Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

Krónan í DV: Stöðugur óstöðugleiki?

Það er óneitanlega svolítið skondið að fylgjast með skrifum um gjaldmiðil Íslands, krónuna. Í DV þann 21.1. er stutt frétt sem byggir á Greiningu Íslandsbanka: "Gengið er út frá því að gengi krónunnar haldi áfram að sveiflast eftir árstíðum en verði að öðru leyti nokkuð stöðugt."

Heitir þetta þá ekki stöðugur óstöðugleiki?

Ísland er sennilega eina landið í heiminum sem er með árstíðabundinn gjaldmiðill!


Össur um ESB-málið í Kastljósinu

RÚVÖssur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, ræddi ESB-málið í Kastljósinu þann 17.1, en eins og þeir sem fylgjast með fréttum vita, hefur málið verið rætt mjög mikið undanfarið. Össur telur t.d. nú að landúnaðarkaflinn verði auðveldari en menn bjuggust við, vegna sérstöðu Íslands, sem ESB-hefur viðurkennt.


SA: Gjaldeyrishöftin eru sem krabbamein í efnahagslífi Íslendinga!

Samtök atvinnulífsinsSamtök atvinnulífsins, SA, sendu frá sér þann 17.1 mjög kröftugt fréttabréf, en hluti þessi hljómar svona:

"Gjaldeyrishöftin eru sem krabbamein í efnahagslífi Íslendinga. Þau eru bein yfirlýsing og viðurkenning íslenskra stjórnvalda á því að íslenska krónan sé óáreiðanlegur gjaldmiðill sem beri að varast. Atvinnulífið og fjárfestar hljóta að taka mark á þessu og afleiðingin er eilífur gjaldeyrisskortur og þrýstingur á gengi krónunnar. Gera má ráð fyrir að gengi krónunnar í höftum fari stöðugt lækkandi, með árstíðabundnum sveiflum, en það veit ekki á gott fyrir verðbólguna. Við bætist að það mikla fé í eigu útlendinga sem haldið er föstu hér í landinu er á beit á íslenskum vöxtum og því stækkar sífellt vaxtareikningurinn sem erlendir aðilar senda þjóðinni.

Því hefur verið haldið fram að íslenska þjóðin rísi ekki undir þeirri skuldabyrði sem á henni hvílir vegna eigna erlendra aðila í íslenskum krónum. Því þurfi höftin. En vandamálið heldur bara áfram að vaxa með áframhaldandi höftum. Þannig er verið að hlaða mikla sprengju sem á endanum springur í andlitið á þjóðinni. Því þarf að afnema höftin hið allra fyrsta."

Í lokin segir: "Öll skilaboð um að ekki eigi að afnema gjaldeyrishöftin innan tilsetts tíma veikja tiltrú á Íslandi, bæði innan lands og utan, og vinna gegn því að hægt sé að byggja upp kröftugt og nútímalegt atvinnulíf hér á landi."

Og það versta er: Enginn hefur hugmynd um þá upphæð sem höftin hafa kostað íslenskt samfélag! En allir vita afleiðingarnar.


Næstum helmingur vill klára aðildarviðæður - könnun FRBL

PrósentÍ Fréttablaðinu þann 18.1 segir: "Um 36 prósent landsmanna vilja draga aðildarumsókn að ESB til baka og 49 prósent vilja að viðræðunum verði lokið. Rúm 15 prósent vilja gera hlé á viðræðum eins og Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur leggja til.

Tæpur helmingur landsmanna vill að aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið (ESB) verði lokið samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Þriðjungur vill draga umsóknina til baka og fimmtán prósent vilja gera hlé á viðræðunum og ákveða framhaldið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Alls sögðust 48,5 prósent þeirra sem afstöðu tóku til spurningarinnar vilja að aðildarviðræðurnar yrðu kláraðar og aðildarsamningurinn borinn undir þjóðaratkvæði. Um 36,4 prósent sögðust vilja að umsókn Íslands yrði dregin til baka."

Það eru því mun fleiri sem vilja klára málið, en ekki.


Vilhjálmur Egilsson: Allir í sama strögglinu

Í Morgunblaðinu þann 17.1 er verið að ræða "Beinu brautina" sem á að vera skuldaúrræði fyrir fyrirtæki. Blaðið ræðir við Vilhjálm Egilsson, framkvæmdastjóra SA, sem segir: "Þegar var farið út í þetta þá var verið að spá því að efnahagslífið væri að taka við sér og markaðsaðstæður að lagast. Síðan er staðan sú hér heima að fyrirtækin eiga almennt í sama strögglinu."

Hvernig var það - átti ekki krónan að bjarga öllu hér?

Og af hverju er skuldastaða fyrirtækjanna svona slæm? Krónan og hrun hennar?


Árni Þór Sigurðsson um ESB-málið á Smugunni

Árni Þór SigurðssonUmræðan um ESB-málið hefur verið sérlega lífleg eftir að ákveðið var að hægja aðeins á ferlinu, sem í raun og veru lá fyrir og hefur verið þekkt lengi. Andstæðingar aðildar og viðræðna blása úr nánast öllum skilningarvitum og froðufella næstum yfir málinu. Hávaðinn og lætin í málinu hafa kannski aldrei verið meiri en einmitt núna.

Einn angi af þessu máli er fordæmalaust framferði Jóns Bjarnasonar í Utanríkismálanefnd, þar sem hann, upp á sitt einsdæmi, myndaði nýjan meirihluta með Sjálfstæðisflokki og Framsókn. Á "Macchiavellísku" heitir þetta að stinga félaga sína í bakið!

Árni Þór Sigurðsson, félagi Jóns í VG og formaður Utanríkismálanefndar bloggar á Smugunni um þróun ESB-málsins og segir þar meða annars:

"Vinstrihreyfingin – grænt framboð, eins og aðrir þingflokkar, skipar fólki til verka eins og það er talið nýtast heildinni best og þingmenn sitja í þingnefndum fyrir hönd félaga sinna í þingflokknum. Mikilvægt er að þingmenn sýni félögum sínum í þingflokki trúnað og heilindi í störfum sínum og búi yfir félagsþroska. Ítrekaður misbrestur á því hlýtur að kalla á nýjar ákvarðanir þingflokksins, og ég fullyrði að allir þingflokkar hefðu við sömu aðstæður brugðist við með sambærilegum hætti, þótt etv. hefðu ekki allir boðið jafnvel og þingflokkur VG. „Strákarnir okkar“ hafa verið óþreytandi við að lýsa því einmitt hvað liðheildin skiptir miklu í liðsíþrótt eins og handboltanum. Stjórnmálastarfið á Alþingi snýst ekki síst um liðsheild. Sólospil er ekki til þess fallið að efla samheldni eða ná meiri árangri. Endalok Samstöðu, sem eru komin til vegna þess að stofnandi hennar getur ekki unnið með öðru fólki, eins og við í VG urðum áþreifanlega vör við, er nýjasta dæmið þar um."

Trúnaður og félagsþroski, einmitt!

Síðan segir Árni þetta:

"Hér má rifja upp að vissulega urðu umræður um það vorið 2009 hvort efna ætti til þjóðaratkvæðagreiðslu áður en sótt yrði um aðild. Tvær megin ástæður réðu afstöðu margra í þingflokki VG í því efni: í fyrsta lagi sýndu allar kannanir að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar var þeirrar skoðunar að það ætti að sækja um aðild að ESB; í öðru lagi töluðu helstu forystumenn NEI-hreyfingarinnar, þ.e. Heimssýnar, þ.á.m. þáverandi formaður, mjög ákveðið gegn tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu því líkur væru á að jákvæð útkoma úr henni (eins og allt benti til að yrði) myndi í raun binda hendur margra kjósenda í seinni atkvæðagreiðslunni. Þannig voru það ekki síst forystumenn Heimssýnar sem áttu ríkan þátt í þeirri afstöðu þótt þeir hafi nú snúið við blaðinu og kannist lítt við fyrri sjónarmið og kalli aðra svikara. Ekki stórmannleg framganga það."

Leturbreyting: ES-bloggið.


Sjúkdómsgreiningin staðfest: Skammdegisþunglyndi!

Ein krónaÍ frétt á RÚV segir: "Jón Bjarki Bentson,hagfræðingur greiningar Íslandsbanka, segir að það sé svona skammdegisþunglyndi sem grípi krónuna um þessar mundir, fyrstu mánuðir ársins séu erfiðir fyrir hana. Allt flæði frá ferðamannaiðnaðinum sé í lágmarki á sama tíma og afurðarverð hafi lækkað verulega á mörkuðum erlendis, sérstaklega þar sem Íslendingar eigi mikilla hagsmuna að gæta."

Við hér á ES-blogginu vorum einmitt á þessum nótum um daginn og er Greining Íslandsbanka greinilega alveg sammála okkur.

Getur alvöru, nútíma, efnahagskerfi haft gjaldmiðil sem er haldinn skammdegisþunglyndi?

Þarf viðkomandi gjaldmiðill ekki að vera stálsleginn allan ársins hring?


Andrés Pétursson í FRBL: Hvað meinar þú Ögmundur?

Andrés PéturssonAndrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, skrifaði grein í Fréttablaðið þann 17.1 um Evrópumálin. Greinin birtist hér öll með leyfi höfundar.

Hvað meinar þú Ögmundur?

Allt frá því að aðildarviðræður við Evrópusambandið hófust árið 2009 hafa andstæðingar aðildar reynt með alls konar brögðum að torvelda ferlið. Alls kyns gróusögum um ímyndaðar hindranir hefur verið haldið á lofti, meðal annars að Íslendingar þyrftu að senda hermenn í einhvern ímyndaðan Evrópuher og að landsmenn yrðu að breyta ýmsu í sinni stjórnsýslu áður en af aðild yrði. Eftir því sem viðræðunum hefur miðað áfram hefur komið í ljós að flestar ef ekki allar þessar flökkusögur hafa ekki átt við nein rök að styðjast.

Ein af lífseigustu sögunum hefur verið sú að það hafi skaðað hagsmuni Íslendinga að fara af stað í þennan leiðangur án nægjanlega sterks pólitísks baklands á Íslandi. Samhentari ríkisstjórn hefði sjálfsagt haldið betur á málinu en ég hef aldrei skilið þetta „bjölluats"-tal sem andstæðingar hafa klifað á. Staðreyndin er sú að Íslendingar uppfylla öll skilyrði Evrópusambandsins fyrir aðild, meðal annars að hér sé virkt markaðshagkerfi og virðing fyrir mannréttindum sé í hávegum höfð. Alþingi Íslendinga sótti um aðild með öruggum meirihluta. Þingið hefur einnig þegar einu sinni fellt tillögur um að hætta aðildarviðræðunum. Hvað er ekki rétt við þetta ferli?

Þvæla

Það væri óðs manns æði að reyna að leiðrétta alla þá þvælu sem öfgafyllstu andstæðingar aðildar hafa haldið fram. En þegar ágætlega vel gefnir menn eins og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra halda fram órökstuddum fullyrðingum um skaðsemi aðildarviðræðna þá verður maður að drepa niður penna. Í grein í Morgunblaðinu nýverið hélt ráðherrann því fram að Norðmenn hefðu skaðast af því að sækja um aðild. „Er það mál manna að Norðmenn hafi lengi þurft að súpa seyðið af því að draga ESB-ríkin á asnaeyrum," segir Ögmundur í greininni.

Ég fór því á stúfana og talaði við vini mína í norsku utanríkisþjónustunni og norska fræðasamfélaginu og spurði þá út í þessar yfirlýsingar. Einnig ræddi ég við embættismenn í íslenska utanríkisráðuneytinu. Enginn kannaðist við að Norðmenn hefðu verið látnir gjalda fyrir að fara í það lýðræðislega ferli að sækja um aðild að Evrópusambandinu og láta síðan norsku þjóðina kveða úr um það hvort landið yrði meðlimur eður ei. Í þessu sambandi má einnig benda á að ég spurði Joe Borge, fyrrum utanríkisráðherra Möltu, þegar hann var hér í heimsókn árið 2010 hvort það hefði skaðað hagsmuni Maltverja að umsóknarferli þeirra dróst mjög á langinn. „Nei, alls ekki. Evrópusambandið gengur út á pólitískar lausnir. Þeir hafa því mikinn skilning á að stundum þurfa þjóðir lengri tíma til að útkljá svona stórt pólitískt hitamál," var svar þessa reynda stjórnmálamanns.

Veit Ögmundur um einhver dæmi sem hann getur deilt með okkur hinum um þessi meintu vandamál Norðmanna? Ef ekki þá bið ég hann og aðra að ræða þetta mikla hitamál af yfirvegun en ekki sleggjudómum eða órökstuddum fullyrðingum.


Stjórnarformaður Orkuveitunnar:Mikill óstöðugleiki alvarlegt mál - þrátt fyrir höft!

Krónan kemur víða við, á visir.is stendur þetta í frétt:

"Miklir hagsmunir eru undir ef krónan heldur áfram að veikjast, eins og hún hefur gert að undanförnu. Stjórnarformaður Orkuveitunnar segir afar óheppilegt að búa við þann óstöðugleika sem einkennir gjaldeyrismarkað hér, þrátt fyrir höft, en Orkuveitan er eitt þeirra fyrirtækja sem á mikið undir því að krónan veikist ekki, vegna mikilla skulda í erlendri mynt.

Á síðustu vikum hefur gengi íslensku krónunnar verið að veikjast jafnt og þétt. Eins og fréttastofa hefur greint frá, veiktist gengið sérstaklega milli jóla og nýárs, eða um tæplega þrjú prósent á fimm viðskiptadögum. Seðlabankinn vann gegn veikingunni með inngripum upp á sex milljónir evra, eða ríflega milljarð króna.

Þrátt fyrir inngrip seðlabankans á Gamlársdag, þá hefur gengi krónunnar gagnvart evru haldist áfram að veikjast og, en samkvæmt opinberu gengi Seðlabanka Íslands er nú hægt að fá 171,4 krónur fyrir hverja evru. Um mitt síðasta ár var hægt að fá 157 krónur fyrir hverja evru.

Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður Orkuveitunnar, segir það vera alvarlegt mál hver mikill óstöðugleiki er á gjaldeyrismarkaði þrátt fyrir höftin, en Orkuveitan á mikla hagsmuni af því að krónan styrkist, en skuldir fyrirtækisins í erlentum myntum, hækka um milljarða í krónum talið fyrir hvert prósentustig sem krónan fellur í verði, en tekjur fyrirtækisins eru að mestu í krónum."


ASÍ: Verðbólgan rýrir kjörin,hækkar vexti og eykur skuldir - mest krónunni að kenna

Miðstjórn ASÍ hefur ályktað eftirfarandi:

"Miðstjórn ASÍ krefst þess að atvinnurekendur axli ábyrgð og haldi aftur af verðhækkunum. Geri þeir það ekki er einsýnt að framundan eru tímar óstöðugleika og átaka.

Miðstjórn ASÍ varar við þeim efnahagslega óstöðugleika sem hér ríkir. Gengi krónunnar hefur ekki verið lægra í tvö ár, verðbólgan mælist nú 4,2% og verðbólguhorfur eru óásættanlegar. Ástæður mikillar verðbólgu eru margar en hækkuð álagning í verslun og þjónustu, auknar álögur opinberra aðila og veikt gengi krónunnar skýra hana að mestu.

Verðbólgan er versti óvinur launafólks. Hún rýrir kjörin, hækkar vexti og eykur skuldir heimilanna. Samkvæmt gildandi kjarasamningum eiga laun almennt að hækka um 3,25% í byrjun febrúar. Helsta markmið kjarasamninganna var að auka kaupmátt alls launafólks. Það markmið er því miður ekki að nást.

Við þessa stöðu verður ekki unað. Það er ekki hægt að kasta öllum vanda og allri ábyrgð á launafólk. Miðstjórn ASÍ krefst þess að stjórnvöld og atvinnulífið komi fram af ábyrgð í þeirri erfiðu stöðu sem blasir við vegna endurskoðunar kjarasamninga. Ábyrgð atvinnurekenda er mikil en jafnframt verða stjórnvöld að standa við gefin fyrirheit, endurskoða stefnuna í gengis- og peningamálum og leggja þannig grunn að stöðugleika."

Feitletrun: ES-bloggið


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband