Leita í fréttum mbl.is

Gleymdi Styrmir Krónunni?

Styrmir GunnarssonStyrmir Gunnarsson, fyrrum ritstjóri Morgunblaðsins, hefur ekki sagt skilið við sitt gamla blað og skrifar þar reglulega pistla um samfélagsmál. Sá sem ritar þessi orð getur stundum tekið undir með Styrmi enda hefur Styrmir góða yfirsýn yfir landsmálin. Nú um stundir ber mest á Styrmi sem öðrum ritstjóra(?) Evrópuvaktarinnar.

Í pistli í sunnudagsMogganum sem ber yfirskriftina; Sálarkreppa hins lokaða klíkusamfélags segir Styrmir það vera skoðun sína að Íslandi og Íslendingnum hafi ekki tekist að sameinast eftir kreppuna sem skall á árið 2008. Hann miðar við Norðmenn eftir hina skelfilegu atburði sem áttu sér stað þar í landi í lok síðustu viku, en viðbrögð þeirra hafa vakið aðdáun; að berjast gegn hinu vonda með enn meira lýðræði, opnun samfélagsins og umræðu.

Styrmir liggur ekki á skoðunum sínum: "Þótt hrunið haustið 2008 sé einhver dramatískasti atburður sem orðið hefur í lífi íslenzku þjóðarinnar á lýðveldistímanum hefur það ekki orðið til þess að sameina þjóðina. Kannski vegna þess að á yfirborðinu snýst það að mestu um peninga og peningar sundra yfirleitt fólki en sameina ekki.

Þó er það svo, að hrunið á sér dýpri rætur. Það snýst ekki einvörðungu um peninga. Það snýst um samfélagsgerðina, samskipti og tengsl okkar í milli, hið lokaða samfélag fámennisins, fjölskyldu-, vina- og kunningjatengsl. Ef við tökumst ekki á við þær rætur vandans verður nýtt hrun."

En Styrmi tekst einnig að koma inn á vandamálin í Evrópu, en eins og kunnugt er, er hann í stjórn Nei-samtakanna: "...það er hins vegar aldrei of seint að hefja opnar umræður um grundvallarveikleikana í samfélagsgerð okkar. Þegar við horfum til Evrópu, úr þeirri fjarlægð, sem við búum við hér, sjáum við vel þá bresti sem eru í sameiginlegu gjaldmiðilskerfi evruríkjanna en við sjáum ekki jafn vel brestina í okkar eigin þjóðfélagsgerð."

En Styrmir: Hvað með krónuna? Hversvegna sneiðir Styrmir svo listilega framhjá þeirri staðreynd að gjaldmiðilshrunið (og eftirköst þess, sem enn í dag leiða til aukinnar verðbólgu hér á landi og skuldaaukningar heimila) er eitt af höfuðvandamálum efnahagslífsins? Nei, sennilega má ekki ræða það, eða það er hreinlega ekki vilji til þess!

Styrmir er einnig mikill talsmaður beins lýðræðis og telur að það geti leyst mikið af okkar vandamálum og segir einfaldlega: "Hið beina lýðræði er svarið."

Á sama tíma er Styrmir hluti af samtökum, sem vilja draga ESB-málið til baka og ekki veita þjóðinni þann rétt að kjósa um aðildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslu!

Hvað er lýðræðislegra en að vinna að góðum samningi, ræða hann á lýðræðislegan hátt og ganga svo til atkvæða?

Hvernig gengur þetta upp?

 

 


Fréttatíminn: Stöðugleika ekki náð með krónuna sem hagstjórnartæki

Fréttatíminn

Í leiðara Fréttatímans í dag skrifa Jón Kaldal um gjaldmiðilsmál, en sú kenning hefur verið á lofti að krónan eigi (og sé)  að bjarga okkur út úr efnahagsvandanum. Hægt er hinsvegar að spyrja hvar þessi stórkostlega "krónubjörgun" sé?

Yfirskrift leiðarans er; "Flóttinn frá því að tala um krónuna," og beinir Jón orðum sínum að Bjarna Benediktssyni og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formönnum tveggja Nei-flokka í ESB málinu og segir að réttilega sé hægt að gagnrýna stjórnvöld fyrir slæma frammistöðu við að skapa atvinnulífinu góða umgjörð. 

Svo segir Jón Kaldal: "Gagnrýni þeirra hljómar hins vegar heldur aumlega þegar þeir skjóta sér á sama tíma undan því að ræða þann grundvallarþátt efnahagslífsins sem krónan er." Og hann segir þessa tvo leiðtoga ekki virðast vilja ræða framtíðarskipan gjaldmiðilsmála hér á landi og segir síðan: " Lengi hefur þó legið fyrir að ásættanlegum stöðugleika verður ekki náð með krónuna sem hagstjórnartæki." 

Lesa má allan leiðarann á vef blaðsins, www.frettatiminn.is

 


Ofmat á krónunni?

Tómas Ingi Olrich, fyrrum ráðherra Sjálfstæðisflokksins, skrifar grein um Evruna í Morgunblaðið í dag og þar má lesa þetta:

"Á árunum fyrir lánsfjárkreppuna var ljóst að íslenska krónan var ofmetin á markaði. Réðu því miklar framkvæmdir og þensla á íslenskum vinnumarkaði, sem ekki var fylgt eftir með samdrætti í opinberum framkvæmdum. Við þessi vandamál bættist útgáfa verðbréfa í íslenskum krónum erlendis. Jók hún á ofmat krónunnar og frestaði aðlögun gjaldeyrisins að raunveruleikanum. Seðlabanki Íslands gerði það sem var á hans valdi til að draga úr þenslu með mjög háum stýrivöxtum."

Þetta er athyglisverð fullyrðing, því spyrja má; snerist þetta um ofmat á krónunni? Var ekki gengi krónunnar kolvitlaust skráð og var það ekki gert með handvirkum hætti?

Var ekki krónan "spilamynt" sem menn úti í heimi (og hérlendis) gátu leikið sér með, tekið stöðu gagn og svo framvegis?

Og hvað er sem segir okkur að það muni breytast? Litlir gjaldmiðlar eru mun berskjaldaðri gagnvart spákaupmennsku en stórir. Evran er mun öruggari gjaldmiðill að þessu leyti en krónan, minnsti sjálfstæði gjaldmiðill í heimi!

 


FRBL: "Hættu að hræða fólk, Jón!"

Gunnar Hólmsteinn ÁrsælssonGunnar Hólmsteinn Ársælsson, stjórnmálafræðingur og stjórnarmaður í Evrópusamtökunum, skrifar grein í Fréttablaðið í dag um landbúnaðarmál og kemur í henni inn á ESB-málið. Gunnar segir meðal annars:

"Íslenskir bændur eru í þeirri óskastöðu að geta flutt út íslenskt lamb og grætt vel. Á móti er bannað að flytja inn erlent kjöt, ef á þarf að halda vegna eftirspurnar hér. Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra Íslands, segir að það komi ekki til greina, þrátt fyrir samninga þess efnis um að ákveðinn innflutning eigi að leyfa.

Sem rök fyrir máli sínu notar Jón Bjarnason „fæðu og matvælaöryggi" landsins. Kjarninn í þeim rökum er sá að allur innflutningur á landbúnaðarafurðum (og þetta tengist að sjálfsögðu ESB-málinu, þar sem tollar á ESB-landbúnaðarafurðir myndu falla niður við aðild) myndi ganga af íslenskum landbúnaði dauðum. Rústa landbúnaðinn, eins og sumum bændum er tamt að segja.

Það er hinsvegar svo að í engu ríki sem gengið hefur í ESB hefur landbúnaður lagst í rúst! Nýlegt dæmi um hið gagnstæða er hið mikla landbúnaðarland, Pólland, sem gekk í ESB árið 2004. Þar hefur ESB styrkt landbúnað og eflt þá atvinnugrein í samvinnu við pólsk stjórnvöld. Þar með hefur aðild stóraukið „fæðu- og matvælaöryggi" Póllands og nútímavætt pólskan landbúnað, gert hann samkeppnishæfari! Nefna má í þessu sambandi að útflutningur á pólskum landbúnaðarafurðum hefur stóraukist og um 70% útflutnings fara til ESB, mest Þýskalands."

Öll greinin


Inga Sigrún Atladóttir í FRBL: Höfum mikið að bjóða!

Inga Sigrún AtladóttirInga Sigrún Atladóttir, bæjarfulltrúi í Vogum, skrifar grein um ESB-málið í dag, en það er alltaf  ánægjulegt þegar konur tjá sig um þetta mál, enda mikil "kallaslagsíða" á því. Inga Sigrún segir:

"Ég tel aftur á móti að Ísland hafi mikið að bjóða grönnum sínum í Evrópu og ég tel að við höfum skyldur til að miðla þeim verðmætum sem við höfum. Þá er ég ekki að tala um orku, fisk eða landbúnaðarvörur heldur lýðræðishefð og friðarboðskap sem Íslendingar hafa varðveitt í margar kynslóðir, ekki bara í orði heldur líka í framkvæmd.

Markmið Evrópusambandsins er að jafna og bæta kjör í aðildarríkjunum. Evrópusambandið byggir á þeirri sýn að friður á milli sjálfstæðra ríkja verði best tryggður með samskiptum og samvinnu, gagnkvæmum skilningi og jafnræði í réttindum og lífskjörum.

Íslendingar hafa staðið sig mjög vel í að móta reglur um réttindi fólks á vinnumarkaði og miðlað þannig áherslum íslensks vinnumarkaðar um velferð og réttindi inn í samevrópskar reglur. Aðild ASÍ að Evrópusambandi stéttarfélaga hefur gefið sambandinu tækifæri til að standa þá vakt með miklum sóma. Á sama hátt getum við nýtt sérþekkingu okkar og reynslu til að hafa áhrif í friðar- og lýðræðismálum innan Evrópusambandsins."

Öll greinin 


Verðbólga tvisvar sinnum hærri en verðbólgumarkmið S.Í.

PrósentHelstu miðlar greina frá því í dag að verðbólga á ársgrundvelli sé um 5% eða tvisvar sinnum meiri en verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands, sem er upp á 2,5%.

Það hefur verið við lýði í fjölda ára, en aðeins á árunum 2003-4 og í byrjun þessa árs hefur tekist að halda þetta markmið. Sem segir ákveðna sögu.

Morgunblaðið sem og Vísir.is skýra frá þessu og nefndar eru margvíslegar skýringar á þessu, allt frá sumarútsölum til falls á gengi krónunnar, sem Jónas Kristjánsson gerði að umfjöllunarefni í pistli á bloggi sínu fyrir skömmu. Einnig má lesa um þessi mál á vef Hagstofunnar.

Íslenskir neytendur sitja því áfram í verðbólgusúpunni!

Til samanburðar má nefna að meðaltal verðbólgu innan ESB nú í júni var 2.7% og meðaltal verðbólgu í ESB frá 1991 til 2010 var 2.24%. Þetta heitir verðstöðugleiki!


Djúp samúð til Norðmanna

Norski fáninnEvrópusamtökin votta norskuð þjóðinni dýpstu samúð vegna hinna hræðilegu atburða sem gerðust í Osló og nágrenni í dag.

Orð duga vart til að lýsa hryllingnum.

 


Samkomulag um Grikkland - Evra styrkist

Á www.visir.is stendur: "Leiðtogar evruríkjanna sautján samþykktu í dag að koma gríska ríkinu enn á ný til bjargar og slógu um leið á ótta fjármálaheimsins við að gengi evrunnar hrapi.

Grikkir fá nú 109 milljarða evra samtals í fjárhagsaðstoð, eða ríflega 18.000 milljarða króna, bæði frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Auk þess hafa fjármálafyrirtæki samþykkt að veita Grikkjum eftirgjöf á skuldum upp á 37 milljarða evra, eða rúmlega 6.000 milljarða króna.

Þá verða vextir á neyðarlánum ESB og AGS til Grikklands lækkaðir úr 4,5 prósentum í 3,5 prósent og afborgunartími lánanna verður lengdur úr 7,5 árum í 15 til 30 ár."

Öll fréttin


Bandalag ystu aflanna!

Morgunblaðið mærir í dag í leiðara Ragnar Arnalds, fyrrum formann Nei-samtakanna hér á Íslandi. Ragnar skrifaði grein um Írland og fiskveiðimál í gær, en ekki verður farið nánar út í hana hér.

Þetta er hinsvegar aðeins enn ein staðfesting þess að ysta-vinstrið og ysta-hægrið hafa gengið í eina sæng í ESB-málinu.

Allir vita jú að skoðanir Morgunblaðsins á ESB-málinu koma jú að stórum hluta til frá aðila sem aðhyllist taumlausa frjálshyggju í anda afskiptaleysisstefnu.

Og margir vita eflaust að Ragnar Arnalds var formaður gamla Alþýðubandalagsins frá 1968-1977, sem var lengst til vinstri í íslenskum stjórnmálum og athvarf helstu kommúnista þessa lands.

Í sambandi við uppunalega útgáfu þessarar færslu skal tekið fram að hamarinn og sigðin sem fylgdu með sem myndskreyting pössuðu kannski ekki alveg. Það skal viðurkennt. 

Því má svo bæta við í framhaldinu að þetta mynstur er þekkt víða í Evrópu, þ.e. að öfl lengst til hægri og vinstri í stjórnmálum séu á móti ESB.


Norðanmaður um hugsjónir ESB

Þorlákur Axel JónssonÞorlákur Axel Jónsson, menntaskólakennari á Akureyri skrifar grein um ESB-málið í Fréttablaðið í dag og segir þar meðal annars:

"ESB hefur verið ófeimið við að gefa eftir í landbúnaðarmálum gagnvart Finnlandi og í sjávarútvegsmálum gagnvart Noregi. Það sem ESB getur ekki gefið eftir er hugmundin um Evrópusamband og þess vegna getur sambandið ekki leyft viðræðunum að mistakast. Hagsmunir ESB eru að viðræðurnar gangi vel og að Íslendingar vilji gerast aðilar. Gefi allir svolítið eftir af sérhagsmunum sínum eflist heildarhagur. Árangursrík samvinna lýðræðisríkja Evrópu undanfarna áratugi er fyrirmynd um allan heim að þessu leyti. Ekki þarf að fara mörgum orðum um hagsmuni íslenskra alþýðuheimila af aðild með lægri vöxtum, lægra matarverði og raunverulegum gjaldmiðli. Sama gildir um alþýðuheimili í öðrum löndum þar sem stjórnvöld þora að lifa í samræmi við yfirlýstar hugsjónir sínar."

Öll greinin


Mörður Árnason um "lambakjötsmálið": Gamaldags pólitík!

LambakjötLambakjötsumræðan hefur blossað upp. Jón Bjarnason segir ekki koma til greina að flytja inn erlent lambakjöt frá Evrópu (eða annarsstaðar), en það er hið besta mál að hans mati og ekkert óeðlilegt að íslenskir bændur geti óhindrað flutt út lambakjöt og grætt á tá og fingri á því!

Mörður Árnason, þingmaður telur eðlilegt að lambakjöt verði flutt inn og á www.visir.is segir: "Það er ekki hægt að hafa íslenska neytendur í fangamúrum frá evrópskum lambakjötsmarkaði þegar íslenskir bændur eru virkir þáttakendur á honum segir þingmaður Samfylkingarinnar.

Jón Bjarnason, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að hann vildi ekki bjóða út innflutningskvóta á lambakjöti til að standa vörð um íslenska lambakjötsframleiðslu. Þetta hafa meðal annars Samtök verslunar og þjónustu gagnrýnt í bréfi til umboðsmanns Alþingis.

Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að nú sé eðlilegt að leyfa innflutning á lambakjöti þar sem verð á erlendum mörkuðum hefur mikil áhrif á verð og framboð á lambakjöti hér á landi.

„Staðan er núna sú að forysta bænda og landbúnaðarráðherra vilja nýta sér kosti frjálsrar verslunar í útlöndum, en koma í veg fyrir að neytendur nýti sér kosti frjálsrar verslunar á Íslandi. Þetta auðvitað gengur ekki og er gamaldags pólitík sem þarf að fara að hætta,“ segir Mörður.

Auka þurfi samkeppnina hér á landi í hag neytenda. „Það á auðvitað ekki að vera lógískt að erlent lambakjöt sé ódýrara en íslenskt lambakjöt. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að það sé þannig, en kannski er það svo að þegar við erum orðin hluti af þessum evrópska markaði í lambakjöt sem að forysta bænda vill vera að þá verður íslenska markaðssvæðið að vera það líka. Það er ekki hægt að hafa Ísland í fangamúrum út af þessu,“ segir Mörður.

Öll fréttin

Fleiri klippur sem tengjast málinu:

http://visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTVB6D5DCD9-300C-4952-B505-B4A51434269E

http://visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTVAF38134F-EC16-44DA-98CC-3B889E08C44B


DV-viðtal við Stefán Hauk

dv-logoDV birti um daginn ítarlegt viðtal við aðalsamningamann Íslands gagnvart ESB, Stefán Hauk Jóhannesson. Í því var komið inn á helstu álitamál í þessu stóra máli, en viðtalinu lauk með þessum orðum:

Nú er ljóst að almenningsálitið á Evrópusamstarfinu hefur sveiflast mikið á undanförnum misserum. Eina stundina virðist sem meirihluti Íslendinga styðji aðild en í næsta mánuði gæti meirihlutinn verið andvígur. Óttast Stefán að vinnan sem samninganefndin hefur unnið verði að lokum til einskis? "Aðalatriðið er það að við höfum fengið ákveðið hlutverk. Alþingi ályktaði um að sótt skyldi um aðild og það er umboð Alþingis sem við förum með. Það er þjóðin sem ákveður hvort verði fallist á aðildarsamning eður ei. Þetta er mikil vinna, það er rétt, en hún mun eftir sem áður gagnast okkur. Við höfum lært heilmikið um ESB og sömuleiðis hefur ESB lært mikið um okkur. En við vinnum eftir lýðræðislegu umboði og okkar hlutverk er einfaldlega að skila af okkur eins góðu starfi og mögulegt er."

Hvað breytist?

Flestir Íslendingar sem velta Evrópusamstarfinu fyrir sér langar ef til vill að vita hvað komi til með að breytast í daglegu lífi hér á landi, verði af aðild. Getur Stefán bent á einhverjar breytingar?

„Ætli það séu ekki fyrst og fremst efnahagsmálin. Hvort aðildin leiði ekki til meiri efnahagslegs stöðugleika. Afnám verðtryggingar og mögulega lægri vextir í kjölfarið sem verði merkjanlegar breytingar. Svo er rétt að minnast á að með aðild fáum við loksins sæti við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar. Til þessa höfum við fylgt ákvæðum EES-samningsins en aðeins með því að geta haft takmörkuð áhrif á þær reglur sem við þurfum að taka upp í landsrétti. Það myndi auðvitað breytast."

Ps. Gaman væri að fá allt viðtalið á netið, því með því er að finna mjög góða skýringarmynd af aðildarferlinu!


Neikvæðar horfur!

Evrópa-myndÁ RÚV segir: "Matsfyrirtækið Moody´s metur horfur í íslensku efnahagslífi enn neikvæðar og telur lánshæfismat íslenska ríkisins óbreytt eða í flokkinum Baa3.

Þetta kemur fram í árlegri skýrslu fyrirtækisins um stöðu efnahagsmála á Íslandi. Moody´s segir hinar neikvæðu horfur aðallega byggjast á erfiðleikum stjórnvalda í ríkisfjármálum og vanmætti til að takast á við einstök áföll í fjármálaheiminum." 

Þá kemur einnig fram í fréttinni að gjaldeyrishöftin séu hluti af þessu.

Þarf ekki Ísland að blása til stórsóknar á evrópskum mörkuðum með íslenskar vörur og þjónustu?

Það er hefð fyrir útflutningi á íslenskum vörum til Evrópu og Evrópumenn hafa keypt vel af okkur í gegnum tíðina.

Evrópa er liðsmaður Íslands!


Áhugavert um Evrópuþingið

EvrópuþingiðKlemens Ólafur Þrastarson skrifaði áhugaverða úttekt á Evrópuþinginu í Fréttablaðið þann 9. júlí síðastliðinn. Hlutverk þess hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum, en einnig er það svo að hér á landi er þekking á störfum þess nokkuð takmörkuð. Greinar af þessu tagi koma því í góðar þarfir.

Í greininni segir meðal annars: "Evrópuþingið er fordæmalaus tilraun til að skapa lýðræðislegt löggjafarvald utan um umsvifamikið milliríkjasamstarf, eða sjálfa alþjóðavæðinguna eins og hún birtist í Evrópusamstarfinu. Þing kjörinna fulltrúa án ríkis.

Þótt hvert aðildarríki Evrópusambandsins hafi þar ákveðinn fjölda þingmanna eiga þeir ekki að gæta hagsmuna eigin ríkis fyrst og fremst heldur ganga í pólitíska Evrópuþinghópa í samræmi við hugsjónir.

Hingað til hafa sérhagsmunir einstakra þjóða ekki mikil áhrif haft á afstöðu þingmanna en önnur einstök mál geta klofið stjórnmálahópa, sérstaklega vegna afstöðu til Evrópusamstarfsins almennt: meiri samruna eða minni. Þingið þykir þó í heildina afar samrunasinnað, langt umfram kjósendur sína.

Sígild vinstri-hægri aðgreining á við á Evrópuþinginu eins og víðar en Evrópumál eru þeirrar náttúru að passa ekki alltaf inn í hana. Sum stefnumál einkenna Evrópuþingið umfram önnur því það hefur lagt sérstaka rækt við umhverfismál og mannréttindi.

En öll ákvarðanataka innan þingins, og raunar ESB sem slíks, er afrakstur mikils karps og samningagerðar. Í takt við það, og þar sem engri ríkisstjórn þarf að steypa, greiða þrír stærstu stjórnmálahóparnir (EPP, S&D og ALDE) samhljóða atkvæði í 75 til 80 prósent tilvika. Samvinna þessi styrkir þingið sem sjálfstæða stofnun ESB."

Síðar segir: "Það fer eftir eðli máls hverju sinni hversu mikil áhrif Evrópuþingið getur haft. Í sumum málum hefur það neitunarvald, í öðrum getur það í mesta lagi tafið mál og allt þar á milli. Þingið getur ekki átt frumkvæði að lagasetningu heldur þarf að biðja framkvæmdastjórnina um það. Í heildina er ljóst að þingið hefur töluverð áhrif á lagasetninguna, þótt það hafi engin völd yfir ráðherraráðinu og leiðtogaráðinu."

Fram kemur í greininni að verði Ísland aðili að ESB verði hver íslenskur Evrópuþingmaður með um 52.000 kjósendur á bakvið sig, en þýskur er t.d. með um 860.000 á bak við sig.

Lesa má alla greinina hér.


Læri,læri, tækifæri?

LambLambakjöt hefur verið á milli tannanna á fólki að undanförnu, aðallega vegna þeirra hækkana á kjötinu sem heimilaðar frá sláturleyfishöfum til bænda.

Menn velta því fyrir sér hvort þessar mögulegu hækkanir muni fara síðan út í verðlagið, en "hefðin" er sú hér á Íslandi að það gerist.

En hversvegna þessi hækkun? Jú, það gengur svo vel að selja íslenska lambið til útlanda, takið eftir; ÚTLANDA! Fjögur af hverjum tíu lambalærum sem framleidd eru, fara til útlanda nú um stundir.

Í MBL í dag er fréttaskýring eftir Egil Ólafsson um málið og þar segir: "Möguleikar sauðfjárbænda til að selja lambakjöt á erlenda markaði hafa gerbreyst á síðustu árum. Frá ársbyrjun 2008 hefur verðið hækkað um 135%. Þar af má skýra um 80% hækkunarinnar með breytingu á gengi en heimsmarkaðsverð á lambakjöti hefur á þessu tímabili hækkað um 50%. Þessi mikla hækkun á heimsmarkaði styrkir stöðu sauðfjárbænda á innlendum markaði og þeir vonast því eftir mikilli hækkun á verði í haust. Verðið hefur þegar hækkað um 14% til bænda frá síðustu sláturtíð."

Ergo: Bændur græða á viðskiptum við útlönd!

Einnig segir: "Öfugt við það sem margir halda ríkir mikið frelsi í framleiðslu og verðlagningu á lambakjöti. Sauðfjárbændur mega framleiða eins mikið og þeir vilja því ekkert kvótakerfi er í sauðfjárrækt. Algjört frelsi ríkir líka í verðlagningu á lambakjöti og það breytist í takt við almenna stöðu á kjötmarkaði. Þar skiptir miklu hvernig verð á svínakjöti og kjúklingum þróast. Ríkissjóður styrkir hins vegar sauðfjárræktina árlega um 4,3 milljarða króna og tollar verja greinina fyrir innflutningi."

Ergo: Í skjóli milljarða styrkja mega bændur framleiða eins mikið lambakjöt og þá lystir, en þurfa ekki að hafa áhyggjur af nokkurri samkeppni! Og ef verðið er gott, þá græða þeir vel.

Samkvæmt Sindra Sigurgeirssyni, formanni landssamtaka sauðfjárbænda er útlit fyrir að verð verði hátt fyrir lambakjöt á næstu árum. Því vaknar eðlilega sú spurning hvort lambakjöt komi áfram til með að hækka og að neytendur þurfi bara áfram að sitja í þeirri (kjöt)súpu?

Sindri kemur líka með áhugverðan vinkil á umræðuna um heimildina til verðhækkana sem gefin hefur verið:

"Sindri Sigurgeirsson, formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, sagði að ákvörðun um að nýta þessa heimild væri tekin af aðalfundi sauðfjárbænda. Hann sagði að í ljósi umræðu síðustu daga mætti auðvitað velta því upp hvort ástæða væri fyrir bændur að birta viðmiðunarverð. Viðbrögðin hefðu verið yfirdrifin. Enginn hefði t.d. sagt neitt þó að Íslandspóstur hefði hækkað gjaldskrá fyrir bréf um 20% í júní."

Okkur hér á ES-blogginu er spurn: Hverjir borða bréf? Er þetta sambærilegt? Meðal-Íslendingurinn sendir jú aðeins örfá bréf á ári og hefur bréfasendingum fækkað stórkostlega með tilkomu tölvunnar, en sami Íslendingur borðar sennilega lambakjöt oftar en hann sendir bréf!

En hvernig tengist þetta ESB-málinu? Jú, með tollum! Með aðild að ESB myndu allir tollar á landbúnaðarafurðir TIL og FRÁ landinu falla niður!

Möguleikar bænda til aukinnar sölu á íslenskum afurðum til ESB myndu aukast, sem og möguleikar íslenskra neytenda á að njóta erlendra afurða á móti!

Er það ekki kallað "win-win-situation" á ensku?

Gefur þetta tilefni til þess að samgleðjast bændum og sýnir þetta fram á að þeir eru að framleiða góða og eftirsótta vöru. Hvervegna þá þessi hræðsla, varnarlínur og hvaðeina?

Hvað um sóknarlínur?

Er sókn besta vörnin fyrir íslenska bændur?

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband