Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

...að sinna skyldustörfum!

Þremenningar úr röðum Nei-sinna lögðu fram þingsályktunartillögu á Alþingi í dag um að draga umsókn Íslands að ESB til baka. Einn þeirra, Ásmundur Einar Daðason, Nei-foringinn, var að sjálfsögðu að sinna skyldustörfum.

Í "röksemdafærslunni" með tillögunni segir m.a. ,,Aðild að Evrópusambandinu er ekki lausn á efnahagsvanda Íslands." 

En hvaða lausnir hafa þau? Haftakrónu, haftahagkerfi, pólitískt áhrifaleysi um málefni framtíðar, viðtaka á lögum og reglum frá ESB, án virkrar aðkomu og almenna "hliðarlínudvöl," sama gamla sveiflu/verðbólgu og hávaxtakerfið?

Þetta hér er líka snilld: ,,Á næstu missirum og árum mun Evrópusambandið endurskoða starfshætti sína og e.t.v. gera breytingar á grunnsáttmála sínum, Lissabonsáttmálanum. Á meðan ekki er ljóst hvernig haldið verður á málum hjá Evrópusambandinu er óráðlegt að vera í aðildarferli að sambandi sem gæti tekið grundvallarbreytingum á næstu missirum."

En á Íslandi má ekki (og á ekki) að breyta neinu? Hér þvælast hlutir náttúrlega bara fyrir okkur, eins og t.d. Rannsóknarskýrsla Alþingis, er það ekki? 

ESB hefur verið í stöðugum breytingum frá því það var stofnað, stofnríkin voru sex, en nú eru aðildarríkin alls 27 og innihalda öll helstu lýðræðisríki Evrópu!

Samkvæmt könnun sem gerð var um daginn vilja 66% þeirra sem voru spurðir, halda aðildarviðræðum áfram.

Íslendingar vilja fá að kjósa um aðildarsamning, en þetta fólk vill stöðva það. 

Ein "snilld" í viðbót úr "röksemdafærslunni" : ,,Fyrirsjáanlegt er að aðildarsamningur verði felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu og sú niðurstaða mun ekki auka velvilja í garð Íslendinga hjá aðildarþjóðum Evrópusambandsins." 

Spurning: Hvað með Norðmenn? Hverskonar röksemdafærsla er þetta? Og er það fyrirsjáanlegt að samningur verði felldur? Enginn veit hvernig niðurstaðan verður fyrr en samningur liggur fyrir. 

 

 


Andrés Pétursson í MBL: Auðlindir ekki í hættu

Andrés PéturssonAndrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, skrifar grein í Morgunblaðið í dag um ESB-málið og auðlindir undir yfirskriftinni: Auðlindir ekki í hættu. Grein Andrésar birtist hér í heild sinni:

Það er sérkennileg árátta andstæðinga aðildar Íslands að Evrópusambandinu að gefa sér alltaf þær forsendur að ekki sé hægt að semja um neitt varðandi auðlindir þjóða. Það er sérstaklega skrýtið því staðreyndirnar eru þveröfugar. Allar þær þjóðir sem hafa gengið í Evrópusambandið hafa samið um sínar auðlindir með varanlegum samningum. Bretar hafa til dæmis full yfirráð yfir olíulindum sínum, Svíar yfir járngrýtinu sínu og Finnar yfir skógunum.

Angi þessarar auðlindaumræðu kemur fram í grein Sigurbjörns Svavarssonar rekstrarfræðings um sjávarútvegsmál í Morgunblaðinu fyrir skömmu. Þó verð ég að hrósa röksemdafærslu Sigurbjörns í þeirri grein því hún er málefnalega sett fram.Vonandi er þetta upphafið að vandaðri og dýpri umræðu um auðlindamál í tengslum við umsókn Íslands að Evrópusambandinu.

Sigurbjörn bendir á ýmis atriði sem gæta verður vel að í samningaferlinu við Evrópusambandið. Þar má til dæmis nefna mikilvægi þess að hagnaður af sjávarútvegi verði áfram í landinu, komið verði í veg fyrir það að erlendir aðilar sölsi undir sig íslensk sjávarútvegsfyrirtæki og að ekki sé hægt að kippa undirstöðunum undan fiskvinnslu í landi. Ef þetta er ekki tryggt í samningum þá er ljóst að enginn Íslendingur mun greiða atkvæði með því að ganga í sambandið.

Mér finnst þó gæta misskilnings hjá Sigurbirni um regluna um hlutfallslegan stöðugleika. Sú regla hefur verið í gildi yfir 20 ár og engar vísbendingar komið fram um að henni verði kastað fyrir róða. Framkvæmdastjórn ESB hefur stunduð varpað þeirri hugmynd fram að taka upp annað kerfi en því hefur umsvifalaust verið hafnað af nánast öllum þjóðunum. Þar að auki má ekki gleyma því að ef Ísland semur um þessa reglu þá er ekki hægt að breyta því einhliða af Evrópusambandinu. Aðildarsamningar þjóða hafa sama vægi, og í raun meira, en sáttmálar ESB. Ekki er því hægt að þvinga Íslendinga til að breyta einu eða neinu í þeim samningi.

Í lokin langar mig að vísa í skýrslu Sjálfstæðisflokksins um auðlindamál frá árinu 2009. Þar segir skýrt: „Aðild að sambandinu mun ekki hafa veruleg áhrif á málefni er tengjast raforku, vatni, jarðvarma, olíu og gasi. Aðild að ESB hefði engin áhrif á yfirráð Íslands yfir Drekasvæðinu. Aðildin mun heldur ekki hafa í för með sér verulegar breytingar á regluverkinu er gildir um hálendið eða á málefnum norðurheimskautsins... meginreglan um hlutfallslegan stöðugleika í óbreyttri mynd tryggir Íslendingum sama hlutfall heildarkvóta og nú er, m.ö.o. íslenska ríkið fengi kvótann við Íslandsstrendur til úthlutunar til þeirra sem hafa veiðireynslu. Erlendir aðilar innan ESB fengju hann ekki þar sem þeir hafa ekki veitt að neinu ráði á íslensku hafsvæði síðastliðna þrjá áratugi.“
 


Alræðisseggir í ferðabann! KGB lifir góðu lífi í Hvíta-Rússlandi

Alexander LukasjenkoESB hefur sett ferðabanna á tæplega 160 einstaklinga sem tengjast síðasta einræðisherra Evrópu, Alexander Lúkasjénkó, sem ræður og ríkir yfir Hvíta-Rússlandi. Þetta kemur m.a. fram á EuObserver.

Ástæðan: Fyrir skömmu voru haldnar forsetakosningar, en eftir þær voru nánast allir sem buðu sig fram á móti Lúkasjenkó, sem hefur stýrt landinu sem einræðisherra í næstum tvo áratugi, handteknir og færðir í fangelsi. Margir hafa flúið land.

Í Hvíta-Rússlandi lifir nafnið KGB enn góðu lífi, en Lúkasjenkó heldur tryggum völdum, með aðstoð öryggislögreglunnar (KGB) og hersins.

Talið er að stutt sé í að Lúkasjenkó verði settur í ferðabann.

Í næstu viku munu ESB og Bandaríkin sennilega samþykkja efnahagsþvinganir á Hvíta-Rússland.  

Hallgrímur Thorsteinsson á Rás 2 var með fína umfjöllun um þetta í vikunni. 

 


Jón Steindór í MBL um ESB-málið

Jón Steindór ValdimarssonFormaður Sterkara Íslands, Jón Steindór Valdimarsson, skrifar grein í MBL í dag um ESB-málið og hér er öll greinin. Yfirskriftin er: Skammgóður vermir og tittlingaskítur.

"Alla jafna þykir það ljóður á ráði manna að hugsa bara til skamms tíma. Ekki er betra þegar gripið er til ráða sem bæta úr við fyrstu sýn en gera illt verra. Um það er sagt að skammgóður vermir sé að pissa í skó sinn. Þarf sú myndlíking ekki frekari skýringar við.

„Því hefur verið haldið fram að íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum … en leysi vandræði sín með þvi að stunda orðheingilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfingu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls.“ segir í Innansveitarkroníku Halldórs Laxness.

Skynsemi og yfirvegun

Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu í júlí 2009. Evrópusambandið samþykkti að taka upp viðræður í júní 2010. Allt gengur samkvæmt áætlun og er búist við að svokallaðri rýnivinnu ljúki í vor og þá hefjist eiginlegar samningaviðræður sem gæti lokið á næstu misserum.

Maður skyldi ætla að ákvörðun Alþingis yrði fylgt eftir af þunga, samningaleiðin gengin til enda og samningurinn falinn þjóðinni til samþykktar eða synjunar. Á þeim tíma og ekki síst þegar samningur lægi fyrir yrði rætt um kjarna máls og hagsmuni Íslands til langs tíma. Þá fyrst gætum við leitt málið til lykta með skynsamlegum og yfirveguðum hætti. Því miður er þessu ekki aldeilis að heilsa. Hér verður tvennt nefnt.

Krónan

Ekki er langt síðan flestir voru þeirrar skoðunar að íslenska krónan dygði okkur ekki. Örmyntin okkar hentaði ekki lengur í ólgusjó alþjóðaefnahagsmála og saga hennar frá upphafi væri meira og minna ein samfelld hörmungarsaga. Þessu vilja margir gleyma núna þegar kollsteypan hefur sett allt úr skorðum og krónan vermir vissulega sumum til skamms tíma. Halda að ylurinn núna sanni ágæti hennar. Hætt er við að snöggkólni í fæturna þegar fram í sækir. Bitur reynsla fortíðar ætti að vera víti til varnaðar.

Að laga eða laga að

Strax og aðildarviðræður hófust fundu andstæðingar aðildar upp alveg nýtt þrætuepli, nýjan tittlingaskít. Allt í einu var skilgreining á eðli viðræðnanna orðið aðalatriðið. Aðlögun!, aðlögun! er nú hrópað á torgum. Ekki er einu orði minnst á það hvort þau lög og reglur sem Evrópusambandið notar eru betri eða verri en þær sem við notum. Ekkert dæmi er nefnt um að sambandið vilji þröngva upp á okkur afleitum reglum.

Kjarni máls er auðvitað sá, og það vita allir sem vilja vita, að fari svo að Ísland gangi í Evrópusambandið þá þarf það að laga sig að reglum þess, alveg eins og við gerum nú innan EES. Frá þessu verða frávik á einhverjum sviðum. Um það snúast samningarnir. Hvort við kjósum að laga okkar kerfi fyrirfram í einhverjum atriðum eða ekki er okkur í sjálfsvald sett en við verðum að gera grein fyrir hvernig við ætlum að gera það komi til aðildar. Kjósum við að bíða þar til ljóst verður hvort við göngum í ESB eða ekki kann það að tefja fyrir því að við njótum ávaxtanna af aðildinni.

Væri ekki nær að við ræddum, t.d. á sviði landbúnaðar, hvort núverandi kerfi þarfnist breytingar og hvort breytingin væri skynsamleg ein og sér, jafnvel þó hún fæli í sér að nýtt kerfi passaði við það sem ESB notar.

Ræðum frekar framtíðina

Óskandi er að gagnslausri umræðu um eðli viðræðnanna og um að draga umsóknina til baka linni og þess í stað snúum við bökum saman um góðan samning og ræðum um framtíðarhagsmuni Íslands.

MBL, 28.1.2001

Öll greinin


Eru landbúnaðarmál umhverfismál? Hallur Magnússon bloggar á Eyjunni

Framsóknarmaðurinn Hallur Magnússon hefur bloggað töluvert um landbúnaðarmál að undanförnu. Í nýjum pistli á Eyjunni segir Hallur:

"Íslenskur landbúnaður á að skilgreinast sem umhverfismál en ekki landbúnaðarmál í aðildarsamningi Íslands við Evrópusambandið.  Í evrópskum skilningi fellur íslenskur landbúnaður miklu frekar undir mikilvægi þess að viðhalda fjölbreytilega tegunda – sem er umhverfismál – en hefðbundinn evrópskan landbúnað. 

Það eigum við að nýta okkur.  Meira um það hér.

„Landbúnaður þyrfti sérstakar lausnir við aðild að ESB“ segir í fyrirsögn Eyjunnar um niðurstöðu rýnifundi um 11. kafla samningaviðræðna við Evrópusambandið þar sem bornar voru saman reglur Íslands og ESB um landbúnað og dreifbýlisþróun. 

Eðlilega.

Niðurstöðurnar í rýnivinnunni koma ekki á óvart.

Íslenskir embættismenn hafa staðið sig afar vel í rýnifundavinnu vegna undirbúnings að aðildarviðræðum Íslands að ESB þrátt fyrir oft á tíðum óskýrar og oft á tíðum kolruglaðar pólitískar áherslur – ef þær hafa þá legið fyrir!

Nú fer að styttast í raunverulegar aðildarviðræður."

Allur pistill Halls


Rýni í landbúnaðarmál lokið

DráttarvélÞeim fjölgar sífellt köflunum sem verða tilbúnir fyrir samningaviðræðurnar við ESB og á  vef Utanríkisráðuneytisins má lesa:

"Rýnifundi um 11. kafla samningaviðræðna við Evrópusambandið, landbúnað og dreifbýlisþróun, lauk í Brussel í dag. Á fundinum, sem var sá síðari af tveimur, báru sérfræðingar Íslands og ESB saman löggjöf í þessum samningskafla. Fyrir íslenska hópnum fór Sigurgeir Þorgeirsson, formaður samningahópsins.

Landbúnaðarmál standa utan EES-samningsins og þarf að semja um þau frá grunni. Sameiginleg landbúnaðarstefna ESB byggir á sameiginlegum markaði fyrir landbúnaðarvörur, en engum tollum eða magntakmörkunum er beitt í viðskiptum með landbúnaðarvörur milli aðildarríkjanna. Til að tryggja stöðu landbúnaðar og jafna samkeppnisstöðu bænda er sameiginlegt stuðningskerfi fyrir landbúnað innan ESB, sem skiptist annars vegar í beinar greiðslur til bænda, sem alfarið koma af fjárlögum ESB, og hins vegar stuðning við dreifbýlisþróun sem er fjármagnaður sameiginlega af ESB og hverju aðildarríki.

Á rýnifundunum var regluverk Íslands og Evrópusambandsins borið saman. Lögð var áhersla á sérstöðu íslensks landbúnaðar og mikilvægi hans vegna fæðuöryggis, sjálfbærni og dreifbýlisþróunar. Til að mæta þörfum íslensks landbúnaðar verði nauðsynlegt að leita sérstakra lausna í samningaviðræðunum um aðild Íslands að ESB.

Á meðal þeirra þátta sem lögð var sérstök áhersla á af Íslands hálfu á rýnifundunum má nefna:

·Norðlæg lega og náttúruleg sérstaða, m.a. harðbýli og mikið dreifbýli

·Einföld stjórnsýsla og sveigjanleiki við innleiðingu

·Stuðningsfyrirkomulag, sérstaklega beingreiðslna, vegna sérstöðu Íslands og   skertrar   samkeppnisstöðu

·Viðbótarheimildir til að styrkja íslenskan landbúnað úr ríkissjóði

·Mikilvægi þeirrar verndar sem íslenskur landbúnaður nýtur í formi tollverndar.

·Starfsumhverfi kúabænda og afurðastöðva í mjólkuriðnaði

·Vernd innlendra búfjárstofna og heilbrigði þeirra

·Búfjármerkingar og mikilvægi þess að þær taki tillit til íslenskra aðstæðna

Löggjöf Evrópusambandsins um landbúnað og dreifbýlisþróun er umfangsmikil og hefur samningahópurinn unnið fjórar greinargerðir, ásamt almennum inngangi, þar sem ítarlega er gerð grein fyrir öllum þeim atriðum sem áhersla var lögð á af Íslands hálfu."

Fréttin og greinargerðir


Sumt er erfitt að skija!

Í fyrradag var lögð fram þingsályktunartillaga, með Einar K. Guðfinnsson, sem fyrsta flutningsmann, þess efnis að fela Ríkisendurskoðun það að hafa eftirlit með kostnaði við ESB-umsóknina. Ágætt.

Eftirlit er yfirleitt mjög gott, skortur á eftirliti getur verið mjög slæmur hlutur, það þekkjum við Íslendingar kannski ágætlega!

En það vekur athygli að einn flutningsmanna er foringi Nei-sinna, Ásmundur Einar Daðason.

Þýðir þetta að hann er hættur við að krefjast þess að umsóknin verði dregin til baka?

Til hvers að vera með í þingsályktunartillögu í sambandi við mál sem hann vill að verði hætt við?

Eða var þetta allt saman bara plat hjá Ásmundi?


Tófan hindrun í aðildarviðræðum?

TófaÍ spenvolgu Bændablaði,sem kom út í dag er forsíðufrétt þess efnis að refaveiðar samrýmist ekki tilskipunum ESB, en í fréttinni, sem einnig birtist á vef blaðsins, segir:

"Friðun refa er ofarlega á blaði Evrópusambandsins og eru þeir á lista í viðaukum sem kveða á um að aðildarríki skuli tryggja tegundinni friðlönd. Samkvæmt viðauka IV er beinlínis tekið fram að ríkjum „beri“ að friða refinn. Frávik sem heimiluð eru í tilskipun ESB frá þessari meginreglu duga ekki vilji stjórnvöld hafa hemil á fjölda refa á tilteknum svæðum eins og hér hefur tíðkast.

Í aðildarviðræðum Íslands og ESB er yfirlit yfir sjónarmið sem taka þarf tillit til hvað varðar umhverfismál vegna sérstöðu Íslands. Fjölmörg atriði eru þar sett fram og er refurinn eitt þeirra sem tekið er til skoðunar í gögnum á svokölluðum rýnifundi sem staðið hefur yfir undanfarna daga."

Ekki er beint tekin afstaða í málinu í Bændablaðinu, en ritstjórn ES-bloggsins veltir fyrir sér hvort hér sé að koma upp á yfirborðið enn eitt stórmálið, sem fyrirhugaðar aðildarviðræður gætu strandað á!!!!

Við sjáum fyrir okkur fyrirsögnina: Rebbi felldi aðild!


Þýskaland, Frakkland og Belgía rífa Evrusvæðið áfram

Financial TimesFram kemur í Financial Times í dag að Evrusvæðið er aldeilis að taka kipp þessa dagana, en fjölmargar vísitölur sem mæla vöxt í hagkerfum Þýsklands, Frakklands og Belgíu, tóku verulegan kipp í byrjun ársins.

Til að mynda er spáð um 2.8% vexti í Þýskalandi á þessu ári og almennt telja sérfæðingar ýmis vaxtarskilyrði nú þau bestu í 15 ár.

Frétt FT


Elvar Örn Arason í FRBL um ESB-málið: Hefjum málefnalega umræðu!

Elvar-Örn-ArasonElvar Örn Arason, framkvæmdastjóri Sterkara Ísland, ritar grein í Fréttablaðið í dag um ESB-málið og segir þar:

"Sjálfsmynd Íslendinga er evrópsk og almennt skipum við okkur á bekk með öðrum Evrópuþjóðum. Aðild Íslands að Evrópusambandinu snýst fyrst og fremst um pólitíska framtíðarsýn. Ísland er eina ríkið á Norðurlöndunum sem ekki hefur haldið þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort taka eigi virkan þátt í Evrópusamstarfinu. Frá árinu 1994 hefur Ísland verið tæknilega aukaaðili að sambandinu í gegnum EES-samninginn. Það þýðir að við tökum upp stóran hluta regluverksins, án þess að sitja við borðið þar sem ákvarðanirnar eru teknar.

Nú er tími til kominn að umræðan fari að snúast um þau málefni sem mestu máli skipta. Þau veigamestu eru sjávarútvegs-, neytenda-, landbúnaðar-, byggða- og gjaldeyrismál, einnig þarf að eiga sér stað umræða um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna og fullveldið á tímum hnattvæðingar.

Mikilvægt er að við förum að tala um þær umbætur á íslensku samfélagi sem þurfa að eiga sér stað alveg óháð því hvort að við göngum í sambandið eða ekki. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis var mikið fjallað um nauðsyn þess að efla stjórnkerfið á Íslandi. Einhendum okkur í þær umbætur sem eru nauðsynlegar og látum aðrar bíða, þar til að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar liggur fyrir.

Kjósendur eiga rétt á því að fá að sjá aðildarsamning við ESB, meta kosti hans og galla og greiða um hann atkvæði. Hefjum málefnalega umræðu.

Öll grein Elvars


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband