Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Slæmur dagur fyrir krónuaðdáendur

Karl Th BirgissonKarl Th. Birgisson, Eyjubloggari, skrifaði þann 19.2 pistil um gjaldmiðilsmálin, sem eru mörgum hugleikin þessa dagana og verða sennilega eitt af kosningamálunum í vor:

"Þetta var ekki góður dagur fyrir íslenzku krónuna og aðdáendur hennar.

Seðlabankastjóri staðfesti enn einu sinni að „sjálfstæð“ króna verður aldrei gjaldgeng mynt í frjálsum alþjóðlegum viðskiptum. Með öðrum orðum: Krónan verður alltaf í höftum. Það verða ekki frjálsir fjármagnsflutningar til og frá landinu á meðan hún er við lýði.

Skoðanir Seðlabankastjóra þurfa svosem ekki að koma á óvart – hann er þekktur róttæklingur og kommúnisti.

En það kom líka hljóð úr annarri átt. Í grein í Fréttablaðinu nánast grátbað Ragnar H. Hall hæstaréttarlögmaður Sjálfstæðisflokkinn að láta af krónublæti sínu:

„[Flokkurinn ætlar] eftir kosningar í vor gera það sem í hans valdi stendur til að berja niður alla viðleitni til að koma annarri skipan á þau mál. Jafnframt beri að stöðva viðræður við Evrópusambandið þannig að örugglega verði ekki í ljós leitt hvað gæti komið út úr slíkum viðræðum.“

Þessi Ragnar Hall hlýtur að vera þjóðhættulegur landsölumaður.

Svar Bjarna Benediktssonar og Sigmundar Davíðs við þessum og öðrum rökum er alltaf það sama: „Við sitjum uppi með krónuna um ókomin ár. Það var niðurstaða þverpólitískrar nefndar sem skilaði skýrslu nýlega.“"

Þetta er rétt svo langt sem það nær – en það nær ósköp skammt. Það er til önnur leið.


Lettland mun sækja um Evru

EvraÁ RÚV segir: "Lettar ætla bráðlega að sækja um aðild að evrópska myntsamstarfinu og vonast til að geta tekið upp evru fyrir næstu áramót.

Valdis Dombrovskis, forsætisráðherra segir í viðtali við Lundúnablaðið Guardian að formleg umsókn um aðild að myntsamstarfinu verði lögð inn í byrjun næsta mánaðar. Markmiðið sé að að Lettland verði orðið átjánda evrulandið í lok ársins. Hann segir að lettneskir embættismenn eigi í viðræðum við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Evrópska seðlabankann. Málið sé nú tæknilegs eðlis.

Dombrovski segir að öllum undirbúningi ætti að vera lokið í júlí. Hann segir að Lettar líti á umsóknina sem eins konar tryggingu. Hvað svo sem gerist með evruna þá gerist það sama í Lettlandi því 80% allra lána, til heimila og fyrirtækja, séu í evrum."


Reynsla Finnlands gæti nýst Íslendingum

RÚVÁ RÚV sagði þann 18.2: "Hvað fór úrskeiðis á evrusvæðinu og hverjar eru horfurnar? Þetta voru aðalviðfangsefnin í erindi Sixtens Korkman í Háskóla Íslands í dag.

Þessi skeleggi Finni, sem á sínum tíma var framkvæmdastjóri ráðherraráðsins á mótunarárum myntbandalagsins, segir að ýmis mistök hafi verið gerð, til dæmis hafi of mörgum ríkjum verið hleypt inn sem ekki voru reiðubúin. Þótt útlitið hafi heldur batnað telur Korkmann að meira þurfi til til að tryggja stöðugleika til langframa, til dæmis að samræma betur reglur um fjármálastarfsemi. Honum líst hins vegar illa á hugmyndir um sameiginlega skuldabréfaútgáfu evruríkjanna."


Umboðsmaður neytenda: Neytendur njóti vafans!

Stöð 2Stöð tvö var með áhugaverða frétt um verðtryggingarmál þann 18.2 í kjölfar álits frá ESB um málið.

Björgvin G. Sigurðsson um íslenska hestinn, Guðna Ágústsson og ESB

Björgvin G. SigurðssonBjörgvin G. Sigurðsson, alþingismaður, skrifaði grein um íslenska hestinn (og Guðna Ágústsson) í Morgunblaðið þann 18. febrúar. Grein Björgvins hefst svona:

"Í Morgunblaðinu 9. febrúar leggur sveitungi minn Guðni Ágústsson fyrrverandi ráðherra út af viðtali við Íslandsvininn og hestakonuna Karola Schmeil í Eiðfaxa, en Karola telur útséð um að hægt verði að semja um bann við innflutningi á lifandi dýrum til Íslands. Þetta grípur Guðni á lofti og skorar á utanríkisráðherra og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að gefa skýr svör um málið og hvernig haldið er á því í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið. Ég ætla að taka ómakið af ráðherrunum.

Samið um bann við innflutningi lifandi dýra

Ég er sammála Guðna og Karolu um það að íslenski hesturinn er einstakt menningarfyrirbæri, samofið sögu lands og þjóðar. Guðni vísar til góðrar sjúkdómsstöðu, ekki einungis hestsins – heldur einnig annarra innlendra búfjárstofna. Guðni bendir réttilega á hætturnar sem því myndu fylgja að lifandi dýr yrðu flutt til landsins. Það er sannfæring mín, rétt eins og Guðna, að semja verður um bann við innflutningi lifandi dýra í aðildarviðræðunum.

Í áliti meirihluta utanríkismálanefndar frá 16. júlí 2009, sem fylgdi þingsályktun Alþingis um aðildarumsóknina, kemur skýrt fram að viðhalda beri þeim undanþágum og sérlausnum sem Ísland hefur í dag á grundvelli EES-samningsins. Sérstaklega er fjallað um lifandi dýr í því samhengi. Stjórnvöld hafa sýnt í verki hvernig þau fylgja í hvívetna þeim vegvísi sem meirihluti utanríkismálanefndar setti fram og Alþingi veitti umboð sitt til að starfa eftir."


Tvær áhugaverðar greinar

FréttablaðiðVert er að vekja athygli á tveimur greinum í Fréttablaðinu í dag. Í þeirri fyrri spyr Ragnar Hall, lögmaður hvort eigi að "hjakka í sama farinu" og á þar við gjaldmiðilsmálin og þörfina á umræðum um þau á komandi landsfundi Sjálfstæðisflokksins:

"Vissulega hafa verið erfiðleikar í ýmsum ríkjum Evrópusambandsins, og ekki er búið að leysa þau mál öll. Halda stjórnmálamenn hér uppi á Íslandi að við getum leitt hjá okkur vandann á helstu markaðssvæðum okkar með því að halda dauðahaldi í krónuna og „verja" hana með gjaldeyrishöftum?

Eitt af gullkornum áranna fyrir hrun var staðhæfingin um að galdurinn á bak við íslenska efnahagsundrið væri sveigjanleiki gjaldmiðilsins. Við héldum uppi fáránlega „sterkri" krónu með því að bjóða hærri vexti en tíðkuðust nokkurs staðar annars staðar. Afleiðingar af þessu þekkja allir – skuldarar vísitölutryggðra húsnæðislána þó sennilega betur en margir aðrir. Í dag liggur „styrkur" krónunnar í því að löggjöf um gjaldeyrishöft kemur í veg fyrir rétta skráningu hennar.

Ástæða er til að hvetja landsfundarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins til þess að taka þessi mál til alvarlegri skoðunar en gert hefur verið innan flokksins til þessa. Þegar öllu er á botninn hvolft er ákvörðun um framtíðargjaldmiðil í landinu langmikilvægasta málið á dagskrá íslenskra stjórnmála nú um stundir."

Í þeirri seinni veltir hagfræðingurinn Þröstur Ólafsson meðal annars fyrir sér hlutverkum hjartans og heilans í Evrópumálunum: "Það mun hafa verið Matthías Johannessen sem svaraði spurningu um afstöðu sína til ESB á þann veg að hjartað segði nei en heilinn já. Þetta svar er kjarninn í viðhorfi margra Íslendinga í þessu máli. Hugsunin sér kostina og greinir gallana en hjartað hýsir óvissuna og óttann. Þessi tvíhyggja milli mannsandans og hjartans er það andskot sem mannskepnan verður að rogast með og velja á milli. Þessi átök leiða af sér viðvarandi óttatilfinningu. Við rekjum mörg stórátök mannkynssögunnar til þess að annar hvor helftin fór hamförum."

Síðan segir Þröstur: "Þessi átök milli heilans og hjartans, hugsunar og tilfinninga, geisa nú hér á landi. Tvær átakafylkingar skírskota til andstæðra hughrifa í baráttu um skoðanir landsmanna um aðildina að ESB. Annars vegar eru það þeir sem reyna að beita rökum skynseminnar fyrir því að aukin velferð okkar og velgengni í framtíð sé háð því að við verðum aðilar að ESB. Reynt er að leggja skynsemismat á kosti og vankanta. Nýta sér m.a. reynslu annarra þjóða. Hins vegar eru það þeir sem skírskota með málflutningi sínum til óttans, til hjartans. Í átökunum um uppkastið 1908 var sagt að aðferð andstæðinga þess væri að „vekja upp drauga, skapa grýlur, - þyrla upp ryki og reyna á allar lundir að vekja hræðslu og tortryggni … ásamt gömlu vopnunum: skrökinu, hártogunum og blekkingum." Í átökunum nú er búin til hrollvekja þar sem flest eftirsóknarverð gæði hérlendis verða færð útlendingum. Þjóðinni er sagt að niðurstaða úr samningaviðræðunum sé fyrir fram ákveðin og hún sé ekki glæsileg; íslenskur landbúnaður leggist af, fiskimiðin afhent útlendingum og þjóðin verði rænd fullveldinu, sjálfu fjöregginu. Slík framtíðarsýn vekur að sjálfsögðu ótta og geðshræringu, eins og að er stefnt. Gagnvart þessari nístandi ógnvekju á tilfinningasnautt skynsemistal undir högg að sækja."


Sigurlaug Anna: Er um eitthvað að semja? - Auðvitað eru sérlausnir!

Sigurlaug Anna JóhannsdóttirSigurlaug Anna Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri samtakanna Já-Ísland, skrifaði grein um ESB-málið í Morgunblaðið þann 13.febrúar. Greinin birtist hér öll með leyfi höfundar: Er um eitthvað að semja?  - Auðvitað eru sérlausnir!

Á fundi með formönnum stjórnmálaflokkanna  þann 4. febrúar sl. um framtíð aðildarviðræðna við ESB var Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Bjarna Benediktssyni tíðrætt um að það væri ekkert til þess að semja um við Evrópusambandið því sambandið byggði á sáttmálum sem ekki væri vikið frá.  Fyrirspyrjendur spurðu hvernig þeir gætu  haldið þessu fram og komu með nokkur dæmi um sérlausnir og undanþágur sem vitað er að samið hefur verið um milli ESB og ýmissa aðildarríkja.  Þeir Sigmundur og Bjarni vildu ekki gera mikið úr þeim og sagði Bjarni m.a. að þau dæmi sem nefnd voru væru ekki af þeirri stærðargráðu sem Ísland þyrfti á að halda og vörðuðu ekki slíka hagsmuni eins og sjávarútvegurinn er fyrir okkur Íslendingum.

Af þessu tilefni fletti ég upp á skýrslu Evrópunefndar Forsætisráðuneytisins skipaða af Davíð Oddssyni árið 2004.  Skýrslan kom út árið 2007 og ber heitið Tengsl Íslands og Evrópusambandsins.  Hana er að finna á vef ráðuneytisins en í henni eru nefnd fjölmörg dæmi um sérlausnir og undanþágur sem ESB hefur samið um í aðildarviðræðum.

Hér eru nokkur þeirra:

·         Þegar Grikkir gengu inn í Evrópusambandið var sérákvæði um bómullarframleiðslu sett inn í aðildarsamning þeirra, en bómullarrækt var mjög mikilvæg fyrir grískt efnahagslíf. Þótti ljóst að landbúnaðarstefnan gæti að óbreyttu stefnt þessum mikilvæga atvinnuvegi í hættu og tókst Grikkjum því að fá sérstöðu bómullarræktunar viðurkennda í aðildarsamningum sínum. Hið sama gerðist þegar Spánverjar og Portúgalar gengu í ESB og þessi ákvæði hafa nú almennt gildi innan landbúnaðarstefnunnar.

·         Malta og Lettland sömdu einnig um tilteknar sérlausnir í sjávarútvegi í aðildarsamningum sínum, sem fela í sér sérstakt stjórnunarsvæði fiskveiða á tilteknum svæðum, en þær lausnir byggja á verndunarsjónarmiðum og fela ekki í sér undanþágu frá reglunni um jafnan aðgang.

·         Eitt þekktasta dæmið um sérlausn er að finna í aðildarsamningi Danmerkur árið 1973, en samkvæmt henni mega Danir viðhalda löggjöf sinni um kaup á sumarhúsum í Danmörku. Í þeirri löggjöf felst m.a. að aðeins þeir sem búsettir hafa verið í Danmörku í a.m.k. fimm ár mega kaupa sumarhús í Danmörku, en þó er hægt að sækja um undanþágu frá því skilyrði til dómsmálaráðherra Danmerkur.

·         Malta samdi um svipaða sérlausn í aðildarsamningi sínum, en samkvæmt bókun við aðildarsamninginn má Malta viðhalda löggjöf sinni um kaup á húseignum á Möltu og takmarka heimildir þeirra sem ekki hafa búið á Möltu í a.m.k. fimm ár til að eignast fleiri en eina húseign á eyjunni. Rökin fyrir þessari bókun eru m.a. að takmarkaður fjöldi húseigna, sem og takmarkað landrými fyrir nýbyggingar, sé til staðar á Möltu og því sé nauðsynlegt að tryggja að nægilegt landrými sé til staðar fyrir búsetuþróun núverandi íbúa.

·         Í aðildarsamningi Finnlands og Svíþjóðar 1994 var fundin sérlausn sem felst í því að samið var um að Finnum og Svíum yrði heimilt að veita sérstaka styrki vegna landbúnaðar á norðurslóðum, þ.e. norðan við 62. breiddargráðu. Sú lausn felur í sér að þeir mega sjálfir styrkja landbúnað sinn sem nemur 35% umfram önnur aðildarlönd. Í aðildarsamningi Finnlands er einnig ákvæði um að styrkja megi svæði sem eiga í alvarlegum erfiðleikum með aðlögun að hinni sameiginlegu landbúnaðarstefnu ESB og Finnar hafa nýtt það ákvæði til að semja við ESB um sérstuðning fyrir Suður-Finnland.

·         Stuðningur við harðbýl svæði (Less Favoured Area, LFA) varð til við inngöngu Bretlands og Írlands í ESB, en þessi ríki höfðu áhyggjur af hálandalandbúnaði sínum og því var samið um sérstakan harðbýlisstuðning til að tryggja að landbúnaðurinn gæti staðið af sér samkeppni við frjósamari svæði Evrópu. Finnland, Svíþjóð og Austurríki sömdu einnig sérstaklega um þannig stuðning í aðildarsamningi sínum og sem dæmi má nefna að 85% Finnlands var skilgreint sem harðbýlt svæði.  Í aðildarsamningi Möltu er ákvæði um að Malta verði skilgreint sem harðbýlt svæði, auk þess sem í sérstakri yfirlýsingu er fjallað um eyjuna Gozo og m.a. tiltekið að hún verði flokkuð sérstaklega með tilliti til styrkja vegna sérstakra aðstæðna á eyjunni.

Mörg fleiri dæmi eru tekin í skýrslunni.  Ég legg til að þeir félagar, og allir áhugasamir, sæki hana á netinu og lesi sér betur til um málið.


Þórður Snær í FRBL: Tvær þjóðir

Þórður Snær JúlíussonÞórður Snær Júlíusson, blaðamaður á Fréttablaðinu, skrifaði afar áhugaverðan leiðara um efnahagsmálin þann 16.2 og veltir þar því upp að krónan og því sem henni fylgir sé smám saman að mynda tvær þjóðir í landinu. Við birtum hér niðurlag leiðarans:

"Það er því hægt að segja að til séu tvær þjóðir á Íslandi. Sú fyrri býr hérlendis, þiggur laun í íslenskum krónum og lýtur gervigengi gjaldmiðilsins sem höftin búa til. Sú síðari þénar í gjaldeyri eða á erlendar eignir. Hún getur keypt í íslenskum fyrirtækjum, fasteignir eða bara fjárfest á 20 prósent lægra verði en fyrri hópurinn. Nú þegar liggur fyrir að gjaldeyrishöft verða ótímabundin mun eignamyndunarbilið á milli þessara tveggja hópa breikka. Hratt."

Er það virkilega svo að staða galdmiðilsmála ýtir hér undir stéttaskiptingu og óeðlilega hópamyndun í samfélaginu, sem grundvallast á aðgengi að erlendum gjaldmiðli?


Guðmundur Gunnarsson með öflugan pistil á Eyjunni

Guðmundur GunnarssonGuðmundur Gunnarsson, Eyjubloggari, skrifaði kröftugan pistil um efnahagsmál á Eyjuna og hefst pistillinn svona: "

"Það eru ekki nema 2-3 áratugir síðan allar innistæður íslenskra sparifjáreigenda í bönkum og lífeyrissjóðum brunnu upp á verðbólgubáli. Þar lagðist á eitt, lélegur gjaldmiðill og sveiflukennd, ómarkviss peningastjórnun, sem er ekki trúverðug, enda erlendir fjárfestar tregir til þátttöku í rekstri á íslandi. Upptaka evru eða tenging krónunnar við Evruna með vikmörkum og baktryggingu Seðlabanka ESB eins og Danir og Færeyingar hafa gert mun gera okkur kleift að ná langþráðum stöðugleika.

Seðlabankinn áætlar að með upptöku evru sparist 5 til 15 milljarðar króna á ári í beinan viðskiptakostnað. Þá getur sjálfstæð mynt ein og sér virkað sem viðskiptahindrun. Beinn viðskiptakostnaður vegna sérstaks gjaldmiðils er kostnaður sem fylgir því að skipta úr einum gjaldmiðli yfir í annan, það er þegar evrur eru keyptar fyrir krónur og öfugt. Þessi kostnaður lendir bæði á fjármálafyrirtækjum sem eiga viðskipti sem erlendan gjaldeyri fyrir innlendan og einnig hjá einstaklingum og fyrirtækjum sem þurfa að kaupa eða selja erlendan gjaldeyri til að greiða fyrir tiltekin viðskipti.

Einnig verður að benda á þann sparnað sem hlýst af því að þurfa ekki að halda úti stórum gjaldeyrisforða til að styðja við smáa mynt. Vaxtakostnaður vegna gjaldeyrisvarasjóðsins Íslands er um 33 milljarðar króna á ári og eins hærri vaxtakostnaðar vegna þeirra lánakjara sem Íslandi býðst með sinn ótrúverðuga gjaldmiðil.

Lækkun vaxta mun hafa gríðarleg áhrif á greiðslubyrði einstaklinga, heimila og fyrirtækja. Sem dæmi má nefna að samkvæmt nýlegum útreikningum Alþýðusambands Íslands getur árlegur sparnaður fyrir íslensk heimili numið um 15 milljörðum króna fyrir hverja prósentu í lægri vöxtum.

Óstöðugur gjaldmiðill veldur því að vextir hér á landi eru um 5% hærri en í nágrannalöndum okkar, þetta kostar heimilin og fyrirtækin í landinu gríðarlega mikið, eða með öðrum orðum íslensk heimili eru að greiða árlega 75 milljarða í vexti umfram það sem hér væri ef við værum með „eðlilegan“ gjaldmiðil."
(Leturbreyting, ES-bloggið)

Bomba í verðtryggingarmálum?

MBLMBL.is skrifar: "Það er álit framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að sé heildarkostnaður við lántöku ekki tilgreindur geti það brotið í bága við neytendalöggjöf sambandsins.

Er sú afstaða talin geta haft víðtækar afleiðingar fyrir verðtryggð lán á Íslandi, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Þetta álit kemur fram í svari Mariu Lissowska, sérfræðings innan framkvæmdastjórnarinnar, við fyrirspurn dr. Mariu Elviru Mendez-Pinedo, prófessors í Evrópurétti við Háskóla Íslands."

Nú hafa tveir þingmenn Sjálfsætðisflokksins (og miklir andstæðingar ESB) krafist fundar vegna þessa álits og í annarri frétt MBL.is segir: "Guðlaugur Þór Þórðarson og Pétur H. Blöndal, þingmenn Sjálfstæðisflokks íefnahags- og viðskiptanefnd Alþingis hafa óskað eftir fundi í nefndinni til að fara yfir álit framkvæmdastjórnar ESB á verðtryggðum lánum.

„Það er mjög mikilvægt að það liggi fyrir sem allra fyrst hvaða afleiðingar þetta álit hefur í för með sér,“ segir í tilkynningu frá þingmönnunum. Óskaði er jafnframt eftir að dr. Mariu Elviru Mendez-Pinedo, Arnar Kristinsson og sérfræðinga ráðuneytisins á þessu sviði komi fyrir nefndina."

Er hér á ferðinni bomba í verðtryggingarmálum?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband