Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2012

Sema Erla um ESB-moldrokið

Sema Erla Serdar, verkefnastjóri hjá Já-Ísland, skrifaði á DV-bloggið þann 13.ágúst, hugleiðingu vegna moldroksins sem verið er að þyrla upp vegna ESB-málsins. Hún segir:

"Mikið hefur farið fyrir umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu í fjölmiðlum síðustu daga og fara menn mikinn og segja umsóknina vera í „vonlausri stöðu" og „fresta ætti aðildarviðræðunum, nái ekki að klara þær fyrir kosningar". Er þetta komið til vegna ummæla tveggja ráðherra Vinstri Grænna um „endurskoðun á ESB-ferlinu" vegna „stöðunnar" í Evrópu. Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði við HÍ, tók síðar undir með ráðherrunum.

Því verður ekki neitað að Evrópa stendur nú frammi fyrir mestu erfiðleikum sem upp hafa komið í álfunni síðustu áratugi og óvissan er nokkur. Ísland hefur ekki verið nein undantekning á því. En gleymum því hins vegar ekki að samstarfið innan Evrópusambandsins er einmitt tilkomið vegna hamfaranna sem riðu yfir álfuna með tveimur heimsstyrjöldum.

Evrópusambandið var stofnað til þess að takast á við krísur og á því leikur enginn vafi að Evrópusambandið og Evrópa muni jafna sig á þessum erfiðleikum, en þetta er ekki í fyrsta skipti sem sambandið stendur frammi fyrir erfiðleikum, og eflaust ekki það síðasta. Óvissan er því einungis um hvernig. Framtíð Evrópu hefur alltaf verið óljós, framtíð Íslands er óljós, enda veit enginn hvað framtíðin ber í skauti sér. Það er þó engin ástæða til þess að fara að slíta viðræðum við Evrópusambandið, enda er framtíð okkar og annarra ríkja í Evrópu samtvinnuð."

 

 


ESB-málið og "peningarökin"

Skyndilega er ESB-málið orðið mál málanna aftur og sú umræða inniheldur alltaf "peningarökin" þ.e. þá afstöðu NEI-sinn að þetta ferli kosti svo ofboðslega mikið!

Á sama tíma og íslenskt efnahagslíf er í gjaldeyrishöftum og með (alþjóðlega séð) ónothæfan gjaldmiðil! Sem kostar þetta sama atvinnulíf langtum meira heldur en umsóknin að ESB - nokkurntímann!

Já, postular hins óbreytta ástands eru stundum beinlínis spaugilegir!


ESB-málið er galopið bændum!

Hliðar ESB-málsins geta hreinlega tekið á sig hinar afkáralegustu myndir. Nú kvartar Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks Framsóknar yfir því að hversu lítið samráð hafi verið haft við bændur í ESB-málinu.

Málið er hinsvegar að bændur hafa haft nákvæmlega sama aðgang að ESB-málinu og aðrir hagsmunahópar! Þetta kemur því úr hörðustu átt.

Bændur hafa hinsvegar "límt sig fasta" við varnarlínur, sem í raun þýddu að ESB-ætti nánast að taka upp landbúnaðarstefnu Íslands og þær voru látnar líta þannig út að nánast ógerningur var að ganga að þeim.

En þetta var að sjálfsögðu "taktík" Bændasamtakanna - sem gerði og það að verkum að þau máluðu sig út í horn í ESB-málinu! 

Í frétt á heimasíðu Bændablaðsins, segir í ályktun frá síðasta Búnaðarþingi: "

Aðildarviðræður við Evrópusambandið


Markmið: Búnaðarþing 2012 krefst þess að varnarlínur BÍ verði virtar í aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins. Stjórnvöld setji tafarlaust fram samningsmarkmið sem verndi með skýrum hætti hagsmuni íslensks landbúnaðar. 

Leiðir: Fulltrúar BÍ komi þessum skilaboðum búnaðarþings með skýrum hætti á framfæri í nefndarstörfum vegna ESB-umsóknar stjórnvalda. Stjórn BÍ komi þeim með sama hætti á framfæri við íslensk stjórnvöld og sendifulltrúa Evrópuríkja hérlendis

Framgangur: Stjórn BÍ er falið að vinna áfram að málinu af þunga." 

 

Takið eftir hinu athyglisverða rauða letri (ES-bloggið breytti!). Hafa bændur ekki komið þessu hressilega á framfæri? Það vita allir af þessum varnarlínum - yfir hverju eru menn að kvarta eiginlega? 

 


Vilja menn gömlu aðferðina?

Það eru s.s. engar fréttir að Evrópa, Bandaríkin og stór hluti hins alþjóðlega hagkerfis glíma við mikinn vanda um þessar mundir. 

Stöðugt er verið að finna lausnir og vinna í gangi til að takast á við vandann, og það er nú gert með því að funda um málin, en ekki með vopnaskaki, eins og hefði kannski verið gert einu sinni!

Að þessu hæðast menn á ákveðnum fjölmiðlum, sem eru á móti ESB-aðilidinni og tala í niðrandi tóni um neyðarfundi og þess háttar.

Vilja menn sem tala á þessum nótum tækla málin með "gömlu aðferðinni" ? 

Annars er nokkuð athyglisvert svar sem kom við fyrirspurn um ástandið í Grikklandi, sem kom frá Illuga Gunnarssyni fyrir þinglok. Spurningar Illuga voru þessar:

1.Hvaða undirbúningur hefur farið fram hjá stjórnvöldum vegna mögulegrar útgöngu Grikklands úr evrusamstarfinu og þeirra afleiðinga sem hún gæti haft? 

2.Hvaða vinnuhópar hafa verið stofnaðir í þessum tilgangi, hvernig eru þeir skipaðir og hver eru verkefni þeirra? 

3.Hefur málið verið tekið upp með formlegum hætti í ríkisstjórninni og ef svo er, þá hvenær? 

4.Hvernig er samráði við Seðlabanka Íslands vegna þessa háttað? 

 

Það verður að segjast eins og er að það sem kemur hér fram í svarinu um Bandaríkin og Bretland, verður að teljast athyglsivert. Bretland er jú með sjálfstæðan gjaldmiðil og ætti því að geta gjaldfellt hann. En það er nokkuð sem talsmenn krónunna telja mikinn kost við hana. Ekkert er hinsvegar í kortunum í Bretlandi sem segir að þar séu menn að velta fyrir sér gengisfellingu á pundinu.

Leturbreyting er ES-bloggsins.

Heildarsvarið er þetta: 

"1.     Hvaða undirbúningur hefur farið fram hjá stjórnvöldum vegna mögulegrar útgöngu Grikklands úr evrusamstarfinu og þeirra afleiðinga sem hún gæti haft? 

    Stjórnvöld fylgjast grannt með alþjóðlegri efnahagsþróun og ekki síst í okkar helstu viðskiptalöndum. M.a. hefur fulltrúi efnahags- og viðskiptaráðuneytisins í Brussel fylgst með fundum og umræðum á vettvangi Evrópusambandsins. Reglubundið er farið yfir þróun efnahagsmála í umheiminum í ráðherranefnd um efnahagsmál þar sem embættismenn ráðuneyta, forstjóri Fjármálaeftirlitsins og seðlabankastjóri hafa gert grein fyrir mati á stöðunni á evrusvæðinu. Í grófum dráttum er matið eftirfarandi:

    Í sumum aðildarlöndum Evrópusambandsins fara saman alvarleg bankakreppa og ríkisfjármálakreppa og flest bendir til að kreppan sé að að herða tök sín á evrusvæðinu. Staða ríkja innan evrusvæðisins er þó mjög misjöfn og því reynir á samstarfsvilja landanna við lausn vandans eins og m.a. hefur komið fram í umfjöllun um Grikkland og Spán. Í Bandaríkjunum eru nokkur batamerki, en atvinnuleysi er enn mikið og skuldir ríkissjóðs áhyggjuefni. Bakslag gæti því komið í efnahagsbatann í Bandaríkjunum ef vandinn í Evrópu vindur enn meira upp á sig. Skuldir og halli á rekstri hins opinbera í Bandaríkjunum eru raunar meiri en á evrusvæðinu. Sama á við um Bretland. Sterk tengsl fjármálakerfisins bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi við Evrópu valda því að markaðir í þessum löndum, t.d. hlutabréfamarkaðir, eru næmir fyrir ástandi og þróun mála þar. Því er líklegt að alvarleg kreppa í Evrópu verði jafnframt alþjóðleg kreppa. Vegna þess að kreppur af því tagi sem nú herja á mörg Evrópulönd ráðast af flóknu samspili efnahagslegra og pólitískra þátta eru þær lítt fyrirsjáanlegar. Áhrifin á íslenskt efnahagslíf eru að mörgu leyti óljós en vel fjármagnaðir viðskiptabankar og höft á fjármagnsflutninga draga verulega úr líkum á alvarlegum fjármálalegum óstöðugleika. Samið hefur verið um lengingu lána ríkissjóðs og gjaldeyrisforðinn er mikill sem hvort tveggja stuðlar að stöðugleika. Dýpkandi kreppa í okkar mikilvægustu viðskiptalöndum mun þó óumflýjanlega hafa neikvæð áhrif á innlendan hagvöxt og getur þar með gert örðugra að aflétta gjaldeyrishöftunum.

    *     Fjármögnun ríkissjóðs er enn viðkvæm fyrir áföllum en staða ríkissjóðs er rúm og ekki þörf fyrir endurfjármögnun næstu missirin. 

    *     Efnahagsreikningar innlendra fjármálastofnana eru að mestu leyti í íslenskum krónum í formi innlána. Bein áhrif af stöðu mála á erlendum mörkuðum verða því takmörkuð. 

    *     Fjárfesting lífeyrissjóða erlendis hefur legið niðri frá haustinu 2008. Eignir sjóðanna hafa aukist um tæpan þriðjung en hlutfall erlendra eigna hefur lækkað um 12% frá sama tíma. 

    *     Minnkandi eftirspurn á heimsmarkaði mun að öllum líkindum hafa áhrif á verðlag mikilvægustu útflutningsafurða, fiskafurða og áls. Mikilvægir markaðir fyrir fiskafurðir eru í löndunum í Suður-Evrópu sem nú eiga í mestum vanda. Ef samdráttur verður verulegur og langvarandi má búast við meiri áhrifum en í kjölfar fjármálakreppunnar 2008–2009. 

    *     Vaxandi hætta yrði á að áform um fjárfestingar í orkufrekum iðnaði og ferðamannaiðnaði festist sem aftur hefði neikvæð áhrif á aðra fjárfestingu. 

    *     Verði upplausn á evrusvæðinu má búast við verulegum samdrætti í kjölfarið. Ef efnahagslegur samdráttur á heimsvísu verður 5% má búast við að hagvöxtur á Íslandi minnki um a.m.k. 1% frá því sem ella hefði orðið. 

    *     Fjárfesting gjaldeyrisforðans byggist á mjög varfærinni stefnu og gjaldeyrisjöfnuður Seðlabankans er jákvæður, þ.e. eignir hans í erlendri mynt eru hærri en skuldir. 

    2.     Hvaða vinnuhópar hafa verið stofnaðir í þessum tilgangi, hvernig eru þeir skipaðir og hver eru verkefni þeirra? 

    Sérstakir vinnuhópar hafa ekki verið settir á stofn af þessu tilefni, en allt hefðbundið viðbúnaðarkerfi virkjað. Ráðherranefnd um efnahagsmál fylgist reglubundið með framvindu mála, m.a. með því að fá mat fagstofnana á þjóðhagslegum áhrifum þróunarinnar í Evrópu. Milli Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins er skilgreint og náið samstarf varðandi fjármálastöðugleika. Umboð nefndar um fjármálastöðugleika hefur nýlega verið endurnýjað á grunni nýrrar verklýsingar og verður málið einnig til umfjöllunar á þeim vettvangi. Stýrihópur um losun gjaldeyrishafta, sem í eiga sæti ráðherrar efnahags- og viðskiptamála og fjármála ásamt seðlabankastjóra og forstjóra Fjármálaeftirlitsins hefur fjallað um málið og samráðs er gætt á þeim vettvangi. Áhersla er lögð á að vakta þróunina sem best og að fyrir liggi skýr ábyrgð á viðbrögðum hjá þeim aðilum sem tilgreindir hafa verið og koma að mismunandi þáttum málsins. Sérstakir vinnuhópar til að fjalla um tiltekna þætti kunna að verða settir á laggirnar en enn sem komið er hefur það ekki þótt tímabært.

    3.     Hefur málið verið tekið upp með formlegum hætti í ríkisstjórninni og ef svo er, þá hvenær? 

    Já, málið hefur verið tekið upp í ríkisstjórn og var síðast rætt á fundi hennar hinn 5. þ.m.

    4.     Hvernig er samráði við Seðlabanka Íslands vegna þessa háttað? 

    Seðlabanki Íslands hefur það hlutverk að uppfæra stöðugt mat sitt á þjóðhagslegum áhrifum fjármálakreppunnar á evrusvæðinu. Bankinn hefur tekið saman og kynnt minnisblöð um hugsanleg áhrif fjármálakreppunnar á evrusvæðinu í ráðherranefnd um efnahagsmál og jafnframt gert minnisblöð um fjármagnshöftin og afnámsáætlun og rætt í stýrihópi um það efni. Seðlabankastjóri, eftir atvikum ásamt aðstoðarseðlabankastjóra, hefur mætt á fundi þar sem um þessi mál er fjallað að viðstöddum ráðherrum og embættismönnum." 


Kosið um ESB: Bryndís Pétursdóttir í FRBL

Bryndís Pétursdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur, skrifaði í byrjun ágúst tölfræðilega þétta grein um ESB og segir meðal annars:

"Kosið var um aðild að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu í fjórtán aðildarríkjum sambandsins af 27. Þessi ríki eru Danmörk og Írland árið 1972, Austurríki, Finnland og Svíþjóð árið 1994 og Eistland, Lettland, Litháen, Malta, Pólland, Slóvakía, Slóvenía, Tékkland og Ungverjaland árið 2003.

Í flestum ríkjum voru niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar afgerandi. Aðild hefur oftast verið samþykkt með 60-90 prósentum atkvæða og kosningaþátttaka hefur almennt verið góð. Nokkur ríki skera sig þó úr hvað þetta varðar. Þannig var aðild samþykkt með litlum meirihluta í Svíþjóð (52,3%), Möltu (53,6%) og Finnlandi (56,9%) en kjörsókn í þessum ríkjum var góð (70-90%). Í öðrum ríkjum var stuðningur við aðild að ESB hins vegar afgerandi en kjörsókn lítil. Þannig var aðild samþykkt í Ungverjalandi með 83,3% atkvæða en aðeins 45,6% kjörsókn, í Slóvakíu með 93,7% atkvæða og 52,1% kjörsókn og í Tékklandi með 77,3% atkvæða og 55,1% kjörsókn. "

Evrópa unga fólksins í FRBL

Evrópumálin hafa víða skírskotun, það sést best í grein sem Guðmundur Ari Sigurjónsson Nemi í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ skrifar í FRBL þann 7.8 um Evrópu unga fólksins:

"Evrópa unga fólksins eða EUF er styrkjaáætlun sem ætluð er ungu fólki á aldrinum 13-30 ára og þeim sem starfa með ungu fólki. EUF býður upp á sjö tegundir styrkja sem allir eiga það sameiginlegt að snúa að ungu fólki. Þessir sjö flokkar eru: ungmennaskipti, frumkvæði ungs fólks, lýðræðisverkefni, sjálfboðaliðastarf, þjálfun og samstarf, fundir ungs fólks og námskeið í Evrópu.

Ég hef tekið þátt í þremur námskeiðum sem ætluð voru fólki sem vinnur með ungu fólki og tekið þátt í tveimur ungmennaskiptum. Fyrsta námskeiðið sem ég fór á hét ATOQ og var haldið í Frakklandi. Námskeiðið var fyrir starfsfólk sem hafði haldið utan um ungmennaskipti og var kafað á dýptina um það hvernig hægt er að auka gæði ungmennaskipta. Á þessu námskeiði voru þjálfarar héðan og þaðan úr Evrópu og var námskeiðið frábær blanda af skemmtilegum æfingum, leikjum og fræðslu.

Næsta námskeið sem ég sótti hét How to Get in the Game og var það haldið í Berlín. Á þessu námskeiði voru saman komnir starfsmenn í æskulýðsgeiranum, ungir frumkvöðlar og ungir listamenn. Markmiðið með námskeiðinu var að leiða saman þessa þrjá ólíku hópa og finna út hvernig þeir gætu unnið saman. Hvað æskulýðsstarfsmaðurinn gat gert fyrir ungt skapandi fólk og öfugt. Þar lærði ég fjölbreyttar aðferðir um hvernig hægt er að beita frumkvöðla- og nýsköpunarstarfi í starfi með ungu fólki. En eins og áður kom fram styður EUF frumkvæðisverkefni ungs fólks og því góður vettvangur til að beita frumkvöðlastarfi í tómstundastarfi."
 

Jón Sigurðsson um Framsókn - stöðu og horfur - á Pressan.is

Jón SigurðssonJón Sigurðsson, fyrrum formaður Framsóknarflokksins, vakti nýverið athygli fyrir pistil á www.pressan.is um Framsóknarflokkinn og stöðu hans nú. Hér fer maður með afburðaþekkingu á málefnum flokksins og kemur víða við.

Þar fjallar hann um Evrópumál innan flokksins, en eins og kunnugt er hefur flokkurinn kúvent í afstöðu sinni eftir að skipulagsfræðingurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, tók við stýrinu.

Jón segir forystu flokksins "hamslausa" gagnvart þeim sem eru jákvæðir gagnvart ESB og vilja t.d. klára samningaviðræðurnar:

"Það er ekkert nýtt að meirihluti Framsóknarmanna sé andvígur aðild. En málflutningur forystumanna flokksins nú er undarlega hamslaus og Evrópusinnum er ekki sýndur félagsandi innan flokksins. Þeim er vísað á dyr, svo sem dæmi um einn fyrrverandi þingmann flokksins sýnir."

Þetta eru nokkuð þung orð og gefa til kynna að umburðarlyndi sé ekki eitt af aðalsmerkjum flokksins um þesar mundir - það sé ein lína sem ráði ferðinni - og hún skuli ráða ferðinni. Enda hafa margir Evrópusinnaðir einstaklingar sagt sig úr flokknum. Umræðan um Evrópu er fyrirferðamikil í öðrum miðflokkum á Norðurlöndum, en ritara er ekki kunnugt um að þar hafi menn sagt sig úr flokkum af sömu ástæðum og Jón ræðir.

Óneitanlega gerir þetta Framsóknarflokkinn einsleitari og jafnframt ólýðræðislegri.


Evrópusamtökin í Staksteinum MBL

MBLEvrópusamtökin eru bara þó nokkuð upp með sér! Ekki áttum við von á því að um okkur væri fjallað í hinum merka dálki Morgunblaðsins, Staksteinum, en svo bregðast krosstré sem önnur tré. Þetta gerðist þann 8.ágúst.

Staksteinar eru sá staður í Morgunblaðinu þar sem vitnað er í helstu öfgamenn þessa lands, sem teljast til andstæðinga ESB og svo er þetta náttúrlega sá staður blaðsins, sem einnig notaður er til almenns skítkasts!

Að sjálfsögðu notar ritari Staksteina tækifærið til þess að kasta smá skít í Evrópusamtökin og sakar þau meðal annars um að vera ófrumleg og að það mesta sem komi hér fram, komi frá einhverju Brussel-liði (sem ritari Staksteina sér náttúrlega rautt yfir!). Við hér á þessu bloggi erum t.d. svo "ófrumleg" að við leyfum umræður um mál þau sem borin eru hér á borð. Það er annað en samtök Nei-sinna, sem keyra sitt lokaða blogg og loka fyrir alla almenna umræðu.

Þau vilja nefnilega líka loka fyrir þann möguleika að landsmenn fái að kjósa um aðildarsamning að ESB, þegar hann liggur fyrir!

Því má hinsvegar bæta við þetta að langmest af því sem hér birtist er úr hinni íslensku ESB-umræðu og úr helstu fjölmiðlum þessa lands, þar á meðal Morgunblaðinu. Það getur þó verið að ritari Staksteina hafi ekki tekið eftir því, er kannski bara upptekinn við að kasta skít á einhverja aðra.

Þetta er allt hinsvegar tilkomið vegna smá hnútukasts vegna einhverra anti-ESB límmiða sem Nei-samtökin eru að selja bændum á niðursettu verði. Oft veltir lítil þúfa stóru hlassi!

Svo ásaka Staksteinar Evrópusamtökin fyrir að vera á móti íslenskum bændum, sem er alrangt. Við hjá Evrópusamtökunum trúum því hinsvegar að margt gæti breyst til betri vegar í íslenskum landbúnaði, með aðild að ESB; t.d. í formi lægri vaxta, minni verðbólgu, stöðugri gjaldmiðils, aukinni nýsköpun og samkeppni og þess háttar.

En þetta eru væntanlega bara "smáhnetur" í huga Staksteina-ritara, þar er skítkastið jú í aðalhlutverki! 

Ps. Kannski fór það eitthvað fyrir hjartað á mönnum í Hádegismóum að við sögðum í gær að Morgunblaðið væri "kvótafjármagnað" - en er það ekki þannig?


Bara tímaspursmál!

EyjanÞetta var í raun aðeins tímaspursmál, en Eyjan segir frá: "Andlit Adolfs Hitlers er teiknað á holdgerving Evrópusambandsins í skopmynd í Morgunblaðinu í dag.

Höfundur myndarinnar er Helgi Sig en myndin birtist í fjögurra dálka plássi á blaðsíðu 8 í blaðinu í dag.

Myndin sýnir Evrópusambandið liggja á sófa í sálfræðiviðtali hjá sálgreini. Evrópusambandið er hauslaust en heldur á höfði Adolfs Hitlers í kjöltu sinni.

Adolf, tákngervingur Evrópusambandsins samkvæmt myndinni, er látinn segja: „Þetta byrjaði sem tollabandalag og þróaðist út í alræði evrunnar. Nú þegar þetta er allt að liðast í sundur er ég meira sorgmæddur en reiður. Myndirðu segja að aukin samþjöppun valds mundi hjálpa.“

Síðan segir á Eyjunni: "Það hefur löngum verið tabú í rökræðum og þjóðfélagsumræðu á Vesturlöndum eftir stríð að grípa til Hitlers-líkinga í málflutningi. Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, skrifar af öðru tilefni um Hitlers-líkingar á vef Evrópuvaktarinnar í dag og segir: „þegar andstæðingi er líkt við Adolf Hitler brestur grundvöllur málefnalegra umræðna.“"

Evrópu-andúðin ristir djúpt á hinu kvótafjármagnaða Morgunblaði!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband