Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012

Samkomulag í Brussel um aukinn aga - allir með nema Tékkar og Bretar

Alls lögðu 25 af 27 aðildarrríkjum ESB (öll nema Tékkland og Bretland) blessun sína yfir samkomulag um aukinn aga í ríkisfjármálum í Brussel í gærkvöldi.

Tékkar eru enn með forseta, Vaclav Klaus, sem er hægri-sinnaður þjóðernissinni og heitur andstæðingur ESB (stundum kallaður "Margret Thatcher"-mið Evrópu). En forsætirsráðherra Tékka, segir að í framtíðinni ætli Tékkar að vera með. Afstaða Breta hefur verið þekkt í nokkrar vikur og þeir vilja ekki vera með.

Nýi forsætisráðherra Dana, Helle Thorning-Schmidt, er ánægð með samkomulagið. Danska stjórnin hefur náð í gegn öllum kröfum sínum varðandi þátttöku sína í nýjum evrusáttmála. Thorning-Schmidt segir að enn eigi eftir að ganga frá nokkrum formsatriðum, en á því sé enginn vafi að Danmörk sé með.

Hún segir Dani með þessu sýna að þeir séu ekki veiki hlekkurinn í keðjunni og geri strangar kröfur til eigin fjárlagagerðar. Danir náðu þeirri kröfu sinni í gegn að hugsanlegar sektir vegna brota á sáttmálanum renna í sameiginlegan sjóð ESB en ekki í björgunarsjóð evruríkjanna. Danir gegna einmitt forystu í ESB fram á mitt þetta ár.

Hér fær því eitt minnsta ríki ESB kröfu sína í gegn. Svo segja andstæðingar að smáríki í ESB hafi engin áhrif innan ESB.!

Sem sagt; Danir telja það mikilvægt að vera með í "Evru-pakkanum". Hvaða ályktanir getum við Íslendingar dregið af því?


Meira um gjaldmiðilsmál í FRBL

Þórður Snær Júlíusson skrifar áhugaverðan leiðara í FRBL í dag um gjaldmiðilsmál, sem hefst á þessum orðum: "Samkeppniseftirlitið birti í síðustu viku skýrslu sína um verðþróun og samkeppni á dagvörumarkaði. Í henni kom fram að verð á dagvöru, sem samanstendur af helstu nauðsynjavörum heimila, hefði hækkað um 60% á síðustu sex árum. Sú verðhækkun skýrist ekki af aukinni álagningu verslana á vörunum, heldur fyrst og fremst af ytri ástæðum, aðallega gengishruni íslensku krónunnar. Hún hefur rýrnað um meira en helming gagnvart evru á umræddu tímabili.

Í skýrslunni segir orðrétt að „eftir gengislækkun krónunnar hefur matvöruverð á Íslandi færst frá því að vera hlutfallslega mun hærra til þess að vera því sem næst jafnt meðalmatvöruverði í ESB löndum, mælt í evrum á skráðu gengi. Í krónum talið hækkaði matvöruverð hins vegar gífurlega eftir hrunið".

Samkvæmt skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands birti nýverið voru um 88% allra húsnæðislána í byrjun október síðastliðnum verðtryggð. Ársverðbólga mælist nú 6,5% sem hefur bein hækkunaráhrif á höfuðstól verðtryggðra lána. Hún er hvergi meiri innan EES-svæðisins. Óhætt er því að draga þá ályktun að krónan sé að valda íslenskum skuldurum miklu tjóni. Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hækkað um tæp 30% í dollurum talið frá byrjun árs 2008. Á sama tíma hefur smásöluverð á bensíni á Íslandi hækkað um 75%,í krónum talið, enda bensínið innflutt."

Síðar segir: "Krónan hefur alltaf verið vandamál. Þegar Íslandsbanki hinn fyrsti var stofnaður árið 1924 fékkst ein íslensk króna fyrir hverja danska. Í dag þarf tæplega tvö þúsund og tvö hundruð íslenskar krónur til að kaupa eina danska, að teknu tilliti til þess að tvö núll voru fjarlægð aftan af þeirri íslensku árið 1981. Við rekum peningastefnu sem snýst um að halda verðbólgu innan við 2,5%, sem tekst nánast aldrei. Helsti kosturinn sem nefndur er við þetta fyrirkomulag er sá að þegar hagstjórnarafleikir stjórnmálamanna hafa komið okkur í nægilega vond mál þá sé hægt að fella gengið. Við það færast peningar frá heimilunum til útflutningsaðila og vöruskiptajöfnuði er náð líkt og töfrasprota sé veifað.

Samt er umræða um málið í lamasessi. Eini flokkurinn sem er með upptöku annars gjaldmiðils á stefnuskránni er í stjórnarsamstarfi við annan sem hefur algjörlega andstæða skoðun á málinu. Stærstu stjórnarandstöðuflokkarnir virðast líka kjósa óbreytt ástand og því virðist mikill pólitískur meirihluti fyrir því að halda krónunni. Viðkvæðið er þá að þessari kynslóð stjórnmálamanna muni takast það sem aldrei áður hefur tekist í íslenskri hagsögu, að halda krónunni í skefjum. Íslenskir neytendur þurfa hins vegar, í ljósi ofangreindra atriða, að gera upp við sig hvort buddan heimili þeim að trúa slíkum málflutningi."

 


Reynsluboltar mætast: Jón Baldvin og Styrmir Gunnarsson ræða "stríðið um auðlindirnar""

SamfylkinginÞað verður örugglega heitt í kolunum, en á vef Samfylkingarinnar segir þetta:

"Evrópuvakt Samfylkingarinnar stendur fyrir hádegisfundaröð um Ísland í Evrópu í vetur. Fundirnir eru haldnir annan hvern þriðjudag á Kaffi Sólon (efri hæð) í Bankastræti frá kl. 12.00 til 13.00 og eru öllum opnir. Þriðjudaginn 31. janúar ræða þeir Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri um stríðið um auðlindirnar og svara spurningunni: Hverjir vilja selja landið? Fundarstjóri verður Baldur Þórhallsson, stjórnmálafræðingur.

Fundargestir eru hvattir til að taka þátt og láta í ljós sínar skoðanir og bera fram fyrirspurnir. Að vanda verður hádegisverðurinn á viðráðanlegu verði."


Kýpur: Fullur stuðningur við umsókn Íslands í formennsktíðinni

UtanríkisráðuneytiðÁ vef Utanríkisráðuneytisins segir: "Í opinberri heimsókn Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra til Kýpur hét Erato Kozakou-Marcoullis utanríkisráðherra Kýpur öflugum stuðningi við umsókn Íslendinga í formennskutíð landsins í Evrópusambandinu. Kýpur tekur við formennskunni af Dönum í júní.

Ráðherra fór yfir stöðu aðildarviðræðnanna og gerði grein fyrir mikilvægi sjávarútvegs, sérstöðu landbúnaðar og öðrum atriðum sem verða mikilvæg í samningunum. Þá fór hann ítarlega yfir málstað Íslands í Icesave málinu og makríldeilunni.

Ráðherrarnir lýstu báðir áhuga á að efla viðskipti milli ríkjanna til að mynda með því að hvetja til þess að ferðamannastraumur milli Íslands og Kýpur verði aukinn."

Öll fréttin.


Aflandskrónur orðnar verslunarvara?

Ein krónaSpegillinn sagði í kvöld frá "verslun" með aflandskrónur, en staðan er jú þannig að þær krónur bjóða upp á ákveðna tegund af braski, ef svo má að orði komast.

Ritari hitti annars íslenskan mann um daginn á öldurhúsi og sá er að vinna í Noregi. Honum hafði einmitt boðist að kaupa aflandskrónur, en hann var ekki búinn að gera upp hug sinn. En að sjálfsögðu lokkaði gengið á aflandskrónunum og gróðavonin líka.

Þetta ástand á að sjálfsögðu rætur sínar í hruni íslensku krónunnar haustið 2008, sem síðan þurfti að setja á gjörgæslu. Þar sem hún er enn.


Bryndís um "allskyns" á Eyjunni

 Bryndís Ísfold HlöðversdóttirBryndís Ísfold Hlöðversdóttir skrifar skemmtilegan (en alvöruþrungin) pistil um, ja, allskyns, á Eyjuna. Það er eiginlega best að lesendur lesi pistilinn. En það er mjög áhugaverð mynd í honum um "skráningu" íslensku krónunnar í fríhöfninni á Kastrup-flugvelli. Myndin segir í raun meira en þúsund orð!

Hér er sér krækja á myndina.


Nei-sinnar með ódýrar "patent-lausnir"!

ISland-ESB-2Á föstudaginn kemur verður þáttur á ÍNN (Hrafnaþing) um Evrópumál þar sem rætt verður við nokkra aðila úr JÁ-hreyfingunni um stöðu mála. Hvetjum við alla áhugamenn um Evrópumál til þess að horfa!

Reyndar afgreiddi Ingvi Hrafn (eigandi ÍNN) Nei-hliðina í þætti sem sýndur var síðastliðinn föstudag. Þar var meðal annars Nei-foringinn sjálfur, Ásmundur Einar Daðason, fyrrum VG-liði og núverandi framsóknarmaður.

Annars var fátt um lausnir sem herramenn Nei-sinna báru fram, nema þá kannski helst að það væri nánast bara ekkert mál að sníða alla galla af íslensku samfélagi, t.d. að lækka tolla og afnema vertryggingu, við gætum þetta bara sjálf, bara drífa í þessu!

Vertrygging hefur verið við lýði í um 30 ár og er að gera alla gráhærða! Hversvegna er ekki fyrir löngu búið að taka hana af? Getur það verið vegna ýmissa sérhagsmuna sem tengjast henni og gjaldmiðli sem krefst í raun verðtryggingar? Og útheimtir þar með óheyrilegan kostnað af öllu samfélaginu?

Nei, nei-sinnar settu fram ódýrar "patent-lausnir" sem hljóma vel en eru á skjön við veruleikann, sem einkennist af sveiflum, óstöðugleika og verðbólgu.


Um 50% vilja halda aðildarviðræðum áfram við ESB

ESB-ISL2Helmingur íslensku þjóðarinnar vill halda aðildarviðræðum áfram við ESB, samkvæmt nýrri könnun sem Félagsvísindastofnun hefur gert og sagt var frá í kvöldfréttum RÚV.

Mest fylgi við aðildarviðræður er meðal flokksmanna Samfylkingar (90%) og VG (55%).  Um 30% sjálfstæðismanna vilja halda áfram, en hjá Framsókn er þessi tala um 25%.


Verbólgudraugurinn lifir góðu lífi á Íslandi! Krónan fallið um 1,4% frá áramótum!

Prósent"Gleðifréttir" berast landsmönnum:

Verðbólgan er komin í 6.5%! Jibbý!! Á www.visir.is stendur: "Ársverðbólgan mælist nú 6,5% og hefur hækkað verulega frá því í desember þegar hún mældist 5,3%. Þessi hækkun er umfram spár sérfræðinga sem gerðu yfirleitt ráð fyrir að hún yrði 6,3%. Aukin verðbólga er einkum keyrð áfram af hækkunum á opinberum gjöldum.

Fjallað er um málið á vefsíðu Hagstofunnar. Þar segir að vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í janúar sé 387,1 stig og hækkaði um 0,28% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 365,9 stig og hækkaði um 0,05% frá desember."

Á myndinni hér með má sjá verðbólgu á Evru-svæðinu árið 2011, sem fer ekki yfir 3%!

Inflation2011

Svo fer þetta allt inn í lánin með verðtryggingunni!

Sjá einnig frétt Viðskiptablaðsins tengda þessu.


Ásdís J. Rafnar um "útbrunna umræðuhefð" í FRBL

Ásdís J. RafnarÁsdís J. Rafnar, hæstaréttarlögmaður skrifar grein í FRBL í dag sem ber yfirskriftina "Útbrunnin umræðuhefð" og kemu í henni meðal annars inn á ESB-máið. Hún segir: "Íslensk samskiptahefð hefur um nokkurt skeið helst gengið út á að gera þann sem er ekki sammála þér í einu og öllu að persónugervingi hins illa. Er það í sjálfu sér rannsóknarefni hvers vegna samskipti á opinberum vettvangi eru svona neikvæð og málamiðlanir og samvinna fjarlægur kostur. Um það er sem betur fer rætt þessa dagana. Hatrömm og tilfinningaþrungin samskipti manna eru engum til gagns, allra síst þjóðarskútunni. Sá heimur sem maðurinn skapar, verður spegilmynd af sjálfum honum. Stjórnmálaumræðan er hér næsta útbrunnin og öll málefni í meira lagi sundurlaus.

Það er mikilvægt að menn færi rök fyrir skoðunum sínum, því þá þjálfa þeir á sama tíma hugsun sína og skilning og jafnframt hugsun þeirra sem fylgjast með orðræðunni. Í fjölmennum samfélögum lærist mörgum snemma að virða viðurkennda samskiptasiði ef þeir vilja ná markmiðum sínum og gera samfélagið ánægjulegra. Meðal annars að sýna nærgætni, áhuga og virðingu í hvers konar mannlegum samskiptum."

Síðar segir Ásdís: "Evrópusambandið er samband fullvalda lýðræðisríkja sem hafa ákveðið að hafa með sér mjög nána samvinnu. Um töku ákvarðana innan þessa samstarfs gilda ákveðnar reglur. Samvinna þeirra og ákvarðanir krefjast samráðs, samskiptahæfni fulltrúa þeirra og virðingar fyrir málefnum hverrar aðildarþjóðar. Áhugavert væri að sjá þróun íslenskrar umræðu- og samskiptahefðar í því umhverfi. Það væri góður skóli og líklega sá eini sem er í boði á því sviði."

Í lokin segir svo Ásdís: "Hugsanlega felast mestir möguleikar í þeirri ákvörðun Alþingis að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið í þeim tilgangi að fá niðurstöðu um hvort aðild að sambandinu væri okkur hagstæð eða ekki að mati kosningabærra manna. Enginn getur sagt til um það fyrirfram hvað út úr þeim viðræðum kemur, þótt öðru sé stundum haldið fram. Það er mikilvægt að nýta þetta tækifæri til þess að yfirfara alla okkar hagsmuni gagnrýnum augum og vinna að úrbótum á þeim sviðum sem nauðsyn ber til. Spyrja í einstökum tilvikum hvernig þetta væri ef við værum aðilar að ESB! Ef til vill hafa einhverjir stjórnmálaflokkar þessar spurningar uppi innan sinna vébanda þótt það fari ekki hátt."

(Mynd: Vísir/FRBL)


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband