Leita í fréttum mbl.is

Kanadakróna?

Frétt Evrópusamtakanna í gær um málefni Kanadadollars vakti talsverða athygli í gær og tók Eyjan meðal annars upp málið.

Margir eru að fjalla um gjaldmiðilsmál um þessar mundir og Guðmundur Gunnarsson er þar á meðal. Bendum á pistil hans, en þar segir:

"Eins og fram hefur komið í pistlum hér á þessari síðu undanfarna daga, er það sem sett er fram svo geggjað að maður veit eiginlega ekki hvort verið sé að tala í alvöru, þar má benda á "hagfræðinga?" sem stíga fram og stinga upp á því að taka t.d. upp Kanadískan dollar og Kanadamenn vilji það endilega og sumir virðast taka þetta alvarlega. Stundum hafa aðrar myntir verið nefndar. Augljóslega er þetta í raun allt sama tóbak og skipta um nafn á krónunni, við þyrftum eftir sem áður að standa straum af rekstrarkostnaði þess gjaldmiðils.

Eru Kanadamenn virkilega tilbúnir í að spandera á okkur þeim fjármunum sem sem hlýst af því að verja okkar hagkerfi? Eða hitti sá hagfræðingur sem setur þetta fram, einhverja Kanadamenn á bar, datt í það með þeim og þeir urðu voru bestu vinir Íslands. Hér er ég augljóslega að vitna til umtalaðs ferðalags formanns Framsóknar til Noregs á bar í Osló til þess að tala við "norskan spesíalista" í beinni útsendingu RÚV. Mesta drykkjuflopp ever eins og krakkarnir mínir segja gjarnan.

Eru Kanadamenn virkilega til í að kaupa allar krónur sem eru í umferð, allt lausafé og skuldabréf, og greiða það upp í topp með kanadískum dollurum. Og henda svo öllu sem fylgdi krónunni í ruslið. Fyrirfinnst enn í heiminum slík gjafmildi og hjartahlýja, eða er þetta bara menn sem smella á sig nokkrum tvöföldum og faðmast á eftir?
"


Evrópumálaráðherra Íra í heimsókn

Á vefnum JáÍsland stendur:

"Þann 23. nóvember mun Evrópumálaráðherra Írlands, Lucinda Creighton, halda opinn fyrirlestur í Háskólanum í Reykjavík, milli klukkan 12.05 og 13, í sal M101 (fyrrum Bellatrix).

Lucinda Creighton er lögfræðingur að mennt og þingmaður Fine Gael stjórnmálaflokksins á Írlandi, en Lucinda er fædd árið 1980 og var yngsti þingmaður Írlands þegar hún var fyrst kosin á þing árið 2007. Hún hefur vakið mikla athygli fyrir skýran og sjálfstæðan málflutning.

Hér er viðtal við Lucindia um Lisbon sáttmálann og samstarfið innan Evrópusambandsins: https://www.youtube.com/watch?v=yb9_b_lsNoE&feature=player_embedded"

Skráning: Með tölvupósti til skraningar@ru.is


Um "himbrimadollar" : Vinnur Sigmundur Davíð og Framsókn að upptöku Kanadadollars?

Sigmundur Davíð GunnlaugssonUmræðan um gjaldmiðils-mál magnast nú í aðdraganda landsfundar Sjálfstæðisflokksins, en samkvæmt þeim sem eru í framboði, er krónan bara toppgjaldmiðill og allt í sóma! Þrátt fyrir verðrýrnun upp á næstum 100% á undanförnum áratugum gagnvart dönsku krónunni.

Umræðan um kanadískan himbrimadollar (það er mynd af himbrima á honum!) er enn sérkennilegri. Ritari rakst á grein frá 2.nóvember á vef Canadian Business (elsta viðskiptatímarit Kanada), þar sem athyglisverðir hlutir standa. Hér er tilvitnun þar sem rætt er um það sem blaðamaðurinn kallar ,,sérkennilegustu rökin" fyrr upptöku Íslands á Kanadadollar af þeim sem það aðhyllast:

"The strangest reason for adopting the loonie is Arctic sovereignty. There are eight countries in the Arctic Council, including Canada and Iceland. A common currency could help Canada gain clout in the council, the group argues, and it could gain even more if Greenland comes on board, which they recommend. (To think that Canada, Iceland and Greenland can hold sway over the U.S. and Russia might be, well, very 2007.)

For now, the idea remains exactly that. The Progressive Party does not have a big presence in parliament, and the coalition government wants to complete the EU application process. Gunnlaugsson, the Progressive leader, is hoping for a nod of approval from Canada. “If there were some signs from Canada of willingness to look into this issue seriously, it would mean that the government cannot ignore the idea,” he says.

Help probably isn’t forthcoming. The group approached the Canadian Embassy in Reykjavik to ask how Canada would feel about a switch, and earlier this year the question was relayed to the Bank of Canada. According to a Canadian official who requested anonymity, the central bank answered that a unilateral currency switch wouldn’t mean much for Canada—all it has to do is supply the notes and coins purchased by Iceland—and the country was welcome to do it. However, it emphasized Iceland would have zero input into policy decisions. "

Snarað: Rætt er um átta heimskautalönd og sameiginlegt myntsvæði myndi auka áhrif Kanada, sérstaklega ef Grænland yrði með! Í greininni segir einnig að Sigmundur Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, ,,vonist eftir samþykki" og vitnað er beint í hann þar sem hann segir: "Ef Kanadamenn eru viljugir til að skoða þetta, geta íslensk stjórnvöld ekki horft framhjá þessari hugmynd," er haft eftir Sigmundi.

Því vaknar spurningin: Er Sigmundur Davíð að vinna að því að Ísland taki upp Kanadadollar og er það ekki algerlega á skjön við hans eigin málflutning hér heima? Er spil á bakvið tjöldin? Er stuðlað að því að Kanada styrki stöðu sína á Noðurslóðum með þessu?

Í síðustu ensku málsgreininni kemur svo fram að upptaka Íslands á Kanadadollar myndi ekki þýða mikið fyrir Kanada, Ísland mætti gera slíkt, en svo er lögð rík áhersla á að Ísland myndi ENGIN ÁHRIF hafa á stjórnmálalegar ákvarðanir. Með öðrum orðum, landið myndi afsala sér fullveldisrétti á sviði gjaldeyrismála!

Taki Ísland upp Evruna, verður landið hinsvegar formlega aðili að Evru-samstarfinu, sem er lýðræðislegt samstarf. Þar myndi landið starfa með öðrum ríkjum með eðlilegum og lýðræðislegum hætti, en ekki nota mynt með samþykki annarrar þjóðar. Hvað ef sú þjóð myndi hætta að skaffa okkur peninga? 

Þau nöfn sem nefnd eru í greininni á þeim aðilum sem eru að vinna að því að Ísland taki upp Kanadadollar eru Ársæll Valfells og Magnús Skúlason, náinn kunningi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og félagi í InDefence-hópnum, eins og Sigmundur.

Einnig er fullyrt í greininni að Framsóknarflokkurinn styðji hugmyndina um upptöku Kanadadollars: "One political party, the Progressive Party, is supportive. “If we are going to adopt another currency, then the Canadian dollar looks very promising,” says leader Sigmundur Gunnlaugsson. They’re not after a currency union, but a unilateral adoption similar to El Salvador’s 2001 switch to the U.S. dollar."

Árið 2001 var El Slavador í rúst eftir grimmilegt borgarastríð milli herforingjastjórnar(studd dyggilega af USA) og skæruliða kommúnista, þar sem 75.000 manns létu lífið. Og það er kannski skiljanlegt að El Salvador taki upp dollara, þar sem stórir hlutar Mið og S-Ameríku eru dollaravæddir og viðskipti mest við Bandaríkin.  Hinsvegar nemur útflutningur Íslands til Kanada aðeins um 2,4% af heild!

En er þetta sem sagt stefna Framsóknarflokksins: Að Ísland taki upp Kanadadollar? Og getur þá Sjálfstæðisflokkurinn unnið með Framsókn með sína krónu?


Björgvin G. um "Kandískar krónur"

Björgvin G. SigurðssonBjörgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar skrifar pistil á Pressuna um gjaldmiðilsmál, sem hann kallar "Kandískar krónur" og segir þar meðal annars:

"Nú þegar heimsbyggðin siglir í gegnum brimskafla skuldakreppu og fjármálaerfiðleika ágerist umræðan um framtíðarstefnu Íslendinga í gjaldmiðils- og peningamálum. Þorra landsmanna er ljóst að ekki er búandi til lengdar við núverandi ástand. Það ógnar fullveldi landsins til lengri tíma litið og það er með engum hætti réttlætanlegt að afhenda komandi kynslóðum landið án þess að skjóta traustum stoðum stöðugs gjaldmiðils undir samfélagið.

Þá hefur hávær þögnin í efnahagstillögum sjálfstæðis- og framsóknarmanna um framtíðarfyrirkomulag peningamála vakið enn meiri athygli á verkefninu.

Verðtryggð króna í höftum og sífelldri verðmætarýrnun er valkosturinn við upptöku evru að mati flestra. Einhliða upptaka annarra þjóða mynta hefur alltaf verið slegin út af borðinu. Enda fylgja því margvíslegar og meiriháttar skuldbindingar að hleypa einu samfélagi inn á myntsvæði annars. Skuldbindinga sem er varða fjármálakerfið og efnahagsmálin almennt.

Til dæmis um þessa staðreynd er svar Jens Stoltenberg forsætisráðherra Noregs frá því fyrir tveimur árum. Þá aðspurður um hvort Íslendingum byðist að taka upp norska krónu í stað þeirrar íslensku.

Nei, hún er okkar gjaldmiðill Norðmanna, sagði forsætisráðherrann. Meti Íslendingar það svo að þeir þurfi annan gjaldmiðil er evran svarið. Til þess er hún. Myntbandalag þjóða með sameiginlegan markað og mikil viðskipti sín á milli, var efnislega svar hans."

Allur pistill Björgvins


Við treystum þjóðinni!

Já-Ísland-framtíðinSamtökin Já-Ísland birtu í kvöld áhugaverða auglýsingu, en á vef samtakanna stendur:

"Næstu daga mun þessi auglýsing birtast landsmönnum. Við teljum það skipta mestu máli þegar þjóðin tekur ákvörðun um hvort hún vilji að Ísland gangi í Evrópusambandið að sú ákvörðun sé byggð á staðreyndum. Við treystum þjóðinni fyllilega til að taka réttu ákvörðunina fyrir Ísland þegar samningurinn liggur fyrir."

Horfið hér eða hér


Meira um SA og ESB-málið

Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum samþykktu Samtök Atvinnulífsins (SA) á fundi að halda bæri áfram aðildarumsókn Íslands að ESB og ljúka aðildarviðræðum með því að greiða atkvæði um málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Fréttablaðið sagði frá þessu í morgun og rataði málið á vef Eyjunnar, en þar stendur:

"Atkvæði fulltrúa fyrirtækja í verslun, iðnaði og ferðaþjónustu réðu því að stjórn Samtaka atvinnulífsins samþykkti stuðning við að ljúka aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins á fundi sínum í gær.

Þrjú af sex mótatkvæðum voru frá fulltrúum sjávarútvegsins en forstjóri N1, ja.is og Norvik voru einnig á móti.

Tveir sátu hjá, annar þeirra er forstjóri ríkisfyrirtækisins Rarik.

Fréttablaðið í dag greinir frá þeim átökum sem urðu í stjórn Samtaka atvinnulífsins út af ályktuninni."

Svona gekk atkvæðagreiðslan samkvæmt Fréttablaðinu og Eyjan vitnar í:

"Já sögðu:
Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins
Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins
Hjörleifur Pálsson, Össur hf.
Aðalheiður Héðinsdóttir, Kaffitár,
Loftur Árnason, Ístak hf.
Grímur Sæmundsen, varaformaður SA, Bláa lónið hf.
Árni Gunnarsson, Flugfélag Íslands hf.
Finnur Árnason, Hagar hf.
Margrét Kristmannsdóttir PFAFF hf.
Kristín Pétursdóttir Auður Capital hf.

Nei sögðu:

Adolf Guðmundsson Gullberg ehf. Nei
Friðrik Jón Arngrímsson LÍÚ Nei
Arnar Sigurmundsson Samtök fiskvinnslustöðva Nei
Guðmundur H. Jónsson Norvik hf. Nei
Hermann Guðmundsson N1 hf. Nei
Sigríður Margrét Oddsdóttir Já upplýsingaveitur ehf. Nei

Þessir sátu hjá
Sigurður Viðarsson Tryggingamiðstöðin hf.
Tryggvi Þór Haraldsson RARIK ohf.

Þrír stjórnarmenn sátu ekki fundinn, þau Birna Einarsdóttir, Íslandsbanka, Ólafur Rögnvaldsson, Hraðfrystihúsi Hellissands hf. og
Rannveig Rist, Rio Tinto Alcan á Íslandi hf."

Ennfremur segir á Eyjunni: "Hjáseta forstjóra Rafmagnsveitna ríkisins, hlýtur að vekja athygli í ljósi þess að fyrirtækið er í eigu ríkisins og rekið á ábyrgð ráðherra í ríkisstjórninni sem hefur aðildarviðræðurnar á sinni stefnuskrá og ber á þeim ábyrgð."

Samantekið: Samtök atvinnulífins taka mjög skynsamlega afstöðu í málinu, sem gengur þvert á hugmyndir Nei-sinna í ESB-málinu, sem vilja neita íslenskri alþýðu um þann lýðræðislega rétt að greiða atkvæði um þetta veigamikla mál!


Nei-sinnar: Vilja EKKI að Íslendingar fái að kjósa um aðildarsamning - samt EKKI á móti lýðræði!!

Fjölmargir Nei-sinnar eru á móti því að Íslendingar fái að kjósa um aðildarsamning að ESB (sem þessir sömu Nei-sinnar vilja helst ekki heyra nefndan!) og er það þá ekki að vera á móti lýðræði?

Össur Skarphéðinsson hefur alveg rétt fyrir sér þegar hann segir að samtök Nei-sinna séu á móti lýðræðinu!

Þó Nei-sinnar segist vilja ræða kosti og galla aðildar, vilja þeir samt ekki að fólk fái að kjósa um aðild.

Dæmi um þversagnarkenndari málflutning eru vandfundin!


Fyrirlestur: Stjórnmálaástandið á Írlandi eftir írska efnahagsundrið

Í tilkynningu á vef Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands segir: 

"Tíundi fundurinn í fundaröð Alþjóðamálastofnunar veturinn 2011-2012. Stofnunin hlaut Jean Monnet styrk til að stuðla að upplýstri umræðu um Evrópumál og mun því bjóða upp á fjölmarga fyrirlestra erlendra fræðimanna á föstudögum í vetur. Fundurinn verður haldinn föstudaginn 11. nóvember í Odda 201, frá kl.12-13.

Nýtt lýðveldi: stjórnmálaástandið á Írlandi eftir írska efnahagsundrið

Dr. Peadar Kirby, prófessor í alþjóðastjórnmálum og opinberri stjórnsýslu, og forstöðumaður Institute for the Study of Knowledge in Society við Limerick háskóla á Írlandi.

Í erindi sínu skoðar Dr. Kirby hvaða áhrif efnahagshrunið á Írlandi hefur haft á stjórnmálin. Erindið byggir á nýútkominni bók hans sem fjallar um áform írsku samsteypustjórnarinnar um endurbætur á stjórnmálakerfi landsins. Að auki er skoðað hvaða möguleikar séu fyrir hendi til breytinga á efnahagskerfinu sem leiddi til írska efnahagsundursins á sínum tíma. Viðfangsefnið er skoðað út frá þeim breytingum sem orðið hafa á stjórnmálum á Írlandi í kjölfar kosninganna síðasta vetur og með tilliti til fjárhagsaðstoðarinnar sem kom frá Evrópusambandinu, Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, en sú aðstoð setur vissar skorður á aðgerðir írskra stjórnvalda.

Í lok fundar verður ný skýrsla eftir Baldur Þórhallsson og Peadar Kirby kynnt. Í skýrslunni er fjallað um stöðu Írlands og Íslands í efnahagskreppunni. Skýrslan kemur út á sama tíma í Írlandi.

Fundurinn verður haldinn á ensku og eru allir velkomnir."


Skynsemin ræður hjá SA!

Samtök atvinnulífsinsÁ vef Samtaka atvinnulífsins segir í ályktun: "Á fundi stjórnar Samtaka atvinnulífsins sem fram fór í dag var eftirfarandi ályktun samþykkt með 10 atkvæðum gegn 6 en tveir stjórnarmanna sátu hjá.


„Samtök atvinnulífsins leggjast gegn því að aðildarumsókn að Evrópusambandinu verði dregin til baka og aðildarviðræðum slitið. Samtökin telja að leiða eigi viðræðurnar til lykta.


Samningurinn yrði síðan lagður fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar í þjóðaratkvæðagreiðslu."

Skynsamleg afstaða hjá SA! Það er lýðræðislegur réttur íslensku þjóðarinnar að fá að greiða atkvæði um þetta mikilvæga mál!


G.Pétur Matthíasson um "Upplýsingafátækt" í FRBL

G.Pétur MatthíassonStjórnarmaður Evrópusamtakanna, G. Pétur Matthíasson, skrifar grein í Fréttablaðið í dag um ESB-málið og segir þar meðal annars:

"Það er gott að nýafstaðinn landsfundur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs telji það "eitt af forgangsverkefnum flokksins, flokkseininganna og þingflokksins að herða róðurinn við að upplýsa þjóðina um eðli og afleiðingar ESB-aðildar," líkt og segir í landsfundarályktun um aðildarviðræðurnar. Ekki veitir af. En það er eitt vandamál þar á ferð. Formálinn að þessari fínu niðurstöðu ber vott um töluverða fákunnáttu um Evrópusambandið og samningsferlið sem nú stendur yfir.


Í ályktuninni segir að það eigi að hafna því að Ísland afsali sér forræði og yfirstjórn á náttúruauðlindum. Það hefur verið svo ofarlega í umræðunni að auðlindir hvers ríkis innan Evrópusambandsins eru á forræði þess sjálfs að það er óskiljanlegt að landsfundur eins stærsta stjórnmálaflokks landsins skuli halda annað. Annað gildir reyndar um sjávarútveginn en við skulum sjá hvað um semst í þeim efnum, en vatnsorkan verður til dæmis á okkar framfæri hvað sem öllu öðru líður.


Hvaða mikla skerðing lýðræðis er það sem felst í aðild að ESB umfram það sem nú er? Með aðild mun lýðræði Íslendinga ekki skerðast heldur frekar aukast. Við fáum að kjósa sex þingmenn á Evrópuþingið, við fáum einn framkvæmdastjóra og setu í ráðherraráðinu og leiðtogaráðinu. Ísland fær rödd og fær áhrif, reyndar langt umfram höfðatölu, til að hafa eitthvað að segja um það sem nú er samþykkt orðalaust í gegnum EES-samninginn. Sjálfstæði okkar mun aukast við aðild þótt fullveldi verði gefið eftir á mjög takmörkuðum sviðum.


Með Lissabon-sáttmálanum var ekki verið að stofna Evrópuher, líkt og ýjað er að í ályktun landsfundarins. En Vinstri-græn virðast ekki gera sér grein fyrir því að með sáttmálanum var bein þátttaka almennings bundin

í lög. Þar sem flestar ákvarðanir ráðherra- og leiðtogaráðs eru teknar á grundvelli samkomulags allra þjóða hefur hver þjóð í reynd neitunarvald. Væri nú ekki skemmtilegt fyrir Vinstri-græna að hugsa til þess að flokkurinn gæti, ef þannig stæði á, og ef einhverjum dytti sú fásinna í hug að stofna Evrópuher, stöðvað þá uppbyggingu?"


Allt tengist!

Þórður Snær JúlíussonLeiðari Fréttablaðsins í dag er áhugaverður og í honum fjallar Þórður Snær Júlíusson um Evrópu og þau vandamál sem þar er við að glíma. Hann reynir að setja hlutina upp í víðara samhengi, sem er gott. Þórður byrjar svona:

"Af íslenskri skotgrafaumræðu mætti halda að yfirstandandi efnahagsvandi evrusvæðisins hefði engin bein áhrif á okkur. Andstæðingar Evrópusambandsaðildar (ESB) hafa glaðhlakkalega bent á að ástandið sýni að Ísland eigi ekkert erindi inn í þennan félagskap. Fylgjendur hennar segja á móti að samtakamáttur aðildarríkjanna við að leysa vanda hvert annars sýni að eftirsóknarvert sé að tilheyra sambandinu. Þessi umræða er yfirborðskennd og fangar ekki alvarleika ástandsins.

Ísland á gríðarlega mikið undir því að framtíðarlausn finnist á skuldavandræðunum og að evrusamstarfið leysist ekki upp. Þeir hagsmunir eru til staðar alveg óháð því hvort við göngum inn í ESB eða ekki. Nánast öll okkar viðskipti eru enda við Evrópu. Það sem af er ári hafa 81,6% af öllum útflutningi Íslendinga ratað inn á Evrópska efnahagssvæðið (EES). Um 61% af öllum vörum sem við flytjum inn kemur þaðan. Þorri erlendra eigna lífeyrissjóða okkar er í evrum. Og svo framvegis."

Allur leiðarinn


Sölvi Tryggvason: Tvær þjóðir á Íslandi

Sölvi TryggvasonFjölmiðlamaðurinn Sölvi Tryggvason skrifar pistil um gjaldmiðlamál á Pressuna í dag og hann hefst svona:

"Það hefur varla farið framhjá neinum að það eru gjaldeyrishöft á Íslandi. Við höfum farið áratugi aftur í tímann og treystum okkur ekki til að taka þátt í alþjóðlegum viðskiptum með krónuna. Vel er passað upp á að almenningur sanki ekki að sér dollurum og Evrum. Fyrst mátti maður taka allt upp að 500 þúsund krónum í gjaldeyri þegar farið var til útlanda eftir hrun, en nú er upphæðin komin niður í 350 þúsund.

Í Bankanum þarf að sýna flugmiða og skilríki, svo öruggt sé að ekki séu brögð í tafli. En á meðan aurinn er grandskoðaður virðist lítið gert til að passa upp á milljónirnar. Frá hruni hafa margir hagnast um milljónir og jafnvel milljarða á höftunum. Í London hafa útrásarvíkingar braskað í aflandskrónuviðskiptum í nærri þrjú ár óáreittir. "
Síðan segir Sölvi að fjölmörg fyrirtæki fari framhjá höftunum og veltir því meðal annars fyrir sér hvort rétt hefði verið að lát krónuna "gossa" enn frekar, mögulega stæði hún betur í dag, hefði það verið gert. Síðan lýkur hann pistlinum með þessum orðum:

"Sem stendur eru tvær þjóðir á Íslandi. Þeir sem hafa möguleika á að þéna og sýsla í evrum og dollurum og svo hinir sem vinna fyrir krónum og hafa mátt þola stöðuga kaupmáttarrýrnun sem ekki sér fyrir endann á." (Leturbr. ES-Bloggið)
(Mynd: Skjáskot, www.pressan.is)

Krónan óstöðug - þrátt fyrir gjaldeyrishöft!

Ein krónaFram kom í frétt í gærkvöldi á Stöð tvö að íslenska krónan er óstöðugur gjaldmiðill, þrátt fyrir að vera umvafin og vernduð af gjaldeyrishöftum! Draumgjaldmiðill fyrir unga þjóð í heimi alþjóðlegra viðskipta?

Evruríkið Finnland fær hrós og hæsta lánshæfismat S&P

FinnlandFram kom í fjölmiðlum í dag að Finnland hefði fengið hæstu einkunn (AAA) hjá matsfyrirtækinu Standard and Poor´s varðandi lánshæfi.

Fögrum orðum er farið um stöðuna í Finnlandi. Fyrir þá sem ekki vita notar Finnland Evru sem gjaldmiðil og það gekk í Evrópusambandið árið 1995, í kjölfar alvarlegrar efnahagskreppu sem skall á landinu eftir hrun Sovétríkjanna í kringum 1990.

Önnur ESB-ríki sem eru með hæsta lánshæfismat eru t.d. Þýskaland, Frakkland, Austurríki, Holland, Lúxemborg (öll með Evru) og Danmörk, en danska krónan er tengd Evru.

Ísland er með matið BBB-, sem er átta flokkum neðar.


Jóhanna hitti ráðmenn í Brussel

RÚVÁ RÚV stendur: "Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hitti leiðtoga Evrópusambandsins að máli í Brussel í dag. Um hádegisbil átti hún fund með Hermanni van Rompuy, forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, og ræddu þau meðal annars um stöðu efnahagsmála á alþjóðavettvangi, ekki síst vanda evrusvæðisins.

Þá var tæpt á aðildarviðræðum Íslands.

Undir kvöld var svo komið að fundi með Jose Manuel Barosso, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Aðildarviðræðurnar bar á góma og samkvæmt tilkynningu frá Evrópusambandinu hafði Barosso sérstaklega orð á því, að viðræðurnar hefðu verið einkar árangursríkar og að sambandið vildi halda þeim áfram.

Í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu sem barst nú undir kvöld kom fram að á fundinum með Barroso hefði gott samstarf sem verið hefur við framkvæmdastjórnina í þeirri rýnivinnu sem lokið er, svo og við skipulagningu viðræðnanna, verið til umræðu."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband