Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Gunnar Hólmsteinn í MBL: Pakkann skuluð þér ekki sjá

Gunnar Hólmsteinn ÁrsælssonGunnar Hólmsteinn Ársælsson, stjórnarmaður í Evrópusamtökunum, skrifaði grein um Evrópumálin í Morgunblaðið, þann 20.3, undir yfirskriftinni Pakkann skuluð þér ekki sjá! Þar segir meðal annars:

 "Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti á dögunum ályktun þess efnis að klára ekki aðildarviðræðurnar við ESB, heldur að hætt verði við úti í miðri á og kasta nokkur hundruð milljónum og ómældri vinnu tuga, ef ekki hundruða manna út á hafsauga! Eins og það er nú gáfulegt. Er þetta aðhaldið í ríkisfjármálum sem flokkurinn boðar? Rökin fyrir að hætta eru gjarnan þau að þetta sé svo ofboðslega dýrt ferli. Á sama tíma er íslenskt atvinnulíf að borga himinháar upphæðir í vaxtamun miðað við Evrópu, gríðarlegan kostnað vegna landlægrar verðbólgu, gjaldeyrishafta (vegna hruns krónunnar) og svo framvegis. Fjölskyldur sitja einnig uppi með kostnað af þessu, auk alræmdrar verðtryggingar, sem þarf að vera til vegna krónunnar, sem tapað hefur 99,5% af upprunalega verðgildi sínu, m.a. í gegnum gengisfellingar. Í tveimur könnunum sem gerðar voru í mars kom hinsvegar fram að mikill meirihluti íslensku þjóðarinnar vill halda aðildarviðræðum áfram."

Öll greinin


Rússagull flæddi til Kýpur eftir hrun Sovétríkjanna

KýpurÞegar lesa þarf virkilega góða umfjöllun um málefni líðandi stundar, er gott að snúa sér til BBC, eins besta fjölmiðils heims. Þar er að sjálfsögðu fjallað um málefni Kýpur og er margt athyglisvert á þeirri síðu.

Þar er t.d. velt upp þeirri spurningu af hverju Rússar eigi svo mikið af peningum á Kýpur (gekk í ESB 2004) og ein af ástæðunum er talin vera sú að Rússar hafa ekkert verið spurðir um uppruna peninganna, sem þeir hafa verið að flytja til Kýpur frá hruni Sovétríkjanna árið 1991.

Málið er því ekkert nýtt af nálinni!


Í gin ljónsins!

LjónFrést hefur af ferð vaskra manna til útlanda, en þetta ku vera hópur NEI-sinna, sem eru að fara til Brussel til að kynna viðhorf Íslendinga í ESB-málinu.

Þeir ætla væntanlega að segja þeim að mikill meirihluti Íslendinga (61%) vill klára aðildarviðræðurnar og um 71% af ungu fólki vill gera slíkt hið sama.

Í hópnum eru menn sem gagnrýnt hafi hið opna ferli sem ESB-málið er og sagt það vera "lokað" og "ógagnsætt" - sem er að sjálfsögðu ekki rétt. Sem og að slíta aðildarviðræðum.

Okkur hlakkar því til að lesa skýrslu þessa hóps, sem er svo hugaður að stinga höfðinu í gin ljónsins, sem væntanlega verður gerð opinber þegar þeir snúa heim.

Vonandi vel upplýstir um stöðu mála. 


Össur skrifar og skrifar: Nú um heimsókm Carls Bildts

Össur SkarphéðinssonHver greinin á fætur annarri eftir Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, birtist í fjölmiðlum um þessar mundir og er það vel. Í FRBL þann 20.3 skrifar Össur m.a.:

"Tvennt stendur upp úr nýafstaðinni Íslandsheimsókn Carls Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar. Í fyrsta lagi sagði Bildt okkur að Svíar væru á einu máli um að aðild þeirra að Evrópusambandinu hefði verið þeim til hagsbóta. Óumdeilt er að aðild hefur styrkt sænskt efnahagslíf. Útflutningshagkerfið Svíþjóð hefur traustan aðgang að Evrópu og öðrum mörkuðum sem ESB hefur samið um og er að semja um fríverslun við, þ. á m. við Bandaríkin. Evrópa snýst um samkeppnishæfni og fríverslun í heimi sem breytist hratt. Þannig tryggjum við velferð og atvinnu.

Auðvitað er velgengni Svíþjóðar ekki einungis ESB að þakka, sagði Bildt. En án aðildar hefði brekkan verið brattari, urðin grýttari. Á fundi í troðfullu Norræna húsinu með Sjálfstæðum Evrópumönnum færði hann sterk rök fyrir því hversu vel evran hentaði Svíum. Sænsk fyrirtæki vilja stöðugleika en ekki gengissveiflur. Skammtímafjármagn sem flætt hefur til Svíþjóðar er skammgóður vermir og getur aukið óstöðugleika með ófyrirsjáanlegum afleiðingum."

Hér einnig frétt frá Stöð tvö um heimsókn Bildts


Kýpur neitaði neyðarláni - en enn unnið að lausn

Þingið á Kýpur sagði nei við láni frá ESB og ASG, sem landið bað sjálft um í júní á síðasta ári. Þetta vegna skilyrðanna sem sett eru af hálfu lánveitendanna (sem enn standa við boð sitt um að lána Kýpur).

Á Kýpur er fjármálageirinn um sjö sinnum stærri en þjóðarframleiðslan og minnir ástandið því verulega á það sem uppi var hér á landi fyrir hrunið 2008.

Rússar og rússnesk fyrirtæki eiga gríðarlega fjármuni á Kýpur, sem með virkum hætti hefur lokkað til sín allt þetta fjármagn. Talið er að allt að 5000 milljörðum ÍSK sé í eigu Rússa, eða um þriðjungur allra innistæðna á Kýpur. Kýpur er einn stærsti fjárfestingaraðilinn í Rússlandi í gegnum fyrirtæki skráð þar, en sem eru í eigu rússneskra aðila.

Kýpur hefur haft það orðspor á sér að vera skatta og peningaparadís og það er ekkert leyndarmál að hluti þess fjármagns sem er í kýpverska kerfinu er "óhreint".

Fjármálaráðherra Þýskalands, Wolfgang Schäuble sagði í viðtali við þýsku ZDF-stöðina að Kýpur hefði beðið um aðstoð og þar þyrfti að gera raunhæfa áætlun fyrir Kýpur að koma aftur inn á alþjóðlega fjármálamarkaði.

Íbúar Kýpur eru um 1 milljón.


Bjarni Benediktsson talar - moli úr fortíðinni

Bjarni Benediktsson 1969Hér er moli úr fortíðinni, sem á samt sem áður enn svo vel við í dag:

Árið 1969 sagði Bjarni Benediktsson í setningarræðu á Landsfundi sjálfstæðismanna um efnahagssamvinnu við aðrar þjóðir:

„Hingað til ...hefur það dregist um of af því, að við höfum verið hræddir um, að samvinna við aðra yrði okkur ofvaxin. Ef við látum þann ótta vera okkur lengur fjötur um fót, fer ekki hjá því, að við drögumst aftur úr. Hinir óttaslegnu menn verða að gera bæði sjálfum sér og öðrum grein fyrir hverjar óhjákvæmilegar afleiðingar óttans eru: Sífelldar sveiflur í lífskjörum og hægari og minni framfarir til lengdar í okkar landi en öðrum, sem búsettar eru af þjóðum á svipuðu menningarstigi og við.

Ef menn vilja einangrun, þá verða þeir að taka afleiðingum hennar og reyna þá hvorki gagnvart sjálfum sér né öðrum að hræsna með því, að þeir séu hinir mestu framfaramenn. Þeir eru þvert á móti menn afturhalds og úrtölu. Einangrunin, sem nærri hafði drepið þjóðina á löngum, þungbærum öldum, er þeim runnin svo í merg og bein, að þeir standa uppi sem nátttröll á tímum hinna mestu framfara.

Vísindi og tækni nútímans og hagnýting þeirra er bundin þeirri forsendu, að víðtækt samstarf eigi sér stað. Þess vegna leita jafnvel stórþjóðirnar samstarfs hver við aðra, jafnt stórar þjóðir sem smáar. Ef stórþjóðunum er slíkt þörf, þá er smáþjóðunum það nauðsyn. Auðvitað verður að hafa gát á. En eðlilegt er, að almenningur spyrji: Ef aðrir, þeir sem okkur eru líkastir að menningu og efnahag, hafa svo góða reynslu, hví skyldum við þá óttast, að reynsla okkar yrði önnur og lakari?“
 


Carl Bildt í heimsókn

C-Bildt-lopCarld Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, var hér í heimsókn fyrr í vikunni og hélt m.a. fyrirlestur fyrir fullu Norrænu húsi þriðjudaginn 19.mars. RÚV ræddi við hann að þessu tilefni og hlusta má á viðtalið hér. Í frétt Fréttablaðsins segir:

"Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, telur að það gæti orðið erfitt fyrir Íslendinga að fá aðildarviðræður við Evrópusambandið teknar upp að nýju yrði þeim slitið á þessum tímapunkti. Hann segir enga hefð fyrir slíku. Bildt tekur undir þau rök Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra að Ísland gegni mikilvægu hlutverki í tilliti til norðurslóðamála.

„Það hefðbundna er að þegar aðildarviðræður eru teknar upp, þá er þeim lokið – það fæst niðurstaða sem er lögð í dóm fólksins í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er vaninn. Ég held að við höfum engin dæmi um annað. Ég held að það yrði erfitt að halda áfram síðar, því þá gæti verið komin upp sú staða innan ESB að menn spyrðu sig að því hvort Íslendingar viti hvað þeir eru að gera. Ég held að það gæti gerst," segir Bildt."


Tvær góðar greinar í FRBL

Sr.Þórir StephensenBendum á tvær áhugaverðar greinar í FRB, sú fyrri er eftir Sr. Þóri Stephensen, sem segir m.a.: "Alþingi ákvað að fara í viðræður við ESB með þá von að ná fram ásættanlegum samningi. Þær hafa gengið vel en nú hefur stærsta stjórnmálaafl í landinu krafist þess að viðræðunum verði slitið. Þar með er í raun farið gegn þingræðinu en flokksræði Sjálfstæðismanna á að koma í staðinn. Hvernig rímar þetta við hugsjónir um frjálsa hugsun, málfrelsi og lýðræði? Krafan um umræðuslitin og það sem henni fylgir lyktar mjög af gömlum einræðishugmyndum og er því mikil vansæmd fyrir samfélag okkar.

Hvað er það sem á að stöðva? Tilraun stjórnvalda til að sjá hvort þarna sé að finna kannski bestu leiðina til að koma íslensku samfélagi á nýja braut, sem leiði til sömu lífsgæða og þær þjóðir njóta sem við berum okkur saman við. Ég lít svo á að þar sé forysta Sjálfstæðisflokksins að bregðast sinni helgustu skyldu, að leita þeirra leiða sem eru þjóðinni til heilla. Það vekur grundvallarspurningu: Við hvað er flokkurinn hræddur?

Enginn veit að óreyndu hvernig hugsanlegur samningur gæti litið út. Þetta er bara tilraun en vissulega mikil von þar að baki. En þetta þarf að koma í ljós til þess að við vitum öll hvort við viljum inngöngu í ESB eða ekki. Um hitt þarf ekki að deila að þar á þjóðin sjálf síðasta orðið. Þess vegna er áhættan í raun engin en ávinningurinn gæti orðið mikill.

ESB-andstæðingarnir eru fleiri og klifa margir á því að þarna sé „ekkert um að semja", við verðum aldrei nema smápeð á taflborði ESB, áhrifalaus með öllu. Þeir tala þar gegn betri vitund, eru að reyna að blekkja okkur hin og þar með að dæma sjálfa sig óhæfa til þingsetu í umboði almennings."

FreyjaÞá síðari skrifar Freyja Steingrímsdóttir, sem situr í stjórn Ungra Evrópusinna: "Aðildarviðræðurnar virka þannig að hvor aðili fyrir sig, ESB og Ísland, hefur sín samningsmarkmið í sérhverjum samningskafla. Af hálfu umsóknarríkis geta þau samningsmarkmið snúist um að njóta sveigjanleika um aðlögunina sem á sér stað eða fá fram ákveðnar sérlausnir sem taka mið af sérstökum aðstæðum í viðkomandi ríkjum. Af hálfu ESB snúast samningsmarkmiðin meðal annars um að fullvíst sé að umsóknarríkið geti staðið við þær skuldbindingar sem felast í aðild og að jafnræðis sé gætt milli aðildarríkja þegar kemur að innleiðingu sameiginlegrar löggjafar.

Hvert einasta umsóknarríki í síðustu stækkunarlotu ESB hefur haft sín sérhagsmunamál sem samningamenn hafa lagt mikið upp úr að fá sérlausnir um í aðildarviðræðunum. Í þessu samhengi er gott að líta til Möltu, smáríkis með eingöngu 450 þúsund íbúum. Maltverjar náðu góðum samningi við sambandið. Malta fékk yfir sjötíu sérlausnir og margar þeirra voru varanlegar. Þetta voru ekki veigalítil mál sem samið var um heldur snerust þau til að mynda um kaup erlendra ríkisborgara á landi í Möltu, flæði vinnuafls til landsins og 25 sjómílna efnahagslögsögu fyrir innlenda sjómenn. Samninganefnd Möltu lagði mikla áherslu á smæðina og bar það árangur í samningaviðræðunum. Þess má geta að Maltverjar deildu hart um aðild á sínum tíma og skiptust svo að segja í tvö jafnstóra hópa, með og á móti aðild. Í dag er mikill meirihluti Maltverja hlynntur aðild og deilur heyra fortíðinni til."

http://visir.is/vidraedur-um-adlogun/article/2013703199979


Eyjan: Evran er betri vörn gegn verðtryggingu en fiff Framsóknar

EyjanEyjan skrifar: "Veikleiki krónunnar er alltaf að koma betur og betur í ljós og fólk vill einfaldlega ekki klippa endanlega á möguleikann á að taka upp evruna. Fólk vill verðtrygginguna feiga og er að gera sér grein fyrir að besta leiðin til að fyrirkoma henni eru ekki fiff Framsóknar heldur að taka upp evruna. Fólk vill fá samning á borðið til að geta ákveðið sjálft hvort það þjóni hagsmunum þess og Íslands að vera innan eða utan ESB. Það vill sjálft fá að velja, en ekki láta flokksklíkur taka ákvörðun fyrir sig.”

Þetta segir Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, þegar hann var inntur viðbragða við skoðanakönnun sem birtist í gær, sem sýnir að 61 prósent vilja ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þetta er mikil aukning frá fyrri könnun.

Össur segir þessa aukningu á milli kannana ekki koma sér á óvart, nema að því leyti hversu mikill stuðningur er við að klára viðræðurnar á meðal fylgismanna Vinstri grænna."


Norðmenn, EES og ESB fyrir norðan

EvrópustofaÁ vef Evrópustofu (sem Sjálfstæðisflokkurinn vill loka) stendur:

"Lise Rye, sérfræðingur í evrópskri samtímasögu, fjallar um orsakir andstöðu almennings í Noregi við aðild að Evrópusambandinu á opnum fundi á Hótel KEA, Akureyri, miðvikudaginn 20. mars kl. 12:00-13:30.Rye sat einnig nefnd um kosti og galla EES samningsins fyrir Noreg, en niðurstöður hennar vöktu töluverða athygli bæði í Noregi og á Íslandi.



Fundurinn er hluti af fundarröð sem Norræna upplýsingaskrifstofan, Norræna félagið og Evrópustofa standa fyrir í samstarfi við sendiráð hinna norrænu landa og fjallað er um mál sem hafa verið ofarlega á baugi í Evrópuumræðunni.

„Tilgangurinn með fundaröðinni er að varpa ljósi á reynslu Norðurlandanna af Evrópusamstarfi og miðla þeirri þekkingu til almennings,“ segir Bryndís Nielsen, framkvæmdastýra Evrópustofu.

Lise Rye er sérfræðingur í evrópskri samtímasögu við rannsóknarstofnun um sögu og sígild fræði við Norska Tækniháskólann (Norges teknisk-naturvitenskaplige universitet - NTNU). Auk þess að fjalla um orsakir andstöðu almennings í Noregi við aðild að ESB mun Rye fjalla um hvaða þýðingu það hefur fyrir Noreg að standa fyrir utan ESB, hvert framlag allra Norðurlandanna til ESB gæti verið sem og hver áhrif frá ESB til Norðurlandanna gætu verið.

Fleiri fundir í fundarröðinni eru fyrirhugaðir :
- 10. apríl kl. 12:00-13:30 mun Riikka-Maria Turkia, sérfræðingur hjá atvinnu- og efnhagsráðuneyti Finnlands, m.a. fjalla um áhrif aðildar að ESB á byggðamál í Finnlandi."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband