Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Bendikt og Katrín í Silfrinu: Ísland og Evrópa

Þau Benedikt Jóhannesson og Katrín Helga Hallgrímsdóttir, einnig Sjálfstæðir Evrópumenn (eins og Pavel hér að neðan) voru gestir í Silfri Egils á sunnudag og ræddu Evrópumálin. Klippið er hér

Pavel í Fréttablaðinu

Pavel Bartoszek, stjórnarmaður í Sjálfstæðum Evrópumönnum, skrifar fína grein um alþjóða og evrópumál í Fréttablaðið um helgina. Þar segir m.a.:

,,Margir andstæðingar Evrópusambandsaðildar hafa látið sem stuðningsmenn aðildar vilji „loka sig inni í ESB" í stað þess að líta víðar yfir völlinn og mynda bandalög yfir heiminn þveran og endilangan. Eins aðlaðandi og þannig hugmyndir kunna að hljóma þá er það til efs að þess háttar utanríkisstefna, sem í raun gengur út á að vera vinsælasti gaurinn í partíinu, sé raunsæ eða líkleg til árangurs fyrir smáríki á borð við Ísland. Leita verður raunhæfari og hnitmiðaðri lausna.

Valkostirnir í utanríkismálunum virðast helst vera tveir. Sá fyrri er að ganga í ríkjabandalag eins og Evrópusambandið. Sá síðari er að hengja sig á fá erlend ríki, þá helst Noreg og ef til vill Danmörku, og láta þau að mestu sjá um hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd. Þessu fylgdi að loka mætti flestum sendiráðum fyrir utan þessi lönd og hugsanlega Bandaríkin. Síðan væri hægt að taka upp norska krónu og útvíkka enn frekar það svokallaða samstarf sem þegar er hafið milli Landhelgisgæslunnar og norsku strandgæslunnar, og felur í raun í sér að Norðmenn aðstoða okkur við eftirlit með okkar eigin landhelgi.
Sömuleiðis mætti fylgjast grannt með norskri lagasetningu og sjá þannig til að á Íslandi og í Noregi giltu í raun sömu lög, með einstaka sérúrræðum fyrir Ísland þar sem þeirra væri þörf.

Slík lausn þarf að sjálfsögðu ekki að þýða hörmungar fyrir íslenska þjóð. Lífsskilyrði í Liechtenstein og Mónakó eru með þeim bestu í heiminum. Kjósi Ísland að gerast örríki í stað smáríkis getur það því engu síður viðhaldið háum lífsgæðum. En er fullveldið í slíku handriti eitthvað annað en tálsýn, eða í besta falli formlegheit? Þarf ekki fremur undarlega heimssýn til að komast að þeirri niðurstöðu að Mónakó er fullvalda en ekki Frakkland, vegna þess að síðara ríkið er í Evrópusambandinu?"

Öll greinin


Virði Evrunnar

EvraMönnum er tíðrætt um vandamál Grikklands. T.d. hafa leiðarahöfundar MBL sagt að vandamál Grikklands séu öll Evrunni að kenna. Það er hinsvegar fjarri lagi. Í leiðara sænska Dagens Nyheter frá 12. febrúar er fjallað um Evruna og vissulega er þar réttilega sagt að nú reyni á Evruna. DN segir hinsvegar að vandamál Grikklands séu ekki Evrunni að kenna, heldur Grikkjum sjálfum og feluleik þeirra með tölur. M.a. til þess að fegra útlitið á fjárhag hins opinbera fyrir kosningar.

 

DN ræði lausnir og hvað skuli gera, en ljóst er að það verða Grikkir sjálfir, sem verða að skera niður, rétt eins og Svíar þurftu að gera eftir bankavandræði í byrjun 9. áratugar síðustu aldar. Þá var landið ekki gengið í ESB, en þá sáu menn þörfina fyrir sterkan bakhjarl á hinu alþjóðlega sviði.

 

Í leiðara DN segir: ,,Eurons tioåriga historia visar tvärtom att den gemensamma valutan är en stor tillgång för EU. Den har påverkat handel och tillväxt mer positivt än de flesta trodde. Och sedan krishösten 2008 har euron skyddat EU:s medlemsländer för kraftiga växelkurssvängningar. Det är inte svårt att föreställa sig hur det skulle ha kunnat gå. Utan euron skulle den finansiella och ekonomiska krisen ha kunnat ställa till med större skada i Europa.Euron behövs och det borde vara självklart att också Sverige ska införa den gemensamma valutan.”

 

Í lauslegri þýðingu: Evran hefur gert góða hluti fyrir ESB, hún hefur haft jákvæðari áhrif á verslun og hagvöxt en menn héldu. Frá haustinu 2008 hefur hún komi í veg fyrir miklar sveiflur á vöxtum og það er ekki erfitt að ímynda sér hvernig hlutirnir hefðu annars þróast. Án Evrunnar hefði tjónið af fjármálakrísunni 2008 orðið enn meira. Það er þörf fyrir Evruna og ætti að vera sjálfgefið að Svíþjóð taki upp hina sameiginlegu mynt. 

"Mögnuð" Grimsby-mynd!

fish_Atlantic_codAndstæðingar ESB og (mögulegrar) aðildar Íslands að sambandinu hafa kvartað og kveinað yfir meintum ,,halla" í umfjöllun RÚV um ESB og sagt að ríkisfjölmiðillinn sé alltof já-sinnaður. Ef svo er, þá fengu þeir allavegana uppreisn æru í  gærkvöldi, þegar heimildamyndin Eilífðartengsl var sýnd.

Í henni er fjallað um Grimsby, eða "þátt efnahagshrunsins á íbúa Grimsby," eins og segir í kynningu. Það var einnig komið inn á ESB og þar var umfjöllunin aðeins á einn veg: ESB er vont, hefur algerlega gengið frá sjávarútvegi Breta og kemur til með að taka allan fisk af Íslendingum, kvótann og hvaðeina. Varið ykkur, ekki ganga í ESB."

Er það t.d. í anda upplýstrar umræðu að ræða við aldraðan fisksala, sem fullyrðir að ESB muni taka af okkur allan fiskinn? Með fullri virðingu fyrir fisksalanum!

Ekki var gerð minnsta tilraun til að finna mótrök. LÍÚ hefði ekki getað gert betur!

Ef um halla á ESB-umfjöllun var að ræða, er allavegana búið að rétta hann!

En bara til að hafa eitt á hreinu: ESB HEFUR ALDREI TEKIÐ YFIR AUÐLINDIR AÐILDARRÍKJA, ENDA GETA NEI-SINNAR EKKI BENT Á EITT EINASTA DÆMI ÞVÍ TIL STUÐNINGS!

En það er skiljanlegt að íbúar Grimsby og Hull séu fúlir yfir þeim missi sem þeir urðu fyrir þegar Ísland vann landhelgisirmmuna, en það er ekkert við því að gera. Ísland gerði það í nafni sjálfstæðis og í fullum rétti.


ESB og USA mótmæla dómi í Kína

Torg hins himneska friðarESB og Bandaríkin mótmæla harðlega 11 ára fangelsisdómi sem Liu Xiaobo hlaut fyrir skömmu, fyrir það sem kallað er ,,niðurrifsstarfsemi." Frá þessu hefur verið greint frá í helstu fjölmiðlum, en hér er grein úr The Guardian um málið.

Sjálfstæðir Evrópumenn stofnaðir: Fullt hús!

Sjálfstæðir EvrópumennFullt var út úr dyrum í Þjóðmenningarhúsinu síðdegis, þegar samtökin Sjálfstæðir Evrópumenn, voru stofnuð. Það var Ragnhildur Helgadóttir, fyrrverandi ráðherra, sem stjórnaði fundinum. Til máls tóku m.a. Þorsteinn Pálsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Jónas Haralz. Lög fyrir hið nýja félag voru samþykkt og stjórn skipuð.

Eins og áður sagði var fullt út úr dyrum og m.a. annars mátti sjá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, varaformann Sjálfstæðisflokksins, Katrínu Fjeldsted, Helga Magnússon, Jón Baldvin Hannibalsson ásamt eiginkonu sinni, Bryndísi Schram, Jórunni Magnúsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Þorkel Sigurlaugsson, framkvæmdastjóra hjá HR og Ólaf Ísleifsson, hagfræðing.

Lög samþykktGreinilegt er að samtökin ætla að láta til sín taka í komandi umræðum um ESB-mál á Íslandi og óhætt að segja að góður hugur hafi verið í fundarmönnum.


Sjálfstæðir Evrópumenn - stofnfundur í dag

ad-ES4Evrópusamtökin minna á stofnfund samtakanna Sjálfstæðir Evrópumenna kl. 16.30 í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Allir þeir sem deila markmiðum hinna verðandi samtaka eru velkomnir.

Góð grein eftir Benedikt Jóhannesson, einn forsvarsmanna hópsins í Fréttablaðinu í gær, er hér


Frábær Bergur Ebbi

Bergur EbbiTónlistarmaðurinn Bergur Ebbi Benediktsson, í Sprengjuhöllinni, skrifar frábæra grein á vefsíðu Sterkara Íslands um Evrópumál. Góð blanda af húmor og alvöru. Í henni segir hann m.a.:

,,Það hefur tekið mig nokkurn tíma að átta mig á því, en íslenskt samfélag hefur þegar breyst gríðarlega frá því ég fæddist. Um það leyti sem ég fæddist fór fólk ekki oft til útlanda. Margir höfðu aldrei farið. Margir Íslendingar höfðu aldrei talað við útlending. Sumir kunnu ekkert annað mál en íslensku. Á borðum Íslendinga var borinn fram íslenskur matur, soðin ýsa og kartöflur, pasta þótti framandi, enginn hafði heyrt um avakadó. Þetta hljómar kannski ekki merkilegt, en þegar maður safnar saman öllum litlu dæmunum kemur í ljós að við lifðum í allt öðru samfélagi fyrir þrjátíu árum heldur en við gerum nú. Ísland var öðruvísi. Allt öðruvísi. Ekkert endilega verra eða betra, en allavega öðruvísi. Dagur í lífi venjulegs manns árið 1981 er svo frábrugðin degi í lífi venjulegs manns árið 2010, að það er varla hægt að ná utan um það. Ef einhverjum hefði verið sagt árið 1981 að þrjátíu árum síðar myndi hann eyða stórum parti af degi sínum skokkandi á hlaupabretti með áhyggjur af gengi japanska jensins, þá hefði hann ekki einu sinni vitað hvað væri verið að segja við hann."

Og síðar skrifar Bergur Ebbi:

,,Ég tel íslenskt þjóðerni mikils virði. Ég gef lítið fyrir barnalega þjóðerniskennd, en ég tel að hæfileg virðing fyrir því sem sameinar okkur, tungumálinu, menningararfinum og sögunni, sé ekki aðeins holl, heldur hverjum einstaklingi nauðsynleg á leið til þroska. Að eiga ekkert föðurland má jafna við að eiga ekki fjölskyldu. En þjóðernið breytist og þroskast rétt eins og sérhver einstaklingur. Það lærir af samneyti sínu við aðra.

Þannig vil ég nálgast þessa umræðu. Getur verið að Ísland sé stærra og sterkara sem þjóðríki innan ríkjasambands heldur en utan þess? Er ekki sá einstaklingur sterkastur sem hefur öruggt bakland vina og fjölskyldu? Hefur sá ekki meira sjálfstraust sem treystir vinum sínum fyrir leyndarmálum og lífsskoðunum heldur en bitri einstæðingurinn sem muldrar ofan í barm sinn?"

Frábær grein, sem má lesa hér


Haraldur og sjónhverfingarnar í MBL

Haraldur BenedikssonÞað verður að segjast eins og er að forsíða MBL í gær var sérkennileg, allavegana sá hluti sem sneri að Bændasamtökum Íslands og formanni þeirra, Haraldi Benediktssyni. Fyrirsögn aðalfréttarinnar er "Norrænn stuðningur er sjónhverfing" og er þar verið að fjalla um þau ákvæði í aðildarsamningi Finna að ESB er lúta að stuðningi við landbúnað. Orðrétt segir í MBL:

,,Tal um stuðning ESB við svokallaðan norðlægan landbúnað er sjónhverfing. Við teljum að ekkert sé þar á bak við," segir Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands."

Síðan ræðir Haraldur þá staðreynd (sem lengi hefur legið fyrir) að finnsk stjórnvöld fengu að halda áfram að styrkja finnskan landbúnað og sé þar af leiðandi greiddur af finnskum skattgreiðendum:

"Mér hefur sjaldan brugðið jafn mikið og þegar þetta kom fram," segir Haraldur og vísar þá til funda með finnsku samningamönnunum og vinnu með íslenskum fræðimönnum á þessu sviði. "Maður verður sífellt meira undrandi á fullyrðingum um að hinu og þessu sé hægt að ná í samningum. Staðreyndin er sú að við erum í aðildarferli, ekki samningum, og nokkuð ljóst að ESB lagar sig ekki að okkur," segir Haraldur.

Í kjölfar þessara yfirlýsinga Haraldar er vert að benda á að það hefur alltaf legið fyrir að það væru finnsk yfirvöld sem myndu greiða stærstan hluta hins norræna styrkjar. Ákvæði samningsins eru um að Finnar máttu halda stuðningi sínum við sína bændur óbreyttum. Þetta eru ekki nýjar fréttir og því sérkennilegt að slá þessu allt í einu upp núna.

Og allt tal um sjónhverfingar dæma sig sjálfar. ,,Við teljum að ekkert sé þar á bakvið," segir Haraldur. Hljómar þetta ekki eins og einhverskonar afneitun? Það er nefnilega alveg hellingur þarna á bakvið, eða samningar um stórfelldan opinberan stuðning við finnskan landbúnað, til þess að tryggja tilverurétt þess atvinnuvegar. Því Finnar eru alveg eins og Íslendingar, vilja finnskar landbúnaðarvörur. 

Í frétt sem birtist í Helsingin Sanomat í nóvember 2007 lýsir einmitt forsætisráðherra Finna, Matti Vanhanen, yfir mikill i ánægju með framlengingu ákvæðis 141 í samningi Finna, í sex ár í viðbót. Þar samþykkti ESB alfarið hugmyndir Finna! 

Í annarri frétt í sama blaði nokkrum dögum síðar segar Vanhanen að ákvæði 141, sé sú lausn sem tryggir afkomu finnskra bænda (,,..secure livelihood of its farmers..."). Eru þetta sjónhverfingar? Er þetta ekki kristaltært dæmi um hvernig smáríki (Finnland er jú ekki stórt!) nær sínu fram í samningum við ESB og hvernig sambandið virðir kröfu smáríkis? Að ESB aðlagi sig að hagsmunum smáríkis?

Grein 142 í aðildarsáttmála Finnlands, Svíþjóðar (og Noregs, sem felldu) hljómar svona:

The Commission shall authorize Norway, Finland and Sweden to grant long-term national aids with a view to ensuring that agricultural activity is maintained in specific regions. These regions should cover the agricultural areas situated to the north of the 62nd Parallel and some adjacent areas south of that parallel affected by comparable climatic conditions rendering agricultural activity particularly difficult.

Athyglivert að að notað er orðalagið "long-term", þ.e.a.s til langtíma. Erfitt er að sjá fyrir sér að ESB myndi ganga gegn þessari yfirlýsingu.

Stuðningur íslenska ríkisins við bændur nemur um 10 milljörðum króna samkvæmt nýjustu fjárlögum. Það veit Haraldur Benediktsson. Fordæmi frá aðildarsamningi Finna og Svía, myndu tryggja álíka ákvæði við stuðning til handa íslenskum bændum.

En afstaða Bændasamtakanna til AÐILDARVIÐRÆÐNA er NEI. Miðað við þetta er ólíklegt að sú afstaða breytist. NEI-bænda mun því væntanlega hljóma áfram eins og kröftugt baul úr búki Búkollu!

Heimildir: Morgunblaðið, Helsingin Sanomat.


Ný framkvæmdastjórn ESB samþykkt

J.M.BarrosoEvrópuþingið samþykkti nýja framkvæmdastjórn í gær með 488 atkvæðum gegn 137.  Þar með er allt til reiðu fyrir nýja framkvæmdastjórn að taka til starfa. Jose Manuel Barroso heldur áfram sem forseti framkvæmdastjórnarinnar. Frá þessu er sagt í frétt á RÚV.

Kona gegnir nú embætti yfirmanns sjávarútvegsmála, en það er hin gríska Maria Damanaki. Hún hóf sinn pólitíska ferill sem baráttukona gegn herforingjastjórn Grikklands, var virk í neðanjarðarhreyfingu stúdenta á sjöunda áratug síðustu aldar.

Hér má sjá og lesa um nýja framkvæmdastjórn ESB.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband