Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

Ólafur Þ. Stephensen um Evrusvæðið - samkomulag í Brussel

Ólafur Þ. Stephensen skrifaði góðan leiðara í Fréttablaðið þann 25.október og fjallar þar um Evrusvæðið og segir meðal annars:

"Við þekkjum orðið vel talið um að allt sé að fara til andskotans á evrusvæðinu, evran muni líða undir lok og allt það. Sumir tala eins og þeir hlakki beinlínis til.
Það getur verið gagnlegt að bregða upp samanburði við önnur öflug gjaldmiðilssvæði. Það gerði Tristan Garel-Jones, fyrrverandi Evrópumálaráðherra í ríkisstjórn Íhaldsflokksins í Bretlandi, í grein í Financial Times í fyrradag.

Hann bendir þar á að á evrusvæðinu í heild sé fjárlagahallinn (meginundirrót vandans sem glímt er við) áætlaður 4,1 prósent af landsframleiðslu á þessu ári og viðskiptajöfnuðurinn (sem segir til um jafnvægið í inn- og útstreymi gjaldeyris) jákvæður um 0,1 prósent. Í Bretlandi sé fjárlagahallinn 8,5 prósent og viðskiptahallinn 2,7 prósent. Skuldir ríkissjóðs séu hærra hlutfall af landsframleiðslu en í sumum verst settu evruríkjunum, til dæmis á Spáni. Í Bandaríkjunum er fjárlagahallinn 9,6 prósent og viðskiptajöfnuðurinn neikvæður um 3,1 prósent.

Samt gera fáir því skóna að dollarinn eða sterlingspundið leggist af fljótlega. Fjölmiðlar heimsins og fjármálamarkaðir eru miklu uppteknari af evrusvæðinu en hlutskipti Bandaríkjanna eða Bretlands (að ekki sé talað um litla krónusvæðið okkar, þar sem fjárlagahallinn var hátt í níu prósent af landsframleiðslu í fyrra og viðskiptahallinn rúm tíu prósent).

Á heildina litið er evrusvæðið í betri málum efnahagslega en ýmis önnur stór hagkerfi. Kreppan liggur í hallarekstri og skuldavanda einstakra ríkja (og ríflegum útlánum banka til þessara sömu ríkja) og þeirri staðreynd að smíði Efnahags- og myntbandalagsins var aldrei kláruð."

SAMKOMULAG NÁÐIST Í BRUSSEL

Í dag (27.10) bárust svo fréttir af öflugu samkomulagi um aðgerðir í efnbahagsmálum Evrópu, sem meðal annars fela í sér mikla aukning á EFSF (Stöðugleikasjóði Evrópusambandsins. RÚV segir meðal annars frá þessu.

Engum blöðum er um það að fletta að fjárhagsleg geta Evrópuríka og ESB er mikil.


And-ESB tillaga kolfelld í breska þinginu

LondonTillaga um þjóðaratkvæði um samband Bretlands og ESB var kolfelld á breska þinginu í kvöld með 483 atkvæðum gegn 111.

William Hague, utanríkisráðherra Breta,  sagði í samtali við The Guardian að um væri að ræða "ranga spurningu á röngum tíma."

Talsmaður David Cameron sagði í kvöld að það væri best fyrir hagsmuni Bretlands að vera í Evrópusambandinu.


Hið (frjálsa) hrun krónunnar - Evran óhrunin!

Sagt er að nóðbelsverðlaunahafinn Dr. Paul Krugman, sé á leiðinni til landsins í á næstum dögum. Hann er velkominn!

Væntanlega mun hann tala um hagfræði og efnahagsmál. Hann skrifar í pistli að Ísland hafi komið vel út úr kreppunni og ber okkur meðal annars saman við Eistland.

Annarr er orðaval hans í sambandi við gjaldmiðilsmálin hér á landi og það sem gerðist á haustdögum árið 2008, athyglisvert: "Iceland allowed a big depreciation of the krona..."

Leyfði stóra gengisfellingu krónunnar? Hver leyfði hana?

Gjaldmiðilinni, Krónan, hrundi, í frjálsu falli - var einhver sem leyfði það? Réðu menn eitthvað við það?

Í kjölfar þess tóku skuldir landsmanna tröllastökk - það er ekki raunin með almenning í þeim ríkjum sem hafa t.d. Evru sem lögeyri! Og Evran er ekki hrunin - bara svona til að minna á það!

Erlend fjárfesting hefur aukist um 18% frá því Eistland tók upp Evruna - minnum líka á það!


Stefan Füle sannfærður um að hægt verði að taka fullt tillit til sérstöðu Íslands í landbúnaðarmálum

Stefan FuleÍ Fréttablaðinu þann 20.október birtist frétt um landbúnaðarmál á forsíðu og í henni sagði meðal annars: "

"Štefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, og Dacian Ciolos, sem fer með landbúnaðarmál í framkvæmdastjórn sambandsins, hafa boðið Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, til fundar í Brussel innan skamms. Jón Bjarnason sagði á Alþingi 12. september síðastliðinn að hann væri reiðubúinn að "fara til Brussel og hitta þar hina háu herra og fá beint til mín hvers er verið að krefjast hér í áætlanagerð".

Vísaði Jón þar til kröfu Evrópusambandsins um að fyrir liggi áætlun um hvernig Ísland hyggst hrinda í framkvæmd breytingum á stjórnsýslu og löggjöf um landbúnaðinn til að uppfylla skilyrði ESB, fari svo að aðildarsamningur verði samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ríkisstjórnin hefur gefið út að engar slíkar breytingar verði gerðar fyrr en kosið hafi verið um hugsanlegan aðildarsamning."

Í fréttinni kom fram að ESB sýnir fullan vilja til þess að taka tilliti til sérstöðu Íslands í landbúnaðarmálum, enda staðreynd að ef til aðildar kæmi, yrði Ísland strjálbýlasta land ESB. Það er óneitanlega sérstaða!

Stefan Füle (mynd) yfirmaður stækkunarmála ESB sagði við Fréttablaðið um Jón Bjarnason: "Við viljum aðstoða hann og samstarfsfólk hans við að útbúa áætlun um hvernig megi laga stjórnsýslu í landbúnaðinum að lögum og reglum Evrópusambandsins. Ég er sannfærður um að þar er hægt að taka fullt tillit til sérstöðu Íslands," segir hann.
 


Ræða Þorsteins Pálssonar á Sjávarútvegssýningunni

Þorsteinn PálssonÞorsteinn Pálsson hélt ræðu á sjávarútvegssýningunni, sem haldin var um miðjan október. Þar ræddi Þorsteinn Evrópumálin og sagði þar meðal annars:

"Á viðreisnarárunum varð Ísland virkur aðili að Bretton-Woods gjaldmiðlasamstarfinu þar sem breytingar á gengi lutu mjög hörðum reglum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og einhliða ákvörðunarvald Íslands var takmarkað að sama skapi. Einmitt við þær stöðugleikaaðstæður tókst að semja um fyrstu erlendu fjárfestinguna í áliðnaði hér á landi. Þannig hófst nýtt sóknartímabil.

Hækkun á verðgildi krónunnar á fyrsta áratug þessarar aldar stafaði ekki af óvild stjórnenda Seðlabankans í garð útflutningsgreina eins og halda mætti ef rökréttar ályktanir væru dregnar af málflutningi þeirra sem ákafast tala gegn erlendu myntsamstarfi.

Markaðsöflin voru einfaldlega sterkari en fullveldisyfirráð Seðlabankans. Eins réði vantraust á markaði meir um hrun krónunnar en ásetningur Seðlabankans að hjálpa útflutningsatvinnuvegunum með því að setja fjárhag heimila og fyrirtækja í rúst.

Gengishrunið fjölgaði verðminni krónum í bókhaldi þeirra útflutningsfyrirtækja sem nota ríkismyntina í reikningsuppgjöri. Það hefur hins vegar ekki aukið útflutning. Til þess að svo megi verða þarf grundvallarbreytingar á samkeppnisumhverfinu. Það markmið kallar á nýja viðreisnaráætlun og virkara alþjóðlegt samstarf.

Nákvæmlega þetta sá Jóhannes Nordal í byrjun viðreisnar fyrir fimmtíu árum þegar hann skrifaði „að þátttaka í Efnahagsbandalaginu mundi gefa Íslendingum ný og ómetanleg tækifæri til að byggja upp nýjar framleiðslugreinar.“ Fyrir tuttugu árum sagði hann „að nokkur ár hlytu að líða áður en Íslendingar gætu oriðið aðilar að formlegu gengissamstarfi Evrópuþjóða.“ Þessi orð segja þá sögu að í meira en hálfa öld hefur þekking og reynsla vísað veginn í þessa átt.

Veigamikil skref hafa verið stigin til að tryggja þessa hagsmuni. En því fer hins vegar fjarri að okkur hafi tekist að treysta samkeppnishæfni landsins eins og þörf er á. Það gerist ekki sjálfkrafa með aðild að Evrópusambandinu. Á hinn bóginn getur hún auðveldað okkur að ná því marki og verja þá stöðu til lengri tíma. Aðildin er þannig umgjörð um ríka pólitíska og efnahagslega hagmsuni.

Þá er spurt: En setja þeir gríðarlegu erfiðleikar sem evruríkin glíma nú við ekki strik í reikninginn? Svarið er: Jú. Við þurfum að haga viðræðunum í samræmi við þá stöðu. Þau ár sem við höfum til stefnu gefa okkur ráðrúm til þess.

Stundarerfiðleikar breyta hins vegar ekki þeim langtímahagsmunum sem eru í húfi. Jafnvel þó að allt færi á versta veg í Evrópu er blekking að halda að við stöndum þá betur að vígi ein og sér heldur en í sambandi við þær þjóðir sem starkastar eru í álfunni."

Öll ræðan Þorsteins


Björn Bjarna í kynnisferð í Brussel

DV birti í gær Sandkorn þess efnis að Björn Bjarnason, fyrrum dómsmálaráðherra og einn helsti andstæðingur ESB, væri staddur í Brussel til að kynna sér málin. 

Í frétt DV segir: " Björn er jafnframt í framlínu Heimssýnar þar sem hann berst gegn Evrópu. Undanfarna daga hefur hann verið í Brussel til að skoða og skilgreina."

Því má svo bæta við að vefsíða sem Björn heldur úti ásamt Styrmi Gunnarssyni, fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins, fékk fyrir skömmu styrk frá Alþingi, sem leiðréttist hér með, í upprunalegri færslu var sagt að styrkurinn væri frá ESB. Beðist er velvirðingar á þessu.


Stækkunarstjóri ESB staddur hérlendis

Stefan FuleÁ Visir.is stendur: "Štefan Füle, framkvæmdastjóri stækkunar- og nágrannastefnu ESB, mun á miðvikudag og fimmtudag heimsækja Ísland í fyrsta sinn síðan landið sótti um aðild að Evrópusambandinu. Í heimsókninni mun hann ræða við bæði ráðamenn og hagsmunaaðila um innihald nýútkominnar framvinduskýrslu um Ísland og næstu skref í aðildarferlinu.

„Viðræðurnar við Ísland hafa farið vel af stað og ganga vel, enda samstarfið mjög gott," sagði Štefan Füle rétt fyrir brottför frá Brussel. „Margt í stefnumálum og löggjöf sameinar Ísland og ESB og hagkerfi okkar eru vel samtvinnuð," sagði stækkunarstjórinn um getu Íslands til að standa við skuldbindingar sem fylgja ESB aðild." Öll frétt Vísis

Mbl.is segir einnig frá þessu sem og RÚV.


Leikhús fáránleikans?

FramsóknSigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins ræddi hið svokallað "Plan B" í síðdegisútvarpi Rásar tvö í dag. Í þessu plani (er það góð íslenska hjá þjóðernisflokknum?) er að finna tillögur í efnahagsmálum.

Stjórnandi þáttarins kom inn á gjaldmiðilsmálin og þá sagði Sigmundur að athuga mætti ýmsa kosti í gjaldmiðilsmálu  (fyrir utan það að vera með krónuna) og nefndi í því samhengi að taka mætti upp aðra gjaldmiðla, bæði einhliða og tvíhliða. Þeir gjaldmiðlar sem hann sagði menn tala um væru til dæmis Kanadadollar og Norska krónan!

Það er hreint með ólíkindum hvað t.d. hugmyndin um norska krónu er lífsseig hér á landi. Sérstaklega í ljósi þess að Norðmenn eru bara ekkert á því að Ísland taki upp norska krónu! Í frétt á www.visir.is árið 2008(!!) segir:

"Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, telur ekki mögulegt fyrir Íslendinga að taka upp norsku krónuna í stað þeirrar íslensku. RÚV greindi frá.

Forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa talað fyrir því að hafnar verði viðræður við Norðmenn um hugsanlegt myntsamstarf."

Sjá menn ekki að þessi hugmynd er fullkomlega óraunhæf?

Og fyrst Kanadadollarinn er svona frábær, af hverju gera þá þau íslensku stórfyrirtæki sem nú gera upp í Evrum, ekki upp í Kanadadollar? Er það kannski vegna þess að viðskiptin eru mest í Evrum og viðskiptasvæðið er mest Evrópa/Evrusvæðið? Til fróðleiks má nefna að árið 2009 flutti Ísland út vörur til Kanada fyrir 6,7 milljarða króna (2,4% af heild). Alls nam útflutningur á vörum og þjónustu þetta árið rúmlega 287 milljörðum. Á vef hagstofunnar segir: "Mest var selt til og keypt frá ESB af þjónustu, 60,4% af útfluttri þjónustu var selt til ESB og 57,9% af innfluttri þjónustu var keypt frá ESB."

Rifjum svo upp þetta hér til "gamans" !


Jón Baldvin um "íslensku leiðina" í FRBL

Jón BaldvinJón Baldvin Hannibalsson skrifaði grein í Fréttablaðið fyrir skömmu um það sem hann kallar "Íslensku leiðina." Þar fjallar hann um það hvernig Ísland tekst á afleiðingar hrunsins árið 2008. Hann ræðir meðala annars hrun krónunnar:

"Og það var einmitt GENGISHRUNIÐ – svo fjarri því að vera lausn vandans – sem gerir skuldabyrðina óviðráðanlega. Gengisfelling er pólitísk ofbeldisaðgerð, sem þjónar þeim tilgangi að skera niður lífskjör almennings með verðhækkunum á lífsnauðsynjum. Í tilviki þeirra sem skulda framkallar gengisfelling stökkbreytingu á höfuðstól skuldar og greiðslubyrði. Þess vegna er fjórðungur heimila undir hamrinum. Þess vegna er meirihluti fyrirtækja „tæknilega gjaldþrota“ enn í dag. Þess vegna tórir hagvöxturinn á veiku skari. Þetta er sjálfur efnahagsvandi Íslendinga í hnotskurn. Að kalla þetta hina „séríslensku lausn“ flokkast annað hvort undir efnahagslegt ólæsi – eða bara illgirni af verstu sort."

Í lok greinarinnar fjallar Jón um Eistland og aðgerðir þeirra í því efnhagslega brambolti sem margar þjóðir eiga í núna og segir:

"Fyrir skömmu spurði þýskur blaðamaður Toomas Ilves, forseta Eistlands, hvers vegna Eistar sættu sig möglunarlaust við efnahagslegan megrunarkúr (launalækkun og niðurskurð félagslegra útgjalda), sem sendi Grikki trítilóða út í götuvirkin. „Í samanburði við nauðungarflutninga Stalíns kippum við okkur ekki upp við hversdaglega erfiðleika. Það er kannski erfiðara ef þú hefur vanist hinu ljúfa lífi of lengi,“ sagði hann og bætti við: „Við þraukuðum til þess að uppfylla skilyrði fyrir upptöku evrunnar. Með gengisfellingu hefðum við leitt allsherjar greiðsluþrot yfir millistéttina, sem er með húsnæðislánin sín í evrum. Við hefðum lagt vaxtarbrodd þjóðfélagsins í rúst“.
Er þetta kannski það, sem menn meina með þessu tali um „íslensku leiðina“: Að leiða allsherjar gjaldþrot yfir millistéttina og að leggja vaxtarbrodd þjóðfélagsins í rúst? Kreppan í Eistlandi var hörð (meiri samdráttur VLF og hærra atvinnuleysi en á Íslandi), svo lengi sem hún varði. En hún var skammvinn. Innviðir þjóðfélagsins stóðust álagið, þ.m.t. gjaldmiðillinn. Hagvöxtur var 8,4% á fyrri helmingi þessa árs. „Erlend fjárfesting lætur ekki á sér standa, því að fjárfestar vita, að eignir þeirra verða ekki gengisfelldar,“ segir Ilves.
En íslenska leiðin? Skuldavandinn er óleystur. Gjaldmiðilsvandinn er óleystur. Gjaldeyrishöftin eru framlengd og erlendar fjárfestingar þar með í biðstöðu. Hagvöxturinn tórir á veiku skari.
Eistar leystu sinn vanda. Við frestum okkar. Er það íslenska leiðin?"

Greinin í heild sinni


Opna - loka - sjávarútvegsmál!

RUVÁ RÚV stendur: "Tveir samningakaflar verða opnaðir í aðildarviðræðum Íslands og ESB í vikunni. Aðalsamningamaður Íslands segir ekkert um að semja og því verði þeim jafnvel lokað strax.

Kaflarnir sem nú verða opnaðir fjalla annars vegar um frjálsa för fólks á innri markaði ESB og um hugverkaréttindi. Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands í viðræðum við Evrópusambandið, reiknar ekki með erfiðum viðræðum um þessi mál. Þetta séu hvort tveggja kaflar sem falli alfarið undir EES samninginn þannig að Íslendingar séu búnir að taka yfir alla löggjöf ESB á þessum tveimur sviðum. Það séu því engin útistandandi mál í þeim köflum og ekkert um að semja þar."

Búist er við að þessum köflum verði svo lokað sama dag.  Öll frétt RÚV

Stöð 2Stöð tvö var einnig með frétt um ESB-málið, sem sneri að opnun kaflans um sjávarútvegsmál, sem samkvæmt heimildum Stöðvar tvö verður opnaður um mitt næsta ár.

MBLMorgunblaðið er einnig með frétt um þetta mál, en þar segir: "

Evrópska fréttastofan Agence Europe hefur eftir íslensku samninganefndinni við Evrópusambandið, að utanríkisráðuneytið vonist til að um mitt næsta ár verði búið að opna alla samningskaflana í aðildarviðræðum Íslands að sambandinu. Sér í lagi kaflana um flóknustu úrlausnarefnin, þ.e. um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál.

Samninganefndin segir að ráðuneytið lýsi yfir ánægju með það sem fram kemur í nýrri stöðuskýrslu ESB um umsókn Íslands. Utanríkisráðuneytið fagni skýrslunni sem undirstriki þá staðreynd að Ísland sé að mæta þeim efnahagslegu og pólitísku skilyrðum sem ESB hafi sett svo Ísland geti orðið hluti af ESB.

Það skrið sem sé komið á viðræðuferlið hjá íslensku samninganefndinni muni halda áfram."

Samkvæmt þessu verður kominn fullur þungi í ESB-málið eftir um átta mánuði. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband