Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

Atli og EES!

Atli GíslasonBörn á skólaskyldualdri VERÐA að fara í skólann. Bílstjórar og aðrir í umferðinni verða (og eiga) að fara eftir umferðarreglunum. Sæfarendur fara eftir þeim reglum sem gilda um siglingar og flugmenn um flug! Hvort sem þessum aðilum líkar betur eða verr!

Atli Gíslason kvartar yfir því að Ísland þurfi að innleiða regluverk og gerðir ESB og að of mikill tími fari í það. En Atli veit líka að við VERÐUM að innleiða þessar gerðir ESB. Og það vegna EES-samningsins! Það heitir að fara eftir þeim skuldbindingum sem maður skrifar upp á - að fylgja samningum sem maður gerir!

Á Eyjunni stendur: "Stefán Már Stefánsson, prófessor í Evrópurétti við lagadeild Háskóla Íslands, segir það í raun engu skipta hver afstaða ríkisstjórnarinnar sé til Evrópusambandsins þegar komi að lögfestingu ESB-gerða. Íslandi beri einfaldlega að staðfesta og innleiða tilskipanir og reglugerðir Evrópusambandsins."

Og þetta líka: "Í Morgunblaðinu í dag segist Stefán Már Stefánsson ekki vita til þess að Íslendingar hafi tekið upp fleiri gerðir en nauðsynlegt sé til að uppfylla EES-samninginn.

„Það fer bara eftir því hve margar gerðir eru á ferðinni og hverju er verið að breyta,“ segir Stefán Már. Hann segir því engu breyta hvort þingmenn eða ríkisstjórn eru hlynntir eða andvígir umsókn Íslands um aðild að ESB, Íslandi beri einfaldlega skylda til að innleiða tilteknar reglugerðir ESB."

Er þetta aðal viðfangsefni Atla þessa dagana, að kvarta yfir EES? Sem hefur þýtt ótrúlega framþróun fyrir íslenskt samfélag!

En gallinn er þessi: Við höfum ekkert að segja um þær reglur og gerðir sem við innleiðum. Með fullri aðild að ESB breytist það.

Það eykur fullveldið!


Davíð Oddsson "aðlögunarkóngur" Íslands?

Davíð OddssonÁ vefnum hjá Já-Ísland stendur: "Frá því EES samningurinn var samþykktur hefur lögum verið breytt á ári hverju vegna samningsins. Hér er um að ræða ferli sem er einfaldlega svona:  ESB ákveður að breyta lögunum hjá sér og við samþykkjum þær breytingar á Alþingi sem varða EES samninginn án þess að hafa neitt um það að segja. 

Sem er ein af ástæðum þess að margir telja aðild að ESB muni auka sjálfstæði okkar því þá fáum við sæti við borðið þar sem ákvarðanirnar eru teknar.

 Í fréttinni Morgunblaðsins á forsíðu í dag segir að síðustu ár hafi lögum verið breytt mun oftar en áður en það er alls ekki rétt, eins og lesa má í þessari skýrslu um hversu oft Ísland hafi breytt lögum vegna EES samningsins - óbeint eða beint.

Flestar beinu lagabreytingar eða 57 talsins voru innleiddar beint í íslensk lög þegar EES samningurinn var alveg nýr árin 1992 - 1994 en þá var einmitt ritstjóri Morgunblaðsins forsætisráðherra.  Hann hefur því innleitt flestar ,,aðlögunartilskipanir" að ESB en nokkur annar forsætisráðherra."

Þetta vekur upp á þá spurningu sem notuð er sem fyrirsögn!


Malta samþykkir lögskilnað

Malta2Á RÚV segir: "Meirihluti kjósenda á Möltu hefur samþykkt að leyfa lögskilnað í landinu. Lawrence Gonzi, forsætisráðherra Möltu, greindi frá þessu í sjónvarpsávarpi fyrir stundu."

En hvernig getur þetta verið? Er ekki Malta í ESB? Þá hlýtur (samkvæmt rökfærslu Nei-sinna) ESB að vera með puttana í öllu á Möltu? Deila og drottna!

Nei, Malta er evrópskt, sjálfstætt, fullvalda ríki, með aðild að ESB og nýtur góðs af!

Þeir ráða sjálfir hvort þeir leyfa lögskilnað eða ekki og hafa nú gert það! Án nokkurrar aðkomu eða afskipta ESB!


Össur með ítarlega grein í Fréttablaðinu

Össur-SkarphéðinssonUtanríkisráherra Íslands, Össur Skarphéðinsson, ritaði grein í Fréttablaðið í gær undir fyrirsögninni Ísland, Evrópusambandið, norðurslóðir og Kína.

Össur segir: "Mér hefur fundist athyglisvert að skoða fullyrðingar ýmissa mótherja Evrópusambandsins um að umsókn okkar þjóni ekki íslenskum hagsmunum af því hún komi í veg fyrir nánari samvinnu Íslands við lönd norðurskautsins, og skaði möguleika okkar á auknum tengslum við Alþýðulýðveldið Kína. Þessu er einkum haldið fram af gildum Sjálfstæðismönnum sem hafa sumir skilgreint sig sem „innmúraða og innvígða“ og leita saumnálarleit að pólitískum rökum gegn aðild.

Báðar staðhæfingarnar eru þó rangar. Um norðurslóðir er auðvelt að sýna fram á, að umsókn um aðild að Evrópusambandinu styrkir hagsmuni Íslands á norðurslóðum. Hún dregur ekki úr tækifærum í norðrinu heldur eflir þau. Fullyrðingunni um Alþýðulýðveldið hafa Kínverjar svarað sjálfir, því aldrei hefur Kína sýnt Íslandi jafnmikinn áhuga og einmitt eftir að Alþingi samþykkti umsókn um aðild."

Össur heldur áfram og segir: "Bæði almenn og sértæk rök má færa fyrir að aðild Íslands að Evrópusambandinu falli vel að vaxandi hagsmunum Íslendinga á norðurslóðum.

Áhugi ESB hefur sprottið einkum af umhyggju fyrir náttúru og loftslagi. Stefna sambandsins er langt í frá fullmótuð. Því er ákjósanlegt fyrir Ísland að sækja um aðild núna, og tryggja að Ísland geti í samningaviðræðum og síðar sem aðildarþjóð haft rík áhrif á stefnu þess til að styðja við hagsmuni Íslendinga. Á leikvangi alþjóðamála er sambandið einn öflugasti málsvari loftslagsverndar og þéttra alþjóðareglna um siglingar og mengunarvarnir. Það þjónar því Íslandi að hafa afl þess á bak við hagsmuni sína í norðrinu.

Nálgun Evrópusambandsins einkennist í senn af forystuhlutverki þess um loftslagsvernd og sterkari viðleitni en flestra til að vernda hina ofurviðkvæmu náttúru norðurheimskautsins. Áhugi annarra hefur vaxið í réttu hlutfalli við auknar líkur á nýtingu olíu og gass. Nálgun ESB gagnvart norðurslóðum slær hins vegar nákvæmlega í takt við hina íslensku afstöðu: Kapp er best með forsjá."

Síðan víkur Össur að þerri firru andstæðinga ESB að það muni gleypa hér allt með húð og hári:

"Þeir sem mest styggð kemur að vegna Evrópusambandsins sarga stundum á því að bak við velvild Evrópu liggi svartar hvatir ágirndar á auðlindum Íslendinga. Það er þó fjarri veruleikanum.

Ekkert í reglum sambandsins leiðir til þess að möguleikar evrópskra fjárfesta til að sælast í orkuna í fallvötnum eða háhitasvæðum Íslands ykjust við aðild. Ekki töpuðu Bretar og Írar olíulindum sínum í Norðursjó. Um lifandi auðlindir í hafinu gildir regla, sem kennd er við hlutfallslegan stöðugleika. Hún þýðir á mæltu máli að ríki Evrópusambandsins geta ekki gert kröfu um aflaheimildir nema þau byggi á sögulegri veiðireynslu. Henni er ekki til að dreifa í tilviki nokkurrar þjóðar síðustu 35 árin eða svo.

Besta vitnið um þetta er þó kannski norska konan sem situr fyrir franska græningja á Evrópuþinginu; Eva Joly. Í Silfrinu fyrr í vetur vísaði hún algjörlega á bug að Evrópuríkin myndu hvoma í sig auðlindir Íslands. Frú Joly, sem mælti eindregið með aðild var ómyrk: Við hvorki getum né viljum taka auðlindir ykkar." (Feitletrun, ES-blogg)

Öll grein Össurrar

Bendum einnig á viðtal við Össur á Eyjunni þar sem hann ræðir líka ESB-málið og þar segir hann meðal annars: "Ég er...stundum undrandi á því að rök andstæðinga aðildar eru sjaldan málefnaleg. Þau snúast aldrei um hvað er gott eða vont fyrir Ísland, heldur um tæknilega hluti einsog hvort aðlögun sé í gangi, eða hvort það sé verið að múta fólki. Mér finnst stundum tvískinnungur í máli manna.

Í hverju birtist þetta sem þú kallar tvískinnung?

Til dæmis því að formaður Heimssýnar og aðrir andstæðingar ESB sífra mikið um það sem þeir kalla aðlögun á sama tíma og þeir greiða atkvæði viku eftir viku og mánuð eftir mánuð með fjölda laga og tilskipana, sem fela í sér blóðhráa aðlögun að Evrópusambandinu gegnum þátttöku okkar í Evrópska efnahagssvæðinu. Þá segja þessir heiðursmenn ekki múkk og samþykkja möglunarlaust allt sem ESB kemur með, jafnvel þó þeir eða Alþingi geti ekki breytt einum einasta stafkrók. Í mínum huga er þetta aðlögun einsog hún gerist verst, og fjarri því að vera lýðræðisleg. Ég veit ekki einu sinni hvort hún stenst lengur stjórnarskrána. Ein af ástæðunum til að ganga í ESB er að geta haft áhrif á lögin sem við þurfum í dag að taka hrá frá Brussel án þess að geta nokkru breytt."


Þorsteinn Pálsson um stöðuna í ESB-málinu: Þjóðin vill halda málinu áfram

Þorsteinn PálssonÍ pistli í Fréttablaðinu í gær skrifar Þorsteinn Pálsson, fyrrum ráðherra, um ESB-málið og segir þar:

"Glöggt má merkja að Evrópuandstæðingar telja sjálfir að þeir hafi náð undirtökum í aðildarumræðunni. Er það svo? Hefur eitthvað breyst frá því Alþingi ákvað að sækja um? Þetta þarf að skoða bæði í málefnalegu ljósi og eins í samhengi við pólitíska taflstöðu málsins.

Á taflborði valdanna hafa orðið nokkrar breytingar. Þjóðin valdi meirihluta þingmanna úr þeim þremur flokkum sem höfðu aðild á dagskrá. Þingmenn Framsóknarflokks og Borgarahreyfingar hafa að einhverju leyti snúið við blaðinu frá því sem þeir lofuðu kjósendum. Að þessu leyti hafa andstæðingar aðildar sótt í sig veðrið.

Á hinn bóginn sýna skoðanakannanir ótvírætt að meirihluti þjóðarinnar vill að Alþingi standi við þá ákvörðun sem tekin var með aðildarumsókninni og láti á hana reyna til þrautar. Eftir stendur eins og áður að þjóðin getur ekki tekið endanlega afstöðu fyrr en fyrir liggur hvernig viðræðum lyktar.

Andstæðingunum hefur einfaldlega ekki tekist að fá meirihluta þjóðarinnar á þá skoðun að stöðva viðræðurnar. Allur áróður og málflutningur hefur þó verið mjög einhliða frá þeirra hlið og án teljandi andsvara eins og þeir hafa sjálfir vakið athygli á. Þó að pólitíska taflstaðan hafi veikst á Alþingi vegna ístöðuleysis sýnist hún vera óbreytt úti á meðal fólksins."

Síðan víkur Þorsteinn að hinum ofsóknarkenndu hugmyndum andstæðinga ESB-aðildar og hræðsluáróðri og segir:

"Nýrri  innflutt hræðslukenning felst  í því að benda á alvarlegan efnahagsvanda  nokkurra aðildarríkja. Síðan er aðstoð Evrópusambandsins við þau gerð tortryggileg. Hún á að sýna að þau hafi misst sjálfstæði sitt. Ísland lenti utan Evrópusambandsins í dýpri kreppu en nokkurt aðildarlandanna. Við þurftum á aðstoð að halda. Hún var bundin margs konar skilyrðum meðal annars um fjárlög og peningastefnu. Þetta eru örlög skuldugra þjóða hvort sem þær eru innan eða utan ríkjabandalaga.

Loks er þeim hræðsluvendi veifað að þjóðir Evrópu sitji um Ísland og bíði þess eins að geta beitt þýskættuðum meðulum frá fjórða áratugnum til að knésetja landið.  Röksemdir af þessu tagi eru of barnalegar  til að taka þær alvarlega."

Öll grein Þorsteins


Framsóknarmenn í Kópavogi: Vara við úlfúð í garð útlendinga

Á www.visir.is stendur: "Framsóknarmenn í Kópavogi sendu í gærkvöldi frá sér ályktun þar sem varað er við því að alið sé á umræðu á þjóðernislegum nótum og úlfúð í garð útlendinga og þess sem erlent er.

Ályktunin var samþykkt á aðalfundi fulltrúaráðs framsóknarfélaganna í bænum en þar segir ennfremur að slík umræða muni ekki skila samfélaginu fram á veg."

Öll fréttin


Ósmekklegheit!

TankStyrmir Gunnarsson, höfundur "Umsáturskenningarinnar" tengir í nýjum pistli á Evrópuvaktinni ESB við nasismann, með því að halda því fram að ESB ætli að ryðjast yfir Ísland, rétt eins og hernaðarmaskína Hitlers ruddist yfir Pólland í byrjun september árið 1939 og hóf þar með seinni heimsstyrjöldina. Talar Styrmir um "skriðdreka ESB" og svo framvegis! Þetta segir hann vera von þeirra sem vilja aðild Íslands að ESB!

Ósmekklegheitin eiga sér engin takmörk hjá Nei-sinnum. Styrmir veit vel að ESB á einmitt rætur sínar í þeim hörmungum sem Adolf Hitler leidd yfir Evrópu. ESB er svar Evrópu við því og tilraun til að sjá til þess að svona lagað gerist aldrei aftur! Með því að tryggja samstarf Evrópuþjóða á sem víðtækustum grundvelli, en þó mest með verslun og viðskiptum. Og það hefur tekist.

Enda er eina stríðið í Evrópu eftir seinni heimsstyrjöld það sem fram fór í Júgóslavíu á árunum 1991-1995 og varð vegna hruns kommúnismans og taumlausrar þjóðernishyggju örfárra leiðtoga Serbíu og draums þeirra um Stór-Serbíu. Mest Slobodan Milosevic, sem lést í fangelsi í stríðsglæpadómstólnum í Haag árið 2006. Serbía vill nú hinsvegar tengjast Evrópu með aðild að ESB.

Einnig kvartar Styrmir yfir því að aðildarsinnar vilji ekki rökræða málin og hafi engin rök. Það er fjarri sanni. Á fundi sem haldinn var um Evruna í vikunni, mætti fjöldi þeirra sem aðhyllast aðild og spurði hinn írska (og vinstri-sinnaða) prófessor, Antony Coughlan,  spjörunum úr. Minna fór hinsvegar fyrir spurningum frá Nei-sinnum, sem langflestir sátu þöglir. Höfðu þeir ekkert að segja?

Í lok pistilsins segir Styrmir að það sé "orrusta um Ísland" en það er kannski alveg í samræmi þann hugarheim og þá heimsmynd "Kalda stríðsins" sem greinilega hefur mótað hann og félaga hans á Evrópuvaktinni, Björn Bjarnason. Menn sem hafa lifað og hrærst með "kommúnistagrýlunni!"

Ofsóknakenndar hugmyndir um umsátur, "leifturstríð" og annað í þeim dúr, falla kannski í góðan jarðveg hér á landi um þessar mundir, enda sjaldan eða aldrei sem uppblásinn þjóðernisremba hefur verið jafn fyrirferðamikil og síðustu misseri. Jafnvel hreint útlendingahatur! Slíkt er hinsvegar ekki vel fallið til framfara og þróunar, heldur til einangrunar og afturfara.

Það gengur meira að segja svo langt að menn eru farnir að segja að íslensk hús séu betri en erlend hús! Eru íslensk hús kannski bestu hús í heimi? Hve langt er hægt að ganga?


Sjón er sögu ríkari!

ESB og Evrópumál eru alvörumál og skortir oftar en ekki húmor í þetta (sem og kannski stjórnmál almennt?). Hallur Magnússon, Eyjubloggari kemur þó með mjög skemmtilegan vinkil á þessi má í nýlegum pistli sínum um lambið Evru. "Sjón er sögu ríkari" hér!

Nokkrar tölur frá Írlandi

Af því við höfum verið að tala um Írland:

Þátttaka kvenna á vinnumarkaði á Írlandi frá aðild að ESB:

1973

34%

1987

35%

1997

42%

2008

60.5%

Laun írskra kvenna miðað við laun írskra karlmanna:

1969

47%

1979

58%

1989

61%

1998

66%

2006

86%

Voru s.s. "hálfdrættingar" fyrir aðild, en eru nú óðum að ná írskum körlum.

 


Ný stjórn hjá Sjálfstæðum Evrópusinnum

BenediktÁ vef Já-Ísland stendur: "Ný stjórn var kjörin á aðalfundi Sjálfstæðra Evrópusinna í vikunni.   Benedikt Jóhannesson framkvæmdastjóri var endurkjörinn formaður. Aðrir stjórnarmenn reu Hanna Katrín Friðriksson bankamaður,  Ragnheiður Ríkharðsdóttir þingkona Sjálfstæðisflokksins, Halldór Halldórsson fyrrverandi bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Baldur Dýrfjörð lögmaður, Ellisif Tinna Víðisdóttir fyrrverandi forstjóri Varnamálastofnunnarog stjórnaráðsmaðurinn Pawel Bartoszek."

Benedikt Jóhannesson, formaður, er á myndinni.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband