24.7.2010 | 15:09
Að sigla milli skers og báru?
Það er athyglisvert að lesa ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í frétt MBL um ummæli Össurar Skarphéðinssonar þess efnis að stuðningur við ESB-aðild meðal þingmanna fari vaxandi. Það kom fram í annarri frétt um málið.
Í frétt MBL segir: "Það kemur mér á óvart. Mér hefur heyrst þróunin frekar vera hinu megin. Ég veit ekki hvað hann hefur fyrir sér í því, segir Sigmundur Davíð. Menn eins og Ögmundur Jónasson og Lilja Mósesdóttir hafa frekar verið að herðast í andstöðu en hitt.
En hvað finnst Sigmundi sjálfum? Hvoru megin er hann, já-megin eða nei-megin?
Næstum ekkert hefur heyrst í Sigmundi um Evrópumálin frá því að hann tók við stýrinu í flokknum.
Það hlýtur að teljast merkilegt. Eða er hann bara að reyna eftir fremsta megni að sigla milli skers og báru í Evrópumálunum?
Er ekki tími til kominn að Sigmundur sýni nú lit og fari að ræða Evrópumálin og allt sem sem þeim tengist.
En ekki bara að tala um hvað aðrir segja og gera!
24.7.2010 | 09:14
Þorsteinn Pálsson: Heimilin lifa við óhagræði krónunnar, meðan útgerðarftrirtækin gera upp í Evrum
Í Kögunarhólspistli sínum í dag skrifar Þorsteinn Pálsson, fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins:
"Fjármálaráðherra og talsmenn Heimssýnar keppast við að sannfæra almenning um að sjávarútvegur og landbúnaður geti lagt til þann hagvöxt sem þörf er á til að fjölga störfum um tuttugu þúsund og bæta lífskjörin. Þetta eru fölsk fyrirheit.
Þau virðast vera gefin í þeim eina tilgangi að telja fólki trú um að unnt sé að nota krónuna sem framtíðarmynt. Ljóst má þó vera að vegna náttúrulegra takmarkana verður sjávarútvegurinn ekki uppspretta hagvaxtar. Af sömu ástæðu verða ekki til ný störf þar. Þverstæðan lýsir sér svo í því að útvegsmenn gera bókhaldið upp í erlendri mynt.
Fjölgun starfa verður á nýjum sviðum iðnaðar og þjónustu. Til þess að vænta megi fjárfestinga á nýjum sviðum þarf traust á peningakerfinu. Ríkisstjórnin er klofin um markmið og leiðir í þeim efnum. Eigi krónan að verða nothæf þarf margvíslegar ráðstafanir sem aftur rýra lífskjörin enn frekar.
Um það þegja flestir þunnu hljóði. Framsóknarflokkurinn birti þó mjög upplýsandi skýrslu um þann veruleika fyrir tveimur árum.
Sjálfstæðisflokkurinn og VG ætla að treysta á krónuna til frambúðar. Á sama tíma hafna útvegsmenn henni vegna óhagræðis. Þeir ætlast hins vegar til að heimilin sætti sig við það óhagræði."
Sjá í Fréttablaðinu í dag
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (55)
24.7.2010 | 08:57
Þýskaland komið á "autobanann" ? Mikil fart á Bretum!
Deutsche Welle greinir frá því að könnun sem IFO-stofnunin hefur gert meðal 7000 aðila úr þýska viðskiptalífinu, sýnir mestu aukningu á því sem er kallað "business-confidence" í yfir 20 ár, eða frá því Þýskaland var sameinað.
Hugtakið vísar til væntinga innan viðskiptalífsins og má segja að þær séu mjög jákvæðar um þessar mundir í Þýskalandi.
Á sérstökum IFO-kvarða, sem er notaður stigu væntingarnar úr tæpum 101 stigi, í rúmlega 106 stig. Sérfræðingar höfðu hinsvegar búist við lækkun á kvarðanum.
Rekja má þetta mikla stökk til mikillar aukningar í útflutningi í Þýskalandi og minnkandi atvinnuleysis á undanförnu ári.
Það virðist því vera sem að það sé góður gangur í "mótornum í Evrópu!"
Viðbót: Hagvöxtur í Bretlandi hefur einnig tekið verulegan kipp samkvæmt fréttum, m.a. þessari hérna frá Bloomberg:
"The British economy grew at the fastest pace in four years in the second quarter and German business confidence surged to a three-year high this month, indicating Europes recovery may be stronger than forecast.
U.K. gross domestic product rose 1.1 percent in the three months through June, almost twice as fast as the 0.6 percent gain predicted by economists in a Bloomberg News survey, the Office for National Statistics said in London today."
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 15:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2010 | 03:42
Þetta sagði Bjarni Benediktsson þá!
Og meira af Sjálfstæðisflokknum, nú formanninum Bjarna Benediktssyni (BB).
Hann ritaði ásamt Illuga Gunnarssyni grein í Fréttablaðið þann 13.desember 2008. Báðir þingmenn á þeim tíma.
Kíkjum aðeins á hana:
Byrjunin:
"Á andartaki færðumst við Íslendingar úr því að vera í fremstu röð þjóða hvað lífsgæði áhrærir yfir í að leita alþjóðlegrar ásjár til þess að koma landinu úr efnahagslegri herkví og gera gjaldmiðilinn gjaldgengan."
Hér kemur svo afar athyglisverður hluti (leturbreyting, ES-blogg):
"Vandi smárrar myntar
Vegna þeirra efnahagserfiðleika sem fram undan eru er mjög kallað eftir því að stjórnmálaflokkar móti sér sýn og stefnu sem stýrt geti för næstu misseri og ár. Í ljósi aðstæðna er eðlilegt að sú umræða hverfist einkum um peningamálastefnuna, valkosti í gjaldmiðilsmálum og ríkisfjármálin. Peningamálastefnan er ein af grunnstoðum efnahagsstefnu hvers ríkis og traustur gjaldmiðill gegnir lykilhlutverki við mótun og framkvæmd slíkrar stefnu.
Íslenska krónan er smá og viðkvæm fyrir ytri áhrifavöldum. Á undanförnum árum hafa miklar sveiflur í gjaldmiðlinum valdið fyrirtækjum og heimilum verulegum vanda. Veik staða krónunnar um þessar mundir er okkur reyndar mikilvæg og verður það áfram á næstunni til þess að reisa hagkerfið við, því lágt gengi styrkir útflutninginn og veitir innlendri framleiðslu vernd. Þar með verndum við störfin og aukum framleiðsluna. Ýmis rök hníga því að því að krónan geti hentað okkur ágætlega til skamms tíma.
En sé horft til lengri tíma er hætt við að krónan verði okkur fjötur um fót. Sá sveigjanleiki sem krónan veitir okkur til að kljást við afleiðingar mistaka í hagstjórn eða til að bregðast við ytri áföllum á sér því miður þá skuggahlið að vera sveifluvaldandi og geta ýtt undir óstöðugleika í hagkerfinu. Óstöðugur gjaldmiðill dregur úr trausti á hagkerfinu og þar með möguleikum okkar á að nýta til fulls þau tækifæri sem felast í innri markaði Evrópu, laða til okkar fjárfestingar og hámarka samkeppnishæfni atvinnulífsins. Vöxtur nýrra atvinnugreina og fyrirtækja sem starfa að stórum hluta erlendis en eiga höfuðstöðvar hér á landi takmarkast mjög af stærð myntarinnar og því óöryggi sem af henni hlýst. Ekki verður horft fram hjá þeim veikleikum sem felast í smæð myntkerfisins. Meira að segja Bretar velta því nú fyrir sér hvort myntsvæði þeirra sé of lítið til að tryggja samkeppnishæfni þjóðarinnar. Það kemur því ekki á óvart að forystumenn íslensks atvinnulífs leggi um þessar mundir vaxandi áherslu á að mótuð verði stefna í gjaldmiðilsmálum á nýjum forsendum. Leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar hafa á sama tíma sannfæringu fyrir því að án nýs gjaldmiðils muni ekki takast að verja stöðugleika og þar með kaupmátt almennings.
Með upptöku nýs gjaldmiðils verða ekki öll hagstjórnarvandamál okkar leyst, langur vegur er þar í frá. Það er sanni nær að í slíkri ákvörðun felist að setja stöðugleikann í forgang og sætta sig við að geta ekki mætt sveiflum í hagkerfinu með aðlögun gengisins. Rangt væri að gera lítið úr þeirri fórn. Þeir sem um þessar mundir mæla fyrir Evrópusambandsaðild nefna einkum ávinning af upptöku evrunnar og kosti samstarfsins innan Myntbandalagsins máli sínu til stuðnings. Það má til sanns vegar færa að evran er að sumu leyti heppilegur valkostur fyrir okkur Íslendinga sem framtíðargjaldmiðill, en aðrir kostir í þeim málum hljóta jafnframt að koma til skoðunar. Evrópusambandsaðild er hins vegar miklu stærra og flóknara mál en svo að hægt sé að láta það ráðast af gjaldmiðlinum einum. Með í kaupunum fylgja ýmsir aðrir þættir, sumir jákvæðir en aðrir neikvæðir og þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn talið vega svo þungt, að hagsmunum þjóðarinnar væri betur borgið utan ESB en innan. Þessi afstaða hefur átt samhljóm meðal þjóðarinnar enda ESB aðild aldrei verið kosningamál hér á landi.
Þrátt fyrir efnahagslega erfiðleika á Íslandi er ljóst að ekkert hefur breyst varðandi þau grundvallaratriði sem um er að semja í aðildarviðræðum við ESB. Allt sem sagt hefur verið um ókosti sjávarútvegsstefnu ESB, áhrif á utanríkis- og öryggismál okkar og frekara framsal á fullveldi okkar á jafnt við nú og fyrir hrun bankakerfisins eða fall gjaldmiðilsins. En færa má fyrir því rök að kostir myntsamstarfs við ESB hafi vegna aðstæðna öðlast nýtt og aukið vægi. Með vísan til þess og þeirra straumhvarfa sem orðið hafa í efnahagslegu tilliti er því skynsamlegt að fara að nýju yfir það hagsmunamat sem ráðið hefur afstöðu Sjálfstæðisflokksins til þessa, með sérstaka áherslu á framtíðarstefnu í peninga- og gjaldmiðilsmálum.
Þjóðaratkvæðagreiðsla
Verði það niðurstaða endurmats Sjálfstæðisflokksins að hagsmunum þjóðarinnar sé enn betur borgið utan ESB væri það engu síður mjög í samræmi við ríka lýðræðishefð í Sjálfstæðisflokknum að láta málið ganga til þjóðarinnar í kjölfar viðræðna, þar sem ýtrustu hagsmuna hefur verið gætt. Varðstaða um auðlindir þjóðarinnar skiptir þar höfuðmáli.
Ljóst er að hér er um að ræða mál sem gengur þvert á flokkslínur. Aðrir flokkar hafa hver með sínum hætti opnað á að virkja beint lýðræði til lausnar á aðildarspurningunni og það gengur gegn kjarna sjálfstæðisstefnunnar að flokkurinn leggi stein í götu slíkrar leiðar. Óumdeilanlegt er að staða okkar í alþjóðlegu samstarfi og innan Evrópusamstarfsins mun hvíla á sterkari grunni að loknu slíku ferli. Hér ber einnig að líta til þess að samningur við ESB er hinn endanlegi úrskurður um þær reglur og undanþágur sem gilda eiga við inngöngu Íslands í ESB. Þó að meginlínurnar um þessi efni séu skýrar er viðvarandi ágreiningur um ýmsa mikilvæga þætti, svo sem mögulega stjórn Íslendinga á sérstökum fiskveiðisvæðum, yfirráð veiðiheimilda úr staðbundnum stofnum, heimildir til takmarkana á fjárfestingu og fjölmörg fleiri atriði.
Þær sérstöku aðstæður sem nú eru uppi kalla á að þjóðin öll taki í kjölfar aðildarviðræðna ákvörðun um þetta mikilvæga mál. Ræður þar úrslitum að halda ber á hagsmunum Íslendinga gagnvart Evrópusambandinu með það að leiðarljósi að sem víðtækust sátt og samstaða takist um niðurstöðuna."
Er þetta sami maðurinn sem vill núna draga umsóknina að ESB til baka? Getur hann ekki staðið fyrir þessar skoðanir sem hann setur hér fram ásamt Illuga? Hvað var það sem olli slíkri umpólun sem raun ber vitni? Er það að hafa orðið formaður Sjálfstæðisflokksins? Sér BB kannski eftir því núna að hafa skrifað greinina?
Það er margt skrýtið í henni veröld!
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 03:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.7.2010 | 03:09
Sjálfstæðisflokkurinn: Enn grínistar innanborðs!

23.7.2010 | 09:09
Volvo (flutningabílar) í uppsveiflu - eftirspurn eykst
Ýmis teikn eru á lofti um að eftirspurn í hagkerfum heimsins sé að aukast. Eitt slíkt dæmi er að finna í dag í Financial Times. Þar segir blaðið frá aukinni eftirspurn og sölu á Volvo vöruflutningabílum. Hagnaður var af rekstri fyrirtækisins fyrstu 6 mánuði þessa árs, eftir mikla niðursveiflu á síðasta ári.
Það eru markaðir í Asíu og S-Ameríku sem að mestu standa fyrir aukinni eftirspurn.
Volvo spáir einnig aukningu í Evrópu og Bandaríkjunum á seinni helmingi ársins, samkvæmt forstjóranum Leif Johansson.
Volvo er annars stærsti framleiðandi á vöruflutningabílum í heiminum, á eftir þýska Daimler/Benz.
Uppsveiflan hjá Volvo hefur m.a. leitt til aukinna ráðninga hjá fyrirtækinu.
Frétt FT (þarf aðgang)
23.7.2010 | 08:53
Orri Hauksson arftaki Jóns Steindórs hjá Samtökum iðnaðarins
Orri Hauksson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins (SI) í stað Jóns Steindórs Valdimarssonar, sem lét þar af störfum fyrir skömmu.
Orri mun hefja störf í ágúst. Í frétt á vef SI segir orðrétt:
"Orri Hauksson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Hann er 39 ára vélaverkfræðingur frá Háskóla Íslands og MBA frá Harvard Business School.
Orri hefur gegnt ýmsum stjórnunarstöðum og hefur undanfarin ár sinnt fjárfestingum og setið í stjórnum nokkurra fyrirtækja fyrir hönd Novator, aðallega á sviði fjarskipta og hreinna orkugjafa í Bandaríkjunum og á Norðurlöndum. Hann var áður framkvæmdastjóri þróunarsviðs Símans. Orri var aðstoðarmaður forsætisráðherra árin 1997 til 2000."
Evrópusamtökin óska Orra velfarnaðar í nýju starfi.
23.7.2010 | 02:40
0.27% stuðningur - bréf frá samtökum Nei-sinna sent á alla þingmenn Evrópuþingsins
Íslenskir Nei-sinnar berjast eins og naut í flagi gegn því að fylgt verði eftir þeirri lýðræðislegu ákvörðun frá því í fyrra að sækja um aðild að ESB. Þeir biðla m.a. til annarra Nei-sinna erlendis um stuðning, þar á meðal tveggja harðsoðinna íhaldsmanna, Daniel Hannan og Nigel Farage (mynd), sem báðir eru þingmenn á Evrópuþinginu (MEP).
Íslenskir Nei-sinnar hafa m.a. sent hinum síðarnefnda bréf, en DV fjallar um þessa sendingu í gær.
Farage er formaður UK Independence Party, sem er pínulítill flokkur lengst, lengst til hægri í breskum stjórnmálum. Þetta er svokallaður "nokkurra-prósenta-flokkur", þ.e. hann hefur nánast ekkert fylgi (fékk 3.5% í síðustu kosningum!)
En Farage stofnaði þennan flokk, eftir að hafa farið í fýlu vegna þess að John Major, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, skrifaði undir Maastricht-sáttmála ESB.
Íslenskir Nei-sinnar sækja sér s.s. skjól hjá mönnum sem þessum.
Farage og Hannan eru tveir af 736 þingmönnum Evrópuþingsins og þeir tveir sem berjast gegn aðild Íslands að ESB. Þetta gerir um 0.27% stuðning við það að Ísland gangi ekki í ESB á Evrópuþinginu!
Sýnir fyrst og fremst mikla örvæntingu og hræðslu Nei-sinna við það að aðildarferlið fari í gang og að Ísland fái hagstæðan samning, sérstaklega varðandi sjávarútvegsmál.
Því þá eru yfir 70% fylgjandi aðili, eins og kom ekki fram í könnun sem MBL lét gera fyrir sig um daginn (sjá hér).
23.7.2010 | 02:03
Jóhann Hauksson: Ömurleg stjórnmál
Jóhann Hauksson, blaðamaður á DV skrifar harðorðan pistil á DV-bloggið í gær, sem hefst svona:
" Svo er að sjá sem deild þjóðernisofstækismanna í Sjálfstæðisflokknum hafi náð undirtökunum í Heimssýn, samtökum andstæðinga aðildar að Evrópusambandinu.
Frjáslyndir Sjálfstæðismenn láta traðka á sér endalaust meðan Björn Bjarnason, Styrmir Gunnarsson og aðrir þjóðernissinnar pakka í vörn fyrir séreignarhald stórauðvaldsins á auðlindum þjóðarinnar og rækta útlendingahatur. Slík varðstaða er raunar partur af skilgreiningunni á fasisma.
Undan þessu eru flúin og hrakin Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Illugi Gunnarsson og fleira upplýst fólk á hægrivæng stjórnmálanna. Þreyttur en umburðarlyndur situr Benedikt Jóhannesson uppi með samtök sín Sjálfstæða Evrópumenn sem virðist um megn að breyta atburðarásinni. Frændi hans, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, neyðist til að bera fram tillögu á haustþingi í anda landsfundarsamþykktar um að slíta aðildarviðræðum að ESB.
Þetta eru ömurleg stjórnmál.
Barnalegu fautarnir í þingflokki VG láta sér vel líka þessa þróun í átt til þjóðernisfasisma og rækta hatur sitt í garð Samfylkingarinnar. Þeir eru á móti einu lausninni sem gæti hugsanlega viðhaldið sjálfstæði þjóðarinnar. Undarlegt nokk felst hún í aðild að Evrópusambandinu. Þeir eru á móti upptöku evrunnar sem komið gæti okkur undan drápsklyfjum krónunnar og herkostnaðinum sem henni fylgir. Þeir eru á móti skynsamlegri nýtingu auðlindanna. Þeir eru á móti eðlilegri samkeppni í sjávarútvegi sem felst í róttækri uppstokkun kvótakerfisins.
ÞEIR ERU Á MÓTI!"
22.7.2010 | 13:27
Benedikt um Daniel Hannan ("aka" Agúrkumaðurinn)
Benedikt Jóhannesson, framkvæmdastjóri og einn stjórnarmanna í SJÁLFSTÆÐIR EVRÓPUMENN, skrifar pistil á vefsvæðinu www.heimur.is um heimsókn Evrópuþingmannsins Daniel Hannan, hér um daginn. Benedikt er góður penni og skemmtilegur aflestrar.
Pistill Benedikts er svona:
Heimsókn agúrkumannsins Daniel Hannan
Daniel Hannan Evrópuþingmaður og Íhaldsmaður frá Englandi kom hingað til lands í síðustu viku. Hann hitti marga á fundum og mér gafst færi sem ég þáði á því að ræða við hann.
Heimdallur stóð líka fyrir opnum fundi sem ég sótti. Mér fannst gaman að því að við innganginn stóð Ragnar Arnalds og bauð mig velkominn í hópinn, en ég hafði ekki áttað mig á því að Ragnar væri Heimdellingur. Enginn vafi er á því að nánast allir sem á fundinum voru höfðu fyrirfram ákveðnar skoðanir um málin og Hannan reyndist létt að spila inn á Evrópuandúð fundarmanna.
Hannan er mælskumaður og hefur lag á að koma fundarmönnum í stuð og margoft var klappað. Hann sagði margt áhugavert þó að flest sé hafi reyndar verið mælskubrögð og ýmislegt sem erfitt er að sannreyna. Hann tók það fram, bæði á skrifstofunni hjá mér og á fundinum að hann talaði bæði frönsku og spænsku. Það er líka tekið fram á heimasíðunni hans. Hann fékk ekki að vita hvaða tungumál ég tala eða skil.
Hann kvartaði undan því að reglugerðir streymdu frá Evrópusambandinu á ógnarhraða. Íslendingar munu taka upp eina Evrópureglu á dag að jafnaði en þær eru miklu fleiri sem við tökum ekki upp, einkum í landbúnaði. Það er athyglisvert að hann nefndi sem dæmi ýmsar reglur sem hann hrósaði, en taldi að prinsippið ætti að vera að löndin ákvæðu þetta sjálf.
Eitt dæmið var um að börn ættu að nota bílstóla þar til þau næðu ákveðinn hæð eða yrðu tólf ára. Hann lét þess ekki getið, en hæðin er 135 sm sem flest börn ná þegar þau eru níu ára. Ég sagði honum að þetta væri ekki vandamál á Íslandi því að við gæfum börnum að borða. Ég fletti reglugerðinni upp og eftir fimm ára aldur er nóg að hafa sessu. Á fundinum talaði hann bara um reglugerðina sem skikkaði tólf ára börn í bílstóla.
Hannan taldi miklu betra fyrir Breta að eiga viðskipti við Nýja Sjáland en Evrópulönd vegna þess að lagaumhverfi Nýsjálendinga væri svo svipað og í Englandi. Ég spurði hann hvort það væri ekki einmitt tilgangurinn með Evrópusambandinu að samræma reglur þannig að auðvelt væri að eiga viðskipti. Hann svaraði því ekki.
Þingmaðurinn sagði að Bretar hefðu átt 65% af fiski í Norðursjó þegar þeir gengu í Efnahagsbandalagið, hefðu fengið 25% og 15% af verðmæti. Þetta hefði verið kallað aðgöngumiðinn að félaginu. Ekki veit ég hvað er til í þessu.
Hann sagði frá því að hann byggist við að Íslendingum yrði boðinn viðauki við samninginn þar sem þeim yrði lofað fullum yfirráðum yfir fiskimiðunum, en þegar fyrsti spænski fiskimaðurinn færi með má fyrir Evrópudómstólinn yrði viðaukinn felldur úr gildi. Samningur myndi alls ekki standast nema fiskveiðistefnunni yrði breytt allri. Boðskapurinn var sá að jafnvel góður samningur væri einskis virði því honum yrði kollvarpað af dómstólum.
Oft var hlegið og klappað á Heimdallarfundinum, en þó ekki þegar Hannan sagði að eðlilegast væri að ljúka viðræðunum og greiða svo atkvæði um samninginn. Ekki láta málið hanga yfir sér endalaust. Margir fundarmanna hafa eflaust staðið að ályktun á landsfundi um að draga bæri umsóknina tilbaka og voru ekki upprifnir yfir þessari uppástungu. Hannan sagðist tilbúinn að aðstoða Íslendinga við að gera eins góðan samning og gott væri. Ég sagði honum að það væri mikilvægt að hafa svona ráðgjafa sem væri viss um að ætti að plata okkur, fremur en einhvern sem fyndist geislabaugur yfir öllu evrópsku.
Á fundi okkar sagði hann að Íslendingar ættu alls ekki að taka upp evru, veikustu mynt í heimi. Frekar dollar, pund, norska eða danska krónu (sem er evra í dulargerfi. Ég sat á mér að nefna færeysku krónuna). Þegar ég hitti hann voru með honum tveir félagar hans úr Íhaldsflokknum, annar þingmaður held ég. Þeim fannst afleitt hve pundið hefði veikst gagnvart evrunni. Sérstaklega væri það vont fyrir Íra, sem seldu mikið til Breta. Ég spyrði ekki hvort þetta hefði ekki verið vont fyrir Breta sjálfa, því það fylgdi ekki sögunni. Eitt pund var 1,5 evra árið 2007 en er nú um 1,2 og var næstum komið á par í janúar 2009. Ein mynt virðist því vera veikari en evran.
Ég spurði hann um Icesave-málin. Hann sagðist telja að menn hefðu færst mjög nálægt samkomulagi og vonandi tækist að brúa bilið. Hann taldi að Gordon Brown hefði spillt miklu fyrir Íslendingum með upphlaupi sínu í október 2008. Hannan sagði að þingmenn væru hræddir í málunum vegna þess að mörg sveitarfélög hefðu tapað peningum á Icesave.
Í lok Heimdallarfundarins þakkaði ég honum fyrir mikla mælsku, bæði hér og á Evrópuþinginu þegar umsókn Íslands var samþykkt. Hann hefði þá líkt Íslendingum við hetjuna í Sjálfstæðu fólki, sem hann hefði meira að segja nefnt á íslensku.
Söguhetjan hefði barist hetjulegri baráttu fyrir sjálfstæði sínu en í bókarlok hafði hann misst tvær konur, son, búið og bústofninn og væri á leið til fjalla með dauðveika dóttur sína til þess að setjast að í eyðikoti. En sjálfstæðinu hélt hann.
---
Hannan þessi barðist gegn því að Danir tækju upp evruna og hefur um árabil verið helsti baráttumaður gegn því að Sambandið efldist. Agúrkumaðurinn er hann kallaður vegna þess að hann vitnar máli sínu til stuðnings í reglugerð um að agúrkur eigi að vera beinar. Í raun er aðeins um gæðaflokkun að ræða, en eins og með bílstólana er aðalatriðið að láta líta svo út að um sé að ræða fáránlegar reglur hjá mönnum í Brüssel sem ekkert hafi annað að gera en leggja reglustikur við agúrkur eða mæla hæð 12 ára barna.
Hannan líkti Lisabon-sáttmálanum árið 2008 við yfirtöku nasista á völdum með samþykkt þingsins árið 1933 og var í kjölfarið rekinn úr þingflokki Íhaldsflokksins á Evrópuþinginu og starfar nú með nokkrum þingmönnum frá Póllandi og víðar í litlum hægriflokki.
Honum mun hafa orðið tíðrætt um íslenska efnahagsundrið sem sýndi hve miklu betra væri að vera utan Evrópusambandsins en innan.
Á fundi okkar var hann kurteis og frekar málefnalegur, en á Heimdallarfundinum lét hann gamminn geysa og talaði meira í frösum.
Þrennt fannst mér standa eftir:
Ykkur verður boðinn góður samningur í Evrópumálum en það verður ekkert að marka þann samning ef fiskveiðireglunum almennt verður ekki breytt.
Þið eigið að ljúka samningunum og bera þá undir þjóðaratkvæði.
Það er ekki langt í land í Icesave-málinu (tók þó fram að hann væri þar ekki í innsta hring).
Benedikt Jóhannesson
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 13:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
21.7.2010 | 04:19
Andri Geir: Stöðugur gjaldmiðill kemur bara með ESB-aðild
Andri Geir Arinbjarnarson, Eyjubloggari, skrifaði áhugaverðan pistil í gær um ESB umræðuna og segir m.a.:
"70% þjóðarinnar vill slíta ESB umræðum án þess að þjóðin fái að kjósa um samning. Ég efast um að þetta hlutfall yrði nokkurn tíma eins hátt í löndum eins og Noregi og Sviss og hafa þau lönd þó efni á að segja nei við ESB.
Það er eins og 70% landsmanna haldi að Ísland standi jafnfætis hinum EFTA löndunum og hér hafi aldrei orðið neitt hrun."
Og síðar þetta: " Aðeins með ESB aðild fær Ísland stuðning Evrópska Seðlabankans og aðeins þannig fær landið stöðugan gjaldmiðil (fyrst krónu innan EMR-2 vikmarka og síðan evru) og þannig aðgang að fjármálamörkuðum á viðunandi kjörum og innan ásættanlegs tímaramma. Þannig verður óvissunni eytt.
En það sem útlendingar átta sig ekki á er að Íslendingar þrífast á óvissu og þrjósku."
Bendum einnig á annan pistil um sama mál, þ.e. ESB-málið, þar sem Andri veltir fyrir sér þessari spurningu: "Hvernig ætlar meirihluti þjóðarinnar að skila betra búi í hendur sinna barna en tekið var við, án inngöngu í ESB? Það er spurning sem næsta kynslóð ætti að fara að spyrja?"
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 12:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (62)
20.7.2010 | 22:48
Breskir viðskiptamenn: Bretland ætti að taka upp Evruna
Breska BBC gerði nýlega könnun meðal áhrifamikilla aðila úr bresku viðskiptalífi varðandi Bretland og Evruna. Í ljós kom mikill stuðningur við upptöku Evrunnar í framtíðinni í Bretlandi og að það væri Bretlandi fyrir bestu að verða aðili að Evrunni, þegar tíminn væri réttur.
Rökin eru m.a. þau að Bretar eiga mjög mikil viðskipti við Evru-svæðið, eða um 70% af útflutningi þeirra fera þangað. Í fréttinni segir m.a.:
"Former chief operating officer of Ford, Sir Nick Scheele, argued that, "despite the debt problems in certain euro zone countries my belief that we should join the euro is based on the fact that 70% of our trade is with euro-based economies."
His views were echoed by the European head of the private equity firm, Kohlberg Kravis and Roberts....Lord Simon of Highbury, former chairman of BP argued "it is time to recognise the importance of a more integrated economic / political system in Europe"."
Sú skoðun koma fram að vissulega væru ákveðnir hlutir í sambandi við Evruna sem þyrfti að laga og það þyrfti að setja í forgang.
En niðurstaðan er samt sem áður sú að Evran sé sá gjaldmiðill sem breskt viðskiptalíf virðist telja að sé framtíðargjaldmiðill.
Þeir sem styðja þetta hafa margir verið lengi á þeirri skoðun.
http://www.bbc.co.uk/news/business-10642064
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (63)
19.7.2010 | 21:20
Grímur Atlason: Galin hugmynd!
Eyjubloggarinn Grímur Atlason er í (góðum) ham þessa dagana. Nýjasti pistill Gríms (Moldarkofar vitleysunnar) er það góður að við ætlum að taka okkur það bessaleyfi að birta hann í heild sinni (fyrirgefðu, Grímur!)
"Ásmundur Einar fór mikinn í grein í málgagni sínu Morgunblaðinu í gær. Þar krafðist hann þess m.a. að umsóknin um aðild Íslands ESB yrði dreginn til baka hið snarasta. Hann sagði VG-liða hafa verið beitta ofbeldi í þinginu fyrir ári þegar aðildarumsóknin var samþykkt. Það var reyndar samið um það í stjórnarsáttmálanum að málið ætti að fá þinglega meðferð og ætluðu menn að una þeirri niðurstöðu sem út úr því kæmi.
Ásmundur og aðrir þingmenn tala gjarnan um að þingmenn greiði atkvæði samkvæmt samvisku sinni sem er gott og blessað. En Ásmundur yfirgaf þingið og fór í heyskap og vildi ekki taka þátt í umræðum um málið talaði þá um þrýsting og ofbeldi. Ef þingmenn greiddu ekki atkvæði samkvæmt samvisku sinni vegna hótana verða þeir að segja frá því og þá hverjir hótuðu í stað þess að þvaðra um það svo mánuðum skiptir undir rós. Hvers vegna sprengja þeir ekki þessa ríkisstjórn ef ofbeldið og málefnaágreiningurinn er slíkur?
Aftur að kröfum Ásmundar Einars. Samhengi hlutanna verður að vera á hreinu. Íslendingar byggja allt sitt á viðskiptum við aðrar þjóðir. Síðustu ár fórum við heldur illa með nafn okkar og sitjum eftir skömmustuleg í samfélagi þjóðanna. Það er ekki þannig að við sem þjóð eigum endalausa innistæðu hjá þjóðunum í kringum okkur. Við höfum lengi komist upp með það að taka bara og taka en leggja minna að mörkum. Það var því mjög lítið eftir á kútnum þegar við urðum bensínlaus útí hrauni. Við verðum því sem þjóð að leggja ég um mig frá mér til mín hugsanaháttinn á ís. Nú þurfum við að hugsa um hag heildarinnar til tilbreytingar og taka þátt í samfélagi í stað þess að hampa einstaklingnum endalaust.
Landbúnaður, sjávarútvegur, áliðnaður, matvælaiðnaður, ferðamannaiðnaður, vegagerð og í raun allt þjóðlíf á Íslandi byggir á viðskiptum við útlönd. Við bankahrunið laskaðist orðstír Íslands mikið sem sést best á því hve mikið kjör almennings hafa versnað. Hugmyndin um að við getum sótt um aðild að Evrópusambandinu, með því tilstandi sem því fylgir (líka í Evrópu), og sagt síðan ári síðar: nei við erum bara hætt við er gersamlega galin. Með því værum við hreinlega að skyrpa á hendur þeirra þjóða sem við eigum mest að sælda við. Það er óþolandi að umræðan nái ekki upp úr forheimskuforinni og að þetta skuli vera valkostur sem margir telji fýsilegan.
Dragi Íslendingar umsóknina til baka má færa sterk rök fyrir því að hagur okkar versni til mikilla muna. Við eigum ekki mörg tromp upp í erminni. Þetta er ekki hagyrðingakvöld í Eyjafirði, landsfundur í Laugardalnum eða fótboltaleikur í Kaplakrika þetta er alvöru. Olía á bíla og pappír í málgagnið í Hádegismóanum eru líka þarna undir. Lambalærin sem við offramleiðum þurfa einnig að komast til kaupenda í Evrópu og saltfiskhnakkarnir til Spánar - þetta er ekkert grín! Þetta er ekki 1960 og Sovétmenn munu ekki selja okkur Volgur og Lödur fyrir síld og þorsk þegar aðrir loka. Nútíminn gerðist og við hoppuðum á vagninn. Glóruleysi í alþjóðaviðskiptum gengur ekki upp á tveggja ára fresti fyrir litla þjóð í ballarhafi.
Við þurfum því að horfa upp úr moldarkofunum sem við virðumst seint ætla að komast út úr. Kjósum um aðildarsamning eftir að við höfum reynt að ná fram samningsmarkmiðum okkar og barist fyrir þeim í samningaviðræðum. Ég get lifað við að samningnum verði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu en ég sætti mig ekki víðáttuheimsku sem nær engri átt!"
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 21:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (63)
19.7.2010 | 20:54
ESB og Sviss: Endurskoðun (120) samninga á döfinni
Á EuObsever.com birtist í dag frétt, þar sem sagt er frá væntanlegri endurskoðun allra hinna 120 tvíhliða samninga(!), sem Sviss og ESB hafa gert með sér.
Þetta er m.a. vegna þess að gríðarlega margt hefur breyst í Evrópu á undanförnum árum. ESB, vill einfalda samningana og sníða þá að framtíðinni.
Forseti Sviss segir það t.d. vera nauðsynlegt "dýpka" samstarfið við Evrópuþingið, þar sem vægi þess hafi aukist verulega á undanförnum árum.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 21:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.7.2010 | 20:29
Gunnar Hólmsteinn: Að tala út í loftið
Stjórnarmaður Evrópusamtakanna, Gunnar Hólmsteinn Ársælsson, ritar grein í Morgunblaðið síðastliðinn laugardag, sem byrjar svona:
"Er hægt að segja hvað sem er í Morgunblaðinu? Spurningin vaknaði eftir lestur á makalausri grein Guðrúnar S. Magnúsdóttur (búsett í Svíþjóð) hinn. 23. júní síðastliðinn. Þar er hún að fjalla um Evrópumál, en kannski er orðið fjalla sérkennilegt í þessu samhengi. Nær lagi er að í greininni slengi hún fram mörgum órökstuddum frösum og fullyrðingum.
Til dæmis segir Guðrún að það muni kosta okkur Íslendinga um 10 milljarða (10 þúsund milljónir) að ræða við ESB um aðild. Þann sama dag og greinin birtist sagði Össur Skarphéðinsson að kostnaðaráætlunin hljóðaði upp á um einn milljarð. Fullyrðingar Guðrúnar um 10 miljarða eru því algerlega úr lausu lofti gripnar og verða að afskrifast sem hreinn tilbúningur. Því má spyrja: Er það ekki ábyrgðarhluti af Morgunblaðinu að birta þetta svona hrátt? Vegna þess að því miður geta svona tölur síast inn í umræðuna og það er útilokað að viðræðurnar muni kosta 10 milljarða.
Ef ég segði: Aðildarviðræður við ESB munu einungis kosta um 100 milljónir, myndi það þá verða birt í Morgunblaðinu? Það er ekkert skrýtið að spurningar sem þessar vakni, við lestur á greinum á borð við grein Guðrúnar. Enda er talan 10 milljarðar algerlega út í hött!"
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 20:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Eldri færslur
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
Tenglar
Áhugaverðir tenglar
- Evrópusamtökin-heimasíða Heimasíða Evrópusamtakanna
- Aðildarviðræður við ESB
- Já-Ísland
- Evrópustofa Upplýsingar um ESB og Evrópumál
- Evrópusambandið-ESB
- Utanríkisráðuneytið
- Sendiráð ESB á Íslandi Sendiráð ESB á Íslandi
- Meirihlutaálit Utanríkismálanefndar Alþingis
- Skýrsla Evrópunefndar
- RÚV:ESB-vefur
- Uppl. fyrir blaðamenn
- Sterkara Ísland
- FRBL-Umræða-Leiðarar
- European Daily Fréttir frá Evrópu
- BBC-Evrópa
- EU-Observer
- EUtube ESB á you tube
- Fastanefnd framkvæmdastjórnar ESB fyrir Ísland og Noreg.
- Evrópuskrifstofan
- EurActiv-Fréttir um ESB
- Euranet (Útvarp)
- Euronews
- Evrópusíða UTN Evrópusíða utanríkisráðuneytisins
- Ungt fólk og ESB Ungt fólk og ESB
- ESB-umfjöllun MBL
Fréttabréfið
Fréttabréf Evrópusamtakanna
Bloggvinir
- Arna Lára Jónsdóttir
- Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir
- Daði Einarsson
- Dofri Hermannsson
- Eiríkur Bergmann Einarsson
- Eva Kamilla Einarsdóttir
- Fanney Dóra Sigurjónsdóttir
- Fararstjórinn
- Gunnar Axel Axelsson
- Gunnlaugur B Ólafsson
- Guðlaugur Kristmundsson
- Guðmundur Steingrímsson
- Hinrik Már Ásgeirsson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Hreinn Hreinsson
- Jón Gunnar Bjarkan
- Jónas Tryggvi Jóhannsson
- Júlía Margrét Einarsdóttir
- Loopman
- Magnús Már Guðmundsson
- Marta B Helgadóttir
- Sveinn Arnarsson
- Tómas Þóroddsson
- Vefritid
- gudni.is
- Ágúst Hjörtur
- Ágúst Ólafur Ágústsson
- Árni Rúnar Þorvaldsson
- Andri Geir Arinbjarnarson
- Arnar Guðmundsson
- Baldur Kristjánsson
- Barði Bárðarson
- Björn Halldórsson
- Brattur
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- Egill Rúnar Sigurðsson
- ESB
- Eva Benjamínsdóttir
- Eva G. S.
- Eyjólfur Sturlaugsson
- Eyþór Laxdal Arnalds
- Friðrik Hansen Guðmundsson
- Guðjón Sigurbjartsson
- Guðlaugur Hermannsson
- Gunnar Ásgeir Gunnarsson
- Heiðar Lind Hansson
- Helgi Jóhann Hauksson
- Helgi Þór Gunnarsson
- Hilmar Gunnlaugsson
- Hjörtur Guðbjartsson
- Hólmfríður Bjarnadóttir
- Ingimundur Bergmann
- Jakob Falur Kristinsson
- Jens Sigurðsson
- Jón Grétar Sigurjónsson
- Jón Ragnar Björnsson
- Kama Sutra
- Kjartan Jónsson
- Konráð Ragnarsson
- Kristján Jón Sveinbjörnsson
- Lúðvík Júlíusson
- Natan Kolbeinsson
- Óðinn Kári Karlsson
- Óskar Þorkelsson
- Ragnar G
- Rögnvaldur Þór Óskarsson
- Sema Erla Serdar
- Sigurður M Grétarsson
- Sigurður Sigurðsson
- Snorri Hrafn Guðmundsson
- Sumarliði Einar Daðason
- Svala Jónsdóttir
- Svanur Gísli Þorkelsson
- Sæmundur Bjarnason
- Sævar Finnbogason
- Ungir evrópusinnar
- Þarfagreinir