Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Gleðilegt nýtt ár!

flugeldar

Evrópusamtökin óska landsmönnum, nær og fjær, gleðilegs nýs árs!

Við hlökkum til að ræða Evrópumálin á nýju ári, en þá mun ESB-málið fara á fleygiferð og mikilvægir kaflar verða opnaðir.


Jón Bjarnason er ekki lengur sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra - Árni Páll hættir líka

Breytingar hafa verið gerðar á ríkisstjórn Íslands og er þær helstar að Jón Bjarnason hættir sem sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra og Árni Páll Árnason, sem efnahags og viðskiptaráðherra. Steingrímur J. Sigfússon, mun verða einskonar "súper-ráðherra" þegar fram í sækir.

Jón er ósáttur og skellir skuldinni á Brussel og hvaðeina.  En hvað hefur Brussel með þetta að gera? Ekki neitt! Þetta eru íslenskar póilitískar ákvarðanir.

Í yfirlýsingu sem Jón Bjarnason hefur sent frá sér segir hann meðal annars: "Undir minni forystu hefur mikil vinna farið fram innan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis við aðildarumsókn að ESB í samræmi við fyrirmæli Alþingis. Þess hefur jafnframt verið gætt að í engu sé farið út fyrir það umboð sem Alþingi veitti ríkisstjórninni með þingsályktunartillögu sinni þann 16. júlí 2009. Slík varfærni og ábyrgð er afar mikilvæg þegar um er að ræða meðferð íslenskra hagsmuna í milliríkjasamningum. Án efa mun brotthvarf mitt úr ríkisstjórn gleðja marga þá sem ákafast berjast fyrir skilyrðislausri aðild Íslands að ESB og telja sértæka hagsmuni Íslands litlu skipta." (Leturbreyting, ES-bloggið).

Það er þetta síðasta sem stingur í augun: "Skilyrðislaus aðild Íslands" og "telja sértæka hagsmuni Íslands litlu skipta."

Jón er ósáttur, það er ekki nokkur spurning. En: Allir Íslendingar vilja fá eins góðan samning við ESB og hægt er! Hagsmunir Íslands eru ótvíræðir í auðlinda og fiskveiðimálum og ESB getur ekki tekið af okkur auðlindir og mun ekki gera það! 

Þjóðin vill halda málinu áfram og fá aðildarsamning til að kjósa um.  Það er mjög mikilvægt í þessu samhengi!

Fréttir á Vísi , MBL.is og RÚV, sem tengjast hrókeringum í stjórninni.


Nei-sinnar kaupa "penna"

penniÁ Moggablogginu má lesa á bloggi einu: "Höfundur, Páll H. Hannesson er félagsfræðingur að mennt og hefur lengi starfað sem blaðamaður, m.a. á danska blaðinu Notat.dk sem sérhæfir sig í skrifum um ESB. Páll, sem fyrrum alþjóðafulltrúi BSRB til átta ára, er vel heima í samskiptum verkalýðsfélaga og ESB. Á síðunni verður fjallað um umsóknarferlið og það gegnumlýst eftir föngum, fjallað um velferðarsamfélagið og ESB og hina fjölmörgu þætti sem snúa að almannahagsmunum.

Heimssýn hefur ráðið Pál til að fjalla hér með málefnalegum og gagnrýnum hætti um ESB. Allt efni er þó á ábyrgð höfundar, enda skrifar hann hér á eigin forsendum og lýtur ekki ritstjórnarlegu valdi af nokkru tagi." (Leturbreyting, ES-bloggið)

Páll fær s.s. borgað frá Nei-sinnum fyrir að segja sínar eigin skoðanir á Evrópumálum. Spurning: Hvað gerist ef hann teflir fram skoðunum sem ganga á skjön við Nei-hreyfinguna? Verður þá dregið af laununum?

En þetta sýnir "svart á hvítu" að Nei-sinnar búast við að umsóknarferlið haldi áfram, annars væru þeir væntalega ekki að "fjárfesta" í Páli, ekki satt? Þetta sýnir einnig að Nei-samtökin hafa efni á að borga fyrir skoðanir.

Evrópusamtökin fagna annars þeirri gegnumlýsingu sem lofað er á þessu bloggi, það heitir með öðrum orðum að ræða málin á opinn og lýðræðislegan hátt. Og það er meira að segja opið fyrir athugasemdir á bloggi Páls! Nokkuð sem Nei-samtökin sjálf gætu tekið sér til fyrirmyndar!

Kannski mun Páll skrifa um þá almannahagsmuni sem felast í lágri verðbólgu, lágum vöxtum og engri verðtryggingu? Þetta ætti hann allt að þekkja frá Danmörku!


Sigurður Bessason um krónuna: "Svæsnasti óvinur launafólks"

Sigurður BessasonStrax eftir hrunið, haustið 2008 var ljóst að íslenska krónan gat ekki staðið óstudd. Þessvegna var hún sett á gjörgæslu, sem kallast gjaldeyrishöft og er þar enn. Ísland og íslenskt atvinnulíf fer inn í árið 2012 með "haftakrónuna" að leiðarljósi.

Mikið hefur verið rætt og ritað um þessi höft og menn t.d. bent á að þau séu mjög skaðleg. Vinna við að afnema höftin er hafin en enginn veit í raun hvernig krónan mun bregðast við "frelsinu" aftur. Það er erfitt mál þegar um þjóðargjaldmiðil er að ræða! Menn hljóta að vera sammála um það, hvort sem um er að ræða þá sem eru fylgjendur hennar eða ekki.

Fylgifiskur krónunnar er óstöðugleiki og verðbólga og það gerir Sigurður Bessason, formaður verkalýðsfélagsins Eflingar að umtalsefni í pistli á vefsíðu félagsins. Hann segir:

"Allt frá því samningar voru undirritaðir hefur allt of há verðbólga ríkt í landinu sem jafnt og þétt hefur saxað á þann ávinning sem stefnt var að til að reyna að vinna aftur hluta kaupmáttarins sem tapaðist í hruninu. Markmiðið um að ná marktækri styrkingu íslensku krónunnar er augljóslega ekki að takast á þessu ári. Íslenska krónan hefur sannarlega sýnt það í þessu hruni að hún er vinur framleiðanda sem flytja vörur sínar til útlanda en um leið svæsnasti óvinur launafólks þar sem veikindi hennar nærast á lækkuðum kaupmætti fólksins.

Því miður staðfestir viðhorfskönnun Gallup Capacent sem gerð var fyrir Flóafélögin nýlega alla helstu neikvæðu þætti þessarar þróunar."

(Mynd af www.efling.is - skjáskot)


BBC-viðtal: Evran er mótvægi við dollar - þarf að virka!

Á vef BBC er athyglisvert viðtal við umfangsmikinn fjárfesti, Jim Rogers, um Evruna og Evrusvæðið. Í viðtalinu segir hann að vandi Evru-svæðisins sé ekki Evrunni að kenna og að heimurinn þurfi traustan gjaldmiðil til mótvægis við dollarann. Þessi gjaldmiðill sé Evran! Kíkjum aðeins á viðtalið, blaðamaður BBC, Martin Webber, spyr:

"Martin Webber: Now many people say it's the euro that's at the heart of this crisis. They are calling it the "euro crisis." Is that how you see it?

Jim Rogers: No, absolutely not. It's not the euro. The world needs the euro or something like it to compete with the US dollar. We need another sound currency. The eurozone as a whole is not a big debtor nation. The eurozone has some debtor problems, some debtor nations, debtor states, but it's not a big, big problem. The euro is good for the world. It needs to work."

Annars varð athyglisverður "snúningur" í gjaldmiðilsmálum nýlega, þegar Japan og Kína gerðu með sér samning um að nota sína gjaldmiðla í viðskiptum í stað dollars. Meðal annars er talið að með þessu vilji auka áhrif kínverska Yuansins á alþjóðavísu. Það er mikil "kvika" í gjaldmiðilsmálum þessi misserin!

 


Vegna athugasemda - gætum hófs!

Ritstjórn ES-bloggsins vill biðja lesendur að gæta hófs í lengd og umfangi athugasemda og halda "klippi og klístri" í lágmarki.

Mun æskilegra er að RÆÐA málin efnislega og stuðla þannig að líflegri umræðu.

Við minnum á að þetta blogg er með OPIÐ athugasemdakerfi, en LOKAÐ er fyrir allar umræður á bloggum samtaka NEI-sinna, lýræðisást þeirra er mikil!

Hér geta menn hinsvegar rætt málin og þannig viljum við hafa það!


FRBL: Staðan í ESB-málinu

ESB-ISL2Prentmiðlar komu aftur út í dag og í Fréttablaðinu er grein eftir þremenninga í samninganefnd Íslands gagnvart ESB um stöðuna í ESB-málinu, en þetta eru þau Stefán Haukur Jóhannesson, Björg Thorarensen og Þorsteinn Gunnarsson.

Þau skrifa: "Eftir því sem viðræðunum vindur fram kemur smám saman í ljós hvað aðildarsamningur - og aðild - getur falið í sér í einstökum málaflokkum. Í samningskaflanum um "Samevrópsk net", sem nær yfir regluverk ESB til að koma á sameiginlegu orku-, fjarskipta- og samgöngukerfi, er til að mynda að finna ákvæði um að tengja beri fjarlæg svæði við Evrópu. Fram hefur komið í viðræðunum að Evrópusambandið lítur svo á að lagning sæstrengs frá Íslandi til Evrópu gæti fengist skilgreint sem forgangsverkefni í orkuflutningsáætlun sambandsins og þannig gæti Ísland notið stuðnings við slík áform."

Og síðar segir: "Ríkjaráðstefnan um aðild Íslands fór fram í beinu framhaldi af leiðtogafundi ESB um aukið aðhald í ríkisfjármálum og efnahagsmálum. Ákvarðanir ESB um að takast á við skulda- og fjármálakreppuna kunna að sönnu að hafa áhrif á framtíðarsamstarfið innan vébanda Evrópusambandsins.

Samninganefndin mun fylgjast með þeirri þróun og leggja mat á hana út frá hagsmunum Íslands í yfirstandandi viðræðum en eitt af þeim samningsmarkmiðum sem lagt er upp með í áliti Alþingis lýtur að því hvernig tryggja megi stöðugleika íslensku krónunnar með þátttöku Íslands í myntsamstarfinu ERM II.

Rétt er að hafa í huga að staðan á evrusvæðinu og aðgerðir ESB til að takast á við skuldavanda ákveðinna Evrópuríkja tengist ekki aðildarviðræðum Íslands eða stækkun ESB með beinum hætti eins og merkja má af því að Króatía undirritaði aðildarsamning sinn við ESB nú í desember. En þróunin í Evrópu og á evrusvæðinu hefur hins vegar umtalsverða þýðingu fyrir íslenska hagsmuni enda er mikill meirihluti okkar utanríkisviðskipta við aðildarríki ESB.

Næstu skref

Í mars næstkomandi verða fleiri samningskaflar opnaðir og svo aftur í júní í lok dönsku formennskunnar í ESB. Fram undan er að takast á við erfiða kafla í samningaferlinu, þar á meðal um sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál og umhverfismál. Enginn þarf að óttast að viðræðurnar einkennist af asa eða óðagoti. Þvert á móti ráða gæði starfsins hraðanum og viðræðum mun ekki ljúka fyrr en góður samningur liggur fyrir.

Vandað hefur verið til verka í málsmeðferð allri og eiga hagsmunaaðilar og félagasamtök hrós skilið fyrir virka þátttöku í ferlinu. Alþingi er í lykilhlutverki en utanríkismálanefnd fær allar upplýsingar og fylgist á virkan hátt með hverju skrefi."

Ljóst er að innan samninganefndar Íslands er mikil þekking og kunnátta um samningagerð. Ein besta sönnun þess er sú staðreynd að aðalamningamaður Íslands, Stefán Haukur, stjórnaði undanfarin átta ár samningaviðræðum Rússlands og WTO (Alþjóðaviðskiptastofnunin) og lauk þeim samningum fyrir skömmu með aðild Rússlands að WTO. Stefán Haukur skrifaði fyrir jól grein um þetta, sem vert er að benda á.

Rétt eins og það er mikilvægt fyrir Rússa að fá sæti við borðið hjá WTO er ekki síður mikilvægt fyrir Ísland að fá sæti við "ESB-borðið" þar sem mikilvægar ákvarðanir eru teknar.

 


Gleðileg jól!

feykir-kirkjaMeð þessari fallegu jólamynd frá fréttablaðinu Feyki á Sauðárkróki vilja Evrópusamtökin óska landsmönnum öllum gleðilegra jóla!

Ögmundur um ESB, "við hin" og fleira

Ögmundur JónassonInnanríkisráðherra Íslands, Ögmundur Jónasson, fer mikinn á nýrri færslu á bloggi sínu um Evrópumálin (sem hefði alveg mátt prófarakarlesa!). Ástæðan er viðtalið við Össur Skarphéðinsson í Kastljósi um daginn.

Ögmundur vill meina að þjóðin skiptist í þrjá hópa í sambandi við Evrópumálin og aðildarmálið og orðrétt segir Ögmundur:

"Hluti þjóðarinnar vill ganga í ESB, óháð hvað kemur út úr viðræðum um aðild Íslands. Á þessu máli hefur Samfylkingin verið nær óskipt um nokkuð langa hríð og að sjálfsögðu margir fylgismenn annarra flokka. Þessi hluti þjóðarinnar hefur barist fyrir inngöngu í ESB og hefur viljað þangað inn hvað sem það kostar."

Athugasemd: Hvernig veit Ögmundur að í þessum hópi sé fólkið sem vill fara inn, "hvað sem það kostar"?? Er þetta ekki vafasöm fullyrðing? Verði aðildarsamningur arfaslakur munu fáir segja já við slíkum samningi!


"Annar hluti þjóðarinnar vill vita hvað kemur út úr viðræðum um undanþágur og tímabundna fresti frá regluverki Evrópusambandsins. Þetta eru væntanlega þau sem utanríkisráðherra vísaði til sem „þjóðarinnar" sem vildi sjá hvað væri í pakkanum. Með skírskotun til þessa hóps og af virðingu fyrir sjónarmiðum hans féllst ég á að ganga til viðræðna við ESB, ekki vegna þess að ég teldi það æskilegt sjálfur, heldur vegna þess að þetta var ótvíræður vilji mjög margra. Þarna þótti mér utanríkisráðherra nokkuð ónákvæmur þegar hann vísaði í afsöðu okkar ráðherra og þingmanna VG til aðildarumsóknar á sínum tíma. Það sem ég og mörg okkar misreiknuðum þá var hve djúpt þetta ferli reyndist og hve ágengt Evrópusambandið er í kröfum sínum og hve viljugt það er að smyrja þetta ferli allt með fagurgala og fégjöfum."

Athugasemd: Með "fégjöfum" er Ögmundur væntanlega að tala um þá styrki sem umsóknarríkjum standa til boða, til þess að undirbúa aðild. Það gildir það sama um Ísland og önnur lönd sem hafa sótt um aðild að ESB, það sem aðrir hafa fengið, fær Ísland líka í formi aðstoðar við að gera þær breytingar sem gera þarf. En, eins og Ögmundur kannski veit þarf Ísland t.d. ekki að breyta hlutum hér í hinu niðurnjörvaða landbúnaðarkerfi, fyrr en niðurstaða úr þjóðaratkvæði liggur fyrir, þ.e. á staðfestingartíma annarra aðildarrríkja á aðild Íslands, ef af verður!). Það er nú dæmi um "ágengni í kröfum"!!  En okkur á ES- blogginu er spurn: Má ekki gera kröfur til Íslands? Er það óeðlilegt að gerðar séu kröfur? Á Ísland bara að vera "stikkfrí" og gera eins og því sýnist? Á móti hljótum við hinsvegar að geta gert kröfur gagnvart ESB, ekki satt? Síðan setjast menn niður og semja, þannig er þetta hugsað!

Annars er það heiðarlegt af Ögmundi að viðurkenna að hann hafi misreiknað sig í sambandi við ESB-ferlið, en á sama tíma gott að hann hafi áttað sig á umfangi málsins. Og vissulega er þetta stórt mál, þetta er eitt stærsta mál sem um getur í sögu íslenskra stjórnmála, enda um aðild að sambandi 27 sjálfstæðra Evrópuríkja að ræða!


"Síðan eru það við hin, sem erum andvíg því að Ísland gangi í Evrópusambandið, hvað sem út úr viðræðunum kemur enda sýni reynslan að uandanþágur eru sjónarspil til bráðabirgða. Hinir miklu „sigrar" við samningaborð í aðildarviðræðum hafa oftar en ekki reynst vera sjónhverfingar einar. Innganga í Evrópusambandið jafngildir að gangast enn lengra undir miðstýringu og regluverk ESB sem virðist engin takmörk þekkja fyrir forræðishyggju sinni. Þess vegna vara ég við öllu áróðursgjálfrinu sem tengist samnigaviðræðunum."

Athugasemd: Getur Ögmundur nefnt almenning dæmi um "sigra við samningaborðið sem hafa reynst sjónhverfingar" ?? Hvað á ráðherrann við? Er það ekki lágmarkskrafa (eða má gera kröfur??) að ráðherrann komi með dæmi um "sjónhverfingar", í stað þess að slengja þessu fram án nokkurs rökstuðnings?

Við minnum Ögmund á að þrátt fyrir inngöngu, þá ráða aðildarríkin áfram MJÖG miklu í sínum eigin málum, t.d. alfarið varðandi vinnumarkaðsmál. Og þaðer bara eitt dæmi. Og er ekki miðstýring hér á Íslandi, ja, eða forræðishyggja, ef út í það er farið?

Varðandi "áróðursgjálfrið" má segja þetta: Hvar hljómar það??? Getur Ögmundur bent á það? Þeir sem stýra þessu bloggi vita hinsvegar um fullt af fólki sem VILL FÁ AÐ VITA um hvað ESB raunverulega er og hvað það gerir, hvernig það virkar! Hvar á þetta fólk að ná í upplýsingar? Hjá Nei-samtökunum? Hér á landi eru bæði "Já og Nei" - fjölmiðlar og hér fer fram opin og lýðræðisleg umræða um málið. Þeir sem vilja hætta að við og pakka saman, vilja því líka skrúfa fyrir þessa mikilvægu umræðu um afstöðu og stefnu Íslands gagnvart Evrópu. Þeir vilja setja "lokið á!"

Ögmundur segir einnig að undanþágur séu "sjónarspil til bráðbirgða", enn ein órökstudd fullyrðing! Það er kannski við hæfi að benda ráðherranum á Evrópuvefinn og svör þar um þessi mál!

Í aðildarsamningi fengu Svíar varanlega undanþágu frá banni á notkun munntóbaks, sem er mörgum þeirra mikið hjartans mál. Sennilega hefði aðild verið felld, hefði þessi sérlausn ekki komið til!

Í aðildarsamningi Finna var gerð sérlausn vegna "norðlægs landbúnaðar" og það er nokkuð sem passar okkur Íslendingum eins og flís við rass! Í henni felst að Finnar máttu (og mega) styrkja sinn landbúnað: "Sem dæmi um sérlausn, sem er sniðin að sérstökum aðstæðum í umsóknarríki, má nefna ákvæðið um heimskautalandbúnað eða norðurslóðalandbúnað í aðildarsamningi Finna og Svía frá 1994 (142. gr.). Sérlausnin felst í því að Finnum og Svíum er heimilt að veita sérstaka styrki vegna landbúnaðar á norðurslóðum, það er norðan við 62. breiddargráðu, sem nemur 35% umfram það sem öðrum aðildarríkjum er heimilt. Markmiðið er að tryggja áframhaldandi landbúnaðarframleiðslu á norðlægum svæðum" (Heimild: Evrópuvefur H.Í.)

Danir fengu sérlausn vegna ótta þeirra við kaup Þjóðverja á sumarbústöðum og landi í Danmörku, sem síðar reyndist ástæðulaus!!

Fjöldi annarra sérlausna mætti tína til, en þær verða til vegna þess að umsóknarríki telja sig hafa ákveðna hagsmuni, sem verður þarf að taka tillit til og ESB gerir það! Sambandið traðkar ekki á hagsmunum aðildarríkja, heldur tekur tillit til þeirra! Á Wikipediu getur Ögmundur lesið heildaryfirlit um þessi mál! 

Ögmundur Jónasson hefur í gegnum tíðina verið rökfastur og staðið vörð um hagsmuni skjólstæðinga sinna, m.a. sem formaður BSRB. Í þessu bloggi sínu er ráðherrann hins vegar langt frá rökfestu og málefnalegri umræðu.

Hér kastar Ögmundur fram órökstuddum sleggjudómum og fullyrðingum sem alls ekki standast skoðun. Er ekki raunhæf (og sjálfsögð?) krafa til ráðherra í ríkisstjórn Íslands að gera betur?

Samkvæmt könnun sem Fréttablaðið gerði fyrir skömmu, vilja yfir 76% kjósenda VG klára aðildarsamninga við ESB!


Evra - danska krónan styrktist

Evran og danska krónan styrktus í dag gagnvart íslensku krónunni , eins og meðfylgjandi mynd ber með sér.

evra-danska


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband