Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

Styrking um 1,5% kostaði um 1600 milljónir

Ein krónaSeðlabanki Íslands sá sig knúinn til þess að reyna að lappa upp á gengi krónunnar, sem hefur fallið sem steinn að undanförnu og keypti samkvæmt fréttum Stöðvar tvö/ Visir.is krónur fyrir um 9 milljónir Evra.

Við þetta styrktist hið lága gengi krónunnar um 1,5%, sem olli því að gengið á Evrunni fór úr rúmum 174 krónum í 172. Það voru nú öll ósköpin!

9 milljónir Evra, eru um 1600 milljónir.

Krónan er dýr!


Alveg hægt að leggja stór mál fyrir þjóðina - ok, kjósum þá um ESB!

Ritari rakst á viðtal á visir.is eftir að Icesave komst á hreint. Þart sagði Unnur Brá Konráðsdóttir, alþingismaður og varaformaður Nei-sinna, að Icesave væri gott dæmi um að það væri alveg hægt að leggja stór mál fyrir íslensku þjóðina.

Gott, þá skulum við fá aðildarsamning við ESB á borðið og kjósa um hann!

Fyrst Íslendigar gátu myndað sér skoðun og kosið um Icesave geta þeir líka kosið um ESB með aðildarsamning í höndunum.


Tony Blair: Afar slæmt fyrir Bretland að yfirgefa ESB!

LondonRétt eins og á Íslandi eru Evrópumálin í brennidepli. David Cameron hefur boðað þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Breta í ESB, vinni hann næstu kosningar.

Tony Blair fyrrum forsætisráðherra Breta og formaður Verkamannaflokksins bregst við þessum hugmyndum Camerons í viðtali við Der Spiegel og segir það fráleita hugmynd fyrir Bretland að yfirgefa ESB. Færir hann margvísleg rök fyrir málinu í fróðlegu viðtali.

Á vefnum Euractive er einnig greint frá því að stofnaður hafi verið þver-pólitískur hópur manna sem vilja berjast fyrir veru Bretlands í ESB. Þar eru innanborðs margir þungavigtarmenn.


Ellert B. Schram um jarmandi rollur og fleira í FRBL

Ellert B. SchramEllert B. Schram, fyrrverandi alþingismaður, skrifaði stórgóða grein í Fréttablaðið þann 31.1 um Evrópumálin og hefst hún svona:

"Ég hef aldrei farið dult með það, að vera Evrópusinni. Ég er í hópi þeirra sem vilja að Íslendingar ljúki aðildarviðræðum við Evrópusambandið og síðan verði málið lagt fyrir þjóðina í allsherjaratkvæðagreiðslu. Þetta eru mín viðhorf, enda þótt ég hafi auðvitað þann varnagla á, hvort samningar við EBS séu ásættanlegir fyrir land og þjóð, þegar þar að kemur.

Þetta held ég að sé almenn afstaða fylgismanna aðildarviðræðna. Þeir vilja sjá hvað er í pakkanum, áður en þeir gera upp sinn hug. Það er ábyrg og meðvituð afstaða að útiloka ekki aðild að Evrópusambandinu fyrir fram, eins og ástandið er hér á landi um þessar mundir. Þetta hefur lítið eða ekkert með mig sjálfan að gera, úr því sem komið er, hálfáttræðan manninn. Ég er að hugsa um framtíðina, börnin mín og komandi kynslóðir.

Nú hef ég enga ástæðu til að gera lítið úr skoðunum þeirra, sem eru andsnúnir aðildarviðræðum. Ég efast ekki um að þeir hafi þá sannfæringu að aðild að ESB sé röng stefna. En mér með öllu óskiljanlegt hvers vegna þeir haga málflutningi sínum á þann hátt sem gert er. Sá málflutningur gengur því miður út á það, að röksemdir aðildar séu eingöngu innantóm slagorð. Aðferðin sé sú, segja þeir, að „pikka upp línuna, éta þau upp og jarma, hvert eftir öðru, fáránleg, órökstudd slagorð sem helst minna á rollurnar í Animal Farm".

Hvort sem það er á Evrópuvaktinni, Morgunblaðinu, AMX eða INN, þá er sífellt og stöðugt verið að atyrða það fólk og þau samtök, sem vilja fara samningaleiðina til enda. Fólk er sakað um landráð og undirmál, svik við fullveldið. Eða eitthvað þaðan af verra."


Einmitt: Gerum nýja úttekt!

Framsókn hefur gert það að skilyrði fyrir þátttöku í ríkisstjórn eftir kosningar að verðtrygging verði afnumin. Á fundi þann 30.1 kom þetta fram. Þar kom einnig fram að Framsókn vill afnema gjaldeyrish0ftin sem fyrst. Í frétt um fundin á vb.is segir í frétt um þetta:

"Í kjölfar afnámsins er mælst til þess að óháðir sérfræðingar verði kallaðir til að gera úttekt á peningastefnunni sem rekin hefur verið hér undanfarin ár. Í kjölfarið verði gerð ný og trúverðug áætlun um sterkari peningastefnu auk þess sem áætlun verði gerð í gjaldmiðlamálum."

Er ekki nýkomin út risastór úttekt Seðlabankans um peningastefnuna og gjaldmiðilsmál? Og vita ekki allir nú þegar að peningastefnan frá árinu 2000 (c.a.) hefur ekki virkað?

Til hvers í ósköpunum að gera nýja úttekt?

Einn gallinn á umræðu hér á landi um gjaldmiðilsmál er sá að þar fara margir um eins og kettir í kringum heitan graut! OG EKKERT GERIST - nema það að samfélaginu blæðir vegna gjaldeyrishafta, verðbólgu og ofurvaxta!

Stundum er eins og stjórnmál séu bara til þess að slá vandamálunum á frest!

En við bendum Framsókn á að lesa úttekt SÍ!


Ekki vinnur tíminn með okkur í gjaldmiðilsmálum

TíminnEinu sinni var til hér á landi virðulegt dagblað sem hét Tíminn og t.d. ekki minni menn en Indriði G.Þorsteinsson ritstýrðu. Reyndar erfitt að finna betra nafn á dagblað heldur en einmitt Tíminn. Gamli Tíminn var málgagn Framsóknarflokksins á tíma "flokksblaðanna".

Nú er Tíminn aftur upp risinn og kom inn um bréfalúguna þann 31.janúar 2013. Fyrsta tölublað nýja Tímans skartar viðtali við fyrrum foringja Nei-sinna, Frosta Sigurjónssyni, sem býður sig fram í fyrsta sinn í pólitík- fyrir Framsókn.

Frosti pælir mikið í gjaldmiðilsmálum og fyrirsögn viðtalsins á forsíðu er: Krónan ekki vandamál Íslendinga. Inni í blaðinu segir Frosti svo að það sé bara búið að fara svo illa með hana og því sé þetta stjórnmálamönnunum að kenna. Sem er í sjálfu sér rétt. "Vandi okkar hefur verið óstjórn á peningamagni krónunnar og hann má laga." segir Frosti, en viðurkennir svo að verðtryggingin geri allt illt verra og skapi mikið óréttlæti.

En þarf ekki einmitt vertryggingu vegna krónunnar? Er það ekki sitthvor hliðin að sama peningnum?

Síðan segir Frosti að krónan geti sparað okkur milljarða á ári sem annars færu í að leigja erlendan gjaldmiðil. Takið eftir: LEIGJA.

kronan-frostiVið viljum benda Frosta á að ef Ísland taki upp Evruna eru miklar líkur á því að bæði vextir og verðbólga muni lækka hér, vegna þess jú; krónan keyrir upp hvort tveggja! Af því myndu sparast á bilinu 60 - 100 milljarðar á ári. Það hefur verið reiknað út. Svo eiga Íslendingar yfirleitt verðbólgumet miðað við aðrar Evrópuþjóðir. Vaxtakostnaður ríkisins fyrir árið 2012 var áætlaður um 80 milljarðar.

Og Evrunu þyrftum við ekkert að leigja! Við myndum bara taka hana upp sem lögeyri.

Og svona rétt í lokin viljum við benda Frosta á að á þessu ári verð fimm ár, hálfur áratugur, frá því að Ísland tók upp gjaldeyrishöft, vegna KRÓNUNNAR! Og það hefur enginn hugmynd um hvað þau hafa kostað íslenskt samfélag. Og ekki vinnur TÍMINN með okkur í þeim efnum!

Ef krónan er ekki vandamál Íslendinga - hverra þá? 


Sjálfstæðismenn með tilllögu: Köstum krónunni

Tíu íslenskar krónur (með loðnu)!Í frétt á visir.is segir þetta: "Samkvæmt drögum að tillögum um efnahags- og viðskiptamál, fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins, sem fram fer 21. til 24. febrúar, verður afnám gjaldeyrishafta gert að forgangsmáli, og það með upptöku alþjóðlegrar myntar, og þar með yrði krónan aflögð, henni kastað eins og það er stundum nefnt. Einkum er horft til þess að skoða upptöku Bandaríkjadals og Kanadadals, að því er segir í tillögunum, sem birtar voru á vefsvæði Sjálfstæðisflokksins í morgun.

Orðrétt segir í tillögunum: „Íslenska krónan í höftum getur ekki verið framatíðargjaldmiðill þjóðarinnar ef stefnt er að því að Íslendingar eigi kost á því að taka þátt í alþjóðlegri samkeppni og afla þjóðinni tekna á alheimsmarkaði. Nú, fimm árum eftir að gjaldeyrishöft voru sett á „til bráðabirgða" og engin trúverðug lausn hefur verið sett fram um afnám þeirra, er nauðsynlegt að Sjálfstæðisflokkurinn taki forystu um að kannaðir verði til þrautar allir möguleikar fyrir Ísland í gjaldeyrismálum. Landsfundur telur að Sjálfstæðisflokknum beri skylda til þess að setja afnám gjaldeyrishafta efst á forgangslista komist hann í ríkisstjórn. Til þess að svo megi vera telur landsfundur rétt að hafist verði handa við undirbúning um að taka í notkun alþjóðlega mynt á Íslandi í stað íslensku krónunnar. Alþjóðlegar myntir sem til greina gætu komið fyrir Ísland eru meðal annars Bandaríkjadalur, evra, Sterlingspund, norsk króna og Kanadadollar. Landsfundur telur eðlilegt að Sjálfstæðisflokkurinn kanni sérstaklega þau kjör og valkosti sem bjóðast við upptöku Kanadadollars og Bandaríkjadals."

Hér er tillagan á vef Sjálfstæðisflokksins. Í rækilegri úttekt Seðlabanka Íslands sem kom út á síðasta ári voru aðeins tveir möguleikar í stöðunni: Króna eða Evra. Nú, fyrst þessi tillaga Sjálfstæðismanna er komin fram, hvað er þá eftir?

Þess má einnig geta að bæði Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður flokksins og Kristján Þór Júlíusson, þingmaður, hafa sagt að vandamál fylgi krónunni. Illugi lét ummæli sín falla í þættinum Sprengisandi.

Mánudaginn 30.janúar var gengisvísitalan komin í tæp 235 stig, Evran í 174 krónur og dollarinn í tæpar 130!

Seðlabanki Íslands gaf það út árið 2009 að Evran ætti að vera á genginu 160 krónur árið 2012.

Leturbreyting: ES-bloggið.

 


Bresk yfirvöld íhuga herferð gegn Bretlandi

Samkvæmt frétt í The Guardian eru bresk yfirvöld að velta því fyrir sér að hefja herferð, gegn, já Bretlandi, í Rúmeníu og Búlgaríu. Þetta vegna hræðslu að bylgja fólks frá þessum löndum flæði yfir Bretland þegar takmörkunum þess efnis verður aflétt um næstu áramót.

Ætlunin er því að draga upp óaðlaðandi mynd af Bretlandi í þessum löndum, að þar rigni t.d. mjög mikið, störf séu fá og illa borguð, svo eitthvað sé nefnt. Boðskapurinn eigi að vera: Ekki koma hingað!

Alls ekki er þó vitað hvað geríst í þessum efnum og um allar tölur í þessu sambandi er deilt.

Ef til vill má skoða ræðu Davids Camerons um Evrópumálin um daginn í þessu ljósi.

En hafa ekki "allra þjóða kvikyndi" alltaf búið í Bretlandi og Bretar sjálfir verið úti um allt?

Ætla þeir kannski að loka landinu?


Milljörðum varið í rannsóknir á grafíni - Chalmers í Svíþjóð rannsakar nýtt ofurefni

GrafenTilkynnt var fyrir skömmu að sænski Chalmers-tækniháskólinn (ásamt fleirum) fengi um milljarð Evra frá framkvæmdastjórn ESB til þess að rannsaka og þróa notkun á nýju ofurefni, svokölluðu "grafíni". Um er að ræða efni sem er sterkara en sterkasta stál, en jafnfram létt og sveigjanlegt. Talið er að þetta efni feli ótrúlega möguleika í sér.

Mörg teymi hafa keppt um framlög til rannsókna og var verkefnið sem Chalmers stýrir annað þeirra sem varð fyrir valinu og fékk þennan "súper-styrk", upp á samtals 170 milljarða íslenskra króna, til tíu ára.


Ippon í Icesave! En nóg að gera samt...

IpponEins og fram kom í fréttum þann 28.1 unnu Íslendingar fullnaðarsigur í Icesave-málinu, eða með Ippon eins og sagt er í júdó! Það er alltaf gaman að vinna, hvort sem það er í fótbolta, Icesave eða einhverju öðru.

Margir hafa glaðst ógurlega, ekki síst formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem lýsir þessu eins og "löðrungi" framan í Evrópusambandið. Hefur því tvöfalda ástæðu til að halda veislu!

Kannski langar Sigmund bara til að löðrunga allt Evrópusambandið, alveg frá Jose Manuel Barroso og niðrúr!

En það er gott að þessu ólyktarmáli skuli verða lokið og vonum bara að annað eins mál komi aldrei upp hér á landi.

Niðurstaða þess breytir því hinsvegar ekki að af nægum öðrum vandamálum er að taka. Nægir að nefna króníska verðbólgu, gjaldeyrishöft, vaxtamál, verðtryggingu og snjóhengjuna, svo eitthvað sé nefnt.

Kostnaður vegna þessara þátta hefur verið mikill í gegnum tíðina og í núinu.

Ef við hefðum ekki allt þetta, þá værum við kannski bara mun betur stödd en t.d. Noregur og Sviss, já kannski bara á toppnum á rjómatertunni! 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband