Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Gleðilega páska!

PáskaeggEvrópusamtökin óska landsmönnum gleðilegra páska!

Fyrislestrar á næstunni + grein eftir Þorkel Sigurlaugsson

Háskóli ÍslandsAlþjóðamálastofnun HÍ, stendur fyrir tveimur áhugaverðum fyrirlestrum dagana 3. og 5. apríl, í samvinnu við sendiráð Frakklands á Íslandi og Evrópustofu. Sjá nánar á vefsíðunni: www.ams.hi.is

Bendum einnig á góða grein eftir Þorkel Sigurlaugsson, þar sem hann segir m.a.:

"Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í febrúar sl. var samþykkt tillaga þess efnis að hætta beri viðræðum við Evrópusambandið og ekki taka aftur upp viðræður fyrr en að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu. Á landsfundi þar á undan hafði verið samþykkt að gera hlé á viðræðunum og að þær færu ekki aftur af stað fyrr en að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu. Mikill munur er á því að hætta viðræðum og gera hlé á þeim.

Það er undarleg stefna að slíta viðræðum við Evrópusambandið og ætla svo að kjósa einhvern tíma á fyrri hluta næsta kjörtímabils um það hvort óska eigi aftur eftir viðræðum. Það veikir mjög samningsstöðuna að óska eftir að hefja hugsanlega viðræður að nýju að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu."


Mikið af greinum.....nóg að lesa!

Sema Erla SerdarSema Erla Serdar, verkefnastjóri hjá Já-Ísland, skrifar góða hugleiðingu á DV-bloggið um Evrópumálin og segir þar meðal annars: "Umræðan um Evrópusambandið og mögulega aðild Íslands að ESB getur oft á tíðum verið ansi áhugaverð og skemmtileg. Að sama skapi getur hún stundum verið á villigötum, fullyrðingum er haldið fram sem heilögum sannleika, fullyrðingum sem eiga ekki við nein rök að styðjast.

Umræðan um sérlausnir og undanþágur í samningaviðræðum við Evrópusambandið er dæmi um það síðarnefnda. Það eru ansi margir sem halda því fram að það sé ekkert um að semja, að engar sérlausnir séu í boði, og því vitum við alveg „hvað við erum að kalla yfir okkur." Lesið bara lögin, segja aðrir.Allir, sem hins vegar gefa sér tíma til þess að kynna sér málið, munu vera fljótir að komast að annarri niðurstöðu.

Það virðist vera nokkuð almennt að í aðildarsamningum sé samið um tímabundnar undanþágur, eða aðlögunarfresti, til dæmis frest til þess að innleiða tiltekna löggjöf ESB eða til þess að afnema reglur sem eru ekki í samræmi við stofnsáttmála eða löggjöf ESB. Sem dæmi má nefna að í samningaviðræðunum fyrir stækkun ESB árið 2004, þegar tíu ríki Mið- og Austur-Evrópu gengu í sambandið, var samið um tímabundin aðlögunartímabil í fjöldamörgum tilvikum. Oftast var þar um að ræða 3-7 ára aðlögunartímabil, en einnig voru dæmi um allt upp í 10-13 ára aðlögunartímabil.

Það er nauðsynlegt að skilja að af hálfu ESB er lögð áhersla á að engar varanlegar undanþágur séu veittar í aðildarsamningum enda er markmiðið að sem mest lagalegt samræmi ríki innan ESB, annars væri erfitt fyrir sambandið að ganga upp í þeirri mynd sem það starfar, en ESB byggir á sameiginlegri löggjöf aðildarríkjanna.

Hins vegar er líka nauðsynlegt að skilja að ef upp koma vandamál vegna ákveðinnar sérstöðu eða sérstakra aðstæðna í umsóknarríki er reynt að leysa málið með því að semja um tilteknar afmarkaðar sérlausnir, frekar en varanlegar undanþágur, en sem dæmi um varanlega undanþágu má nefna að Svíar eru undanþegnir almennu banni í regluverki ESB við viðskiptum með munntóbak (sæ. snus). Undanþágan kemur fram í viðauka við aðildarsamninginn þar sem vísað er í viðkomandi tilskipun (viðauki XV). Erfitt myndi reynast að finna dæmi um að ríki hafi óskað eftir ákveðinni sérlausn er varðar sérstakar aðstæður eða mikla þjóðarhagsmuni, og ekki fengið."

Í Fréttablaðinu í dag, 26.mars, er einnig að finna þrjár greinar, sem allar koma inn á Evrópumálin, en það eru Össur Skarphéðinsson, Bolli Héðinsson og Sighvatur Björgvinsson sem skrifa. Hinn síðastnefndi segir m.a.:

"Í síðustu tuttugu ár hafa þjarkarar þjarkað um ESB. Skipst á fullyrðingum, sem stöðugt verða groddalegri. Viðhaft stóryrðin – „þjóðníðingar og landráðamenn" – og kjaftbrúk. Orðið svo heitt í hamsi að megna ekki að koma frá sér á blogginu heilli setningu á óbrjálaðri íslensku. Sem sé: Náð toppnum.

Svo stóð til að láta veruleikann mæta á staðinn. Það ákvað Alþingi. Láta veruleikann skera úr um, hvort ESB-aðild myndi neyða æsku landsins inn í evrópskan her (sem raunar er ekki til) og annað álíka. En það nær auðvitað engri átt. Þá gæti þjóðin tapað þjarkinu sínu. Misst af því að geta haldið áfram að þjarka í a.m.k. önnur tuttugu ár til viðbótar. Góðir menn sjá að það má ekki gerast. Það má ekki hafa þjarkið af þjóðinni!
Mikið er það nú ánægjulegt að flokkar hafa tekið ákvörðun um að leyfa þjóðinni að halda áfram að þjarka um ESB. Koma í veg fyrir að veruleikinn sé kvaddur á vettvang. Mikið held ég að mörgum sé létt. Loksins þjóð með trygga framtíð. Meira að segja bannað að miðla upplýsingum um ESB. Loka skal Evrópustofu. Skella barasta í lás. Reka fólkið heim. Þjóðinni verður fært þjarkið sitt aftur. Hvílík unun! Hvílíkt öryggi! Hvílík framtíðarsýn! Forystuflokkurinn, sem kennir sig við þjóðarsjálfstæðið, hefur talað."


Japan og ESB: Ætla að ræða fríverslun

esb-merkiÁ RÚV stendur: "Samkomulag hefur náðst milli stjórnvalda í Japan og Evrópusambandsins um að hefja viðræður um fríverslunarsamning milli ESB og Japans.

Toshimitsu Motegi, viðskipta- og iðnaðarráðherra Japans, greindi frá þessu og sagði að samist hefði um þetta á símafundi Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, með Jose Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, og Herman Van Rompuy, forseta leiðtogaráðs ESB.

Motegi sagði þetta afar mikilvægt því samanlagður efnahagur beggja næmi 30 prósentum af efnahagslífi heimsins og 40 prósentum af heimsviðskiptum."

Þetta fer að verða spennandi: Fyrst USA og nú Japan.


Sitthvort sólkerfið?

C-Bildt-lopEins og sagt hefur verið frá hér, var Carl Bildt (fyrrum formaður sænska hægriflokksins, Moderaterna, fyrrum forsætisráðherra og núverandi utanríkisráðherra Svía) í heimsókn hér í síðustu viku.

Í Silfri Egils þann 24.3 var langt viðtal við hann, þar sem hann sagði að ESB-aðild (1995) hefði haft ótvíræða kosti í för með sér fyrir landið. Viðtalið byrjar á 58.mínútu.

Áhugavert að heyra hvað sjónarmið frægasta núlifandi hægrimanns Svíþjóðar eru gjörólík þeirri stefnu sem hinn íslenski systurflokkur Moderaterna hefur. Það er eins og menn búi í sitthvoru sólkerfinu!

Hér er maður með breiða og alþjóðlega sýn á veröldina og sem hefur tröllatrú samvinnu ríkja.


Opnar Bjarni dyrnar aftur?

bjarniben_991582.jpgÞegar bílstjóri keyri inn í skafl, er nauðsynlegt að skipta í bakkgírinn og reyna að bakka úr viðkomandi skafli. Það er ekki beint gáfulegt að reyna að keyra áfram í gegnum skaflinn.

Svo virðist vera sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sé einmitt að gera það eftir "landsfund hinna lokuðu dyra" sem ákvað um daginn að hætta beri aðildarviðræðum við ESB.

Varaformaðurinn, Hanna Birna Kristjánsdóttir, reyndi í Silfri Egils að gera lítið úr þessari stefnubreytingu frá þarsíðasta landsfundi: "Við skiptum bara um eitt orð," voru skilaboð Hönnu Birnu.

En orð eru öflug, já er t.d. all annað en nei, loka er allt annað en opna.

Sjálfstæðisflokkurinn er í mikilli vörn þessa dagana, enda ekki á hverjum degi sem landsbyggðar og bændaflokkurinn Framsókn er stærri en Sjálfstæðisflokkurinn í skoðanakönnunum. Fylgi flokksins í kosningum hefur einnig verið gríðarlegt. Í kosningum árið 1963 fékk flokkurinn t.d. 41.4% og var þá undir stjórn frænda núverandi formanns og alnafna, Bjarna Benediktssonar, sem var einn farsælasti leiðtogi Sjálfstæðisflokksins.

Flokkurinnhefur í gegnum tíðina stært sig af því að vera flokkur allra stétta ("stétt með stétt"), með breiða skírskotun og að þar innanborðs rúmist allar skoðanir.

En er það þannig lengur, þegar alþjóðasinnuðum og víðsýnum flokksmeðlimum, fólki sem er tilbúið að kanna möguleika, í stað þess að skella á þá hurðum, er nánast "sýndur fingurinn"? Er þetta til marks um umburðarlyndi gagnvart mismunandi skoðunum?

Á Eyjunni segir þetta: "Sjálfstæðismenn vilja ekki ganga í Evrópusambandið, en það er sjálfsagt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort það eigi að halda samningaviðræðum við ESB áfram. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins á mjög fjölmennum kosningafundi á Hótel Nordica í gær, en um er að ræða nokkra stefnubreytingu frá því sem Sjálfstæðisflokkurinn ákvað á landsfundi fyrir nokkrum vikum.

Þá var samþykkt að hætta þegar viðræðum um aðild og að Evrópustofu yrði lokað, þar sem starfsemi hennar væri frekleg afskipti af innanlandsmálum. Var sú ákvörðun landsfundar harðlega gagnrýnd og því haldið fram að harðlínuöflin hefðu haft betur og ýmsir stuðningsmenn aðildar Íslands að ESB innan flokksins gætu nú ekki hugsað sér að kjósa flokkinn. Hefur Eyjan heimildir fyrir því að Bjarni hafi komið með þetta útspil um evrópumálin til að lægja þær óánægjuraddir og reyna með því að laða stuðningsmenn aðildar til fylgis við Sjálfstæðisflokkinn, en hann hefur farið halloka í skoðanakönnunum að undanförnu."


Punktar um Kýpur

cyprus-flagSamkomulag hefur náðst milli ESB og ríkisstjórnar Kýpur um björgunarlán frá ESB upp á 10 milljarða, gegn mótframlagi Kýpur upp á c.a. 5 milljarða Evra. Þetta er gert til þessa að forða ofurvöxnu bankakerfi Kýpur (8x stærra en landsframleiðsla, slá ekki Ísland!) frá hruni. Það hefði haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér.

Kýpur hefur á undanförnum áratugum markaðsett sig sem skatta og fjármálaparadís og sogað til sín fjármagn, með loforði um 5-7% vexti á innlánum, á meðan aðrar Evrópuþjóðir hafa verið með vexti í kringum 2%. Þetta hljómar eins og "Jöklabréfassaga". Skattar hafa einnig verið mjög lágir (10% á fyrirtæki).

Óveðursskýin hafa hinsvegar hrannast upp hjá þessu eins milljóna manna ríki, sem stundum hefur verið lýst sem  bankakerfi með landi, en ekki öfugt. Efnahagskreppan frá 2008 og mikil útlán til t.d. Grikklands hafa aukið á vandræðin. Í fyrrasumar bað Kýpur um aðstoð en okkur hér á blogginu skilst að til aðgerða hafi ekki verið gripið af hálfu stjórnvalda, enda slíkt pólitískt óvinsælt og ekki vel fallið til endurkjörs.

Það sem gerist nú gerist hinsvegar á elleftu stundu. Þá kemur ESB inn og kemur í veg fyrir að allt fari á versta veg.

Hver var hinn möguleikinn? Jú, að allt bankakerfið í landinu hefði farið í gjaldþrot, að ALLIR bankarnir hefðu hrunið (líkt og gerðist hér á Íslandi). Hefði það verið betra? Með allri þeirri óreiðu sem því myndi fylgja, greiðslumiðlul, verslun og viðskipti í lamasessi o.s.frv.

Í raun er einnig að hluta til verið að bregðast svipað við og Svíar gerðu í sinni bankakreppu, þ.e. að skipta bönkunum og upp í "góða" og "slæma". Þetta felur í sér að einn stóru bankanna (Laiki) fer í þrot og verða eignir hans færðar yfir í Bank of Cyprus og skipt í góðar og slæmar.

Starfsmenn Laiki missa því vinnuna, sem að sjálfsögðu er miður. En það er augljóst að Kýpur stóð ekki undir því hrikalega bankakerfi sem landið var búið að búa til. Þetta hljómar allt kunnuglega.

Hér heima hamast andstæðingar ESB við að hrópa "kúgun" og að Kýpur hafi verið stillt upp við vegg af vonda ESB. Sjálfsagt hefðu þeir frekar þá vilja að Kýpur hefði lent í fullkomnum glundroða, öll greiðslumiðlun hefði farið úr skorðum, verslun, viðskipti og annað slíkt. Skemmtileg heimssýn það!


????

RÚVÁ RÚV segir: "Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segir að kosið verði um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið á fyrri hluta næsta kjörtímabils, komist flokkurinn í ríkisstjórn."

Hvað þýðir þetta? September á þessu ári? Desember? Apríl 2014? Nóvember 2014? Mars 2015?

Við bara spyrjum.

Hvaða forsendur eiga svo að liggja að baki ákvörðuninni?


Andrés Pétursson í FRBL: Mikilvæg ákvörðun

Andrés PéturssonAndrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, birti stutta og snaggaralega grein í FRBL þann 23.mars og fylgir hún hér á eftir með leyfi höfundar:

"Nýleg skoðanakönnun Capacent Gallup sem sýnir að 61% landsmanna vill klára aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið hefur vakið mikla athygli. Þetta vekur hins vegar spurningar varðandi stuðning við þá stjórnmálaflokka sem vilja slíta aðildarviðræðunum.

Bæði Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn hafa samþykkt á landsfundum sínum að hætta beri þessum viðræðum. Formaður Nei-samtakanna, Ásmundur Einar Daðason, er þingmaður Framsóknarflokksins og Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er varaformaður sömu samtaka. Fleiri áhrifamenn í þessum báðum flokkum eins og Guðni Ágústsson, Pétur H. Blöndal, Frosti Sigurjónsson og Styrmir Gunnarsson eiga sæti í stjórn Nei-sinna og hafa barist með oddi og egg gegn aðildarviðræðunum.

Sjálfstæðisflokkurinn tók þetta síðan skrefinu lengra og samþykkti að loka ætti Evrópustofu. Að vísu hafa bæði formaður og varaformaður flokksins lýst því yfir að sú samþykkt hafi verið óheppileg.

Ef landsmönnum er alvara að við eigum að klára aðildarviðræðurnar þá hljóta menn að setja spurningarmerki við stuðning við þessa stjórnmálaflokka. Finnst fólki það til dæmis líklegt að hugsanleg stjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks myndi veita aðildarviðræðum öfluga pólitíska forystu! Ég leyfi mér að efast um það jafnvel þótt þjóðin væri búin að samþykkja í þjóðaratkvæðagreiðslu að halda ferlinu áfram.

Ég skora því á þá landsmenn sem vilja halda viðræðunum áfram að hugsa sig vandlega um þegar þeir gera upp hug sinn í kjörklefanum í komandi alþingiskosningum."


Aðstoðarforstjóri Marels í FRBL: Römm er sú taug

Sigsteinn P. Grétarsson, aðstoðarforstjóri Marels, skrifar áhugaverða grein í FRBL um Evrópumálin og alþjóðleg viðskipti. Hann segir: "Ísland á nú í samningaviðræðum við Evrópusambandið um aðild Íslands að sambandinu. Takist að ná hagstæðum samningum sem tryggja heildarhagsmuni er stigið stórt skref í þá átt að gera mögulegt að taka upp evru, minnka óstöðugleika og koma vaxtastigi nær því sem samkeppnisaðilar búa við. Þetta er gríðarlega mikilvægt fyrir starfsskilyrði og samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja – svo ekki sé talað um hag heimilanna.

Alþjóðleg fyrirtæki með íslenskar rætur, á borð við Marel, byggja tilvist sína, vöxt og þróun á því að geta staðist harða samkeppni á mörkuðum utan Íslands."

Í lokin segir Sigsteinn: "Annar mikilvægur þáttur sem ekki er unnt að horfa fram hjá er sá að alþjóðleg þróun bendir til þess að svæðaskipt samvinna færist í aukana og þjóðir sem eiga landfræðilega og viðskiptalega samleið þjappa sér saman um hagsmuni sína. Þetta gildir um þann heimshluta sem við tilheyrum. Evrópusamstarfið er skýrt dæmi um þetta og einnig viðskiptasamstarfið í Norður-Ameríku milli Kanada, Bandaríkjanna og Mexíkó.

Nýjasti og ef til vill mikilvægasti áfanginn í þessari þróun er nú í bígerð, en Bandaríkin og Evrópusambandið eru að hefja viðræður um víðtæka fríverslun og viðskipti sín í milli.

Að minni hyggju má ekki loka augunum fyrir þessari þróun og ætla að Ísland geti eitt og sér komið ár sinni betur fyrir borð en þau ríki sem velja leið aukinnar samvinnu sín á milli innan ramma samstarfs eins og á sér stað innan ESB."


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband