Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2011

Angela Merkel styður Evruna að fullu

Angela MerkelÍ fréttum RÚv var sagt frá þessu: "Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir að þýska stjórnin muni áfram leggja allt kapp á að tryggja stöðugleika evrunnar. Hún segir í viðtali við tímaritið Stern, sem kemur út á morgun, að ekki komi til greina að taka upp þýska markið aftur. Þjóðverjar ætli að halda sig við evruna. Hún segist fylgjandi frekari samvinnu ríkja á evrusvæðinu til að tryggja stöðugleika gjaldmiðilsins, þar á meðal í skatta-, velferðar- og atvinnumálum og hvað varðar launaþróun."

Frétt RÚV 


Guðmundur Gunnarsson um (m.a.) upphrópanir og órökstuddar fullyrðingar Nei-sinna

Guðmundur GunnarssonÍ nýjum pistli á Eyjubloggi sínu segir Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins:

"Það er afskaplega erfitt að fóta sig á málflutningi andstæðinga ESB, sem einkennist af upphrópunum og órökstuddum fullyrðingum. Þar má t.d. benda á fullyrðingar þeirra um að við ESB-aðild myndu fiskimiðin fyllast at erlendum fiskiskipum og að við missum yfirráð yfir orkulindum landsins.

Það liggur fyrir að lagaumhverfi varðandi orkulindir yrði nánast óbreytt frá því sem nú er. Evrópusambandið á ekki neinar auðlindir. Svíþjóð selur sína umframleiðslu á raforku til annarra Evrópuríkja. Olíulindir Breta og Dana hafa ekki verið framseldar og verða aldrei. Allt eru þetta fullvalda ríki í samstarfi við önnur lönd. Rétt eins og Ísland er í samvinnu við önnur lönd.

Fiskveiðistefna ESB byggir á sögulegum veiðirétti. Öll vitum við, eða ættum allavega að vita; að önnur ESB ríki eiga ekki þann rétt hér. Sameiginleg fiskveiðistefna Evrópusambandsins er eins og fiskveiðistefna Íslands, það er ef um er að ræða sameiginlega stofna, sem margar þjóðir nýta þá á fiskveiðistjórnun þeirra að vera sameiginleg meðal viðkomandi þjóða. Hér má benda á þá stofna sem við veiðum úr og eru sameiginlegir með öðrum þjóðum þ.e. kolmunna, síld og loðnu og karfann hér suður af landinu. Við erum þessa dagana að gera kröfu nákvæmlega um þetta grundvallaratriði hvað varðar veiðirétt í flökkustofnum makríls.

Á það má benda að hið fullvalda ríki Danmörk á litlar auðlindir, en þeir eru duglegir í viðskiptum og stunda gríðarlega útflutning á landbúnaðarvörum. Aðild að ESB er eina tækifæri íslendinga til þess að komast á stóran erlendan markað með fullunnar vörur, án núgildandi takmarkana. Það gefur okkur möguleika sem við höfum ekki um hagræðingu og vöxt í landbúnaði og sjávarútvegi með aðgengi að markaðinum sem opnast við aðild að ESB."

Allur pistillinn 


Engin kúvending hjá Árna Þór!

Árni Þór SigurðssonÁ Eyjunni stendur: "Árni Þór Sigurðsson þingflokksformaður Vinstri grænna og formaður utanríkismálanefndar Alþingis sagði á Alþingi í dag að ekkert nýtt hefði komið fram sem breytti þeirri persónulegu skoðun sinni að ljúka bæri viðræðuferlinu við Evrópusambandið og bera þá niðurstöðu undir þjóðina í atkvæðagreiðslu. Hann sagði viðræðurnar vera í samræmi við það nefndarálit sem samþykkt var um miðjan júlí 2009 þegar Alþingi samþykkti að ganga til viðræðna við ESB.

Miklar deilur hafa verið innan Vinstri grænna vegna samningaviðræðna við ESB. Í gær sagði formaður flokksfélagsins í Kópavogi sig úr flokknum vegna samstöðuleysis í stórum málum, og nefndi þá sérstaklega afstöðuna til ESB."

Í kjölfar þeirrar "skjálftavirkni" sem átt hefur sér stað innan VG komu fram hugleiðingar um hvort Árni Þór hefði kúvent í málinu, það sagði m.a. Bjarni Benediktsson, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins.

En Árni Þór er fastur á sinni skoðun, enda skynsamleg afstaða. 

Heimildin 


Valgerður um gjaldmiðilsmál í FRBL: Nú er lýst eftir peningastefnu

valgerdur BjarnadottirValgerður Bjarnadóttir þingkona, skrifar grein um gjaldmiðilsmál í Fréttablaðið í dag og segir þar m.a.:

"Í fréttum af fjórðu afgreiðslu AGS á efnahagsaðstoð til okkar segir að nú verði kveðið á um að við þurfum eða verðum að móta okkur peningastefnu til frambúðar.

Í skrifum um síðustu helgi gagnrýndi pistlahöfundurinn, Þorsteinn Pálsson, stjórnmálaleiðtoga fyrir að þegja um peningastefnu eða – stefnuleysi í áramótagreinum og – ávörpum.

Það má með sanni segja að erfitt er að vita hvað sumir stjórnmálamenn telja að verði okkur, íslensku þjóðinni, affærasælast við stjórn peningamála á næstu árum og áratugum. Það er heldur enginn vandi að taka undir að það er vont þegar fólk þegir um svo mikilvæg málefni.

Krónan hefur ekki reynst okkur vel, það liggur í augum uppi og það sýna rannsóknir. Væntanlega eiga enn fleiri rannsóknir eftir að sýna það, og útlista alls konar villur sem gerðar voru við stjórn peningamála undanfarin ár og jafnvel áratugi.

Stjórnmálamenn sem mæla fyrir aðild okkar að Evrópusambandinu verða ekki sakaðir um stefnuleysi í peningamálum. Aðild að sambandinu myndi færa okkur inn í myntsamstarfið þó við gætum auðvitað ekki umsvifalaust skipt á krónu og evru. Aðild að ESB er hins vegar forsenda fyrir að við getum nokkurn tímann skipt krónunni út fyrir evruna."

Öll grein Valgerðar 


FRBL: Evrópuþingmenn hvetja Íslendinga

FRBLÍ FRBL í dag stendur: "Íslendingar ættu að halda áfram að veiða hval og stjórna eigin fiskveiðum. Þeir eiga ekkert að gefa eftir í þessum efnum í komandi aðildarviðræðum.

Þetta kom fram í máli nokkurra Evrópuþingmanna á opnum fundi sem utanríkismálanefnd Evrópuþingsins stóð fyrir í Brussel á fimmtudag. Fundurinn fjallaði um aðildarferli Íslands og áskoranir tengdar því. Frá Íslandi ávarpaði fundinn Baldur Þórhallsson prófessor ásamt Nikulási Hannigan úr utanríkisráðuneytinu og Alyson Bailes úr Háskóla Íslands, sem fjallaði um öryggismál.

„Ég bjóst við hvössum spurningum en Evrópuþingmennirnir reyndust bara mjög miklir stuðningsmenn aðildar Íslands," segir Baldur.

Breskur þingmaður, Dr. Charles Tannock, gerði hvalveiðar að umræðuefni, segir Baldur, og hvatti Íslendinga ekki bara til að halda þeim áfram heldur til að fá hvalveiðar flokkaðar undir sjávarútvegsmál frekar en umhverfismál, eins og þær eru flokkaðar í dag hjá ESB.

„Svo var þarna portúgölsk þingkona, Comes að nafni, sem vill að Íslendingar fái að ráða sem mestu í sjávarútvegsmálum, enda telur hún að við séum sú þjóð sem best hefur staðið sig í þeim málum. Hún vill að við stöndum föst á okkar og gefum ekkert eftir í viðræðum," segir Baldur."

Öll fréttin 


Góður punktur hjá Baldri Kristjánssyni

Baldur KristjánssonÞað er áhugaverður punktur sem Baldur Kristjánsson bendir á á bloggi sínu:

"Við þurfum að uppfæra íslenska mannréttindalöggjöf og gefa mannréttindum meira stjórnskipunarlegt vægi. Við ættum að gefa alþjóðlegum sáttmálum sem við undirritum lagalegt gildi. Innleiða viðauka nr. 12 við Mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar mismunun. Innleiða löngu tímabærarar tilskipanir í vinnurétti frá ESB. Ganga í Evrópusambandið ekki síst vegna mannréttinda. Við megum ekki einangrast og forpokast meira en orðið er."

Blogg Baldurs 


Athugasemd um ATHUGASEMDIR

RitvélRitstjórn ES-bloggsins vill taka fram: Öllum athugasemdum er hleypt að, nema þeim þar sem um er að ræða persónulegar árásir og ljótt orðbragð. Sem stendur eru tvær slíkar athugasemdir óbirtar.

Það verður að halda ákveðnum "standard" hér, við getum haft siðareglur blaðamanna sem viðmið.

Hér á að fara fram málefnaleg umræða, því ESB-málið er málefni! Og það hefur tekist ágætlega hingað til.

Þetta blogg ber þess merki að það er "Mogga-blogg" og þ.a.l. eru fleiri sem gera athugasemdir, sem eru á móti ESB. Sem er allt í lagi. Við þolum það alveg.

Við höfum hinsvegar margoft bent á að þetta blogg er OPIÐ, ólíkt bloggi NEI-sinna, sem verður að teljast mjög merkilegt.

Það bendir til þess að þeir óttist OPNA UMRÆÐU um ESB-málið! 

Það er kannski í takt við háværar kröfur Nei-sinna um að draga ESB-málið til baka og taka því af Íslendingum þann möguleika um að kjósa um málið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sem verður að teljast furðuleg afstaða, vegna þess að innan hóps Nei-sinna er að finna raddir sem predika beint lýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslur og hafa gert það árum saman!

Helsti talsmaður hins beina lýðræðis er Styrmir Gunnarsson, fyrrum ristjóri Morgunblaðsins, það er ekkert launungamál. 

Höldum áfram að ræða málin! 


FRBL:Valdið frá Brussel til ríkjanna - (fiskveiðimál)

fish_Atlantic_codÍ Fréttablaðinu í dag stendur í frétt: "Maria Damanaki, sjávarútvegsstjóri Evrópusambandsins (ESB), boðaði í ræðu í gær að endurskoðuð fiskveiðistefna sambandsins yrði „einfaldari, grænni og svæðisbundnari".

Damanaki sagðist myndu sjá til þess að skrifræði yrði minna og ábyrgðin yrði færð á hendur aðildarríkjunum. „Færri ákvarðanir verða teknar í Brussel. Í framtíðinni verða ákvarðanir teknar af aðildarríkjum við hvert hafsvæði. Til dæmis munu ríkin við Norðursjó geta samið um nýtingu stofna þar."

Öll fréttin 


Engin ástæða til að sleppa Evrunni

EvraMats Persson, sænskur hagfræðiprófessor, segir í viðtali við finnska Hufvudstadsbladet að það sé engin ástæða til að leysa upp Evru-samstarfið. 

Hann gerir það það tillögu sinni að um 20-30% af skuldum skuldugustu Evruríkjanna verði afskrifaðar og telur að það muni ekki hafa áhrif að virði Evrunnar.

Þá segir, Juhana Vartiainen, sem er yfirmaður rannsókna hjá KI-stofnuninni í Stokkhólmi, sem fæst við efnhagsrannsóknir og greiningu, að Evru-samstarfið muni lifa af slíka skuldaafskrift.

Það myndi sennilega skapa einhvern óstöðugleika, en hann telur að það sé nóg af pólitískum vilja til að glíma við vandann.


Endaloka alræðis minnst í Eystrasaltsríkjunum - löndin aftur orðin eðlilegur hluti af Evrópu

Sovéskur skriðdrekiUm þessar mundir eru liðin 20 ár frá því Eystrasaltsríkin brutust undan járnhæl Sovétríkjanna, sem sjálf voru þá komin á grafarbakkann.

Þessara atburða, sem kostuðu blóðsúthellingar, er nú minnst í Lettlandi, Litháen og Eistlandi.

T.a.m var Jón Baldvin Hannibalsson, viðstaddur athöfn í Vilnius (Litháen) nú í vikunni, þar sem þess var minnst að sovéskir hermenn myrtu 15 almenna borgara, sem annaðhvort voru skotnir eða lentu undir sovéskum skriðdrekum.

Þessir atburðir gerðust við sjónvarpsturninn í borginni, þar sem mannfjöldinn hafði safnast saman til að mótmæla alræðinu.

Jón Baldvin studdi frelsisbaráttu Litháa dyggilega og er m.a. ein gata Vilnius skýrð í höfuðið á honum.

Ísland var síðan fyrsta landið til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna. 

Hér má heyra viðtal við Jón Baldvin á Rás tvö um málið. Símasambandið var hinsvegar ekki gott.

Ríkin þrjú; Eistland, Lettland og Litháen, gengu síðan öll í ESB árið 2004, einmitt til þess að tryggja til framtíðar fullveldi og sjálfstæðið.

Löndin eru aftur orðin eðlilegur hluti af Evrópu.

Video frá atburðunum 1991 (Vörum við innihaldi myndanna!)

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband