Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2012

Greinaröð Árna Páls í FRBL

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingar hefur undanfarna daga verið að birta greinar í greinaröð um Evrópumál. Hér eru krækjur á greinarnar:

1) Þar sem Evrópa endar? Um Ísland í Evrópu

2) Frjáls við ysta haf? Um Ísland í Evrópu

3) Er duna jarðarstríð. Um Ísland í Evrópu      Og okkur skilst að það sé von á fleiri greinum - hið besta mál!

Sigríður Ingibjörg um "sönginn" og fleira í FRBL

Sigga-IngibjorgSigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingar, ritaði grein í FRBL um ESB-málið og upphlaup VG-liða, þann 16.ágúst. Greinin birtist hér í heildsinni:

"Sumarið 2009 samþykkti Alþingi að sækja um aðild að ESB. Allar götur síðan hafa verið háværar raddir um að draga umsóknina til baka eða fresta henni um óákveðinn tíma. Nú er söngurinn byrjaður að nýju og að þessu sinni eru forsöngvarar þingmenn og ráðherrar vinstri grænna.

Þingmenn úr öllum flokkum greiddu atkvæði með umsókninni, en þingmenn Vinstri græns gerðu það þrátt fyrir andstöðu við aðild að ESB. Ástæðan fyrir þessu er einföld: Samningaviðræður eru eitt, aðild er annað. Vinstri grænum stóð auðvitað til boða að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Slík draumaríkisstjórn Ragnars Arnalds og Jóns Bjarnasonar hefði ekki sótt um aðild að ESB. Ef marka má djúpa speki þeirra félaga og ýmissa annarra minni spámanna í forystu flokksins, væri staða Vinstri græns augljóslega mun betri nú. Steingrímur J. og Lilja Mósesdóttir væru sjálfsagt perluvinir, Atli Gíslason og Ásmundur Einar Daðason hrókar alls fagnaðar í þingflokknum og Jón Bjarnason enn þá ráðherra. Eða hvað?

Draumaríkisstjórnin varð ekki að veruleika sumarið 2009, en gæti augljóslega orðið það sumarið 2013. Jafnvel fyrr. Miðað við málflutning margra þingmanna, og jafnvel ráðherra, vinstri grænna allar götur síðan 2009 voru það mistök að mynda ekki slíka stjórn. Samningaviðræður við ESB eru nefnilega ekki samningaviðræður við ESB heldur samsæri um „aðlögun" Íslands að ESB. Þessi málflutningur er furðulegur. Þó engin væri umsóknin um ESB væri aðlögun Íslands að ESB með sama hætti og nú er, enda hófst hún með aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Vilji menn stöðva aðlögun Íslands að ESB þá er auðvitað heiðarlegast að hætta í EES. Eru vinstri græn tilbúin í slíka umræðu?
Það hefur margt breyst síðan 2009. Eitt hefur þó ekki breyst: Þau vandamál sem aðild að ESB getur hjálpað okkur að leysa eru enn til staðar og hverfa ekki þótt samningaviðræðum verði slitið. Þetta er kjarni málsins."


Guðmundur Steingrímsson í DV: Er gott að vita ekki?

Guðmundur SteingrímssonGuðmundur Steingrímsson, alþingismaður, skrifaði fína grein í DV þann 15.8 um ESB-málið og birtist hún hér í heild sinni:

ER GOTT AÐ VITA EKKI?

Það liggur fyrir að skoðanir á hugsanlegri aðild Íslendinga að Evrópusambandinu eru skiptar. (Þessi setning er það sem enskir kalla „understatement“.) Sjálfur hef ég átt í rökræðum um ESB í ótal eldhúsum, heitum pottum, vinnustöðum, sumarhúsum, skólastofum, leigubílum og guð má vita hvar síðan 1986 eða svo, með hléum. Oft hafa þessar rökræður verið tilfinningaþrungnar og markaðar alls kyns ásökunum á báða bóga um vanþekkingu, bjánaskap og svik við hinar fögrustu hugsjónir.

Nú hafa Íslendingar sótt um aðild, enda var meirihluti fyrir því á þingi. Samninganefndin er vel skipuð og viðræðurnar sjálfar hafa gengið vel. Því er þó ítrekað haldið fram að viðræðurnar séu í raun aðlögun að sambandinu. Mér hefur ætíð fundist það skrýtinn málflutningur. Ef Íslendingar segðu nei við samningi, hvað myndi þá standa eftir sem breyting á íslensku samfélagi vegna viðræðnanna? Ef ekki er hægt að nefna neitt markvert sem svar við þessari spurningu, er varla hægt að tala um að viðræðurnar feli í sér aðlögun.

Staðreyndirnar koma í ljós

Viðræðurnar hafa haft eitt gott í för með sér: Staðreyndir hafa komið upp á yfirborðið. Það vantar ekki yfir lýsingarnar um það hvað ESBaðild muni fela í sér. Eftir því sem viðræðunum vindur fram kemur betur í ljós hvaða yfirlýsingar eru réttar og hverjar rangar. Á tímabili var því til dæmis haldið fram að Íslendingar þyrftu að ganga í evrópskan her ef þjóðin gengi í sambandið. Nú er komið í ljós að það er auðvitað ekki rétt. Eins hefur stundum borið á yfirlýsingum um að ESB ásælist á einhvern hátt orkuauðlindir Íslendinga. En eftir að kaflinn um orkumál var opnaður hafa þær raddir að mestu þagnað. Fullyrt er að íslenskur landbúnaður muni bera skarðan hlut frá borði, en kaflinn um landbúnað bíður enn umfjöllunar. Sem og kaflinn um sjávarútveg. Hvað reynist rétt og hvað rangt í þeim efnum á allt eftir að koma í ljós. Stærsta breytan sem mun ráða afstöðu flestra til Evrópusambandsaðildar á eftir að líta dagsins ljós: Samningurinn sjálfur.

Spurningar hverfa ekki

Framtíðarsýn þeirra sem vilja hætta viðræðunum er forvitnileg. Fyrir þjóð sem er áhrifalaus þiggjandi yfirgripsmikilla lagasetninga af hálfu ESB í gegnum samninginn um EES hlýtur það alltaf að verða áleitin spurning hvort ekki eigi að stíga skrefið til fulls, ganga í sambandið og fá sæti við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar. Sú spurning mun ekki hverfa. Í hvert einasta skipti sem krónan fellur með tilheyrandi áhrifum á verðbólgu, þannig að skuldir fólks stórhækka vegna verðtryggingar, munu spurningar um gjaldmiðilssamstarf við Evrópuþjóðirnar vakna aftur. Vaxandi ólund vegna gjaldeyrishafta mun hafa sömu áhrif sem og kostnaður almennings vegna hárra vaxta.

Ég telst til þeirra Íslendinga sem vilja komast til botns í þessu máli, langþreyttur á óupplýstum rökræðum í eldhúsum og heitum pottum. Evrópusamstarf hefur hingað til reynst þjóðinni farsælt. Ég tel að ESB-aðild geti mögulega verið rökrétt næsta skref. Aðild gæti bætt lífskjör og gert Íslendinga að mikilvægum þátttakendum í samvinnu sjálfstæðra ríkja í Evrópu. Ég leyfi mér að spyrja: Ef sá hluti þjóðarinnar fær að ráða ferðinni sem sér enga ástæðu til að kanna þennan möguleika til hlítar – til að komast að því hvað er rétt og hvað er rangt – og vill frekar halda áfram deilum á kaffistofum um þetta mál án niðurstöðu um ókomna framtíð, hvert verður þá hlutskipti okkar hinna? Eigum við bara að vera kampakát með það? Alsæl í dýrtíðinni og óvissunni? Er gott að vita ekki neitt?


Einar Benediktsson með góða grein í FRBL

Einar Benediktsson

Einar Benediktsson, fyrrum sendiherra, skrifaði góða grein um ESB-málið í FRBL, þann 16.ágúst. Greinin birtist hér í heild sinni:

 Umræðan þessa dagana um Ísland og Evrópusambandið tengist ekki raunveruleika aðildarsamninganna heldur sýndarleik um ókunnar niðurstöður. Hinn mesti vindmyllubardagi er látlaust háður í Morgunblaðinu um þessi mál og tal um þjóðaratkvæðagreiðslu nú er út í bláinn enda einungis nokkrir mánuðir síðan Alþingi felldi síðast tillögu um slíkt. Ákvörðun þjóðarinnar um aðild á að sjálfsögðu að koma, en aðeins þegar málið liggur fyrir.

Þótt samningsniðurstöður liggi ekki fyrir hefur gríðarlega mikið verk verið unnið við að skila málinu í höfn. Frekari lokun samningskafla og efnislegt stöðumat mun liggja fyrir á næstu mánuðum og málið verður í heild sinni ljóst að vori þegar væntanlega verður efnt til Alþingiskosninga. NEI-liðið er, og hefur alltaf verið, hrætt við að aðildarsamningurinn verði þá eitt af þeim málum sem frambjóðendur og kjósendur taki til jákvæðrar afstöðu. Sá ótti stafar væntanlega af því að í ljós komi að aðildarsamningurinn sé hagstæður og landinu mikill ávinningur. Ég hef trú á því aðallega af eftirgreindum ástæðum: 

 

Við aðild að Evrópusambandinu og síðar upptöku evru verður sá efnahagslegi stöðugleiki sem Íslendingar hafa lengstum farið á mis við.

Mikið öryggi og sparnaður verður við að þurfa ekki lengur að hafa stóran gjaldeyrisforða til að styðja við þá örmynt sem krónan er.

Reynsla annarra sýnir að erlend fjárfesting mun aukast.

Lækkun vaxta mun hafa veruleg áhrif á greiðslubyrði einstaklinga, heimila og fyrirtækja.

Aðild að ESB leiðir til afnáms tolla á fullunnar íslenskar sjávarafurðir.

Mikill viðskiptalegur ávinningur verður við alþjóðlegan gjaldmiðil sem nýtur trausts og er gjaldgengur í öðrum löndum án sérstaks aukaálags.

Frekari ávinningur af áframhaldandi þátttöku Íslands í rannsóknar-, vísinda-, mennta- og menningarsamstarfi Evrópusambandsins.

Niður fellur margvíslegur kostnaður vegna EFTA og reksturs EES-samningsins og Þýðingarmiðstöðvar utanríkisráðuneytisins.

Af þessu má vera ljóst að kostnaður við ESB-aðild er ekki þrándur í götu, heldur þvert á móti. Þátttaka í Myntbandalagi Evrópu og upptaka evru yrði að sjálfsögðu markmið okkar. Nú er það svo að evran átti að vera varanleg lausn enda væri aðgætin fjár- og peningamálastefna skilyrði fyrir þeim árangri. Ekki varð sú raunin í löndum Suður-Evrópu og Írlandi. Framtíð núverandi evrusvæðis er í óvissu vegna vafa um þátttöku evruríkja sem höllum fæti standa. Það yrði augljóslega mikið áfall ef Grikkland og hugsanlega fjögur önnur evruríki drægju sig út úr því samstarfi og það ekki einvörðungu fyrir Evrópulönd. Komi til þess að þær þjóðir taki aftur upp eigin gjaldmiðil, sem reyndar er óvíst, verður sá vandi væntanlega aðeins tímabundinn. Utan hinna upprunalegu sex aðildarríkja, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Belgíu, Hollands og Lúxemborgar, virðist engan bilbug að finna á Austurríki, Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Eistlandi, Slóvakíu, Slóveníu, Kýpur og Möltu í þessu samstarfi.

Það er ekki aðeins augljós hagur okkar Íslendinga að ljúka aðildarviðræðunum. Öllu heldur yrði það álitshnekkir að hlaupa frá þeim samningum aðeins vegna þess að Evrópusambandið er blóraböggull í vandræðalegri stjórnmálaumræðu. Umfram annað er nauðsynlegt að hafa ávallt í huga að aðild að samstarfi Evrópuþjóða er verkefni ókominna ára og kynslóða. Hér ráða ekki skyndisjónarmið um misskilinn pólitískan ávinning í næstu kosningum. Nú er réttur tími fyrir Íslendinga að ráða því máli til lykta að okkar staða er í hópi fullgildra þátttakenda í því eina þjóðasamstarfi sem við tilheyrum – Evrópu.


Stöð tvö: Þorsteinn Pálsson - engin ástæða til að gera hlé á viðræðum - VG og Jón Bjarnason að hluta til ábyrgir fyrir töfum

Á www.visir.is segir:

" Ekki verður gert hlé á viðræðum við Evrópusambandið þrátt fyrir ákall um slíkt frá ráðherrum Vinstri grænna. Vinstri græn bera að hluta ábyrgð á töfum á aðildarviðræðunum, enda neitaði Jón Bjarnason, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að veita umboð til að semja um annað en tollvernd í landbúnaði. 

Síðustu daga hafa þrír ráðherrar Vinstri grænna farið mikinn og sagst vilja endurskoða aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið. 

Af 35 samningsköflum hafa aðeins 18 verið opnaðir. Töf á viðræðum við sambandið skrifast samt að hluta á Vinstri græn. Það bera fundargerðir samninganefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu með sér. Til dæmis fundargerð frá 19. maí í fyrra. 

Þar lýsir formaður samninganefndarinnar því yfir að umboð fulltrúa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis í samninganefndinni sé takmarkað að því er varðar skoðun á öðrum kostum en tollvernd auk þess sem ekki væri til staðar umboð til að vinna að áætlanagerð."

Ennfremur segir: "Þorsteinn Pálsson sem situr í samninganefnd Íslands segir að töf á aðildarviðræðum skrifist því í raun að hluta á Vinstri græna. 


„Upp að ákveðnu marki þá gerir það það auðvitað. Þeirra afstaða hefur verið á þann veg og það er auðvitað bara eðlileg afleiðing af þeirra afstöðu."

Þorsteinn segir að ekki sé þó hægt að skella allri skuldinni á Vinstri græna. 

Engar breytingar er fyrirhugaðar á aðildarviðræðunum, samkvæmt upplýsingum úr utanríkisráðuneytinu. 

Þorsteinn telur slíkt ástæðulaust, en segir eðlilegt sé að setja markmið um að ljúka viðræðum á næsta kjörtímabili. 

„Ég tel ástæðulaust að gera hlé. En menn þurfa að gefa sér lengri tíma og flytja þetta mál yfir á næsta kjörtímabil, það er skynsamlegt að gera það," segir hann." 


Finnland: Evru og ESB-aðild hefur gagnast landinu vel!

Helsinki

Sumir þeir sem eru mótfallnir aðild Íslands að ESB nota stundum það sem kalla mætti "fjarlægðarrökin" í máli sínu.

Að Ísland sé t.d. "langt" frá Evrópu, að landið sé "langt" úti í Atlantshafi og að það þurfi t.d. að fara alla leið til Finnlands, til að finna Evruland!

En í heimi alþjóðlega og hátæknivæddra viðskipta hljómar þetta svolítið skringilega, að ekki sé talað um þá staðreynd að Evrópa er mikilvægasti markaður Íslendinga, rétt eins og Finna!

Í BBC-þættinum Business Daily var á dagskrá mjög athyglisvert innslag um Finnland og Evruna, þann 14.8. síðastliðinn.

Niðurstaða þess var í raun sú að aðild að ESB og Evrunni hefðu gert Finnlandi gríðarlegt gagn og að enginn alvöru umræða væri í gangi um að Finnar færu út úr Evru-samstarfinu. Nema hjá talsmanni flokksins "Sannra Finna" sem sagði að Finnar hefðu bara aldrei átt að fara inn í ESB eða Evruna. Býsna léttvæg rök og í raun það eina sem hann hafði fram að færa!

Það var hinsvegar mun athyglisverðara að hlusta á hagfræðing samtaka finnska atvinnulífsins, sem sagði aðild að ESB og upptöku Evrunnar hafa gert gríðarlega mikið fyrir Finnland. Þeir þættir sem hann nefndi helsta voru:

Lágir vextir

Lág verðbólga

Stöðugleiki í gjaldmiðilsmálum

Hljómar þetta kunnuglega í eyrum Íslendinga? Ó, nei, raunveruleikinn hér á landi er í raun þveröfugur við þetta! Þar að auki býr íslenskt atvinnulíf við gjaldeyrishöft!

Talsmaðurinn sagði það einnig hafa hjálpað til að Finnar hefðu verið búnir að "taka vel til" eftir bankakrísuna sem þeir lentu í um og eftir 1990. Því væri finnska bankakerfið vel statt og í góðu horfi um þessar mundir.

Hann tók það einnig mjög skýrt fram að Evran skaðaði ekki samkeppnishæfni Finnlands, þar sem þeir væru sjálfir búnir að gera það sem gera þyrfti, til þess að halda samkeppnishæfninni. Hér á það kannski við "hver veldur er á heldur" ? 

Við gætum sennilega lært margt af Finnum og greinilegt að þeir hafa tekið mjög skynsamlega á málum - og af yfirvegun. 

Ps. Samkvæmt "fjarlægðarrökunum" ætti t.d. Kýpur alls ekki að vera í ESB, þar sem fjarlægðin til Brussel til Nikósíu eru heilir 2907 km! Það er þó ekki nema 2134 km frá Reykjavík til Brussel! 

Kýpur fer með formennsku í ESB um þessar mundir.

 


Margrét Tryggvadóttir skilur ekki afstöðu Ögmundar

Á MBL.is stendur þetta:

"„Eins fylgjandi og ég er því að spyrja þjóðina og láta hana ráða sem mestu um hag sinn og bera ábyrgð á ákvörðunum sínum finnst mér þessi spurning ekki tímabær fyrr en samningur liggur fyrir,“ segir Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, á heimasíðu sinni í dag um það hvenær rétt sé að halda þjóðaratkvæði um inngöngu í Evrópusambandið.

Margrét segist sjálf ekki treysta sér til þess að svara því fyrirfram hvort hún vilji ganga í Evrópusambandið áður en samningur um inngöngu liggur fyrir. Þótt hún viti heilmikið um sambandið séu ýmis atriði sem eftir sé að sjá hvernig verði leyst. Þá segist hún kunna því illa að vera stillt upp við vegg.

„Þetta er stór ákvörðun og ég tel mig ekki hafa nægar upplýsingar til að taka ákvörðun fyrr en samningur liggur fyrir. Ég myndi hins vegar vel treysta mér til að svara því hvort halda skyldi viðræðum áfram, geyma þær þar til mál skýrast eða draga umsóknina til baka,“ segir hún ennfremur.

Þá gagnrýnir hún þá afstöðu Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, að kjósa eigi sem fyrst um það hvort ganga eigi í Evrópusambandið eða ekki og segist ekki fá skynsamlegan botn í þá afstöðu hans."

Pistill Margrétar á Eyjunni. 


Ný kona framkvæmdastjóri Já-Ísland!

Á vef Já-Ísland stendur:

sigurlaug-anna

"Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Já Íslands frá og með 15. ágúst. Hún lauk B.A gráðu í stjórnmálafræði árið 2008 en áður stundaði hún nám í iðnrekstrarfræði við Tækniháskóla Íslands.

Sigurlaug Anna starfaði sem verkefnisstjóri rannsóknar á íbúalýðræði við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands árin 2008-2011 ásamt því að stunda meistaranám við sömu deild í opinberri stjórnsýslu.

Sigurlaug Anna hefur tekið þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins, einkum á sviði sveitarstjórnarmála.Hún er varabæjarfulltrúi í Hafnarfirði, situr í fræðsluráði Hafnarfjarðar, er varaformaður stjórnar fulltrúaráðs sjálfstæðisfélagannaí Hafnarfirði, sat í stjórn Sjálfstæðisfélagsins Fram í Hafnarfirði frá 2007– 2011, þar af sem formaður í 2 ár.Enn fremur hefur hún átt sæti í stjórn málefnanefndar Sjálfstæðisflokksins um innanríkismál.

Sigurlaug hefur setið í Íþrótta- og tómstundanefnd Hafnarfjarðar og í stjórn starfsmenntasjóðs Starfsmannafélags Hafnarfjarðar.   Hún situr núna í stjórn félags stjórnmálafræðinga.

Sigurlaug Anna sat í stjórn og framkvæmdastjórn samtakanna Heimili og skóli – landssamtök foreldra, á árunum 2009-2010, auk þess sem hún var framkvæmdastjóri samtakanna um tíma.

Sigulaug Anna hefur tekið virkan þátt í starfi tengdu Evrópumálum bæði á vettvangi Sjálfstæðisflokksins og í félagsskap Evrópusinna. Hún hefur meðal annars setið í stjórn Já Íslands.

Sigulaug Anna var ráðin úr hópi umsækjenda en Capacent annaðist ráðningarferlið."

Evrópusamtökin óska Sigurlaugu til hamingju með starfið og velfarnaðar í því! 


Ólafur Stephensen í FRBL: Plan B?

Ólafur Stephensen

Ólafur Þ. Stephensen, ritstjóri FRBL, skrifar góðan leiðara þann 15.8 um ESB-málið og upphlaupið innan VG. Hann segir í byrjun:

"Nú er hafið enn eitt upphlaupið í kringum umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Að þessu sinni á það upptök sín í þingflokki Vinstri grænna, sem telur sig þurfa að friða ESB-andstæðinga í flokknum, og stjórnarandstaðan stekkur að sjálfsögðu á vagninn.

Þeir sem vilja slíta viðræðunum við ESB, eða „endurmeta stöðuna" eins og það er orðað, vísa gjarnan til umróts og óvissu í efnahagsmálum aðildarríkjanna. Það er hins vegar ekki ástæða til að hætta viðræðunum. Saga Evrópusamstarfsins er að mörgu leyti saga umróts og óvissu. Evrópusambandið og forverar þess hafa þurft að takast á við margs konar efnahagskrísur og iðulega hefur samstarfinu verið spáð bráðu andláti. Það hefur ekki gengið eftir, heldur hefur samstarfið þvert á móti orðið nánara. 

Aðildarríki ESB hafa flest áttað sig á því að í glímunni við efnahagskreppur eru þau sterkari í samstarfi en ef hvert ríki reyndi að leysa vandann upp á eigin spýtur.

Núverandi kreppa evrusvæðisins er ekki gjaldmiðilskreppa, þótt það sé stundum látið í veðri vaka. Hún er öðrum þræði skulda- og ríkisfjármálakreppa einstakra aðildarríkja, sprottin af ábyrgðarleysi stjórnmálamanna (sem er Íslendingum ekki ókunnugt), og hins vegar bankakreppa, ekki ósvipuð okkar eigin, eins og til dæmis á Spáni.

Ef Evrópusambandið kemur harðari aga á ríkisfjármál aðildarríkjanna og setur á skilvirkara eftirlit með fjármálageiranum verður það eftirsóknarverðara fyrir Ísland að verða aðildarríki. Af hverju ættum við að fleygja þeim möguleika frá okkur núna?"
 
Síðan segir Ólafur: 

"Aðildarviðræðurnar ganga vel. Það sem af er hefur gangurinn í þeim sýnt að Ísland er vel undir aðild að Evrópusambandinu búið og hefur í gegnum EES-samninginn lagað löggjöf sína að stórum hluta regluverks sambandsins. Erfiðustu kaflarnir, ekki sízt um landbúnað og sjávarútveg, eru eftir. Það skiptir efnislega engu máli fyrir möguleika Íslands á að ná góðum aðildarsamningi hvort þeir verða opnaðir fyrir eða eftir þingkosningar á Íslandi. Það skiptir eingöngu máli í því fjarstæðuleikhúsi sem íslenzk pólitík er þessa dagana."
 
Hann telur upptöku Evrunnar raunhæfasta kost Íslands í gjaldmiðilsmálum og telur rétt að bíða eftir skýrslu Seðlabankans um þau mál áður en einhverjum dyrum er lokað. 

"Þeir, sem vilja hætta aðildarviðræðunum, bjóða ekki upp á annan raunhæfan kost. Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, hittir naglann á höfuðið þegar hann segir í Morgunblaðinu í gær að það sé skrýtið að þeir sem ekki hafi plan B keppist nú við að skemma plan A. Væri ekki að minnsta kosti ráð að bíða eftir margboðaðri skýrslu Seðlabankans um kosti Íslands í gjaldmiðilsmálum áður en menn ákveða að loka þessum dyrum?"
 
Og lokaorð Ólafs eru þessi: 

"Þegar Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, bendir á að ekki sé meirihluti á Alþingi fyrir aðildarumsókninni, vekur hann í raun athygli á þeirri staðreynd að meirihluti Alþingis er ekki með neitt raunhæft plan um það hvernig eigi að tryggja framtíð íslenzks gjaldmiðils og efnahagslífs og sess Íslands í samfélagi ríkja. Það er heldur dapurleg staðreynd."

Jóhanna Sigurðardóttir: Rangt að breyta ferlinu

Á RÚV segir: "Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir einfaldlega rangt að breyta því ferli sem umsókn Íslands að Evrópusambandinu er í núna. Ljúka eigi viðræðum þrátt fyrir vandamál á evrusvæðinu. Formaður utanríkismálanefndar vill ræða málið á Alþingi.

Evrukrísan hefur áhrif

Um helgina stigu tveir ráðherrar VG fram og sögðu að þær vildu endurmeta aðildarumsókn Íslands að ESB. Forsendur hefðu breyst, evrukrísan hefði áhrif á aðildarferlið og ljóst væri að ekki næðist að klára viðræðurnar fyrir kosningar næsta vor.

VG liðar vilja ýmist fresta umsókninni, hætta við, eða láta þjóðina kjósa um áframhaldið, hugsanlega samhliða kosningu um tillögur stjórnlagaráðs 20 október eða í síðasta lagi með næstu Alþingiskosningum.

Aðeins þingmennirnir Björn Valur Gíslason og Þráinn Bertelsson vilja helst halda áfram að óbreyttu. Steingrímur J Sigfússon er í fríi og vill ekki veita viðtal."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband