sem gengur þvert á flokkslínur. Aðrir flokkar hafa hver með sínum hætti opnað á að virkja beint lýðræði til lausnar á aðildarspurningunni og það gengur gegn kjarna sjálfstæðisstefnunnar að flokkurinn leggi stein í götu slíkrar leiðar. Óumdeilanlegt er að staða okkar í alþjóðlegu samstarfi og innan Evrópusamstarfsins mun hvíla á sterkari grunni að loknu slíku ferli. Hér ber einnig að líta til þess að samningur við ESB er hinn endanlegi úrskurður um þær reglur og undanþágur sem gilda eiga við inngöngu Íslands í ESB. Þó að meginlínurnar um þessi efni séu skýrar er viðvarandi ágreiningur um ýmsa mikilvæga þætti, svo sem mögulega stjórn Íslendinga á sérstökum fiskveiðisvæðum, yfirráð veiðiheimilda úr staðbundnum stofnum, heimildir til takmarkana á fjárfestingu og fjölmörg fleiri atriði.
Þær sérstöku aðstæður sem nú eru uppi kalla á að þjóðin öll taki í kjölfar aðildarviðræðna ákvörðun um þetta mikilvæga mál. Ræður þar úrslitum að halda ber á hagsmunum Íslendinga gagnvart Evrópusambandinu með það að leiðarljósi að sem víðtækust sátt og samstaða takist um niðurstöðuna."
Er þetta sami maðurinn sem vill núna draga umsóknina að ESB til baka? Getur hann ekki staðið fyrir þessar skoðanir sem hann setur hér fram ásamt Illuga? Hvað var það sem olli slíkri umpólun sem raun ber vitni? Er það að hafa orðið formaður Sjálfstæðisflokksins? Sér BB kannski eftir því núna að hafa skrifað greinina?
Það er margt skrýtið í henni veröld!
Ps. Greinin í heild sinni.