Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010

Taktu hár úr hala mínum......

Meira af Jóni Bjarnasyni: Félag atvinnurekenda íhugar að kæra Jón. RÚV birti frétt um málið:

"Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir landbúnaðarráðherra brjóta alþjóðasamninga. Hann reisi allt of háa tollmúra á innfluttar landbúnaðarafurðir með því að verðleggja tollkvóta á innfluttar landbúnaðarvörur hærra en tíðkast hefur. Kaupmenn íhuga að kæra ráðherrann.

Samkvæmt alþjóðalögum ber landbúnaðarráðherra að gefa út ákveðinn kvóta af erlendum landbúnaðarvörum sem bera lægri tolla en aðrar slíkar vörur. Þetta hefur ráðherrann hinsvegar hundsað síðustu misserin og býður kvótann út á hærra verði en áður hefur tíðkast. Þegar þetta bætist við hrun krónunnar er verð á mörgum innfluttum landbúnaðarvörum orðið mjög hátt. Yfir þessu kvarta kaupmenn og beita Félagi atvinnurekenda fyrir sig.

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri félagsins, bendir á að þetta hafi verið kært til umboðsmanns Alþingis. Í áliti hans komi fram að ráðherra sé að brjóta alþjóðasamninga Íslands með því að bjóða ekki innflutningskvóta með lægri tolli en almennt sé kveðið á um. Íslenskar landbúnaðarafurðir séu frábærar en neytendur vilji val. Verið sé að bregða fæti fyrir erlenda samkeppni og hann veltir því fyrir sér hvað ráðherra myndi gera ef við fengjum sömu viðbrögð við útflutningi okkar. Það skorti í umræðuna að við séum líka í útflutningi og viljum væntanlega að erlend ríki standi við alþjóðaskuldbindingar." (http://www.ruv.is/frett/segir-radherra-brjota-samninga)

Úr BúkolluÍ sögunni um Búkollu hverfur kusa og stráksi er sendur að leita. Vonda tröllskessan hafði tekið hana. Stráksi finnur Búkollu og leysir hana. En stór tröllskessa er á eftir þeim (vondu útlendingarnir). Bregður Búkolla því á það ráð að reisa háar hindranir, sem aðeins "fuglinn fljúgandi" kemst yfir (tollamúrar) til að tefja framgang tröllskessunnar. Kíkjum aðeins á söguna þegar líður að lokum hennar:

"Nú sér karlsson, að skessan muni strax ná sér, því hún var svo stórstíg.

Þá segir hann: "Hvað eigum við nú að gera, Búkolla mín?"

"Taktu hár úr hala mínum, og leggðu það á jörðina," segir hún.

Síðan segir hún við hárið: "Legg ég á, og mæli ég um, að þú verðir að svo stóru fjalli, sem enginn     kemst yfir nema fuglinn fljúgandi."

Varð þá hárið að svo háu fjalli, að karlsson sá ekki nema upp í heiðan himininn.

Þegar skessan kemur að fjallinu, segir hún: "Ekki skal þér þetta duga, strákur. Sæktu stóra borjárnið hans föður míns, stelpa!" segir hún við minni skessuna.

Stelpan fer og kemur með borjárnið. Borar þá skessan gat á fjallið, en varð of bráð á sér, þegar hún sá í gegn, og tróð sér inn í gatið, en það var of þröngt, svo hún stóð þar föst og varð loks að steini í gatinu, og þar er hún enn.

En karlsson komst heim með Búkollu sína, og urðu karl og kerling því ósköp fegin."

Þá er það spurningin eftir allt saman: Tekst Jóni Bjarnasyni að vernda íslenskan landbúnað gegn vondum "erlendum tröllskessum" ?

  


Tveir punktar frá Jónasi

Jónas KristjánssonJónas Kristjánsson, fyrrum ritstjóri tjáir sig stundum um Evrópumál, án þess að nefna mat, en hann er jú alþekktur "matarskríbent". Tvær færslur um ESB-málin eru á bloggi Jónasar núna:

" 24.08.2010
Leigði þremur sömu lóðina
Stjórnsýslan heldur ekki utan um bréf og gögn. Landbúnaðarráðuneytið leigði þremur sömu lóðina í landi Garðyrkjuskólans. Bréf frá þér lenda í svartholi. Þau týnast bara. Þau eru ekki áframsend, ef þau eiga að fara á annan stað. Í Evrópu er allt slíkt undir kontról. Ég sendi þýzku ráðueyti bréf, sem það sendi áfram á réttan stað og sendi mér tilkynningu um það. Þýzk reglufesta er ofvaxin íslenzkri stjórnsýslu. Flestir íslenzkir kontóristar eru pólitísk kvígildi. Slíkt er lítt þekkt í Norður- og Vestur-Evrópu. Þurfum aðild að Evrópu til að losna úr viðjum ónýtrar stjórnsýslu. Það óttast Jón Bjarnason.


24.08.2010
Áttum okkur á eigin öskustó
Viðræður Íslands við Evrópusambandið eru góðar, þótt þær leiði ekki til aðildar. Heilmikil vinna verður lögð í að finna mun á regluverki siðaðra þjóða og óhæfra ráðuneyta á Íslandi. Vonandi verður sitthvað bætt og aukið í okkar skitna regluverki. Okkur vantar evrópska festu í stjórnsýslu, aðild að aldagamalli hefð skrifræðisstefnu meginlandsríkjanna. Við þurfum einmitt það, sem íslenzkir þjóðrembingar vilja forðast: Aðild að evrópskri skynsemi menningarþjóða. Því miður erum við svo heimsk, að við munum fella aðildina. Fáum samt fínt tækifæri til að átta okkur á, að við sitjum í eigin öskustó."

Meira: www.jonas.is


Andrés, Ásmundur og Sema

Ásmundur Einar DaðasonNei-sinni nr.1 á Íslandi, Ásmundur Einar Daðason skrifar grein gegn í Fréttablaðinu í dag og beinir henni gegn formanni Evrópusamtakanna, Andrési Péturssyni.  Þar segir m.a.:

" En mig langar til þess að beina mikilvægri spurningu til formanns Evrópusamtakanna og óska eftir málefnalegum svörum. Á blaðamannafundi í Brussel um síðustu mánaðamót kvað Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, upp úr með það að Íslendingar fengju engar varanlegar undanþágur við inngöngu í ESB. Þetta sagði Stefan Füle eftir að Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hafði tjáð fréttamönnum að Íslendingar þyrftu að fá sérstöðu sína í sjávarútvegi virta með undanþágum. Stækkunarstjórinn tók þá orðið til að fyrirbyggja allan misskilning hvað þetta snerti og sagði að menn yrðu að hafa í huga að ESB veitti ekki varanlegar undanþágur frá lögum sambandsins. Þetta væri alveg skýrt. Svo mælti Stefán. Hvað finnst Andrési um þessar yfirlýsingar Stefáns?"

Hann getur hinsvegar eiginlega fengið öll sín svör í góðri grein eftir formann Ungra Evrópusinna, Semu E. Serdar í sama blaði. Þar gerir hún sérlausnir ESB-ríkja að umtalsefni og segir m.a.:

"Ótal mörg dæmi eru til um slíkt. Til dæmis fengu Pólverjar aðlögunarfrest á gildistöku réttar borgara og lögaðila frá öðrum ríkjum ESB til kaupa á fasteignum og jarðnæði í Póllandi til ársins 2016. Þá gerðu Búlgarar kröfu um tímabundna undanþágu frá reglum sambandsins um hámarkstjöruinnihald í sígarettum og frá álagningu fulls virðisaukaskatts á sígarettur og fengu. En hvað með varanlegu sérlausnirnar (fyrirvara) hans Ásmundar? Standa þær ekki?

Svarið er einfaldlega jú, varanlegar sérlausnir milli umsóknarríkja og ESB halda (í raun verða sérlausnirnar að reglum sem ný og fyrrum aðildarríki gangast undir) Í aðildarviðræðum sínum sömdu Lettar um varanleg sérákvæði um veiðar í Rigaflóa. Þannig óskuðu Lettar eftir sérreglum um veiðar á vissum hafsvæðum og í samræmi við þá ósk voru samdar sérreglur sem takmarka stærð og vélarafl skipa sem heimilt er að veiða og tryggja að samanlögð veiðigeta skipa sem fá að veiða verði ei meiri en sú sem þau höfðu sem veiddu þar fyrir inngöngu Lettlands í ESB."

Öll grein Semu er hér og bendum við Ásmundi hér með á hana. Og lestu nú, Ásmundur!


Það rýkur í kringum Jón!

Jón BjarnasonÓhætt er að sega að það blási hressilega í kringum landbúnaðar og sjávarútvegsráðherra Íslands Jón Bjarnason (mynd). Hann eri í sviðsljósinu og fékk forsíðuna í Mogganum í morgun.

Össur Skarphéðinsson brást hart við ummælum Jóns í því blaði í morgun að nú væri kominn tími til að stoppa aðildarumsókn Íslands að ESB. Mogginn og Jón eiga nefnilega þetta sameiginlegt!

Jón Bjarnason er helsti talsmaður hins óbreytta ástands, Jón Bjarnason vill engar breytingar á Íslandi. Morgundagurinn á að vera EINS og gærdagurinn!

Þrátt fyrir t.d. hörmulega fjárhagsstöðu margra bænda, sem eins og aðrir í þessu landi myndu fá stórbætta (rekstrar)aðstöðu með lægri vöxtum og verðbólgu, ódýrari aðföngum o.s.fr.v. Landbúnaður er jú í eðli sínu rekstur. Almenningur þarf einnig að reka sín heimili!

Ungir jafnaðarmenn hafaa brugðist ókvæða við og krefjast nú afsagnar Jóns Bjarnasonar. Þeir sendu frá þessa ályktun um málið í kvöld:

Ályktun Ungra Jafnaðarmanna

Ungir Jafnaðarmenn bregðast ókvæða við þeim hvatvísu ummælum Jóns Bjarnasonar Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra þess efnis að íslensk stjórnvöld segi ósatt frá því hvernig samningaferli við Evrópusambandið sé háttað og að ríkisstjórninni beri að draga umsókn um aðild að Evrópusambandinu til baka.
Ítrekuð dæmi eru til um að Jón Bjarnason sé ófær um að starfa jafnfætis ríkisstjórninni og beinlínis þvert á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna, þá má nefna andstöðu hans við uppstokkun innan stjórnarráðsins og tregleika við eflingu nýliðunar og samkeppni í landbúnaðargeiranum. Í ljósi þess krefjast Ungir jafnaðarmenn tafarlausrar afsagnar Jóns Bjarnasonar af stóli Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra.

 



Iver B. Neumann: ESB-umræðan hér lík þeirri norsku

IS-ESB-2RÚV birti þessa frétt í kvöld:

" Sérfræðingur frá Óslóarháskóla segir umræðuna um aðild að Evrópusambandinu hér á landi líkjast umræðunni í Noregi að mörgu leyti. Hún snúist um „okkur og hina“ þar sem litið er á útlönd sem ógn en ekki samstarfsaðila.

Iver B. Neumann, prófessor og yfirmaður hjá norsku alþjóðamálastofnuninni, er staddur á Íslandi til að fjalla um stöðu Evrópumála í Noregi. Það sem honum þykir hvað áhugaverðast er hversu lítil umræða sé um Evrópusambandsaðild þar í landi.

Neumann telur að útkoman yrði mjög jöfn hér á landi kæmi til þjóðaratkvæðagreiðslu. Norðmenn hafa tvisvar hafnað aðild að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu, síðast árið 1994.

Neumann býst ekki við að Norðmenn eigi eftir að sækjast eftir aðild í nánustu framtíð þar sem þeir standi svo vel fjárhagslega. Staðan sé ekki sú sama á Íslandi."

Myndband um sama mál

 


Lífið er makríll??

Makríll á sundiHin harðnandi makríldeila Íslands, Færeyja og ESB, verður að öllum líkindum ekki leyst nema við samningaborðið.

LÍÚ hefur hinsvegar tekið þann pólinn í hæðina að þessi deila sé dæmi þess að borin von sé að ná samningum við ESB. Það má því kannski segja að makríllinn, þessi fíni, matfiskur, sé að verða pólitísku sprengiefni hér á landi!

Bendum svo á fróðlega grein um þetta mál í Fréttablaðinu i dag eftir Atla Hermanssson.


Guðmundur Gunnarsson: Vaxandi krafa um samninga í Evrum

Guðmundur GunnarssonGuðmundur Gunnarsson, Eyjubloggari og formaður Rafiðnaðarsambandsins skrifar í sínum nýjasta pistli um komandi launasamninga. Í pistli hans segir orðrétt:

"Íslensku stéttarfélögin hafa undanförnum áratugum samið um tæplega 4.000% launahækkanir, en stjórnmálamenn hafa jafnharðan alltaf eyðilagt þessa baráttu. Á sama tíma hafa t.d. danskir launamenn samið um liðlega 300% launahækkun. Þeirra kaupmáttur stendur og skuldastaða heimila þeirra stendur eðlilega. En hver er staðan á Íslandi?

Það kaupmáttarhrun sem hér varð er ekki stéttarfélögnum að kenna, þar er við slaka stjórnmálamenn að sakast.

Ljóst er að um þetta verður tekist í komandi kjarasamningum. Vaxandi kröfur eru um að samið verði um í Evrum til þess að losna undan ofurvaldi slakra stjórnmálamanna á launakjörum landsmanna.

Feitletrunin er ES-bloggins, en hún verður að teljast athyglisverð. Kannski er þessi krafa að koma fram m.a. vegna þess að mörg stærstu útgerðarfyrirtæki landsins eru farin að gera upp í Evrum!

Undan hverju eru þau að sleppa??


Mogginn og aðlögunin!

MBLMorgunblaðið er duglegt að reyna að koma því inn hjá lesendum sínum að ESB-ferlið, sé fyrst og fremst aðlögunarferli, en ekki samningaviðræður. Það er stjórnarmaðurinn í samtökum Nei-sinna og starfandi blaðamaður á Morgunblaðinu, Hjörtur J. Guðmundsson, sem skrifar "frétt" í dag með vitalið við Atla Gíslason, þingmann VG, þar sem hann ræðir þetta og sagt er að það sé "ólga í grasrót VG vegna aðlögunar."

Á síðastliðinn föstudag var svo formaður Hjartar, Ásmundur Einar Daðason, í viðtali um sama efni!

En okkur er spurn: Hvað er óeðlilegt að rýnt sé í og borin sé saman löggjöf Íslands og Evrópusambandsins? Það er jú ekkert nýtt, þar sem við höfum tekið upp stóran hluta þessarar löggjafar í gegnum EES?

Samningaviðræðurnar koma svo seinna, þegar þeirri vinnu er lokið Halló!

Hvernig væri nú að Morgunblaðið myndi aðeins AÐLAGA SIG og viðurkenna þá staðreynd að með þessu er blaðið að slá ryki í augu lesenda, þar sem hagsmunir hinna fáu ráða í umfjöllun blaðsins.

Morgunblaðið er t.d. ekkert að skrifa um það hvað íslenskur almenningur gæti "hagnast" á t.d. lægri vöxtum og verðbólgu hér á landi! 


Össur vill að ESB styðji við krónuna

Stöð tvö birti þessa frétt í kvöld eftir Heimi Má Pétursson:

Össur Skarphéðinsson"Utanríkisráðherra leggur áherslu á það í viðræðum Íslands við Evrópusambandið að krónan verði bökkuð upp af Seðlabanka Evrópu strax við aðild, áður en evran verði síðan tekin upp sem gjaldmiðill á Íslandi. Hann telur viðræðurnar taka lengri tíma en bjartsýnustu menn geri sér vonir um.

Utanríkisráðherra sagði í fréttum okkar í gær að hann reiknaði með að beinar samningaviðræður við Evrópusambandið um landbúnaðarmál gætu hafist fyrir páska og um sjávarútvegsmálin næsta haust. En þetta eru þeir tveir málaflokkar sem allir eru sammála um að verði erfiðast að ná niðurstöðu um. Bjartsýnustu menn hafa talað um að viðræðum gæti lokið á stuttum tíma, eða um 18 mánuðum, vegna þess að Ísland hafi nú þegar innleitt um 70 prósent af löggjöf Evrópusambandsins.

„Ég er nú bjartsýnismaður eins og þið vitið en ég held að þetta taki ekki svo stuttan tíma," segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. Íslenska samninganefndin muni láta reyna til þrautar á ýmis erfið mál varðandi sjávarútveginn. „Og ég held að það geri það að verkum að samningarnir verði lengri og erfiðari en margir gera ráð fyrir."

Aðspurður segist hann þó frekar hafa reiknað með að samningum ljúki á kjörtímabili núverandi ríkisstjórnar.

Og Össur leggur áherslu á að ef aðild verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu, gangi Íslendingar einnig í myntbandalagið og taki upp evruna. Enda muni það spara þjóðinni á annað hundrað milljarða á ári. Hann segist hafa rætt það á ríkjaráðstefnu Íslands og Evrópusambandsins í júlí, að Evrópusambandið kæmi að því áður en mögulegt væri að taka evruna upp að styðja við krónuna.

„Þá reyndu menn að komast að niðurstöðu um með hvaða hætti Evrópusambandið og Seðlabanki Evrópu geti komið að því að dýpka íslenskan gjaldeyrismarkað. Það yrði strax partur að því að styrkja stöðuna hér heima og undirbúa upptöku evrunnar," segir utanríkisráðherra.

Hann er sannfærður um að stuðningur við evrópusambandsaðild aukist þegar ávinningur aðildarinnar liggi fyrir.

„Þegar fólk sér það mun þetta snúast í huga fólks, þegar menn fara raunverulega að sjá hvað þetta þýðir fyrir þeirra hagsmuni, líf og lífsgæði," segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra."

 


Góð krækja!

IS-ESB-2Hér er athyglisverð krækja á vef Sterkara Íslands!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband