Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

Hallur Magnússon: ESB-mótstaða vegna misskilnings?

Hallur MagnússonHallur Magnússon, gerir ummæli Guðna á Útvarpi Sögu að umtalsefni í pistli á bloggi sínu og segir þar: "Guðni Ágústsson er á móti aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið vegna misskilnings.  Það kom skýrt fram í viðtali við hann á Útvarpi Sögu.

Rök Guðna gegn aðildarviðræðum voru eitthvað á þá leið að “…við Íslendingar viljum ekki innflutning á lifandi búfénaði og hráu kjöti til Íslands. Við Íslendingar viljum ekki að Íslendingar beri vopn og gegni herskyldu fyrir Evrópusambandið. Íslendingar vilja ekki að landhelgin okkar fyllist ef erlendum togurum sem veiða fiskistofnana okkar”.

Það er alveg rétt að við “…við Íslendingar viljum ekki innflutning á lifandi búfénaði og hráu kjöti til Íslands. Við Íslendingar viljum ekki að Íslendingar beri vopn og gegni herskyldu fyrir Evrópusambandið. Íslendingar vilja ekki að landhelgin okkar fyllist ef erlendum togurum sem veiða fiskistofnana okkar”.

Það hefur bara ekkert með aðildarviðræður og mögulega inngöngu að Evrópusambandinu að gera.

Þvert á móti.

Því  aðildarviðræðurnar ganga meðal annars út á að við mögulega inngöngu verði tryggt að slík innganga þýði EKKI innflutning á lifandi búfénaði og hráu kjöti til Íslands. Að Íslendingar beri EKKI vopn og gegni EKKI herskyldu fyrir Evrópusambandið.  Einnig að landhelgin okkar fyllist EKKI af erlendum togurum sem veiða fiskistofnana okkar.

Ef slíkt verður ekki tryggt í aðildarsamningi mun íslenska þjóðin fella hann í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Reyndar er alveg ljóst að mýtan um herskyldu sem ungir bændur undir leiðsögn trúbróður Guðna – Ásmundar Einars Daðasonar – reyndu að ljúga inn á þjóðina stenst ekki. Evrópusambandið getur einfaldlega ekki skikkað einstök ríki innan sambandsins til herskyldu."

Allur pistill Halls

 

"Saga Class"

airplane4Í þættinum Ísland og ESB, nei eða já, á Útvarpi Sögu fyrr í vikunni, sagði Guðni Ágústsson, fyrrum Framsóknarforingi að við værum á "Saga Class" og vísaði þar til veru Íslands á hinu Evrópska Efnahagssvæði (EES). Og að veran á "Saga Class" þýddi það að við þyrftum ekkert meira.

En hverjir eru kostir Saga Class: Breiðari sæti, frítt að drekka, fyrr á klósettið og fyrr í töskurnar (sé maður ekki lengi á klósettinu!).

Ókostir: Ef vélin hrapar á nefið, þá...!

En þetta voru bara pælingar. 


Króatía sennilega aðildarríki ESB 2013

ZagrebÁ RÚV stendur: "Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gaf í morgun grænt ljós á aðild Króatíu að sambandinu um mitt ár 2013. Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði að þetta væri sögulegur dagur fyrir Króatíu og Evrópusambandið, en sex ára samningaviðræður hefðu skilað þessum árangri." Öll fréttin

Jón Sigurðsson um möguleika bænda vegna ESB

Jón SigurðssonJón Sigurðsson, fyrrum ráðherra og formaður Framsóknarflokksins skrifar grein í Fréttablaðið í dag og segir þar meðal annars:

"Bændasamtökin og landbúnaðarráðherra vilja stöðva viðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þess vegna krefjast þau þess að tollar verði áfram lagðir á evrópskar landbúnaðarvörur eða innflutningur bannaður – þvert gegn samþykkt Alþingis um aðildarumsóknina og einnig þvert gegn meginreglum ESB.

Utanríkisráðherra hefur brugðist til andsvara. Hann bendir á að það geti komið út á eitt fyrir bændur þegar vöruverð til neytenda lækkar en ríkisstyrkir ásamt Evrópustyrkjum til bænda hækki þá verulega á móti. Varla talar utanríkisráðherra svo skýrt nema fyrir liggi sterkar líkur eða fullvissa um slíkan samningsárangur.

Þetta eitt eru stórtíðindi. Bændasamtökin hljóta að óska eftir nánari upplýsingum um þetta, og þ. á m. hvort þetta verður sérstakt samningsákvæði eða hluti af svonefndum Norðurslóðastuðningi.
En Bændasamtökin hljóta einnig að leggja áherslu á fleiri atriði í viðræðunum um aðild Íslands að ESB. Meðal slíkra áherslumála hljóta að vera þessi:
1 Vernd gegn dýrasjúkdómum, en Íslendingar hafa hörmulega reynslu af þeim.
2Vernd fyrir íslenskum búfjárstofnum, en Íslendingar rækta sérstök kyn nautgripa, hrossa, sauðfjár, geita, hunda og hænsna.
3 Ákvæði sambærileg á við þau sem gilda nú innan ESB um landbúnað á Azoreyjum, Madeira og Kanaríeyjum, og um atvinnurekstur, fasteignir og jarðeignir á Möltu og Álandseyjum.
Evrópusambandið er mjög metnaðarfullt varðandi varnir gegn dýrasjúkdómum. ESB er einnig mjög áhugasamt og metnaðarfullt varðandi vernd og öryggi fyrir fjölbreytni í lífríki. Landbúnaður á Azoreyjum, Madeira og Kanaríeyjum nýtur sjálfræðis og sérstöðu samkvæmt 349. gr. aðalsáttmála ESB. Reglur ESB banna kaup á lóðum, jörðum, húsum eða öðrum eignum á Möltu og Álandseyjum nema kaupandi hafi lögheimili og reglulega búsetu á staðnum."

Jón telur að í ESB-málinu hafi bændur einstakt tækifæri til þess að hafa áhrif á samningaferlið og það með því sé hægt að tryggja mikilvæga hagsmuni bænda á Íslandi.

Öll greinin

 


Nýr vefur sendinefndar ESB á Íslandi opnaður

Sendinefnd ESB á ÍslandiÁ www.visir.is kemur fram: "Sendinefnd ESB á Íslandi hefur opnað nýja heimasíðu á slóðinni www.esb.is. Heimasíðan, sem bæði er á íslensku og ensku, hefur meðal annars að geyma upplýsingar um tengsl Íslands og ESB, aðildarumsókn Íslands að ESB og aðildarferli, helstu verkefni og stefnumál ESB og hlutverk og skipulag sendinefndarinnar. Á síðunni birtast reglulega fréttir af vettvangi ESB og einnig er hægt að nálgast bæklinga og annað upplýsingaefni um ESB."

Minna en þrjár vikur eru þar til að SAMNINGAVIÐRÆÐUR ESB og ÍSLANDS, hefjast fyrir alvöru, enda svokallaðri rýnivinnu lokið.

Þar með hefst nýr og spennandi kafli í samskiptum Íslands og Evrópu, sem staðið hafa í aldir. Ísland og Evrópa eru tengd sterkum böndum og áhrif Evrópu á Ísland verða seint vanmetin. Með aðild að ESB opnast gluggi fyri áhrif Íslands á Evrópu, t.d. á sviði orkumála, svo eitthvað sé nefnt.


Meira um gjaldmiðilsmál: Bolli Héðinsson í Fréttablaðinu

Bolli HéðinssonÓhætt er að segja að umræðan um gjaldmiðilsmál sé lifandi hér á landi, enda ástæða til. Í Fréttablaðinu í dag er grein eftir Bolla Héðinsson, hagfræðing, undir fyrirsögninni Mælir (óafvitandi) með Evru. Greinin er hugleiðing Bolla í kjölfar heimsóknar hins írska Anthony Coughlan, en hann hefur í raun verið á móti öllu sem tengist Írlandi og ESB, þar með talið Evrunni. Fá lönd hafa hinsvegar hagnast meira á aðild að ESB en Írland, sem um miðja síðustu öld var eitt fátækasta og vanþróaðasta ríki Evrópu!

En Bolli segir: "Anthony Coughlan, fyrrum prófessor við Trinity College í Dublin á Írlandi, hélt nýlega fyrirlestur á vegum Háskóla Íslands og Heimssýnar um Írland og evruna og hvort í reynslu þeirra fælist lærdómur fyrir Ísland. Hann benti réttilega á að vegna þeirra erfiðleika sem Írar, Grikkir og fleiri þjóðir gengju nú í gegnum væru úrræði stjórnvalda allsstaðar þau sömu, að

* lækka laun,
* skerða lífeyri og
* draga úr hagnaði fyrirtækja.

Coughlan taldi einsýnt að þetta væru þau úrræði sem grípa þyrfti til í löndunum, engin önnur úrræði væru þekkt til að glíma við efnahagsvanda af þessu tagi. En sennilega hafa gestgjafar hans ekki bent honum á að hvergi á Vesturlöndum hafa einmitt,

* laun,
* lífeyrir og
* hagnaður

verið skorin jafn hressilega niður og hér á landi þrátt fyrir og vegna gengisfalls krónunnar."

Og síðar segir Bolli: "Coughlan telur reyndar að Íslendingar ættu helst að halda íslensku krónunni en sennilegast áttar hann sig ekki á hörmungasögu hennar í þau tæp níutíu ár sem hún hefur verið við lýði og því að enginn íslenskur stjórnmálaflokkur heldur því fram að hún geti verið gjaldmiðill Íslendinga til frambúðar. Með því að krónunni hefur verið hafnað verða menn að átta sig á hvaða valkostir eru í boði."

Bolli lýkur grein sinni með þessum orðum: "Íslendingar hafa áttað sig á að krónan getur aldrei orðið sú vörn fyrir lífskjör almennings sem eigin gjaldmiðlar eru öðrum þjóðum og því er brýnt að nýr gjaldmiðill þjóðarinnar verði aldrei afgangsstærð fyrir vanhæfa stjórnmálamenn að skýla sér á bak við með gengisfellingum, þegar efnahagsstjórn þeirra hefur farið í handaskolum. Það er hörmungarsaga íslenskrar hagstjórnar sem þjóðin lætur ekki bjóða sér lengur."

Grein Bolla í heild sinni


Mesti hagvöxtur í þrjú ár á Evru-svæðinu og í ESB27

ESBFram kemur í Wall Street Journal að fjárfestingar á Evru-svæðinu hafi tekið kipp á árinu og að þetta sjáist vel í hagtölum sem Eurostat hefur birt.

Þannig segir í tilkynningu að hagvöxtur á Evru-svæðinu og í ESB27 hafi verið um 0.8% á fyrsta ársfjórðungi ársins. Þetta jafngildir um 2.5% hagvexti á ársgrundvelli, miðað við sama tíma í fyrra.

Þetta er mesti hagvöxtur á þessum svæðum í þrjú ár. Greinilegt er því að Evru-svæðið og ESB27 eru að taka við sér og það svo um munar.


Vill grípa "Kanadagæsina" og það strax!

Sigmundur Davíð GunnlaugssonÁ visir.is stendur: "Formaður Framsóknarflokksins segir að skoða verði alvarlega möguleikann á tvíhliða gjaldmiðlasamstarfi við Kanada og vill að stjórnvöld hefji strax samræður við kanadísk stjórnvöld til að sjá hvaða möguleikar séu í stöðunni.

Kanadískir embættismenn, m.a frá Seðlabanka Kanada, áttu óformlega fundi hér á landi í febrúar síðastliðnum með íslenskum kaupsýslumönnum, þar sem m.a voru ræddar hugmyndir um upptöku Kanadadollars sem gjaldmiðils hér á landi, eins og fréttastofa greindi frá í síðustu viku. Komið hefur fram að bæði Bank of Canada, sem er seðlabanki kanadíska ríkisins, og fjármálaráðuneytið í Kanada eru jákvæð í garð þess að skoða gjaldmiðlasamstarf við íslensk stjórnvöld með upptöku Kanadadollars en engar viðræður í þá veru hafa átt sér stað milli stjórnvalda ríkjanna."

Í fréttinni kemur fram að ýmsum kanadískum mönnum, sem eru ekki nafngreindir, finnist þetta spennandi og að þetta hafi verið rætt. Hverjir eru þessir menn? Er ekki sniðugt að það komi fram? Fá gagnsæi í þetta?

Og hvað finnst aðdáendum Krónunnar um þetta? Finnst þeim þetta hið besta mál?

En er ekki svolítil "popúlistalykt" af þessu?

Það má þó túlka þennan mikla áhuga Sigmundar Davíðs (mynd) sem einskonar viðurkenningu hans á slæmri stöðu landsins í gjaldmiðilsmálum. Og hvað segir foringi Nei-sinna, nýgenginn í Framsókn, um þessa hugmynd?

 


Össur fer yfir sviðið

Össur-SkarphéðinssonÖssur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra,  skrifar grein í Fréttablaðið í dag um utanríkismál og fer þar yfir sviðið eins og sagt er. Hann kemur inn á ESB-málið og segir:

"Sögulegasta nýmælið sem ég hef flutt á 20 ára ferli er þó tillagan sem Alþingi samþykkti um að gjörbreyta utanríkisstefnunni með því að sækja um aðild að Evrópusambandinu og leggja niðurstöður samninganna undir dóm þjóðarinnar. Það snýst um að bæta lífskjör og tryggja fullveldi og öryggi þjóðarinnar. Þetta er stærsta verkefni utanríkisráðuneytisins fyrr og síðar. Alþingi lagði niður rauðu strikin, og við, þjónar almennings í ráðuneytinu, höfum í hvívetna gætt þess að vinna málið í fullu samræmi við ítarlegan vegvísi Alþingis, og þar með hagsmuni Íslendinga. Virk og breið þátttaka fjölmargra hagsmunasamtaka hefur tryggt aðkomu ólíkra sjónarmiða. Ég hef gætt þess að hafa ferlið eins gagnsætt og unnt er. Hvert skref hefur verið kynnt og útskýrt fyrir utanríkismálanefnd, eða starfshópi hennar um Evrópumál. Óskum fagnefnda þingsins og þingflokka um yfirferðir um tiltekna málaflokka er jafnóðum sinnt. Öll gögn eru lögð út á Netið um leið og íslenskir hagsmunir leyfa.
 
Nú er að ljúka svokallaðri rýnivinnu þar sem skilgreindir eru þeir þættir sem um þarf að semja. Samningarnir sjálfir hefjast síðar í þessum mánuði. Þá verða söguleg kaflaskipti í umsóknarferlinu. Athyglisvert er hversu sterkur meirihluti þjóðarinnar hefur ítrekað lýst í könnunum að hún vill ljúka samningunum og fá sjálf að taka endanlega afstöðu í þjóðaratkvæði. Sá réttur verður ekki frá þjóðinni tekinn, enda núorðið fáir sem fyrir því mæla ef undan eru skildir nokkrir af glæstustu fulltrúum gamla Íslands."

Greinin: Nýjar áherslur í utanríkisstefnu Íslands


...og krónan fellur!

Tíu íslenskar krónur (með loðnu)!Á vef Vísis segir: "Raungengi íslensku krónunnar lækkaði um 0,2% á milli apríl og maí síðastliðins á mælikvarða hlutfallslegs verðlags. Þessi lækkun er tilkomin vegna lækkunar á nafngengi krónunnar á tímabilinu, en hún lækkaði um 1,1% miðað við vísitölu meðalgengis í maí frá fyrri mánuði.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að verðlagshækkun hefur vegið töluvert upp á móti áhrifum nafngengis á raungengi á þessu tímabili enda hækkaði verðlag um 0,9% miðað við vísitölu neysluverðs á sama tíma. Þetta má sjá í tölum sem Seðlabanki Íslands birti í gær.

Raungengi krónunnar hefur lækkað stöðugt frá nóvember á síðasta ári, að apríl síðastliðnum undanskildum þegar engin breyting átti sér stað. Frá því í nóvember hefur raungengið lækkað um 5,3% og stendur það nú í 73,7 stigum, en það hefur ekki verið lægra síðan í maí í fyrra. Þessa lækkun má rekja til þróunar á nafngengi krónunnar á tímabilinu sem einnig hefur lækkað um 5,3% frá því í nóvember miðað við vístölu meðalgengis."

Öll fréttin


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband