Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011

Guðmundur Steingrímsson hefur íhugað stöðu sína - stofnar sennilega nýjan flokk - talsmaður neytenda ekki lengur í flokknum, sagði bless!

FramsóknSvo virðist sem Framsóknarflokkurinn sé að klofna, vegna aðgerða formanns flokksins, þá sérstaklega greinar um Evrópumál, sem hann birti fyrir skömmu, þar sem hann gekk í raun gegn samþykkrum flokksþingsins í vor og sagðist vilja draga umsókn Íslands að ESB til baka.

Vísir og DV hafa greint frá því að Guðmundur Steingrímsson hyggist gera breytingar á stöðu sinn, að vandlega íhuguðu máli. Á vef Vísis stendur:

"„Ég er búinn að ákveða að segja á morgun hvað ég hafði hugsað mér að gera og vil aðeins hafa stjórn á þeirri atburðarrás," segir Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Framsóknarflokksins, í samtali við Vísi. Hann vill því hvorki játa því né neita hvort hann muni stofna nýjan stjórnmálaflokk eins og greint hefur verið frá í dag.

Fréttavefur DV sagðist í dag hafa heimildir fyrir því að Guðmundur myndi tilkynna um stofnun nýs flokks á morgun. Heimildir Vísis herma það sama.

„Ég sagði fyrr í sumar þegar Ásmundur kom til liðs við Framsóknarflokkinn að ég ætlaði að taka mér góðan tíma í að hugsa hvað maður ætlaði að gera pólitískt, því að mér fyndist eins og flokkurinn væri farinn eitthvert sem ég ætti ekki samleið með. Og ég er að nálgast niðurstöðu í því," segir Guðmundur í samtali við Vísi."

Öll fréttin

Í framhaldi af þessu er áhugavert að benda á pistil eftir Hall Magnússon, fyrrum félaga í Framsókn, en hann segir:

"Leiðtoginn er með harða “juntu” kring um sig – sem samanstendur annars vegar af nýliðum sem er harðsvírað varnarlið formannsins og styðja leiðtogan hvað sem á dynur og hins vegar hörðum gömlum flokksrefum sem alla vega tímabundið deila hagsmunum með leiðtoganum og nýliðunum.

Leiðtoginn sýnir styrk sinn eftir að hafa tryggt völd sín – með því að yfirgefa hefðbunda samvinnu og sáttapólitík innan flokksins undanfarna áratugi – og lætur sverfa til stáls svo hann og hörðustu stuðningsmenns hans geti haldið fullri stjórn á flokknum. Fyrir þá er betra að hafa lítinn flokk og öll tögl og haldir – en stóran flokk og þurfa að taka tillit til annarra.

Leiðtoginn vill sverfa til stáls við gamla óþægilega flokksmenn sem ekki eru reiðubúnir til að ganga í takt við hann, nýliðana og flokkskimann sem tryggðu honum völdin. Og gerir það að sjálfsögðu til að tryggja stöðu sína og í trausti þess að efasemdamenn hverfi á braut. Sem þeir gera.

Leiðtoginn sprengir flokkinn meðvitað í loft upp..."

Einnig frétt um málið á Eyjunni, en þar segir meðal annars að Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, hafi sagt sig úr flokknum.


Framsókn að springa?

dv-logoDV.is skrifar: "Mikill titringur er innan Framsóknarflokksins og vaxandi óánægja í garð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns flokksins. Stórra tíðinda er að vænta innan úr Framsóknarflokknum á morgun.

DV hefur heimildir fyrir því að Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hafi rætt það við aðra flokksmenn að undanförnu að kljúfa sig út úr Framsókn og stofna nýjan miðjuflokk. Guðmundur mun hafa fengið stuðning hjá öðrum flokksmönnum fyrir þessari hugmynd. Vitað er að Guðmundur er ósáttur við stefnu forystu flokksins og telur hana hafa farið út fyrir það sem flokkurinn ætti að standa fyrir. Framsóknarflokkurinn væri orðinn of þjóðernissinnaður og lífsgildi hans færu ekki saman við stefnu flokksins."

Öll frétt DV


Magnús Orri Schram í FRBL: Einangrun

Magnús Orri SchramMagnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingar skrifar grein í Fréttablaðið í dag undir fyrirsögninni Einangrun og segir þar meðal annars: "Evrusamstarfið mun að öllum líkindum dýpka og breytast töluvert á næstu árum. Til að bregðast við skuldavandamálum einstakra ríkja er stefnt að nánara samstarfi svo taka megi á ríkisútgjöldum og skuldastöðu. Við þessar jákvæðu breytingar mun samstarf innan evru styrkjast og væntanlegur ávinningur Íslendinga af upptöku evru verður enn til staðar.

Þess vegna er afstaða formanns Sjálfstæðisflokksins til aðildarumsóknar mikil vonbrigði. Það er með hreinum ólíkindum að formaðurinn vilji taka af þjóðinni möguleikann til upplýstrar ákvörðunar um aðild að ESB, án þess að vita hvernig tekst með t.d. sjávarútvegs- og landbúnaðarmál. Atvinnulífið í landinu hefur lengi kallað eftir aðild, enda öruggt rekstrarumhverfi mikilvægt fyrir öflugt atvinnulíf, þá sérstaklega þau fyrirtæki sem búa við mikla vaxtarmöguleika. Afstaða formannsins er líka mikil vonbrigði fyrir heimilin, sem hafa vænst lægri vaxta, afnáms verðtryggingar og lægra matarverðs með aðild að ESB.

Þessi afstaða er einnig vonbrigði fyrir miðju og hægri kjósendur sem telja að alþjóðaviðskipti, lægri viðskiptakostnaður og öryggi í rekstrarumhverfi fyrirtækja gegni lykilhlutverki við uppbyggingu atvinnulífs á Íslandi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú snúið bakinu við þessum kjósendum og gefið yfirlýsingu um íhalds- og einangrunarstefnu."

Öll greinin


Sýnum virðingu!

Evrópusamtökin hvetja menn til að gæta hófsemdar og sýna kurteisi í athugasemdum á blogginu.

Okkur þykir vænt um að geta haldið athugasemdakerfinu opnu. Við höfum þá sérstöðu, miðað við Nei-samtökin að geta haldið athugasemdakerfinu opnu.

Margt mjög gott kemur út úr athugasemdakerfinu, en svo er því miður ekki alltaf.

Bendum því bæði fylgismönnum og andstæðingum ESB á að sýna þessu virðingu.


Hvaða leiðir?

Á vef Vísis stendur: "Það eru margar aðrar leiðir til að skapa stöðugleika í efnahagslífinu á Íslandi aðrar en þær að ganga inn í Evrópusambandið, segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins."

Það er 2011, Framsóknarflokkurinn hefur verið í stórkostlegri valdastöðu í íslensku samfélagi á lýðveldistímanum. Spurning vaknar: Af hverju hafa þessar leiðir þá ekki verið notaðar fyrr? Eftir hverju hafa menn verið að bíða?


Leiðari FRBL um verðtryggingu og gjaldmiðilsmál

FRBLÍ leiðara Fréttablaðsins í gær gerði Ólafur Þ. Stepehensen verðtryggingu og gjaldmiðilsmál að umræðuefni og segir meðal annars:

"„Sveigjanleiki“ krónunnar er aðallega niður á við. Það má sjá með einföldu dæmi. Þegar myntbreytingin var gerð 1980 og tvö núll skorin aftan af krónunni eftir margra ára óðaverðbólgu var ein íslenzk króna jafngild einni danskri krónu. Nú, 31 ári síðar, þarf 22 íslenzkar krónur til að kaupa eina danska.

Sá sem lánar út peninga, sérstaklega til langs tíma eins og til að mynda lán til húsnæðiskaupa, vill auðvitað fá jafnverðmætar krónur til baka og hann lánaði upphaflega. Verðtryggingin hefur því reynzt ill nauðsyn vegna stöðugrar rýrnunar gjaldmiðilsins. Óvíst er að lántakendur væru betur settir án hennar ef ekkert annað breyttist. Lánveitendur myndu þá tryggja sig fyrir óvissunni með gífurlega háum vöxtum.

Verðtryggingin er í rauninni aðeins sjúkdómseinkenni í efnahagslífinu. Sjúkdómurinn sjálfur er ónýtur gjaldmiðill. Án nýs og stöðugri gjaldmiðils er vandamálið áfram til staðar."

Og Ólafur segir svo:

"Nærtækasta leiðin til að fá nýjan gjaldmiðil er að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið og taka upp evru. Nóg er af úrtölumönnum þessa dagana sem segja að allt sé í kalda koli á evrusvæðinu og evran muni brátt heyra sögunni til. Engin ástæða er til að gera lítið úr þeim vanda sem við er að glíma í ýmsum ríkjum sem nota evruna. Það vill þó fara framhjá fólki að vandinn er ekki gjaldmiðlinum að kenna heldur hallarekstri ríkisins og skuldasöfnun í einstökum ríkjum. Í sumum evruríkjum er ástandið ágætt, til dæmis í Eistlandi þar sem ríkisfjármálin voru tekin föstum tökum og upptaka evrunnar um síðustu áramót hefur að mati Eista sjálfra eflt erlenda fjárfestingu, útflutning og atvinnu.

Hvað sem um vanda evrusvæðisins má segja hefur almenningur þar ekki lent í því sama og íbúar krónusvæðisins hér á Íslandi, að húsnæðisskuldir hafi hækkað um tugi prósenta og verðbólgan ætt af stað vegna hruns gjaldmiðilsins.

Sérkennilegt er að stjórnmálamenn sem hafa engar lausnir fram að færa í peningamálum vilji nú loka þeirri leið fyrir Íslendingum að eiga kost á nýjum gjaldmiðli í gegnum ESB-aðild. Hvað ef evruríkin leysa vanda sinn og verða komin á lygnan sjó eftir eitt til tvö ár? Viljum við þá vera búin að skella dyrunum í lás?

Nær væri fyrir þá sem vilja losna við verðtrygginguna að efna til undirskriftasöfnunar og fara fram á að viðræður við ESB verði kláraðar, þannig að við eigum áfram kost á nýjum gjaldmiðli."


Þorsteinn Pálsson um dýr orð Bjarna Benediktssonar

Þorsteinn PálssonÞorsteinn Pálsson gerir ummæli Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins um síðustu helgi þess efnis að hætt beri við aðildarumrókna Íslands að ESB, að umtalsefni í sínum fasta laugardagspistli. Þorsteinn segir: "Einstaklingar standa ekki upp frá samningum án tilefnis eða gildra raka, hvað þá þjóðríki. Óumdeilt er að tilefni væri fyrir hendi ef Evrópusambandið hefði þegar á þessu stigi sett fram skilyrði sem útilokuðu frekari leit að lausnum á sérstöðu Íslands. Ekkert slíkt hefur hins vegar gerst.

Formaður Sjálfstæðisflokksins segir að forsendur hafi breyst fyrir þá sök að nokkur ríki Evrópusambandsins hafa lent í skuldavanda rétt eins og Ísland. Eru það gild rök? Vissulega er það svo að skuldavandi nokkurra Evrópusambandsríkja getur leitt til breytinga, rétt eins og staða Íslands er ekki söm eftir hrun krónunnar í kjölfar misheppnaðrar peningastefnu. Við höfum til dæmis þurft að lúta ýmsum skilyrðum AGS í peninga- og ríkisfjármálum."

Síðar segir Þorsteinn: "Aðildarviðræðurnar eru ekki hluti af valdaátökum líðandi stundar. Þær hafa heldur ekkert að gera með þá hagsmuni að verja pólitíska arfleifð liðins tíma. Þær snúast um framtíðarhagsmuni Íslands.

Að halda viðræðunum áfram heldur fleiri dyrum opnum um skipan peningamála og pólitíska stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Það gefur kjósendum kost á að velja frjálslyndari ríkisstjórn en kostur er á með VG. Það er því yfirvegaðri og skynsamlegri leið en viðræðuslit án tilefnis frá gagnaðilanum."

Þetta er rétt hjá Þorsteini, málið snýst um framtíðarhagsmuni Íslands og að kalla það framsýni að hætta viðræðum, eins og gert var síðar í vikunni, er algjörlega óskiljanlegt!

Allur pistill Þorsteins


Árni Páll: Skylda okkar að fá samning sem þjóðin fær að kjósa um

Árni Páll ÁrnasonÁrni Páll Árnason var í spjalli á Rás 2 í morgun og ræddi þar stöðuna í stjórnmálum. Hann kom meðal annars inn á ESB-málið. Hann sagði að það væri mikilvægt að opna Ísland og reyna eftir megni að búa svo um hnútana að hér væri eftirsóknarvert að búa og starfa. Hinn valmöguleikinn væri einangrun og fábreyttara atvinnulíf. Hann sagði það vera skyldu stjórnarflokkanna að skila þjóðinni samningi til að kjósa um.

Árni tjáði sig meðal annars um ummæli Bjarna Benediktssonar í viðtali í Fréttablaðinu í dag, þar sem hann ræðir veikleika krónunnar og segir: "Ég neita því hins vegar ekki að það er mjög erfitt að halda myntinni stöðugri, jafn lítil og hún er og viðkvæm fyrir ytri áhrifum. Það má orða það svo að sveiflurnar séu eins og fórnarkostnaður þess að hafa smáa mynt og verkefnið að halda þeim í algjöru lágmarki."

Þetta er athyglisvert í ljósi þess að fyrir nokkrum dögum sagði sami Bjarni Benediktsson í þættinum Sprengisandi að menn þyrftu ekki "...að hafa áhyggjur af krónunni." Hvernig gengur þetta upp?

Er það þá ekki áhyggjuefni að það sé erfitt að halda krónunni stöðugri og að hún sé viðkvæm gagnvart ytri áhrifum?

Hlusta má á allt viðtalið við Árna Pál hér og viðtalið við Bjarna Benediktsson er hér.


Samtök iðnaðarins: Ljúkum viðræðum og kjósum!

Já-ÍslandÁ www.jaisland.is stendur:

"Í gær ítrekuðu Samtök iðnaðarins ályktun Iðnþings, æðsta valds Samtaka iðnaðarins, frá því í mars  um þá eindregnu skoðun samtakanna að klára eigi aðildasamningana. Einnig að þeir telji að góður samningur geti skilað miklum hagsbótum fyrir bæði fyrirtæki og heimili landsins.

Orri Hauksson framkvæmdarstjóri Samtaka iðnaðarins segir  aðspurður  í Fréttablaðinu í dag ályktunina ekki koma sem viðbragð vegna ummæla formanns Sjálfstæðisflokksins heldur sé eingöngu verið að ítreka afstöðu Samtakanna.  En formaður Sjálfstæðisflokksins sagði í síðustu viku að hann teldi að draga ætti aðildarumsókn Íslands að ESB til baka."

SIÁ vef SI segir: "Ísland hefur sótt um aðild að Evrópusambandinu. Samtök iðnaðarins telja mikilvægt að umsóknarferlinu sé haldið áfram af fullum heilindum og í náinni samvinnu við atvinnulíf og aðra hagsmunaaðila.

Iðnþing er æðsta vald Samtaka iðnaðarins og hefur undanfarin ár ályktað um Evrópumál. Síðast var lögð áhersla á að ljúka viðræðum og leggja áherslu víðtæka hagsmuni heildarinnar. Hagfelldur aðildarsamningur kann að vera fyrirtækjum og heimilum til mikilla hagsbóta.

Samtök iðnaðarins telja engar líkur til að samningur, þar sem veigamiklum hagsmunum verður fórnað, verði samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu. Af þessum sökum er mikilvægt að ljúka ferlinu með það að markmiði að tryggja hagsmuni þjóðarinnar með sem hagstæðustum samningum til langs tíma."

 


Úrsagnir úr Framsókn í kjölfar greinar Sigmundar - vatnaskil í sögu flokksins?

FramsóknÞrír þungavigtarmenn í Framsóknarflokknum sögu sig úr flokknum í dag í kjölfar greinar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í Morgunblaðinu í dag, sem sagt hefur verið frá hér á blogginu. Þá herma fréttir að enn einn góður og gegn framsóknarmaður, Gísli Tryggvason, umboðsmaður neytenda og stjórnlagaráðsþingmaður hyggist einnig segja sig úr flokknum.

Andrés Pétursson, formaður Evrópusamtakanna, er einni þeirra sem sagði sig úr flokknum. Hann hefur sinnt lengi trúnaðarstörfum fyrir flokkinn og verið mjög virkur í starfi flokksins í Kópavogi, var m.a. formaður Framsóknarfélags Kópavogs um skeið. Hann skrifaði um málið á Facebook og segir þar í færslu sinni: 

    "Það er frekar skrýtin tilfinning að yfirgefa félagsskap sem maður hefur verið hluti af í yfir þrettan ár. Það hefur gengið á ýmsu öll þessi ár en í heild hefur þetta verið ánægjuleg reynsla. Ég hef kynnst mörgu frábæru fólki og átt góð skoðanaskipti við fólk víðs vegar um landið. Ég hef reyndar verið frekar óánægður með forystu flokksins undanfarin tvö ár og tel að hún verið of upptekin að horfa í baksýnisspegilinn í leit að lausnum í stað þess að horfa fram á veginn.

    Ég var mjög hugsi eftir flokksþingið í Reykjavík dagana 8.-10. Apríl s.l. Uppskrúfuð þjóðernishyggja einkenndi þingsetninguna og ég veit að mörgum fleirum en mér blöskraði uppákoman í Háskólabíói. Heilbrigt stolt yfir landi og þjóð er eðlilegt en þegar það er blásið upp úr öllu valdi þá fara ýmsar viðvörunarbjöllum að hringja. Íslenska þjóðin er enn í sárum eftir hrunið fyrir rúmum tveimur árum. Fólk er svekkt og sárt og slík staða er gróðrastía fyrir öfgafulla þjóðernishyggju. Oftrú á eigið ágæti fylgir oft í kjölfarið.

    Sumir hafa sagt að ég kunni ekki að tapa þar sem Framsóknarflokkurinn hafi ályktað að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins. Auðvitað varð ég fyrir vonbrigðum með þá ályktun. En ég hef verið lengið í flokknum og meirihlutann af þeim tíma hefur Framsókn verið frekar tortryggið gagnvart nánari samvinnu við Evrópu. Í mínum huga var þessi ályktun hins vegar birtingarmynd minnkandi umburðarlyndis og meiri einstrengisháttar í Framsóknarflokkunum. Ljóst er að ákveðin öfl innan flokksins ætluðu sér að ganga á milli bols og höfuðs á okkar alþjóðasinnunum. Forysta flokksins lét sér þetta í léttu rúmi liggja og tók meðal annars formaður þingflokksins beinan þátt í atburðarásinni.

    Þó svo að atlagan hafi að hluta til mistekist og flokksþingið fellt tillögu að draga ætti aðildarumsóknina til baka þá er ljóst að Framsóknarflokkurinn hefur hopað mörg ár aftur í tímann í alþjóðamálum. Einnig er sérkennilegt að flokkur sem kennir sig við samvinnuhugsjón, frjálslyndi og víðsýni skuli telja sig í stakk búinn að geta ákveðið fyrirfram, án þess að vita hvernig samning Íslendingar geta fengið, að aðild þjóni ekki hagsmunum Íslendinga. Slík forsjárhyggja á hvorki skylt við frjálslyndi né víðsýni. Í mínum huga er verið að verja ímyndaða hagsmuni lítilla hópa í þjóðfélaginu en ekki almannahagsmuni. Ef ég man rétt þá hefur Framsóknarflokkurinn einmitt látið almannahagsmuni ganga fyrir sérhagsmunum.

    Grein Sigmundur Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, í Morgunblaðinu í gær var hins vegar dropinn sem fyllti mælinn. Enn og aftur hunsar Sigmundur Davíð ályktanir flokksþings eins og hann hefur ítrekað gert í evrópumálum síðan hann var kosinn formaður. Á sama tíma talar hann um lýðræði á opinberum vettvangi þegar hann í raun veru er að hunsa lýðræðislega kjörna samkomu síns eigin flokks.

    Það er margt ágætis fólk innan Framsóknarflokksins en forysta flokksins hefur sveigt stefnu flokksins inn á braut sem mér hugnast ekki. Áhersluatriði núverandi stjórnar eru komin það langt frá minni lífssýn að það er ekki möguleiki að ég treysti mér að vinna þeim brautargengi. Ég tel því kröftum mínum betur varið á öðrum vettvangi.

    Andrés Pétursson

    Fyrrverandi Framsóknarmaður í Kópavogi "

Á Eyjunni segir: "G. Valdimar Valdemarsson, framkvæmdastjóri, hefur verið virkur þátttakandi í flokknum frá því á áttunda áratugnum og var meðal annars formaður málefnanefndar flokksins um langt árabil. Hann sagði sig úr Framsóknarflokknum í dag.

Það gerði líka Gestur Guðjónsson, verkfræðingur, sem hefur verið frambjóðandi á fjölmörgum framboðslistum flokksins í kosningum síðasta áratug, setið í stjórnum Framsóknarfélaga og kjördæmisráða í Reykjavík og haft umsjón með málefnaundirbúningi fyrir Flokksþing Framsóknarflokksins um árabil."

Í framhaldi af grein Sigmundar vaknar sú spurning hvernig flokkur Framsóknarflokkurinn sé að þróast í ?  Verður hann athvarf gallharðra "framsýnna" Nei-sinna og munu þá hófsamari aðilar með aðrar skoðanir eiga þar heimangengt?  Hvað með þingmenn á borð við Siv Friðleifsdóttur og Guðmund Steingrímsson? Eiga þau samleið með formanni sem lýsir Nei-sinnum flokksins sem "framsýnum" þegar kemur að Evrópumálum?

Og hvernig vill Framsókn eftir þetta hegða sér í Evrópumálum? Byggja á EES-samningnum, sem gerir Íslendingum skylt að taka við löggjöf ESB án nokkurra áhrifa? Vill Framsókn halda óbreyttu ástandi í gjaldmiðilsmálum, með haftakrónuna í öndvegi? Bara svo eitthvað sé nefnt! 

Urðu vatnaskil í sögu Framsóknarflokksins 18.ágúst 2011?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband