Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2011

Friðrik Jónsson bætir við pistli um ESB-málið

Friðrik JónssonÞað virðist rigna inn pistlum um ESB-málið á netið, einn nýr er eftir Friðrik Jónsson, sem skrifar reglulega á Eyjuna. Hann segir:

"Samfylkingin er jafnan gagnrýnd af fulltrúum annarra flokka á þingi fyrir það að hafa enga aðra framtíðarsýn en aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Þessi gagnrýni beinist augljóslega jafnframt að okkur sem ekki eru félagar í Samfylkingunni, en eru hlynntir aðild Íslands að ESB.

Sú gagnrýni er við nánari skoðun ósköp léttvæg, þó ekki væri nema af tveimur megin ástæðum.

Annars vegar vegna þess að framtíðarsýnin Ísland í ESB er ansi mögnuð og fæli í sér verulegar breytingar á ýmsum sérviskuháttum íslenskum. Alvöru fríverslun við okkar helstu nágrannaþjóðir á svo að segja öllum sviðum yrði stærsta merkjanlega breytingin frá fyrsta degi, áhrif á stjórnsýslu yrðu önnur breyting, margt til batnaðar, sumt íþyngjandi, og víðtæk efnahagsleg áhrif yrðum við vör við í vaxandi mæli, sérstaklega í aðdraganda upptöku Evru sem gjaldmiðils, og ekki síst þegar því takmarki yrði náð, svo fátt eitt sé talið.


Hins vegar vegna þess að þeir sem gagnrýna með þessum hætti hafa ekki boðið upp á neina sambærilega framtíðarsýn eða valkost sem hægt væri að stilla upp andspænis aðild að ESB. Vefur Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum, er skýrt dæmi um þetta. Þar á forsíðu er tengill í skjal sem yfirskriftina “12 ástæður til að hafna Evrópusambandsaðild”. Allar ganga þær meira og minna út á að hafna aðild út frá mestmegnis bábyljurökum um hversu afleitt samband þetta er, en hvergi er reynt að setja fram annan heildarvalkost. (Leturbreyting, ES-blogg)


Landbúnaðarmálin í leiðara FRBL

FRBLGóður leiðari Fréttablaðsins í dag fjallar einnig um ESB-málið, þ.e. landbúnaðarmál og er eftir Ólafur Stephensen. Hann skrifar:

"Andstæðingar þess að Íslendingar fái að kjósa um aðildarsamning við Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu gera nú mikið úr því að ESB hafi sett skilyrði fyrir því að hægt sé að fara að ræða landbúnaðarmál í aðildarviðræðunum.

Hvaða skilyrði eru það? Jú, að Ísland leggi fram tímasetta áætlun um hvernig það hyggst uppfylla kröfur Evrópusambandsins um m.a. stjórnsýslu landbúnaðarmála og breytingar á löggjöf, fari svo að þjóðin segi já við aðildarsamningi.

Af hverju eru þessi skilyrði sett? Vegna þess að Ísland lýsti yfir að það hygðist ekki byrja að laga stjórnsýslu, löggjöf og stofnanir sínar að regluverki ESB fyrr en eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, færi svo að þjóðin segði já. Í rýniskýrslu sinni um landbúnað gerir Evrópusambandið engar athugasemdir við þessa aðferðafræði íslenzkra stjórnvalda, þótt hún sé frábrugðin því sem gerzt hefur í öllum öðrum ríkjum sem sótt hafa um aðild.

Af hverju kemst Ísland upp með þetta? Eina ástæðan fyrir því er að íslenzk löggjöf, stofnanir og stjórnsýsla eru nú þegar mjög vel aðlagaðar regluverki ESB vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Það sem á eftir að gera, komi til ESB-aðildar, er algjörir smámunir miðað við aðlögun undanfarinna sextán ára. Ísland er reyndar einna stytzt komið í aðlögun á sviði landbúnaðar, en það hjálpar þó heilmikið til að Alþingi skyldi í desember 2009 samþykkja frumvarp Jóns Bjarnasonar landbúnaðarráðherra um að taka upp stóran hluta af matvælalöggjöf Evrópusambandsins, sem gerbreytir öllu regluverki á sviði matvælaöryggis."

Allur leiðarinn


Björgvin G. með pistil um ESB-málið

Björgvin G. SigurðssonBjörgvin G. Sigurðsson, fyrrum ráðherra , skrifar einnig pistil um ESB-málið á Pressuna. Hann segir:

"Nú er samningaferlið á milli Íslands og ESB að komast á hástig. Í júní voru opnaðir fjórir kaflar af tæplega fjörutíu. Tveimur var lokið strax og hinir eru í ferli.

Hinsvegar er mikilvægt að ná sem allra fyrst að opna erfiðu kaflana; þ.e. um landbúnað, sjávarútveg og gjaldmiðilsmálin. Eftir því hefur verið kallað og nauðsynlegt er að svo verði til að hægt sé að halda þjóðaratkvæðagreiðslu snemma árs 2013 um hvort við göngum í ESB. Fyrir þingkosningar í maí það ár.

Því er verra þegar landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra skuli hægja á ferlinu með því að setja sitt fólk ekki til verka við undirbúning viðræðna við sambandið. Auðvitað er óhugsandi að einn ráðherra reyni að taka sér það alræðisvald að fara gegn ályktun Alþingis og ákvörðun um aðildarumsókn. Það voru jú meginrök Jóns Bjarnasonar í hvalveiðimálinu á dögunum.

Ráðherrann var þar í seldri sök, að eigin sögn, vegna ályktunar Alþingis frá 1999 um hvalveiðar. Hann gat því ekki annað en stutt veiðar áfram þrátt fyrir andstöðu margra úr stjórnarflokkunum gegn Hvalveiðum.

Sama á auðvitað við vegna umsóknarinnar um aðild að ESB. Vel þekkjum við heita umræðu liðinna ára um yfirgang framkvæmdavaldsins gagnvart löggjafanum. Ekki skal því haldið fram hér að slíkt sé í uppsiglingu enda óhugasandi með öllu að ráðherra gangi gegn ákvörðun Alþingis í nokkru máli.

En að erfiðu köflunum. Rýniskýrsla ESB um landbúnaðarmálin á Íslandi er einkar áhugavert skjal. Gefur skýrslan væntingar um jákvæða samningsniðurstöðu okkar í þessu erfiða máli. Markmið Alþingis er að verja stöðu landbúnaðarins og gera greininni kleift að sækja fram í kjölfar aðildar. Rýniskýrslan gefur fyrirheit um að það geti vel gengið eftir. Samið verði um sérlausnir fyrir íslenskan landbúnað."

Allur pistil Björgvins


Bryndís Ísfold um andstæðingana sem eru á móti

 Bryndís Ísfold HlöðversdóttirBryndís Ísfold Hlöðversdóttir, framkvæmdastjóri hjá Já-Ísland skrifar enn einn fínan pistil á Eyjubloggið. Nú um hina sérkennilegu kröfu andstæðinga ESB að draga beri umsóknina til baka. Bryndís segir:

"Í mörg ár sýndu skoðanakannanir að meirihluti þjóðarinnar vildi hefja viðræður við Evrópusambandið, þá hristu andstæðingar aðildar hausinn ákaft og sögðu að það væri ekki rétti tíminn því það væri svo mikill uppgangur á Íslandi – við fengjum bara lélegan samning ef við værum of rík.

Eftir hrun var mikill þrýstingur á að sótt yrði um aðild, þá fannst andstæðingum heldur ekki rétti tíminn, því samningurinn yrði svo lélegur ef við værum svona illa stödd fjárhagslega.

Þegar svo sótt var um með stuðning meirihluta þjóðarinnar í skoðanakönnunum þá vildu andstæðingar alls ekki að þingið hæfi aðildaviðræður án þess að halda sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Íslendingar ættu að sækja um aðild.  (sem engin þjóð hefur gert enda með öllu óljóst hvað felst í samningi fyrr en samið hefur verið um hann).

Síðasta ár hafa sömu menn í sífellu viljað draga umsóknina til baka – þeir sem standi að aðildarumsókninni eru ýmist föðurlandssvikarar eða ætla sér að kasta sjálfstæði landsins út í hafsauga. Þrátt fyrir það vilja þeir halda trygglega í EES samninginn og finnst bara í himnalagi að láta þá þarna í Brussel um að setja lög fyrir okkur.

Frá því sótt var um aðild hafa kannanir sveiflast, fyrir um ári voru 74% fylgjandi aðildarviðræðum, nú segja andstæðingar að það séu 51% á móti og nú heitir það að það eigi að ,,leggja umsóknina til hliðar” vegna þess hve margir séu á móti viðræðunum.

Ef rök andstæðinga eru notuð er ekki gott að sækja um aðild að ESB ef við erum of efnuð eða ekki nógu efnuð."

Allur pistill Bryndísar


Er öryggi smáríkja í Evrópu tálsýn? Clive Archer í nýrri fundarröð

Dr. Clive Archer, Emeritus og Jean Monnet prófessor við Manchester Metropolitan háskólann í Bretlandi, heldur erindi um öryggi smáríkja í Evrópu á vegum Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands og Rannsóknaseturs um smáríki, föstudaginn 9. september frá 12-13 í Odda 201 í Háskóla Íslands.

Á fyrirlestrinum mun Dr. Archer fara yfir stöðu smáríkja í Evrópu og hvað þau hafa gert í sínum öryggis-og varnarmálum eftir lok kalda stríðsins.  

Dr. Archer er einn helsti sérfræðingur Evrópu á sviði öryggismála smáríkja með sérstaka áherslu á Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin. Hann hefur skrifað og ritstýrt fjölda bóka um Evrópusamrunann, alþjóðlegar stofnanir og síðast en ekki síst öryggismál Norður Evrópu og Eystrasaltsríkjanna.  

Fundurinn fer fram á ensku og fundarstjóri er Alyson Bailes, aðjúnkt við stjórnmálafræðideild HÍ.

Þessi fundur er fyrsti fundurinn í fundaröð Alþjóðamálastofnunar Evrópa: Samræður við fræðimenn veturinn 2011-2012. Stofnunin hlaut Jean Monnet styrk til að stuðla að upplýstri umræðu um Evrópumál á Íslandi og mun því bjóða upp á fjölmarga fyrirlestra erlendra fræðimanna á föstudögum í vetur.

Meira um Dr.Archer


Sema Erla til starfa fyrir Já-Ísland

Sema Erla SerdarJá-Ísland hefur fengið öflugan liðsauka. Sema Erla Serdar hóf störf sem verkefnastjóri þann 1. september sl.

Sema  Erla er stjórnmálafræðingur með framhaldsmenntun frá Edinborg í Evrópufræðum og var til skamms tíma formaður Ungra Evrópusinna.


Evrópusamtökin óska Semu velfarnaðar í starfi. Framkvæmdastjóri Já-Íslands er Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir.

Ekki er að efa að Já Ísland er í góðum höndum hjá þessum kjarnakonum.


ESB-viðræður í góðum gír!

ISland-ESB-2Þrátt fyrir að sitt lítið af hverju gangi í sambandi við landbúnaðarmálin, ganga viðræðurnar við ESB vel. Þetta kemur fram á RÚV.is: "Samkvæmt rýniskýrslu ESB um landbúnaðar- og byggðaþróunarmál þarf að gera umfangsmiklar breytingar á stjórnsýslu landbúnaðarmála hérlendis ef af ESB-aðild verður. Utanríkisráðherra segir viðræður um aðild að Evrópusambandinu ganga mjög vel þrátt fyrir að ESB telji ekki hægt að hefja viðræður um landbúnað að svo stöddu. 15 nýir samningskaflar verði opnaðir fyrir áramót.

Evrópusambandið birti í gær rýniskýrslu sína um landbúnaðarmál og byggðaþróun hér á landi. Skýrslan er niðurstaða gaumgæfilegrar skoðunar á þeim lögum og reglum sem gilda um þessa málaflokka hér á landi. Þar eru tiltekin fjölmörg atriði sem eru ekki í samræmi við þær reglur sem gilda innan Evrópusambandsins og þarf að taka sérstaklega fyrir í viðræðum um aðild Íslands. Þar ber helst að nefna að innleiða þarf beingreiðslukerfi ESB með tilheyrandi lagabreytingum og breytingum á stjórnsýslunni. Sérstaklega þarf að huga að því að setja upp stofnun sem sér um greiðslur til bænda og samræmist kröfum ESB. Sú stofnun bæri ábyrgð á því að styrkir ESB til landbúnaðar og byggðaþróunar hér á landi færu á réttan stað.

Verði af aðild þarf að innleiða reglur um stuðning við framleiðslu flestra landbúnaðarafurða. Núgildandi reglur um landbúnaðarstyrki hér á landi samræmast í flestum tilfellum ekki reglum ESB og um það þarf að fjalla."

Öll frétt RÚV


Friðrik Jónsson með nýjan Eyjupistil

Eyjubloggarinn Friðrik Jónsson er með skemmtilegan pistil nú i byrjun hausts/loka sumars. Hann segir:

" Eftir að hafa þurft að hlusta á þus, röfl og raup andaðildarsinna árum, og já áratugum saman, um hið gagnstæða, kemur enn einu sinni fram að Evrópusambandið tekur tillit til sérstöðu aðildarríkja þar sem það á við. Þrátt fyrir að vera mestmegnis samband um almennar, sameiginlegar leikreglur um samskipti og viðskipti ríkja er ESB nógu öflugt, þroskað og já, tillitssamt og praktískt til þess að þola það og skilja að það er samband fullvalda og sjálfstæðra ríkja sem öll hafa sín sérmál sem þarf að vera hægt að taka tillit til.


Og nú erum við með það skriflega á blaði frá sambandinu sjálfu. Allt sem þarf er að Ísland setji fram eigin kröfur og skilgreiningar á því hverjar þær þarfir eru og hvernig íslendingar telji og vilji að þeim sé mætt t.d. innan sameiginlegrar landbúnaðarstefnu sambandsins, sjá bréf fastafulltrúa Póllands, formennskuríkis ESB:

"Iceland presents a a strategy including a planning schedule of measures to be taken progressively in order to ensure full compliance with the acquis under chapter 11 Agriculture and rural development by the date of accession as regards agricultural policy, legislation and administrative capacity, taking into account the specific circumstances for agriculture in Iceland."
 
Reyndar er rýniskýrslan sem fylgdi með hrein skyldulesning líka, en þar má einmitt rýna milli lína hvurslags fúsk og frat íslenskt landbúnaðarkerfi er, án skilvirks eftirlits eða hæfra stofnanna með fulla getu til að framfylgja markaðri stefnu (hvað er íslenska orðið yfir "competent"?)."
 

 


Möl í tannhjólunum?

EyjanÁ Eyjunni stendur: "Evrópusambandið vill leita sérsniðinna lausna fyrir Íslendinga í landbúnaðarmálum en telur að Íslendingar séu ekki nægilega vel undirbúnir til þess að hægt sé að hefja viðræður um landbúnaðarmál í tengslum við aðildarviðræðurnar. Ástæðan er neitun Jóns Bjarnasonar landbúnaðarráðherra við að vinna að breytingum á landbúnaðarkerfinu og stjórnsýslu landbúnaðarmála samhliða aðildarviðræðum.

Af þessum ástæðum hefur ESB með bréfi til samninganefndar Íslands lýst því yfir að viðræður um landbúnaðarmál muni ekki hefjast fyrr en Íslendingar hafa lagt fram tímasetta áætlun um hvernig þeir ætli að standa að innleiðingu löggjafar ESB á sviði landbúnaðarmála þannig að Ísland verði að fullu reiðubúið til þess að njóta þess ávinnings og axla þær skyldur sem aðildarsamningi fylgja frá fyrsta degi aðildar, samþykki íslenska þjóðin aðildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þetta kemur fram í bréfi sem Jan Tombinski, fastafulltrúi Póllands hjá Evrópusambandinu, hefur skrifað íslenskum stjórnvöldum um leið og lögð var fram rýniskýrsla sambandsins um landbúnað og dreifbýlisþróun hér á landi sem er liður í aðildarviðræðunum.

Í bréfinu kemur einnig fram að ESB telji að vegna aðstæðna hér á landi muni verða að leita sérlausna fyrir Ísland í landbúnaðarmálum í aðildarviðræðunum. Öll frétt Eyjunnar

Í viðbrögðum við þessu stendur á vef ráðuneytis Jóns Bjarnasonar: "Ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála mun hér eftir sem hingað til leggja áherslu á að fylgja samþykkt alþingis um aðildarviðræður en að sama skapi er brýnt að þau verkefni sem ráðist er í rúmist innan þeirra heimilda sem Alþingi hefur veitt."

Alþingi Íslendinga hefur ákveðið að hefja aðildarviðræður við ESB, sem eru jú hafnar. Jón Bjarnason er hinsvegar ekki á þeim buxunum og tefur málið. Það er mikið vald. Er það réttlætanlegt? Gengur hann gegn samþykkt Alþingis?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband