Leita í fréttum mbl.is

Formaður VR vill ekki að forseti ASÍ ræði ESB á komandi þingi

Það hlýtur að teljast nokkuð athyglisvert að formaður VR, Stefán Einar Stefánsson, vilji kalla eftir afstöðu komandi þings ASÍ, þess efnis hvort það eigi yfir höfuð að ræða ESB-málið, en á Eyjunni segir um þetta:

"Stefán Einar Stefánsson, formaður VR, ætlar að kalla eftir afstöðu ASÍ þingsins hvort forseti sambandsins eigi yfir höfuð að tjá sig um Evrópumál. Hvergi er minnst á ESB aðild í gögnum sem lögð verða fyrir þingið sem haldið verður í október.

Morgunblaðið greinir frá því að engin formleg tillaga hefur verið lög fram fyrir ASÍ þingið sem haldið verður dagana 17. til 19. október. Formlegur frestur til að skila inn tillögum og ályktunum er liðinn. Það útilokar þó ekki að ESB-málið verður rætt á þinginu. ASÍ samþykkti afdráttarlausa stefnu um aðild að ESB á ársfundi 2008.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að ástæðan fyrir þessu sé að talið var mikilvægara að taka atvinnu-, húsnæðis- og lífeyrismál sérstaklega fyrir. Hann telur enn brýnt að aðildarviðræðurnar verði kláraðar og niðurstaðan lögð í þjóðaratkvæðagreiðslu."

Hversvegna má ekki ræða ESB-málið? Við búum jú í lýðræðissamfélagi og þar hlýtur mönnum að vera frjálst að ræða þau mál, sem þeim þykir ástæða að ræða.

Afstaðan til Evrópu og ESB er mikilvægt hitamál, sem þarf að fá niðurstöðu í.

Ekki viljum við búa í samfélagi þar sem einhverskonar þöggun ræður og ríkir?

Liðsmenn VR hafa sennilega ótvíræðan hag af því að ræða ESB-málið, kosti þess og galla.


ESB styður starfsmenntun um 100 milljónir króna

Í tilkynningu frá Leonardo, menntaáætlun ESB, segir:

"Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, Capacent h.f. og Náttúrustofa Vestfjarða skrifuðu í gær undir samning við Menntáætlun Evrópusambandsins um verkefni á sviði starfsmenntunar. Samtals eru þetta um 100 miljónir íslenskra króna sem þessir aðilar fá til að standa straum af þessum verkefnum. Verkefnin eru í flokki svokallaðra Leonardo yfirfærsluverkefna."

Þetta er afar ánægjuleg frétt en aukin starfsmenntun og fjölbreytni er einmitt það sem íslenskt atvinnulíf þarf!


Já-Ísland: Nauðsynlegt að halda samningaviðræðum áfram

Á vef Já-Íslands segir:

"Í gær, þriðjudaginn 25. september, fór fram fjölmennur aðalfundur Sterkara Ísland/Já Ísland. Sérstakur gestur fundarins var Þorsteinn Pálsson, fv. ráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins en hann á sæti í samninganefnd Íslands í viðræðunum við ESB. Þorsteinn fjallaði um aðildarumsóknina í ljósi pólitískra aðstæðna, hagsmuna og hugsjóna.

Aðalfundurinn samþykkti eftirfarandi ályktun:

Nauðsynlegt er að áfram verði haldið samningaviðræðum við Evrópusambandið um fulla aðild Íslands að sambandinu. Þjóðin á skilið að fyrir liggi fullbúinn samningur sem hún getur greitt atkvæði um. Á umbrotatímum er nauðsynlegt að ekki sé lokað leiðum sem geta styrkt stöðu Íslands í framtíðinni.

Jafnframt er nauðsynlegt að fyrir þingkosningar verði settar í forgang þær breytingar á stjórnarskrá Íslands sem heimila frekara samstarf Íslands við bandalagsþjóðir sínar innan Evrópusambandsins.

Á aðalfundinum var ný stjórn samtakanna kosin, sem og nýtt framkvæmdaráð. Ný stjórn samtakanna fyrir árið 2012 – 2013 er sem hér segir:

Jón Steindór Valdimarsson formaður

Arndís Kristjánsdóttir, meðstjórnandi

Valdimar Birgisson, meðstjórnandi

Ásdís J. Rafnar, varamaður

Daði Rafnsson, varamaður

Fulltrúar félaganna sem þau velja sjálf:

Sjálfstæðir Evrópumenn - Benedikt Jóhannesson -

Evrópusamtökin - Andrés Pétursson -

Evrópuvakt Samfylkingarinnar - Anna Margrét Guðjónsdóttir -

Ungir Evrópusinnar - Dagbjört Hákonardóttir


Aðalafundur Já-Ísland haldinn - ný stjórn kosin

Já-Ísland hélt aðalfund sinn í dag að viðstöddu fjölmenni í húsnæði samtakanna í Skipholti í Reykjavík. Farið var yfir starfsemi síðasta árs, kosið í stjórn og framkvæmdaráð.

Aðal-ræðumaður fundarins var Þorsteinn Pálsson, fyrrum ráðherra sjávarútvegsmála og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins.

Hann ræddi stöðu ESB-málsins á breiðum grundvelli, enda hefur hann góða innsýn í það sem einn af samningamönnum Íslands gagnvart ESB. Þá ræddi hann einnig stöðu makríl-deilunnar.

Erindi hans var afa fróðlegt og skilmerkilegt, enda Þorsteinn maður með mikla þekkingu og reynslu.


Minnum á aðalfund Já-Íslands á morgun

Já-ÍslandMinnum á aðalfund Já-Íslands á morgun: http://www.evropa.blog.is/blog/evropa/entry/1258445/

Allir áhugamenn um Evrópumál hvattir til að mæta.


Ólafur Þ. Stephensen um alþjóðlegan aga

Í leiðara FRBL þann 24.9, sem er eftir Ólaf Þ. Stephensen, segir eftifarandi:

"Tilhneiging stjórnmálamanna til að lofa auknum útgjöldum upp í ermina á sér og taka bætt lífskjör að láni hjá framtíðarkynslóðum er alþjóðlegt vandamál. Sem slíkt kallar það á alþjóðlegar lausnir. Þau drög að ríkisfjármálasambandi Evrópusambandsins, með reglum sem eiga að koma í veg fyrir hallarekstur og skuldasöfnun aðildarríkjanna, eru raunveruleg viðleitni til að finna slíka lausn.

Áhættusækni banka, illa ígrundaðar lánveitingar og bólumyndun eru sömuleiðis alþjóðlegt vandamál sem leiddi til alþjóðlegrar bankakreppu. Ekki þarf að útskýra í löngu máli fyrir Íslendingum að óábyrg starfsemi banka í einu landi getur haft afdrifarík áhrif í öðru. Icesave-málið er eitt bezta dæmið. Á vettvangi Evrópusambandsins liggja sömuleiðis fyrir drög að bankabandalagi, sem er tilraun til að hindra slíka kollsteypu í framtíðinni, með sameiginlegu fjármálaeftirliti, alþjóðlegu innstæðutryggingakerfi og sameiginlegum lánveitanda til þrautavara.
Einhverra hluta vegna er algengt í Evrópuumræðunni hér á landi að menn bendi á áform ESB um ríkisfjármálasamband og bankasamband og segi sem svo: Hér stefnir Evrópusambandið enn að því að dýpka samstarf sitt og auka vald yfirþjóðlegra stofnana. Fyrir vikið er það óaðgengilegra fyrir Ísland, við skulum draga þessa aðildarumsókn til baka og svo framvegis.

Þessu er hins vegar þveröfugt farið. Þeir sem tala svona hljóta að halda að í áranna rás hafi bæði ríkisfjármálastjórn og rekstur bankakerfis á Íslandi borið af því sem gerðist hjá öðrum Evrópuþjóðum – eða hvað? Getur ekki verið að við myndum græða á þeim aga, sem alþjóðlegt samstarf um þessi efni myndi stuðla að?

Ísland á fullt erindi í þetta nýja og dýpkaða samstarf Evrópusambandsins, bæði af því að hér þarf að taka ríkisfjármál föstum tökum og vegna þess að við þurfum að efla öryggi og traust bankakerfisins eftir hrun."


Kaupmáttarrýrnun staðfest

KrónurÁ RÚV segir: "Kaupmáttur launa hefur rýrnað um tæp 6 prósent á fimm árum og ráðstöfunartekjurnar hafa rýrnað ennþá meira. Hagfræðingur Alþýðusambandsins segir að brýnt að bæta úr þeim þungu búsifjum sem heimilin hafi orðið fyrir.

Alþýðusambandið hefur reiknað út fyrir fréttastofu breytinguna sem orðið hefur á kaupmætti dagvinnu launa frá því í desember 2007. Laun hafa hækkað um tæp 33 prósent á tímabilinu. Verðbólgan hefur hins vegar verið meiri eða 41 prósent. Niðurstaðan er sú að kaupmátturinn hefur rýrnað um nærri 6 prósent.

Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, segir að fólk finni fyrir þessari kaupmáttarrýrnun. Kaupmáttarhrunið sem orðið hafi í kjölfar bankahrunsins sé að vísu að einhverju leyti að ganga til baka, en það muni um 6 prósentum."

Hvað olli þessu? Var það ekki HRUN krónunnar? Hún hrundi, en var ekki felld, eins og margir aðdáendur hennar vilja halda fram!

 


Árn Páll með nýja grein í FRBL

Árni Páll ÁrnasonÁrni Páll Árnason, alþingismaður, bætti við nýrri og áhugaverðri grein um samskipti Íslands og Evrópu í Fréttablaðið þann 22.september. Þar segir hann meðal annars:

"Samspil frjálsra fjármagnshreyfinga og sjálfstæðs, veikburða gjaldmiðils var einn stærsti sveifluvaldur hér á landi í aðdraganda hruns og olli á endanum hruni gjaldeyrismarkaðar og upptöku gjaldeyrishafta. Allir viðurkenna kostnaðinn við sjálfstæðan gjaldmiðil fyrir svo lítið ríki, þótt sumir telji að það svigrúm sem er til að fella gengi vegi upp á móti þeim kostnaði að hluta eða öllu leyti. Hlutskipti Íra og Grikkja er vissulega annað en okkar. Þeir hafa ekki getað lækkað laun með gengisfellingu og atvinnuleysi hefur líklega orðið meira en það hefði orðið ef þessi ríki hefðu átt þess kost að fella gengi. En á móti vegur að skuldir almennings og fyrirtækja í þessum löndum hafa ekki hækkað vegna gengisfalls og verðbólgu. Kaupmáttur hefur ekki dregist eins mikið saman og hjá almenningi hér á landi, því neysluvara í þessum löndum er í ríkum mæli framleidd á evrusvæðinu þótt innflutt sé. Og bæði ríkin hafa getað tekist á við vandamál sín án þess að setja á gjaldeyrishöft. Þrátt fyrir mikinn vanda Grikkja heldur almenningur í Grikklandi dauðahaldi í evruna. Enginn virðist vilja hið íslenska ástand: Stórfellda gengisfellingu, upptöku sjálfstæðs gjaldmiðils og gjaldeyrishöft."


..enn fellur krónan!

Tíu íslenskar krónur (með loðnu)!Það er hreinleg átakanlegt að fylgast með því hvernig íslenska krónan hrapar í verðgildi þessar vikurnar. Um leið og túrhestarnir er farnir, þá byrjar krónan að falla.

Hún heldur bara áfram að falla og falla!

Gengisvísitalan er komin í 221.25 stig!

Krónan er gallagripur!

Nútíma atvinnu og efnahagslíf getur ekki búið við þetta rugl!

Evran er hinsvegar við hestaheilsu!


Dauðaóskhyggja Nei-sinna

DauðinnSamtök Nei-sinna blóðlangar að ESB-umsóknin deyji. Enda hafa þeir auglýst fund þar sem þeir spyrja hvort umsóknin sé dauð.

Dauðaóskhyggja Nei-sinna er með hreinum ólíkindum!

Þeir vilja þá halda áfram að hafa Evrópumálin hangandi yfir íslensku þjóðinni - í stað þess að fá skýra niðurstöðu í málið, með því að klára aðildarsamninga og ganga til atkvæða.

Nei-sinnar, sem óska umsókninni dauða, vilja hrifsa þann rétt af þjóðinni að fá að ganga til atkvæða um þetta mikilvæga mál.

Því er sú spurning alveg réttlætanleg hvort samtök Nei-sinna, séu ekki í raun samtök and-lýðræðissinna?


Styrkir frá menntaáætlun ESB til nemenda Listaháskólans

menntamal-esbÍ frétt á vefsíðu Listaháskóla Íslands segir:

"Í gegnum Leonardo Starfsmenntaáætlun ESB styrkir Listaháskólinn tíu nýútskrifaða nemendur til starfsþjálfunar í Evrópu.

Þeir sem hljóta styrk þetta árið eru Arnar Freyr Guðmundsson BA í grafískri hönnun, Björn Halldór Helgason BA í tónsmíðum, Dóra Hrund Gísladóttir BA í myndlist, Finnur Karlsson BA í tónsmíðum, Gintare Maciulskyte BA í myndlist, Guðrún Theódóra Alfreðsdóttir BA í vöruhönnun, Olga Sonja Thorarensen BA í leiklist, Pétur Ármannsson BA í leiklist, Signý Þórhallsdóttir BA í fatahönnun og Sigríður M. Sigurjónsdóttir BA í fatahönnun.

Listaháskólinn leggur áherslu á að styðja við bakið á nýútskrifuðum nemendum með því að opna fyrir þeim tækifæri til starfsþjálfunar erlendis í sinni grein. Að mati skólans er afar mikilvægt fyrir nemendur að kynnast atvinnuumhverfinu að loknu námi og læra á lögmálin og venjurnar sem þar gilda. Fyrir marga er starfsnámið vendipunktur sem ræður oft miklu um það hvort viðkomandi getur nýtt þekkingu sína og kunnáttu sem fullgildur atvinnumaður. Þá gefur starfsnám erlendis nemendum aukið sjálfstraust til að lifa og starfa í fjölmenningarlegu samfélagi, þeir læra að hugsa og tjá sig um starfsgrein sína á nýju tungumáli og ávinna sér um leið tengsl á alþjóða vettvangi."


Bjarni Ben og Evran

Hallgrímur Helgason, rithöfundur rifjar upp áhugaverða auglýsingu frá apríl 2009 í Fréttablaðinu:BBogEvran

Neðst í auglýsingunni stendur svo: Göngum hreint til verks! 

Í skýrslu Seðlabankans hefur einhliða upptaka myntar nánast verið slegin út af borðinu.

Eina trúverðulega leiðin að upptöku Evru er með aðild að ESB.

Eina trúverðuga leiðin til að komast að því markmiði er að klára aðildarsamningaferlið og leyfa þjóðinni að kjósa! Þar verður valið á milli Já eða Nei.

 

 


JÁ-Ísland: Aðalfundur

Já-Ísland

Sterkara Ísland/Já Ísland boðar til aðalfundar félagsins þriðjudaginn 25. september 2012 klukkan 17.15. Fundurinn verður haldinn í húsakynnum Já Ísland í Skipholti 50a.

Dagskrá:Skýrsla liðins starfsárs, kjör stjórnar og kjör framkvæmdaráðs.

Gestur fundarins verður Þorsteinn Pálsson fv. ráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins en hann á sæti í samninganefnd Íslands í viðræðunum við ESB. Þorsteinn mun fjalla um aðildarumsóknina í ljósi pólitískra aðstæðna, hagsmuna og hugsjóna.  Erindi Þorsteins mun hafa yfirskriftina: Makríll og hugsjónir.

Allir félagsmenn eru hvattir til þess að mæta og taka þátt.


Fransk-íslenska verslunarráðið endurvakið - Evran á dagskrá morgunfundar hjá Arion-banka

EvraÍ tilefni endurreisnar Fransk-íslenska viðskiptaráðsins, hefur einn af höfundum evrunnar verið kallaður á teppið. Ráðið býður til morgunverðarfundar í húsakynnum Arion banka, Borgartúni 19, föstudaginn 21. september kl. 08:15-10:00.

Fundurinn verður túlkaður fyrir erlenda gesti (íslenska yfir á ensku).

Dagskráin hefst með stuttum stofnfundi Fransk-íslenska viðskiptaráðsins. Fundarstjóri stofnfundarins er Hreggviður Jónsson. Opnunarerindi á stofnfundinum flytja Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra og Marc Bouteiller, sendiherra Frakklands á Íslandi.

Framsögumenn á morgunverðarfundinum verða:
Yves-Thibault de Silguy, fyrrverandi framkvæmdarstjóri hjá Evrópusambandinu og einn af hugmyndasmiðum hinnar sameiginlegu myntar ESB.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands .
Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis .
Frosti Sigurjónsson, rekstrarhagfræðingur og frumkvöðul.

Yves-Thibault de Silguy var framkvæmdastjóri gjaldmiðilsmála hjá ESB árin 1995-1999 þegar grunnurinn að evrusamstarfinu var lagður. Það er því ekki að ósekju sem hann hefur verið kallaður „faðir evrunnar“, meðal annarra. Aldrei hefur reynt jafn mikið á evrusamstarfið og nú og velta því margir fyrir sér hvort upptaka evru á Íslandi sé raunhæfur kostur fyrir atvinnulífið.

Fundarstjóri verður Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins.

Húsið opnar kl. 08.00 og boðið verður uppá kaffi og krósanta, enginn aðgangseyrir. Nánari upplýsingar veitir Kristín S. Hjálmtýsdóttir.

Skráning fer fram hér


Framsókn vill byggðastefnu (!)

Á RÚV birtist þann 12.9 nokkuð skondin frétt sem er svona: "Allur þingflokkur Framsóknarflokksins hefur lagt fram tillögu á Alþingi um byggðastefnu fyrir allt landið. Vill þingflokkurinn að ríkisstjórninni verði falið að stofna starfshóp sem vinni að mótun byggðastefnu fyrir allt landið.

Hópurinn verði skipaður fulltrúum frá sveitarfélögum og ráðuneytum og skili tillögum fyrir lok þessa löggjafarþings. Vill þingflokkurinn að starfshópurinn skoði sérstaklega norsku byggðastefnuna þar sem skattkerfi, afslættir og styrkir eru notaðir með góðum árangri."

Þetta hlýtur að vekja athygli, sérstaklega í ljósi þess að bænda og dreifbýlsisflokkurinn Framsókn, hefur verið við völd hér á landi áratugum saman. Flokkurinn hefur því haft góðan (!) tíma til þess að hanna byggðastefnu fyrir landið.

Nokkuð viðurkennt þykir að engin almennileg byggðastefna sé til á landinu og hafa menn t.d. á Vestfjörðum sagt að það sé e.t.v. betra að leita til Brussel en Reykajvíkur, til að finna byggðastefnu.

ESB er nefnilega með virka byggðastefnu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband