Leita í fréttum mbl.is

Lífið í landi óvissunnar - "geggjaði heimur krónunnar"

Jón KaldalJón Kaldal, ristjóri Fréttatímans fjallar um (hin óstöðugu) gjaldmiðilsmál í leiðara blaðsins þann 17.2 og segir meðal annars:

"Jón Sigurðsson forstjóri Össurar vandaði krónunni ekki kveðjurnar á Viðskiptaþingi á miðvikudag, en þar var hann aðalræðumaður. Sagði Jón að með hina tvískiptu krónu sem gjaldmiðil, verðtryggða og óverðtryggða, hefði þjóðin aldrei fast land undir fótum. Enda sýnir margra áratuga reynsla svo ekki verður um villst að óstöðugleikinn er það eina sem er stöðugt við íslensku krónuna.

Benti Jón á að besta leiðin til að auðgast á Íslandi sé sú að vera á réttum stað þegar fjármagnsflutningar verða í þessu umhverfi. Þegar Jón lét þau orð falla hefur hann væntanlega ekki gert ráð fyrir hversu hratt ný og afgerandi sönnun yrði færð fyrir þeim. Aðeins liðu nokkrar klukkustundir frá því hann lauk máli sínu þar til Hæstiréttur kvað upp dóm um lögmæti endurútreikninga gengislána. Dómurinn var skuldurum í hag. Uppi stóðu sem sigurvegarar þeir sem kusu að taka lán í erlendri mynt – og losna þar með við verðtryggingu og háa vexti krónulána – jafnvel þó þeir hefðu ekki tekjur á móti í erlendum gjaldmiðlum og tóku því meðvitaða og upplýsta áhættu.

Allt bendir til þess að dómur Hæstaréttar færi þessum skuldurum tugmilljarða ávinning þar sem áhrif tveggja stafa verðbólga undanfarinna ára á höfuðstól lána þeirra eru þurrkuð út.

Eftir standa hinir varfærnari, sem tóku lán í íslenskum krónum og sitja uppi með verðtryggingarbólginn höfuðstól. Þeir voru ekki á rétta staðnum, sem Jóni ræddi um í ræðu sinni, og njóta því ekki þessarar tröllvöxnu tilfærslu. Þegar er hins vegar hafin umræða hvort, og þá hvernig, sé hægt að rétta hlut verðtryggðu skuldaranna.

Þetta er í hnotskurn geggjaður heimur íslensku krónunnar."

(Leturbreytingar, ES-bloggið)


Fíllinn í stofunni!

Jón SigurðssonÞegar menn á borð við Jón Sigurðsson í Össuri h/f tala um gjalmiðilsmál, leggja menn við hlustir. Hann talaði á Viðskiptaþingi í dag og óhætt er að segja að krónan hafi fengið falleinkunn. Á RÚV stendur:

 "Vandamálið sé ónýtur gjaldmiðill sem hafi átt þátt í gríðarlegum eignatilfærslum milli hópa hér á landi í gegnum tíðina. Besta leiðin til að auðgast á Íslandi hafi löngum verið sú að vera á réttum stað þegar ósköp dynja yfir. Þetta hafi slævt vitund Íslendinga um hvað í raunverulegri verðmætasköpun felist. Erlendri fjárfestingu er hér illa tekið og við glímum enn við afleiðingar þess að enginn treysti krónunni sagði Jón. Krónan þurfi bakhjarl til að auka tiltrú og því verði Íslendingar að tengjast stærra gjaldmiðilssvæði."

Og á www.visir.is segir ennfremur:

"Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, sagði í ræðu á Viðskiptaþingi í dag íslensku krónuna vera uppsprettu illinda í íslensku samfélagi. Hún væri eins og fíll inn í stofu á heimilum fólks og það eina sem fólkið gerði væri að moka því út sem kæmi úr afturenda hans. Nauðsynlegt væri að tengjast stærra myntsamstarfi.

Jón Sigurðsson sagði íslensku krónuna valda miklum óstöðugleika í íslensku hagkerfi. Hann líkti því við stíflu í tómatsósuflöskum, þar sem annað slagið gusaðist út sósa á meðan oft gengi erfiðlega að koma sósunni úr flöskunni. Miklar sveiflur í hagkerfinu væri birtingarmynd krónunnar. Hann sagði reiðina í samfélaginu, ekki síst eftir hrunið, væri að miklu leyti vegna krónunnar. Hún skapaði hraða og öfgakennda fjármagnsfutninga á milli fólks, sem væri ekki boðlegur nútímasamfélögum, og væri eins óhentugur fyrirtækjarekstri og hægt væri að hugsa sér."

Þarf að segja meira?


Magnús Orri um lýðræðishallann í EES

Magnús Orri SchramMagnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, skrifar grein um EES-samninginn í Fréttablaðið í dag. EES-samningurinn er tvítugur um þessar mundir. Magnús segir:

"EES-samningurinn er 20 ára um þessar mundir og af því tilefni tóku Norðmenn nýlega saman ítarlega skýrslu um reynslu sína af EES-samstarfinu. Niðurstöður skýrslunnar má að miklu leyti yfirfæra á íslenskan veruleika enda þjóðirnar tvær í sömu stöðu innan EES.

Skýrsluhöfundar segja ávinning Norðmanna af EES mikinn. Samningurinn hafi styrkt atvinnulíf Norðmanna, aukið viðskipti og bætt lífsgæði. Þá dregur skýrslan fram að einn þriðja af norskum lögum megi rekja til samstarfsins við ESB og að yfir 7.000 reglugerðir, tilskipanir o.fl. hafi verið teknar upp í Noregi vegna samningsins. Þá er dregið fram að Norðmenn hafa mjög lítil áhrif á þessi lög og reglugerðir sem taka þarf upp eftir óskum frá Brussel. Þessi staða veikir óneitanlega undirstöður lýðræðisins í Noregi, því þjóðkjörnir fulltrúar á norska þinginu koma lítið sem ekkert að þriðjungi þeirra laga sem samin eru í Brussel og svo stimpluð í Noregi."

Síðan bendir Magnús á að Noregur hafi tekið upp um 70% af öllum gerðum ESB og það sé meira heldur en margir fullgildir aðilar hafi gert. Því sé talað um "Evrópuvæðingu" Noregs. Síðan lýkur Magnús grein sinni með þessum orðum:

"Andstæðingar aðildar Íslands að ESB hafa í málflutningi sínum lagt áherslu á að sjálfstæði þjóðarinnar sé hætta búin við inngöngu í sambandið og því sé samstarf innan EES betri kostur. Í ljósi norsku skýrslunnar er sú röksemd fallin um sjálfa sig. Norska skýrslan dregur það skýrt fram að lög þjóðarinnar eru að þriðjungi ættuð frá ESB án þess að kjörnir fulltrúar hafi mikið um þau að segja. Væri landið á hinn bóginn aðili að ESB hefðu þingmenn miklu betri aðkomu að öllum þeim lögum sem í landinu gilda. Þannig má segja að sjálfstæði þjóðarinnar myndi standa miklu styrkari fótum væri landið hluti af ESB frekar en í núverandi stöðu innan EES-samstarfsins."


Evrópumálin rædd hjá Ingva Hrafni á Hrafnaþingi.

Þau Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir, Anna Margrét Guðjónsdóttir og Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, ræddu Evrópumálin fyrir skömmu, við Ingva Hrafn Jónsson, í þættinum Hrafnaþing, á ÍNN.

Hægt er að horfa á þáttinn á þessari slóð.


Sema Erla á DV-blogginu: ESB ekki lengur sexý?

Sema Erla SerdarSema Erla Serdar, verkefnisstjóri hjá Já-Ísland og fyrrum formaður Ungra Evrópusinna, skrifar skemmtilegan pistil á DV-bloggið, sem ber yfirskriftina "ESB ekki lengur sexý."

Pistill Semu hefst á þessum orðum: ""Evrópa er að hrynja", "Evran á sér enga framtíð", "martröð unga fólksins", „Evran eins og Titanic", „Evrópa logar", „Grikkland í gíslingu Frakka og Þjóðverja", „ESB fyrir heimskingja", „aðlögunarferli" og „múturfé", eru nokkur dæmi um þær upphrópanir sem blasa við manni þegar maður rennur í gegnum Evrópusambandsumræðuna.

Svo það er ekki að furða að maður spyrji, er ESB ekki lengur sexý?

Það er reyndar búið að spá hruni Evrópu, já eða Evrópusambandsins, allt frá stofnun þess. Um daginn átti Evran tíu ára afmæli, en öll þessi tíu ár er búið að spá hruni hennar. Evrópusambandið hefur gert svo mikið fyrir unga fólkið, meðal annars auðveldað möguleika þeirra á að ferðast, flytja, vinna, læra, já eða bara leika sér, í öðrum ESB löndum, án nokkurra vandkvæða. Unga fólkið getur líka sótt í hina ýmsu styrki hjá Evrópusambandinu til þess að koma öllum mögulegum hugmyndum sem þau hafa, í framkvæmd, en málefni unga fólksins er stór málaflokkur innan ESB. Þvílík martröð!

Titanic sökk eftir að það sigldi á ísjaka. Í dag nota 17 af 27 aðildarríkjum ESB evruna, auk fimm annarra Evrópuríkja, en í sínu daglega lífi nota meira en 300 milljónir manna evruna. Þá eru fleiri en 20 lönd, sem hafa tengt gjaldmiðil sinn við Evruna, til dæmis Fílabeinsströndin, en það held ég að þú finnir ekki marga ísjaka til að klessa á."

Síðan segir Sema: "Evrópa logar og Grikklandi er haldið í gíslingu. Ég ætla ekki að neita því að Evrópa á í vandræðum í dag, og Grikkland á í vandræðum, sem þó eru nánast að öllu leyti heimatilbúin, en verið er að vinna að lausnum á vandamálum þeirra, enda standa aðildarríki Evrópusambandsins saman í góðu og illu. Áður fyrr fóru þessar þjóðir í stríð en í dag standa þau saman að því að leysa þau vandamál sem þau (og aðrir) standa frammi fyrir. En hver á svosum ekki við nein vandamál að stríða í dag? Ísland? Bandaríkin? Evrópuríkin sem ekki hafa evru? Við ættum kannski að vera duglegri að líta í eigin barm stundum.

Evrópusambandið brást strax við vandamálinu. Það var komið með lausnir. Það er enn verið að vinna að lausnum. Nýjar löggjafir, nýjar reglur, meira eftirlit, meiri agi, meira gagnsæi, meira puð, stanslaus vinna. Ekki fyrir hvern sem er að vera í sporum evrópskra þjóðarleiðtoga í dag. En þau vinna vinnuna. Hvað er annars að frétta af útrásarvíkingunum? Lífeyrissjóðunum? Bankamönnunum? Það þarf enga evru til þess að svona vandamál komi upp, og því firra að kenna gjaldmiðlinum sjálfum um þetta."

Allur pistillinn

(Mynd: DV-bloggið)


ESB og afleiðingar "Arabíska vorsins"

Háskóli ÍslandsAlþjóðamálastofnun H.Í. stendur fyrir fundi næsta föstudag og í tilkynningu segir: "Föstudaginn 10. febrúar er komið að þriðja fundi vorannar um Evrópumál en þá lítur Jordi Vaquer i Fanés, forstöðumaður Barcelona Centre for International Affairs á Spáni, yfir farinn veg ári eftir atburðina sem tengdir hafa verið við arabíska vorið. Fundurinn sem haldinn er á ensku fer fram í Lögbergi 101 frá kl. 12 til 13.

Sú bjartsýni sem ríkti innan ESB í kjölfarið á atburðum liðins árs hefur nú dofnað eftir kosningasigra flokka íslamista í Túnis, Egyptalandi og Marokkó. Ástandið er síður en svo stöðugt í Líbíu og Jemen og mótmælendur í Bahrein og Sýrlandi eru vægðarlaust beittir ofbeldi. Óvissan um framtíðina er því mikil á þessum slóðum. Ári eftir fall Mubaraks er Evrópusambandið enn að reyna að átta sig á þeim breytingum sem orðið hafa í arabaheiminum. Nú þarf að grípa tækifærið og endurskoða stefnu sambandsins til þess að geta tekist á við þessar nýju áskoranir."

Sjá: http://stofnanir.hi.is/ams/

 


"Ísland - sögueyjan" - í Evrópuþinginu

EvrópuþingiðÁ vef utanríkisráðuneytisins stendur þetta: "Sýningin Sögueyjan Ísland - Portrett af íslenskum samtímahöfundum opnaði í Evrópuþinginu í Brussel í dag. Sýningin sem er á ensku byggir á veggspjöldum með portrettljósmyndum Kristins Ingvarssonar ljósmyndara af á þriðja tug íslenskra rithöfunda og viðtölum Péturs Blöndal blaðamanns við þá um hvað í íslenskum söguarfi hafi helst haft áhrif á listsköpun þeirra. Sýningin hefur verið þýdd á fimm tungumál og er notuð við kynningu sendiráða og bókmenntastofnana víða um heim. Á annan tug þýðinga íslenskra bóka í enskri þýðingu liggja frammi í Evrópuþinginu. Þórir Ibsen, sendiherra Íslands gagnvart ESB og Dan Preda, sérstakur fulltrúi utanríkismálanefndar Evrópuþingsins um samningaviðræðurnar við Íslands, opnuðu sýninguna formlega."

Noregur: Of mikil völd ESB af hinu góða?

Mogginn komst i feitt í hinu pínulitla dagblaði Nationen í Noregi (upplag: um 15.000 eintök, minna en Mogginn!) en þar var sagt frá könnun þess efnis að um 40% þátttakenda í könnun þykir ESB hafa of mikil áhrif í Noregi (sem er ekki í ESB).

Í sama blaði (Nationen) má hinsvegar lesa frétt þess efnis að framkvæmdastjórn ESB gruni að hið stóra norska orkufyrirtæki NordPool hafi brotið samkeppnisreglur!

Kannski bara gott að ESB hafi "allt of mikil völd" í Noregi?


Meira af Fésbókarfréttum!

ESB-málið er uppspretta lýðræðislegrar umræðu í öllum tegundum fjölmiðla. Meðal annars á Fésbókinni og ritara var bent á hvassa síðu um ESB á Fésbókinni, sem ber yfirskriftina Vonda Evrópusambandið. Kíkið á hana!

Þar er meðal annars þessi brandari!


Evrópustofan er líka á Fésbókinni

EvrópustofaEins og fram hefur komið í fréttum opnaði Evrópustofan um daginn. Hún er líka á Fésbókinni (Facebook) og hér er slóðin: http://www.facebook.com/Evropustofa

Já-Ísland: Vaxtamunur, Ísland gagn nágrannalöndum

Já-ÍslandÁ vef vefnum www.jaisland.is segir: "Samkvæmt nýju fréttablaði Alþýðusambands Íslands hefur ASÍ undanfarið verið að skoða vaxtakostnað heimilanna, og eru niðurstöðurnar sláandi, íslensk heimili borga miklu hærri vexti en bjóðast í nágrannalöndunum.

Þar segir að „á árunum 1998–2010 voru nafnvextir af  nýjum húsnæðislánum í Evrópu skv. European Mortagege Foundation á bilinu 4-5%. Nafnvextir hér á landi (m.v. að raunvexti Íbúðalánasjóðs vegi 75% og raunvextir banka vegi 25% að viðbættri verðbólgu sl. 12 mánaða) hafa á sama tíma verði 11,7% að meðaltali. Munurinn er 7,2% stig að meðaltali og þegar gengið hefur fallið (2001, 2006 og 2008) rýkur þessi munur upp í 10-20% stig.“"

Öll fréttin


Samskipti ESB og Kína?

EvrópuvefurinnÁ Evrópuvefinn safnast smám saman áhugaverðar spurningar og svör um Evrópumál. Ein nýleg spurning er þess: "Hvernig er samskiptum ESB og Kína hagað?"

Svarið hefst svona: "Samskipti ESB og Kína byggja á viðskipta- og samstarfssamningi frá árinu 1985. Framan af var megináhersla lögð á viðskiptasamstarf en í seinni tíð hafa mennta- og menningarmál, umhverfismál, mannréttindamál sem og utanríkis- og öryggismál orðið stærri hluti af samstarfinu. Evrópusambandið er stærsti viðskiptaaðili Kína, sem er næststærsti viðskiptaaðili ESB á eftir Bandaríkjunum. ESB flytur þó mest inn af vörum frá Kína. Markmið stefnu Evrópusambandsins gagnvart Kína er meðal annars að stuðla að breytingum sem gætu leitt til opnara samfélags byggðu á lögum og reglum og virðingu fyrir mannréttindum. Þá hefur ESB einnig að markmiði að hvetja til aðlögunar Kína að hinu alþjóðlega efnahagskerfi og styðja við efnahags- og félagslegar endurbætur í landinu." 

Einnig segir: "Meginmarkmið stefnu Evrópusambandsins gagnvart Kína er að styrkja samstarf þeirra á milli með auknum pólitískum samræðum, bæði á grunni tvíhliða samskipta og eins á alþjóðavettvangi. Sambandið vill hvetja til aðlögunar Kína að hinu alþjóðalega efnahagskerfi með því að stuðla að því að Kína verði fullgildur aðili að alþjóðlega viðskiptakerfinu. Einnig vill ESB stuðla að breytingum í Kína, sem gætu leitt til opnara samfélags sem væri byggt á lögum og reglum og virðingu fyrir mannréttindum. Þá hefur ESB það markmið að styðja við efnahags- og félagslegar endurbætur í landinu. Loks vill ESB styrkja stöðu sambandsins í Kína."

Hér er svo áhugaverð grein um fjárfestingar Kína í ESB

 


Tvö ný framboð - bæði vilja halda ESB-viðræðum áfram

Tvö nú stjórnmálaframboð hafa litið dagsins ljós, en bæði vilja þau halda viðræðum við ESB áfram. Annað þeirra, Björt framtíð, hefur verið þekkt í nokkurn tíma, en hitt framboðið, Samstaða, var kynnt opinberlega í dag. Þar er Lilja Mósesdóttir fremst í flokka.

Guðmundur Steingrímsson er formaður Bjartrar framtíðar, en Heiða Kristín Helgadóttir leiðir málefnastarfið.

 


Gunnar Hólmsteinn um Vigdísi Hauksdóttur og "hrun Evrópu"

Gunnar Hólmsteinn ÁrsælssonGunnar Hólmsteinn Ársælsson, stjórnmálafræðingur, skrifaði grein í DV þann 6. febrúar vegna ummæla Vigdísar Hauksdóttur, alþingismanns á beinni línu hjá DV fyrir skömmu, þess efnis að Evrópa væri að hrynja og Evran líka. Grein Gunnars hefst svona:

",,Evrópa er að hrynja - svo og evran.“ Þannig byrjaði eitt svara Vigídisar Hauksdóttur, eins af alþingismönnum okkar á ,,Beinni línu“ hjá DV fyrir skömmu.

Mér finnst það mjög magnað að lesa þessi orð Vigdísar og það sem mér dettur fyrst og fremst í hug er þetta: Er þetta raunveruleg ósk Vigdísar? Að Evrópa hrynji? Og Evran líka?

Næsta spurning sem vaknar er þessi: Gerir viðkomandi þingmaður sér grein fyrir því hvað myndi gerast EF Evrópa og Evran myndu hrynja? Og hverjar afleiðingarnar yrðu, ekki bara fyrir Evrópu, heldur líka Ísland?

Samkvæmt Hagtíðindum fór tæplega 80% af útflutningi Íslands árið 2010 til ESB og rúmlega 50% af innflutningi kom þaðan. Hvað myndi gerast ef þetta mynd raskast verulega, með ,,hruni Evrópu“ eins og Vigdísi er svo tamt að tala um?

Við höfum söguleg dæmi sem geta veitt okkur ákveðinn stuðning og það er frá heimskreppunni miklu, sem skall á árið 1929. Einn helsti sagnfræðingur Íslands, Gunnar Karlsson skrifar um þetta í kennslubók í sögu, Nýir tímar. Þar segir þetta um áhrif kreppunnar hér á Íslandi: ,,Þegar leið á árið 1930 fór áhrifa hennar að gæta í lækkandi verði á útflutningsvörum Íslendinga.“ Síðar segir: ,,Heildarverðmæti útflutnings frá Íslandi féll úr 74 milljónum króna árið 1929 í 48 milljónir króna árið 1931...samdrátturinn í fiskveiðum olli miklu atvinnuleysi í fiskveiðibæjum og þorpum.“

Um 90% útflutnings Íslands á þessum tíma var fiskur, rest landbúnaðarvörur. Það hefur að sjálfsögðu mikið breyst, en tölurnar tala sínu máli; um er að ræða um 36% samdrátt í útflutningsverðmæti! Mest fór að sjálfsögðu til Evrópu, sem í gegnum söguna hefur verið okkar mikilvægasti viðskiptaaðili. Og verður um ófyrirsjáanlega framtíð!

Þessar upphrópanir Vigdísr dæma sig að sjálfsögðu sjálfar og þetta er hennar stíll. Því miður."


Höft = ófrelsi!

Ein krónaÍ frétt í Viðskiptablaðinu stendur: "„Við erum þess mjög fylgjandi að Kauphöllin taki upp viðskipti með gjaldeyri vegna þess að þessi markaður ber svolítið merki um einokun,“ segir Orri Hauksson aðspurður um ástandið á gjaldeyrismarkaði."

Einu sinni sátu Danir að allri verslun hér á landi og höfðu það gott. Einokun þýðir jú að einhver einn aðili hefur markaðinn eins og hann leggur sig. Sá kvartar ekki.

Ástandið á íslenskum gjaldeyrismarkaði getur aldrei orðið eðlilegt á meðan gjaldmiðilinn er í höftum.

Höft = ófrelsi!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband