Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2012

Þorsteinn um glansmyndir og fleira í Fréttablaðinu

Þorsteinn PálssonÞorsteinn Pálsson, fyrrum ráðherra og einn samningamanna gagnvart ESB skrifaði vikulegan pistil um þjóðmál í Fréttablaðið þann 10.nóvember og kom þar inn á efnhagsmálin og Evrópumálin. Í pistlinum segir Þorsteinn að dregin sé upp glansmynd af ástandi mála hér á landi. Þorsteinn segir:

"Stjórnarandstaðan gagnrýnir að sönnu einstakar efnahagsákvarðanir. Eigi að síður er þverstæðan sú að hún hjálpar til við að draga upp falsmyndina með því að sýna Ísland sem fyrirmynd annarra rétt eins og ríkisstjórnin. Það er gert til að styrkja þá staðhæfingu að landið standi mun betur að vígi en önnur Evrópuríki fyrir þá sök að eiga sinn eigin verðlausa gjaldmiðil.

Kjarni málsins er sá að hvorki ríkisstjórnin né stjórnarandstaðan þora að segja það sem satt er og rétt að þjóðin lifir enn um efni fram. Verðmætasköpun þjóðarbúsins stendur ekki undir skuldbindingum þess. Að einhverju leyti þurfum við að velta skuldavandanum á undan okkur. Hitt er allsendis óvíst hvort það reynist unnt í þeim mæli sem þörf er á.

Veruleikinn er sá að Ísland er í hópi þeirra ríkja á innri markaði Evrópusambandsins sem verst standa. Ísland er til að mynda skuldugra en Grikkland. Ísland hefur eitt ríkja á innri markaðnum neyðst til að setja gjaldeyrishöft sem enginn kann lausn á. Þrátt fyrir hrun krónunnar hefur ekki tekist að auka útflutning að marki. Það hefur sumum evruríkjum þó tekist eins og Írum. Þá á Ísland eins og önnur helstu kreppuríkin við kerfisleg vandamál að stríða."

(Leturbreyting, ES-bloggið)


Gríðarleg ásókn í IPA-styrki

Í áhugaverðri frétt á MBL.is kemur fram að gríðarleg ásókn er í svokallað IPA-styrki, sem Ísland fær aðganag að vegna aðildarumsóknar landsins að ESB:

"Mætingin á þessa fundi hefur verið langt umfram væntingar. Það voru haldnir tveir fundir í Reykjavík og síðan fundir á Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði sem voru allir vel sóttir. Ég gæti trúað því að þetta væru um þrjú hundruð manns.“

Þetta segir Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar, í Morgunblaðinu í dag um áhuga á umsóknum um IPA-styrki.

Um er að ræða nýja lotu slíkra styrkja upp á 8,3 milljónir evra, alls 1.350 milljónir króna á núverandi gengi, og eru að þessi sinni styrkt verkefni á sviði atvinnuþróunar, byggðamála og velferðar- og vinnumarkaðsmála. Er fénu ætlað að styrkja stjórnsýslu og styðja við tilraunaverkefni vegna undirbúnings fyrir þátttöku í uppbyggingarsjóðum ESB."

Hér á landi eru margir sem hafa barist með kjafti og klóm gegn þessu. Sömu aðilar hljóta því að vera á móti þeirri framþróun sem hægt er að stuðla að með þessu fjármagni!


Viðskiptaráð ályktar: Brýnt að klára aðildarviðræður við ESB

Í álýktun frá Viðskiptaráði Íslands segir:

"Stjórn Viðskiptaráðs Íslands telur brýnt að aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið verði til lykta leiddar og að kapp verði lagt á að ná sem allra bestum samningi, sem síðan yrði lagður í dóm þjóðarinnar. Þetta er lykilinn að því að halda opnum möguleika landsins í gjaldmiðilsmálum til tvíhliða upptöku evru. Í þessari skoðun VÍ er bent á mikilvægi þess að halda öllum kostum opnum á núverandi óvissutímum.

Ennfremur er nauðsynlegt að efnhagsstefna landins miði að því að uppfylla almenn skilyrði heilbrigðs efnahagslífs um stöðugleika gengis og verðlags, hóflega vexti, afkomu hins opinbera og skuldir þess, en þessi skilyrði falla saman við svonefnd Maastricht skilyrði ESB. Með því móti verða aðrir valkostir á borð við áframhaldandi rekstur sjálfstæðrar peningastefnu og einhliða upptöku annars gjaldmiðils samhliða gerðir raunhæfari.

Forsenda fyrir hagfelldum aðildarsamningi er að stutt sé af einurð við bakið á samninganefnd Íslands. Verði fallið frá umsókninni nú eða samningarnir unnir með hálfum hug mun umræða um mögulega aðild áfram hefta stjórnmálaumræðu og stefnumörkun landsins um árabil, sem er Íslendingum ekki til framdráttar, hvort sem þeir teljast til stuðningsmanna eða andstæðinga aðildar. "

Síðan segir í ályktuninni:

" Í skoðuninni er m.a. farið yfir eftirfarandi:

  • Óvissa er um valkosti Íslands í gjaldmiðilsmálum.
  • Króna og sjálfstæð peningastefna hafa ekki gagnast sem skyldi.
  • Einhliða upptaka er einföld í framkvæmd en ófær leið við núverandi aðstæður.
  • Mikilvægt er að sem flestum valkostum um framtíðargjaldmiðil Íslands sé haldið opnum.
  • Það verður best gert með því að ljúka viðræðum við ESB með sem hagfelldustum aðildarsamningi.
  • Með þeim hætti er Íslendingum gert kleift að taka síðar upplýsta ákvörðun um gjaldmiðilsmál.
  • Uppfylling Maastricht skilyrða gerir alla okkar valkosti fýsilegri, sama hvaða leið verður valin

Íslandálag er þjóðinni dýrkeypt
Í skoðuninni er kostnaður heimila, fyrirtækja og hins opinbera af „Íslandsálagi“ – sem stafar að mestum hluta af íslensku krónunni – metinn á um 150 ma.kr. á hverju ári."

Talið er að kostnaður Íslands við aðildarumsóknina verði á bilinu 800-1000 milljónir, sem eru jú ekki miklir peningar í samanburði við kotnaðinn af krónunni, sem hér er ræddur og er árlegur! Kostnaðurinn af krónunni nemur einu stykki heilbrigðiskerfi, segir í frétt og ályktun Viðskiptaráðs.


Anna Margrét Guðjónsdóttir: Tölum saman um mikilvæg mál

Anna Margrét GuðjónsdóttirAnna Margrét Guðjónsdóttir, ráðgjafi, ritaði grein um Evrópumálin í Fréttatímann, þann 9.11 og hefur hún gefið Evrópublogginu góðfúslegt leyfi til að birta greinina í heild sinni.

Tölum saman um mikilvæg mál

Engum hefur dulist að umræðan í samfélaginu um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu hefur á stundum einkennst að öðru en hógværð og háttvísi. Má jafnvel ráða af orðræðunni að um sé að ræða smávægilegt málefni, sem hægt sé að afgreiða með upphrópunum og vafasömum fullyrðingum. En svo er ekki. Aðild að ESB snýst um hagsmuni þjóðarinnar, velferð hennar og stöðu Íslands á alþjóðavettvangi. Það er ekki hægt að taka upplýsta afstöðu til slíkra stórmála á grundvelli rangra upplýsinga.

Aðildarumsóknin snýst um hvað bætist við EES samninginn ef til aðildar kemur, ekki um EES samninginn sjálfan og innihald hans.

Hvað á að koma í staðinn?

Stjórnmálasaga 20. aldar á Íslandi einkennist af átökum um stöðu Íslands á alþjóðavettvangi og samstarf við aðrar þjóðir. Síðustu stórátökin snérust um aðild að EES samningnum og þá voru stóru orðin ekki spöruð. Þegar við horfum til baka sjáum við að flestar hraksprárnar reyndust ekki á rökum reistar og enginn hefur stigið fram fyrir skjöldu og krafist þess að Íslendingar segðu sig frá samningnum. Engu að síður hefur málflutningur andstæðinga aðildar að ESB snúist að miklu leyti um atriði, sem þegar eru hluti af EES samningnum. Er það sanngjarn málflutningur? Er gagnrýni á efni, sem þegar er í EES samningnum til þess fallið að varpa ljósi á þær breytingar sem kunna að verða við fulla aðild? Það er augljóst að svo er ekki og að mínu mati er þetta dæmi um ómálefnalegan málflutning sem lýsir óvirðingu gangvart þjóðinni. Hún verður að geta tekið upplýsta ákvörðun, sem byggist á staðreyndum um efni málsins en ekki óskylda hluti. Þeir sem nota efni EES samningsins sem rök gegn fullri aðild að ESB eiga að sýna þann kjark og heiðarleika að segja það hreint út að þeir vilji að EES samningnum verði rift. Og fyrir kurteisis sakir að greina jafnframt frá því hvernig við eigum t.d. að haga útflutningi okkar gegnum þá tollmúra, sem risu í kjölfarið.

Það er augljós vilji þjóðarinnar og sjálfsögð krafa að stjórnmálamenn tali saman af virðingu við menn og málefni. Má gera einnig þá kröfu til þeirra, sem halda úti vefsíðum og skrifa í fjölmiðla um þjóðfélagsmálefni? Væri það ekki okkur öllum til heilla ef umræðan í samfélaginu um sameiginlega hagsmuni okkar væri hófstillt og málefnaleg? Svarið er augljóst.

Sýnið ykkar rétta andlit!

Flest það sem samið verður um við ríkin í Evrópusambandinu er hægt að meta til kosta eða ókosta með hlutlægum hætti. Því er hægt að rökræða aðild að ESB á málefnalegum hátt ef menn svo kjósa. Og nota staðreyndir máli sínu til stuðnings. Því miður er ranghugmyndum haldið að fólki í mörgum deilumálum og umræðan um aðild Íslands að ESB hefur ekki farið varhluta af því. Hver kannast ekki við talið um ferköntuðu tómatana, herskyldu ungra bænda og vitleysu af því tagi. Að mínu mati er það óvirðing gagnvart fólkinu í landinu, sem á kröfu til að fá sannar og réttar upplýsingar, og málefnalega umræðu, að slíku sé haldið á loft. Ég skora á andstæðinga ESB aðildar að mæta okkur, sem tölum fyrir aðild, á málefnalegum grunni og tala um það sem breytist við aðild að ESB en ekki um óskyld málefni. Þá skora ég á andstæðinga EES samningsins að sýna sitt rétta andlit en ekki fela sig á bak við aðildarumræðurnar. Þjóðin á skilið heiðarlega og málefnalega umræðu. 

Anna Margrét Guðjónsdóttir


Guðmundur Steingrímsson lætur móðann mása á Eyjunni

Guðmundur SteingrímssonGuðmundur Steingrímsson, þingmaður, skrifaði langan og ítarlegan pistil um stjórnmálin, efnhagsmál og fleira á Eyjuna um daginn. Guðmundur fer víða og ræðir meðal annars verðtrygginguna: "

"Ég ætla að demba mér beint í bununa hér og nú. Ástæðan fyrir því að íbúar þessa lands þurfa að greiða svo háa vexti af húsnæðislánum sínum og verðtryggingu í ofanálag er einfaldlega sú að fjármálakerfið treystir ekki krónunni. Skyldi engan undra: Hún hefur fallið í verði mörg þúsund falt frá upphafi, stundum hrunið. Stundum kippst til í stundarbrjálæði.

Út af þessu – háu vöxtunum og verðtryggingunni – þurfa Íslendingar að vinna miklu lengur fyrir eigin húsnæði heldur en aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við. Þetta er rótin að stritinu endalausa. Mig hefur lengi langað að sannreyna kenningu og lagði reyndar drög að því að skrifa um hana meistaraprófsritgerð í hagfræði. Kannski verður það einhvern tímann.

Kenningin er þessi: Stór hluti þjóðarinnar mun aldrei og hefur aldrei náð endum saman og mun ekki gera það nema eitthvað sé gert. Lánin eru of dýr. Og það sem meira er: Það má ekki hækka launin, því þá hækkar verðlagið, og þá hækka lánin. Við erum föst í gildru."

Síðan ræðir Gumundur gjaldmiðilsmálin:

"Ég sé ekki betur en að ríflega 20 milljarðar muni renna beint úr ríkiskassanum á næsta ári bara vegna krónunnar.[2] Þetta fé verður tekið af striti og púli almennings, beint af skattfé, ofan á allt annað sem krónan kostar fólk í vöxtum og verðtryggingu.[3] Þennan krónukostnað má lesa út úr fjárlögum á ári hverju, en einhvern veginn segir aldrei neinn neitt.

Hundruð milljarða liggja í gjaldeyrisvarasjóði Seðlabankans og hann er fjármagnaður með lánum. Við þurfum gjaldeyrisvarasjóð til þess að verja krónuna, til þess að halda úti sjálfstæðum gjaldmiðli. Kostnaðurinn er þá þessi. Ríflega 20 milljarðar á næsta ári úr ríkissjóði. Fyrir þann pening mætti gera ótrúlega margt annað.

Auk þess er krónan bundin í höftum. Höft eru annað orð yfir skerðingu á frelsi. Íslendingar búa ekki við frjálsa fjármagnsflutninga vegna þess að krónunni er ekki treystandi. Hún myndi sökkva ef hún væri sett á flot, með tilheyrandi hörmungum. Óþolið út af þessu mun bara aukast hér á landi, spái ég.

Hver er þá lausnin? Ég sagðist ætla að demba mér í bununa. Ég kýli á það: Ef Ísland gengi í Evrópusambandið, með góðum samningi sem ég held að við ættum vel að geta landað, gæti þjóðin innan mjög skamms tíma hafið gjaldmiðilssamstarf við Evrópska seðlabankann í gegnum hið svokallaða ERM II. Það er fordyri evrunnar.

Þetta myndi þýða að Íslendingar yrðu aðilar að Evrópska seðlabankanum. Evrópski seðlabankinn myndi verja gengi íslensku krónunnar innan vissra vikmarka. Smám saman yrði óþarfi að halda úti digrum íslenskum gjaldeyrisvarasjóði. Tugmilljarða vaxtagreiðslur myndu þar með heyra sögunni til. Það yrði hægt að nota þá peninga í annað.

Frelsi yrði komið á í viðskiptum, engin gjaldeyrishöft lengur. Stöðugleikinn sem þarna fengist myndi lækka vexti og gera verðtrygginguna óþarfa. Í fyrsta skipti á Íslandi yrði hægt að að beina auðæfum þjóðfélagsins, með hærri launum og betri kjörum, til almennings án þess að lánin hækkuðu og snaran hertist um hálsinn. Við yrðum laus úr gildrunni.

Auk þess gætu fyrirtæki vaxið og dafnað. Stöðugt umhverfi er þeim flestum ómetanlegt. Erlendir fjárfestar – aðrir en einstaka sérvitringar – myndu fá aukinn áhuga. Fjölbreytnin í atvinnulífinu myndi því aukast. Það yrðu góð tíðindi fyrir íbúa landsins, ekki síst ungt fólk sem er búið að mennta sig í alls kyns greinum en bíður fjölbreyttari tækifæra.

Sanngirnin og réttlætið í samfélaginu myndi aukast. Fólk myndi fremur uppskera í kjölfar erfiðis síns og skapandi hugsunar, í stað þess að horfa á fé sitt hverfa til fárra í gegnum áðurnefnda leynistíga með ófyrirsjáanlegum og tilviljanakenndu móti, aftur og aftur.

En þetta er ekki hættulaust. Þegar vextir lækka getur hið langþreytta – en þó hamingjusama skv. könnunum – stritsamfélag mögulega dottið í lánafyllerí. Það var í raun það sem gerðist í aðdraganda hrunsins eða „skakkafallanna“ eins og sumir kalla það. Ódýr erlend lán urðu þjóðinni ofviða. Sama gerðist í grundvallaratriðum í Grikklandi. Þessari hættu yrðum við að sjálfsögðu að mæta. Ekkert er alveg þrautalaust. Auk þess er yfir höfuð alltaf vandasamt að bæta kjör, án þess að þensla myndist. Það verkefni yrði þó einfaldara.

Það er til mikils að vinna. Hið nýja samfélag sem nú risi með stöðugum gjaldmiðli yrði sterkara, fjölbreyttara og réttlátara. Fyrir almenning allan yrði um fullkomin tímamót að ræða. Í fyrsta skipti á Íslandi yrði hægt að gera plön sem héldu að einhverju ráði, hægt að kaupa bíl og íbúð án þess að vera dæmdur til að vera spákaupmaður, sveittur á efri vör út af striti og óvissu.

Almennt myndi ríkja minna vesen."

Og Guðmundur heldur áfram: "Mér finnst ég heyra í skítadreifurunum.

„Til að mótmæla tækifærunum sem okkur standa til boða.“

Beinn kostnaður við þetta fyrirkomulag, þennan kerfisgalla í íslensku hagkerfi sem ég hef nú lítillega fjallað um, er æpandi. Ósanngirnin er ömurleg. Andstaðan við hugmyndir eins og þær sem ég hef nú reifað er hins vegar megn. Það getur vel verið að til séu betri hugmyndir. Ég er ein eyru. Ég vil þó segja það strax: Að taka upp gjaldmiðil annars lands, eins og Kanada – þar sem við værum t.d. ekki aðilar að seðlabanka þess lands – finnst mér mjög óráðlegt.

Eitt á ég í öllu falli erfitt með að sætta mig við, og það er að krónan sé ekki rædd, en sé látin standa eins og bleikur fíll með partíhatt í herberginu á meðan allir aðrir mögulegir hlutir eru til umfjöllunar. Alls konar kanínur úr hatti – verð ég að segja – til þess fallnar að búa til einhvers konar piss-í-skó-mekanisma fyrir íslenskt samfélag birtast líka með reglulegu millibili og verða oft kosningamál. Flatar niðurfellingar lána, afnám verðtryggingar, bygging álvera strax.

Allt svona, að mínu viti, er til þess fallið að beina sjónum frá aðalatriðinu: Sjálfur grunnurinn er skakkur. Einhverja framtíðarsýn sem felur í sér viðgerð á þessum grunni, almennilega og varanlega, verða stjórnmálamenn að bera á borð fyrir kjósendur í næstu kosningum. Ég tel þetta sigurstranglegast, svo enginn velkist í vafa: Að fara inn í ERM II. Evran kæmi svo í kjölfarið.

Fólk getur verið ósammála þessu. Þá auglýsi ég eftir betri hugmyndum. Vísa ég þá jafnframt á bug ásökunum um landráð, svik við sjálfstæðið, uppgjöf í baráttunni gegn samsæri annarra þjóða og hvað þetta heitir nú allt saman, frussið sem bunar úr dreifurunum um leið og maður minnist á ESB."


Könnun ASÍ opinberar gríðarlegar verðhækkanir

ASÍ kannar reglulega verð á neysluvörum og í nýjustu könnun koma fram gríðarlega verðhækkanir milli ára: 

"Sú matvara sem verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á þann 27. október sl. hefur hækkað töluvert í verði frá sambærilegri könnun sem gerð var í október 2011 hjá Bónus, Krónunni, Nettó, Fjarðarkaupum, Hagkaupum og Nóatúni. Áberandi eru miklar verðhækkanir í öllum vöruflokkum hjá öllum verslunum. Vinsæl matvara eins og Fjörmjólk hefur hækkað um 7–10%, Krakka Lýsi hefur hækkað um 8-15% og Myllu Eyrarbrauð um 3-8%.

Verðhækkanir á vinsælli matvöru
Nánast allar vörurnar sem bornar eru saman hafa hækkað í verði. Sem dæmi um mikla hækkun má nefna perur sem hækkuðu um 84% úr 189 kr./kg. í 348 kr./kg. hjá Nettó, um 61% úr 198 kr./kg. í 318 kr./kg. hjá Fjarðarkaupum, um 48% úr 195 kr./kg. í 289 kr./kg. hjá Bónus, um 25% úr 299 kr./kg. í 375 kr./kg. hjá Nóatúni og um 10% úr 345 kr./kg. í 379 kr./kg. hjá Hagkaupum. Af öðrum vörum má nefna St. Dalfour apríkósusultu sem hefur hækkað um 14% hjá Nettó, um 11% hjá Krónunni, um 9% hjá Nóatúni, um 2% hjá Fjarðarkaupum, enginn breyting var hjá Hagkaupum og lækkaði verðið á sultunni um 4% hjá Bónus.
Einstöku verðlækkanir
Dæmi um vörur sem hafa lækkað í verði eru t.d. íslenskar rófur sem hafa lækkað í verði um allt að -27% hjá Nóatúni, um -20% hjá Nettó, um -17% hjá Fjarðarkaupum, um -11% hjá Bónus og Krónunni en rófurnar hækkuðu í verði um 34% hjá Hagkaupum. Einnig má nefna að sú frystivara sem borin er saman hefur lækkað í verði hjá Hagkaupum og Bónus.
Sjá nánari niðurstöður í töflu."
Í könnun á verði á neysluvörum í ESB-ríkjunum 27 frá því í september, er ALLS ekki að sjá sömu verðhækkanir. Engin vara í þeirri könnun hækkar meira en 10% og margir vöruflokkar hækka nánast ekki neitt!
ESB-aðild opnar fyrir aukna samkeppni og lægra vöruverð fyrir (hrjáða) íslenska neytendur!

Mörður Árnason í FRBL: Evrópuaðild fyrir fólkið í landinu

Mörður ÁrnasonMörður Árnason, alþingismaður, skrifaði grein um Evrópumálin í Fréttablaðið þann 7.11, um Evrópumálin og hefst greinin svona:

"Öllu talinu um aðildarsamningana og framtíðarstefnuna í sambandi við Evrópusambandið hættir til að verða nokkuð fjarlægt og háfleygt, fyrir nú utan að þátttakendur leyfa sér óvenjumikið rugl og nöldur, jafnvel á íslenskan nútímakvarða. Jájá, það þarf að finna leið út úr gjaldeyrishöftunum, og enginn hefur bent á neina aðra í raun og veru en upptöku evru. Jájá, það eru vandamál kringum fullveldisdeilingu, bæði í EES og ESB, og Íslendingar mega ekki rasa um ráð fram. Sjávarútvegsmálin, landbúnaðurinn, byggðirnar, fjármálamarkaðirnir o.s.frv. o.s.frv. En hvað kemur þetta venjulegu fólki við í daglegu brauðstriti og amstri – sem eftir Hrun er alvarlegt mál fyrir hver einustu mánaðamót á fjölmörgum heimilum?

Margt er auðvitað óljóst enn þá um stöðuna eftir inngöngu okkar í Evrópusambandið ef af verður. Þess vegna erum við að semja. Ýmislegt af kostum og göllum við aðild kemur ekki í ljós fyrr en á líður. Það er reynsla annarra þjóða sem inn eru gengnar, svo sem Svía og Finna, Eystrasaltsþjóðanna, nýfrjálsu ríkjanna í Mið- og Austur-Evrópu."

Mynd: FRBL


Guðmundur Andri Thorsson í FRBL: Hlutir sem skipta máli

Guðmundur Andri Thorsson

Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur, skrifaði frábæra grein í Fréttablaðið þann 5.nóvember, um ESB-málið og andstæðinga þess. Greinin hefst á þessum orðum:

 "Ég heyrði byrjunina á uppgjöri vikunnar í útvarpsþætti nú fyrir helgi. Einn var spurður að því hvað honum hefði nú fundist eftirtektarverðast í nýliðinni viku og svaraði eitthvað á þessa leið: „Það var verið að taka upp tvo nýja kafla í aðildarviðræðum Íslendinga og Evrópusambandsins…" Smá þögn og maður sá fyrir sér furðu lostin andlit viðmælenda þar til hann losaði um spennuna á hárréttu augnabliki: „Djók!" Fór svo að tala um hluti sem skipta máli: landsleikinn og veðrið.


Allir hlógu – líka ég. Það var svo fyndið hvernig hann sagði það. Og ekkert gat verið jafn innilega óáhugavert og fréttir af þessum viðræðum við bandalag sem færustu lesendur þjóðarsálarinnar segja að við munum aldrei nokkurn tímann ganga í. 

Manni skilst að nú fari aðalsamningamaður Íslendinga um landið og kynni fólki stöðuna í þessum viðræðum. Ætli það séu ekki hálfgerð svipugöng? Um leið og hann byrjar að tala fara allir að halda fyrir eyrun og æpa. Það má enginn heyra það sem hann kann að hafa að segja. Það má ekki byggja Evrópu-umræðuna á staðreyndum. Það má alls ekki komast að því hvað aðild að ESB gæti þýtt fyrir lífskjör á Íslandi.


Hætta skal leik…
Andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu vilja ekki ljúka viðræðum heldur hætta þeim. Þeir vilja koma í veg fyrir að niðurstaða fáist úr viðræðunum og kosið verði um aðild í kjölfar þess. Ein skýring er langsamlega nærtækust á þessari afstöðu: Andstæðingar aðildar óttast að aðild verði frekar samþykkt í kosningum um niðurstöður aðildarviðræðna en kosningum þar sem enginn veit neitt um neitt – þeir vilja ekki að neinn viti neitt um neitt. Þeir vilja að við rífumst á grundvelli þess sem við höldum, okkur minnir, okkur finnst, við óttumst, einhver sagði að einhver hefði sagt. Þeir vilja að við rífumst um grundvöllinn. Þeir vilja að við rífumst. Þeir deila og drottna. Við deilum og brotnum.

Þeir telja líklegra að málstaður sinn sigri viti þjóðin ekki hvaða kostir bjóðast með aðild að Evrópusambandinu. Þeir telja að eftir því sem fólk viti meira um það hvað aðild að ESB táknar, þeim mun líklegra sé það til að kjósa þá aðild. "


Andrés Pétursson í FRBL: Meirihluti fyrirtækja gerir upp í evrum

Andrés Pétursson

Ein mest lesna greinin á www.visir.is þess fyrstu helgi í nóvember er eftir Andrés Pétursson, formann Evrópusamtakanna, en hún byrjar svona:

"Í nýlegri frétt í Tíund, fréttablaði Ríkisskattstjóra, kemur fram að árið 2011 hafi í fyrsta skipti meirihluti íslenskra fyrirtækja sem gera upp í erlendri mynt ákveðið að gera upp ársreikning sinn í evrum. Hingað til hefur Bandaríkjadollarinn verið vinsælasta uppgjörsmyntin. Þetta er áhugaverð staðreynd því dómsdagsspámenn í bloggheimum og einstaka fjölmiðill hafa í langan tíma reynt að sannfæra íslenskan almenning að evran sé ótækur gjaldmiðill og að Evrópa standi í ljósum logum. Það er greinilegt að þessi íslensku stórfyrirtæki eru ekki á sama máli.

Þegar Alþingi ákvað árið 2009 að sækja um aðild að Evrópusambandinu var eitt af markmiðunum að kanna möguleika á því að taka upp evru og koma þannig á stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Síðan þá hefur ýmislegt gerst í evrópsku efnahagslífi og aðildarviðræðurnar dregist á langinn. En það hefur ekkert breyst varðandi þá staðreynd að íslenskt efnahagslíf er í fjötrum gjaldeyrishafta og fátt bendir til annars en að við þurfum á utanaðkomandi aðstoð að halda til að koma okkur út úr þeirri úlfakreppu. 

Hvort það er aðild að Evrópusambandinu sem getur aðstoðað okkur á eftir að koma í ljós því ekki er búið að ljúka viðræðunum. En eina leiðin til að komast að því er að ganga þá götu til enda sem Alþingi ákvað fyrir rúmum þremur árum. Síðan er það íslensku þjóðarinnar að ákveða í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort hún er sátt við það sem úr þeim viðræðum kemur."

Ps. Minnum á aðalfund Evrópusamtakanna, 15.11, næstkomandi. Sjá eldri frétt hér á blogginu. 

 


Skýr skilaboð: Skyr vinsælt í Finnlandi, en stoppar vegna þess að Ísland er ekki í ESB

Skyr2Á RÚV segir í frétt: "Íslendingar munu selja um fjögur hundruð tonn af skyri til Finnlands í ár en ekki er heimild til að flytja meira skyr út þar sem Ísland stendur fyrir utan ESB. Einar Sigurðsson, forstjóri MS, segir að sótt hafi verið um leyfi til að flytja út allt að fimm þúsund tonn á hverju ári.

Þar sem ekki er hægt að flytja meira skyr út hefur MS hafið samstarf við nokkur fyrirtæki á Norðurlöndum sem greiða MS leyfisgjald fyrir að framleiða íslenskst skyr. Í ár munu Norðurlandabúar hesthúsa um 3300 tonnum af skyri."

ESB-aðild býður upp á tækifæri fyrir (umhverfisvænan) íslenskan landbúnað.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband